26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3983 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Benedikt Gröndal. Það er raunar ekki nýtt að í þinglok sé lagt mikið kapp á afgreiðslu mála, en ég hef ekki mikla reynslu eða langa af þingstörfum og man því ekki eftir því, að haldið hafi verið á málum með líkum hætti og hér hefur nú verið gert og er að gerast enn. Það er full ástæða til þess að vekja á því sérstaka athygli, að svo virðist vera að hæstv. ríkisstj., sem teljast verður ábyrg fyrir þinghaldinu og hvernig hagað er þingstörfum hér, virðist ganga á lagið og hrúga upp frv. á síðustu dögum þings, stórum lagabálkum, jafnvel svo að tugum skiptir, og ætla sér að fá þau afgreidd áður en þingi lýkur.

Það ber líka að vekja á því athygli, eins og hér hefur komið fram, að varla er hægt að segja að hér geti átt sér stað eðlilegar atkvgr. um mál. Að sjálfsögðu er hugsanlega hægt að bæta úr því með því að gera þdm., þeim sem ekki eru hér, aðvart um að koma til starfa, en þessu verður ekki breytt nema því aðeins að hæstv. ríkisstj. og þeir, sem ferðinni ráða í störfum þingsins, breyti vinnubrögðum frá því sem verið hefur. Það er því full ástæða til þess að vekja sérstaka athygli á því, að einhverjar skorður hljóta að vera fyrir því hvað þm. almennt geti látið bjóða sér í vinnubrögðum í sambandi við þinghaldið.

Vel má vera að það hafi ekki verið ætlun hæstv. forseta, að það mál, sem hér var gert að umræðuefni, að koma til umr. strax, en eigi að síður hlýtur það að hafa átt að koma til umr. á þessum fundi. Þess vegna hefur það verið á dagskrá tekið.

Ég vil sem sagt mjög taka undir þau mótmæli, sem hér hafa komið fram um störf þingsins, og það, að þm. skuli ætlað að taka þátt í þinghaldi eins og hér er að staðið.