17.10.1977
Sameinað þing: 4. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Ríkisstj. hefur á mörgum fundum sínum og síðast á fundi sínum í morgun fjallað um yfirstandandi kjaradeilu milli ríkisins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þykir því hlýða að greina þingheimi nokkuð frá stöðunni í þeirri kjaradeilu og fer sú fyrirætlan saman við ósk formanna þingflokka Alþb. og Alþfl. að þessu leyti.

Í gærkvöld barst ráðherrum skýrsla og bréf frá kjaradeilunefnd, sem var á þá lund, að ekki væru virtar ákvarðanir kjaradeilunefndar í sérstaklega tilgreindum tilvikum. Það eru nefnd 6 tilvik þar að lútandi, en bréf kjaradeilunefndar hljóðar svo í upphafi, með leyfi hæstv. forseta:

„Í yfirstandandi verkfalli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur ekki verið hlýtt ákvörðunum kjaradeilunefndar í nokkrum tilvikum og þar með verið brotnar þær grundvallarreglur, sem ríkisstj. Íslands og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja komu sér saman um að skyldu gilda í verkfalli opinberra starfsmanna og staðfestar voru með setningu laga nr. 29 frá 1976.“

Án þess að ég reki þau tilvik, sem hér er um að ræða, í einstökum atriðum, a.m.k. að svo stöddu, þá vildi ég láta það koma hér fram, að ríkisstj. taldi þetta svo alvarlega þróun mála að nauðsynlegt væri að kveðja stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja á fund og var sá fundur haldinn nú fyrir tæpri klukkustund.

Á þessum fundi var lögð á það megináhersla, að samkomulag hefði náðst milli Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og ríkisstj, um flutning frv. til l. um verkfallsrétt opinberra starfsmanna og þá lagasetningu eingöngu á þeirri forsendu, að þeim lögum yrði í einu og öllu hlýtt. Og ein veigamesta forsenda þess verkfallsréttar, sem samkomulag tókst um með aðilum að þessu leyti, var að kjaradeilunefnd hefði fullt og óskorað vald til þess að úrskurða hverjir ættu að vinna meðan á verkfalli stæði. Tilvera kjaradeilunefndar og úrskurðarvald hennar var forsenda þess að lögin um verkfallsrétt Bandalags starfsmanna ríkis og bæja voru samþ. á Alþ., og af hálfu ríkisstj. er litið svo á, að það sé því skilyrðislaus skylda framkvæmdavaldsins að sjá um að ákvarðanir n. verði framkvæmdar.

Ég tel rétt að það komi hér fram, að formaður kjaradeilunefndar var viðstaddur þennan fund og undir það bréf, sem kjaradeilunefnd skrifar ríkisstj., skrifa velflestir meðlimir kjaradeilunefndar, jafnt fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja sem aðrir. Á þessum fundi skiptust menn á skoðunum, en lokaorðin voru, að fulltrúar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja kváðust mundu halda landsins lög, og verður að vænta þess, að við það verði staðið í sambandi við framkvæmd þessa verkfalls.

Í sambandi við efni málsins sjálfs og í sambandi við deiluatriðin tel ég ekki þörf á því að rifja upp efni í skýrslu samninganefndar ríkisins, sem var dags. á þriðjudaginn var, 11. okt. s.l., og birst hefur í blöðum landsins og hv. alþm. hafa kynnt sér, enda hefur efni þeirrar skýrslu ekki sætt andmælum. En það er rétt að hér sé rifjað upp með örfáum orðum það, sem ég hef þegar gert, aðdragandi að lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna innan BSRB.

Á þessu ári fengu opinberir starfsmenn innan BSRB, sem alkunna er, verkfallsrétt til að fylgja eftir kröfum sínum um aðalkjarasamninga. Þessi breyting var þáttur í margvíslegum og veigamiklum breytingum á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að því er varðar félagsmenn innan vébanda BSRB. Löggjöfin, sem samþ. var á Alþ. vorið 1976 með öllum þorra atkv. þm. úr öllum flokkum, átti sér langan aðdraganda. En á mörgum þingum BSRB á undanförnum árum hafa verið samþykktar ályktanir og áskoranir um verkfallsrétt opinberra starfsmanna. Í málefnasamningi ríkisstj, þeirrar, sem sat árin 1971–1974, var um þetta mál fjallað á þann hátt, að verkfallsrétti opinberra starfsmanna hlyti að fylgja að æviráðning félli niður og sjálfkrafa tengsl kjara opinberra starfsmanna við kjör annarra stétta í þjóðfélaginu yrðu rofin. Um þessi atriði náðist þó ekki samkomulag í n. þeirri er undirbjó frv. um breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem síðar varð að l. nr. 46 frá 1973. Kröfum um verkfallsrétt var hins vegar haldið ákaft fram af BSRB. Lög nr. 29 frá 1976, um kjarasamninga BSRB, voru svo ávöxtur samkomulags BSRB og ríkisvaldsins af afstöðnum langvarandi og ítarlegum samningaviðræðum um þetta efni. Í framsöguræðum og aths. við frv. kom skýrt fram, að verkfallsrétturinn var veittur með því skilyrði að endurskoðunarrétturinn, þ.e. hin sjálfvirku tengsl sem verið hafa milli kjarasamninga BSRB og kjarasamninga heildaraðila vinnumarkaðarins, þ.e.a.s. A.S.Í. og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaganna, innan samningstímans féllu niður og að æviráðningin verði þrengd, auk þess sem verkfallsrétturinn verði háður skynsamlegum takmörkunum, þ. á m. þeirri takmörkun, að kjaradeilunefnd hefði óskorað vald til þess að úrskurða, hverjir skyldu vinna meðan á verkfalli stæði, og þannig yrðu túlkuð ákvæði laganna um með hvaða hætti öryggis og heilsu borgaranna skyldi gætt.

Öll þessi atriði voru fullkomlega ljós við meðferð málsins, bæði í samningum við BSRB og á Alþ. Þetta kemur e.t.v. skýrast fram af því, að við Bandalag háskólamanna náðist ekki samkomulag um breytingar á kjarasamningalögum að því sinni, einkum vegna þess að Bandalag háskólamanna vildi ekki skipta á endurskoðunarrétti og verkfallsrétti.

Af þessari forsögu málsins má öllum vera ljóst, að alls ekki er unnt að samþykkja endurskoðunarrétt á samningstímanum með verkfallsrétti að óbreyttum lögum. Enn fremur er með öllu ljóst, að þessi krafa BSRB felur í sér brigður á því samkomulagi, sem gert var þegar lögin voru sett vorið 1976, og að ríkisstj. getur ekki beitt sér fyrir lagasetningu í þessa átt, eins og málin eru í pottinn búin.

Ég vil þessu næst rifja upp stöðuna í samningunum þegar til verkfalls kom. Þegar upp úr slitnaði bar einkum þrennt á milli:

Í fyrsta lagi krafðist BSRB endurskoðunarréttar með verkfallsrétti á samningstímanum, einkum ef breyting yrði á verðbótaákvæðum kjarasamninga með löggjöf eða hliðstæðum hætti. Þessari kröfu hvorki getur ríkisstj. né vill verða við, eins og lýst hefur verið hér að framan. Hins vegar hefur legið fyrir vilji ríkisstj. til þess að binda sig við það, að BSRB hafi aldrei lakari verðbótatilhögun en almennt gerist.

Í öðru lagi krafðist BSRB hækkunar lægstu launa umfram það sem ríkið hafði boðið. Við þessari kröfu taldi ríkisvaldið sig ekki geta orðið umfram það sem gerðist í samningaviðræðunum frá því að sáttatillagan var felld og þar til upp úr samningaviðræðum slitnaði s.l. mánudag. Með því væru kjör BSRB komin upp fyrir það sem almennt gerist á vinnumarkaðnum, sem er óverjandi. Hins vegar bauðst ríkisstj. ti] þess að tryggja að enginn starfsmaður, sem starfsfestu næði, sæti lengi í neðstu þrepum launastigans, heldur flyttist upp eftir almennum reglum sem reyndar má finna fyrirmynd að í sérsamningi Starfsmannafélags ríkisstofnana.

Í þriðja lagi krafðist BSRB sérstakrar hækkunar um miðbik launastigans, 15–20% umfram almennar launahækkanir ASÍ. Ríkisstj. hefur þegar með sínum boðum gengið afar langt til móts við þessar kröfur, svo langt reyndar að lengra er naumast hægt að ganga, ef ekki á að hleypa af stað óstöðvandi kjarakapphlaupi. Um þetta atriði hafa komið fram glöggar skýrslur frá samninganefnd ríkisins.

Auk þess, sem hér hefur verið rakið, lýsti ríkisstj. því yfir, að hún væri reiðubúin að ræða önnur atriði samninganna innan ramma síns lokatilboðs og þ. á m. ýmsar sérkröfur, sem ekki voru nefndar raunverulega af hálfu samningamanna BSRB, fyrr en eftir að sáttatillagan var felld, á síðasta stigi viðræðna áður en verkfall skall yfir, þótt þær sérkröfur hefðu verið ræddar ítarlega af hálfu samninganefnda beggja aðila fyrr, meðan á samningaviðræðunum stóð undir leiðsögn sáttanefndar.

Það er rétt að það komi hér fram nú, þegar þau þáttaskil hafa orðið að samningar hafa tekist með ýmsum sveitarfélögum og starfsmannafélögum þeirra, að ríkisstj. er reiðubúin til þess að taka samningaviðræður upp að nýju í ljósi þeirra samninga, og samninganna við Reykjavikurborg sérstaklega, til þess að leitast við að leysa þessa deilu. En það skal fram tekið, að við erum í þessum efnum bundin við ákveðin mörk, bæði ef halda á friðinn á vinnumarkaðinum og gæta þess að halda útgjöldum ríkisins innan hóflegra marka. Ég skal ekki fara hér með ákveðnar tölur um þann útgjaldaauka, sem ríkissjóður fyrirsjáanlega verður fyrir umfram það sem gert er ráð fyrir í forsendum fjárlagafrv. En þar er tekið mið af samsvarandi útgjaldauka ríkissjóðs sem vinnuveitanda eins og ætla má að verði útgjaldaauki atvinnuveitenda almennt í landinu. En ljóst er að um umframgreiðslur frá þeirri viðmiðun verður að ræða, jafnvel þótt miðað sé við sáttatillöguna, sem felld var, eða síðasta tilboð ríkissjóðs eða samsvarandi samninga og t.d. Reykjavíkurborg hefur gert. Þar er um ákveðið vandamál að ræða sem alþm. standa frammi fyrir ásamt með ríkisstj. og leysa verður þegar ljóst er hver niðurstaðan verður í yfirstandandi kjaradeilu.

Ég tel ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar að sinni, a.m.k. ekki án gefins tilefnis, um kjaradeiluna almennt, en vil láta það koma hér fram, að þegar hefur verið boðað að frumkvæði sáttasemjara til sáttafundar sem haldinn var kl. 12 í dag og ákveðið var að fresta til kl. 6 síðdegis. Og ég vil aðeins að lokum láta í ljós þá von og ósk, að kjaradeila þessi leysist og menn virði þá almennu hagsmuni, sem hljóta að vera fólgnir í því, að starfsmenn ríkisins fái sambærileg kjör og aðrir vinnandi menn í þjóðfélaginu, — sem hljóta að miðast við það, að starfsmenn hins opinbera fari ekki heldur fram úr þeim kjörum, sem almennust eru meðal launþega landsins. Við hér á Alþ. höfum skattlagningarvald og getum að því leyti aukið skattheimtu hins opinbera til þess að greiða starfsmönnum hins opinbera hærri laun. En forsenda fyrir slíkri skattheimtu er ekki fyrir hendi ef laun hins opinbera eru hærri en á almennum vinnumarkaði, hærri en í framleiðslunni sjálfri sem verður þó að standa undir þjóðarbúinu. Það er líka ósk mín og von, að menn virði þau fjárhagstakmörk sem eru hvað snertir ríkissjóð, svo að ekki komi til þess að ríkissjóður verði rekinn með halla, með þeim afleiðingum að verðbólgan aukist, sem og mundi verða niðurstaðan ef hér hæfist kjarakapphlaup milli mismunandi hagsmunahópa og stétta í þjóðfélaginu. Mikið er í húfi, að vel takist til um lausn kjaradeilunnar, og vænti ég þess, að allir hv. alþm. leggi sitt lið til að svo megi verða.