03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Þjóðin hefur nú hlítt á stefnuræðu hæstv. forsrh., hina fjórðu og síðustu á þessu kjörtímabili. Það var glatt á hjalla þegar sjálfstæðismenn og framsóknarmenn leystu landfestar árið 1974 og samsigling þeirra hófst. En hvernig hefur siglingin gengið? Hefur ekki þjóðarskútan villst í þoku verðbólgunnar þrátt fyrir nútíma siglingatæki? Hefur ekki skútan siglt í hring, svo að hún er nú stödd á nokkurn vegin sama stað og í upphafi ferðarinnar 1974? Þjóðin hlýtur því að spyrja: Kunna þessir menn á skipið? Er nokkurt vit í öðru en að skipta um áhöfn?

Í fyrstu stefnuræðu sinni lofaði forsrh. að verðbólgan skyldi lækkuð niður í 15% þegar á öðru ári. Hún er enn á milli 30 og 40% og ekkert lát á. Stjórnin hefur ekki haldið á ríkisfjármálum eða opinberum framkvæmdum nægilega vel til að draga úr verðbólgu. Stjórnin hefur ekki komið fastri skipan á lánamál og lánasjóði til að draga úr verðbólgu. Launþegar sýndu þolinmæði eins lengi og unnt var, en stjórnin hefur samt ekki getað haldið stéttafrið, hún hefur ekki getað sameinað þjóðina til að draga úr verðbólgu.

Stjórnin hefur ekki hindrað taumlaust verðbólgubrask þeirra sem geta komist yfir lánsfé. Þeir hafa aldrei grætt meira en nú.

Í fyrstu stefnuræðu sinni lofaði forsrh. greiðslujöfnuði þegar á næsta ári. Greiðsluhalli hefur aldrei verið meiri en það ár og hann er enn allt of mikill. Ríkisstj. hefur fleytt sér á erlendum lántökum þar til þjóðin skuldar nú á annað hundrað milljarða. Innan skamms mun fimmti hver fiskur, sem við drögum úr sjó, fara til greiðslu á vöxtum og afborgunum. Við erum að leggja þungar byrðar á börnin okkar. Og enn virðist eiga að taka marga milljarða að láni í útlöndum á næsta ári.

Í fyrstu stefnuræðu sinni lofaði forsrh. aðhaldi í opinberum framkvæmdum. Mest hefur borið á því í sambandi við barnaheimili, skóla, sjúkrahús og slíkar stofnanir. En meðal annarra orða, hvernig hefur aðhaldið verið að Kröflunefnd? Hefur ekki sú nefnd, þeir Arnalds, Ingvar og Sólnes, farið sínu fram eins og þeir væru yfir ríkisstj. og Alþ. hafnir? Hafa ekki Arnalds, Ingvar og Sólnes látið reisa stærra orkuver en lögin um Kröfluvirkjun heimila? Hafa ekki Arnalds, Ingvar og Sólnes flanað í milljarðaorkuver áður en vitað var hvort nothæf gufa væri fyrir hendi? Hafa ekki Arnalds, Ingvar og Sólnes staðið fyrir bruðli eins og bílaleigu fyrir 40 millj., sem er meira en allir ráðherrabílarnir kosta í innkaupi og rekstri?

Sighvatur Björgvinsson og aðrir þm. Alþfl. hafa nú safnað liði á þinginu til þess að krefjast samkv, þingsköpum ítarlegrar og nákvæmrar skýrslu ráðh. um Kröflumálið, enda tími til kominn að þjóðin fái tæmandi upplýsingar um þetta hneyksli.

Já, aðhald í opinberum framkvæmdum. Fyrir tveim árum sagði forsrh. grafalvarlegur í stefnuræðu hér á Alþ., að við gætum nú sætt okkur við að hægja á vegaframkvæmdum, af því að raða verði framkvæmdum eftir hagkvæmnisjónarmiðum. Nú hefur ráðh. snúið við blaðinu, enda eru kosningar fram undan. Nú á að verja milljörðum til vegaframkvæmda og stórhækka bensínverð. Það er auðvitað gott að fá vegina. Hverjum þykir það ekki? En er þetta aðhald í framkvæmdum eða barátta gegn verðhækkunum?

Ríkisstj. hefur ár eftir ár boðað stórfelldar umbætur í skattamálum. En af einhverjum ástæðum kemur hún þeim ekki í verk. Það er auðvitað hneyksli að efnaðir menn séu skattlausir af því að þeir geta gert upp einkafyrirtæki sín með tapi. En ríkisstj. virðist vera feimin við að kippa þessu í lag. Hvers vegna? Það er ekki minna hneyksli að helmingur allra fyrirtækja í landinu skuli ekki greiða neinn tekjuskatt. En ríkisstj. virðist vera feimin við að kippa því í lag. Hvers vegna?

Það er líka hneyksli hversu stórfelld skattsvik viðgangast með þeim afleiðingum að allur fjöldi meðaltekjumanna ber þyngstar byrðarnar. Ríkisstj. er feimin við að taka á því máli. Hvers vegna? Því miður verður ekki komist hjá þeirri niðurstöðu, að ríkisstj. haldi visvítandi verndarhendi yfir þeim sem njóta skatthlunninda. Hún hefur oft gefið fögur loforð í skattamálum en hún guggnar alltaf á að standa við þau. Hverjir skyldu kippa í spottann?

Ég gæti haldið áfram í þessum dúr í allt kvöld, svo mörg hafa verið fögur fyrirheit ríkisstj. sem runnið hafa út í sandinn.

En stefnuræða forsrh. er athyglisverð fyrir fleira en það, sem hann sagði. Hún er ekki síður merkileg fyrir það sem ráðh. sagði ekki.

Úti í Svíþjóð situr nú að völdum hægri stjórn alveg eins og hér á Íslandi. Hinn sænski forsrh. flutti stefnuræðu fyrir sig og rn. sitt 4. okt. s.l. og ég las þessa ræðu rétt áður en ég fékk til lestrar stefnuræðu Geirs Hallgrímssonar. Forsrh. sænsku stjórnarinnar á við stórbrotinn efnahagsvanda að etja, rétt eins og við. En hann lætur þau ekki kaffæra sig og hann ræðir um ýmis önnur mál. Sænski forsrh. fjallar í stefnuræðu sinni m.a. um barnafjölskyldur og dagheimili, um fatlað fólk, um baráttu gegn eiturlyfjum. Hann ræðir um lýðræði á vinnustöðum. Hann ræðir um dómsmál og betri framkvæmd þeirra. Hann ræðir um skólamál frá grunnskóla til háskóla. Hann ræðir um sjónvarp fólksins. Hann ræðir um sjúkrahúsin. Og hann ætlar að efla bæjarlýðræðið, þ.e.a.s. gera lýðræði í sveitarfélögunum virkara en það er.

Geir Hallgrímsson minntist ekki á neitt af þessu í stefnuræðu sinni. Ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. telur ekki ómaksins vert að minnast í stefnuyfirlýsingu á þessi margvíslegu og mannlegu vandamál.

Í ræðunni er ekki eitt orð að finna um menntamál, ekki eitt orð um heilbrigðismál eða húsnæðismál eða dómsmál. Hins vegar gleymir forsrh. ekki að ræða ítarlega um splunkunýjar hugmyndir úr Seðlabankanum um að nú þurfi að leyfa umboðsheildsölunum að eiga erlendan gjaldeyri í íslenskum bönkum, svo að gróði þeirra sé alveg tryggður og þeir komist þá væntanlega fram hjá gjaldeyrishöftunum sem fólkið þekkir sem hefur brugðið sér einu sinni á ævinni suður til sólarlanda. Þetta finnst oddvita ríkisstj, vera meira mál heldur en börnin, skólarnir og sjúkrahúsin.

Ég bið ykkur, hlustendur góðir, að hugsa um hvað þetta þýðir. Fyrir meira en 30 árum gerði Ólafur Thors þá byltingu í íslenskum stjórnmálum að sveigja Sjálfstæðisfl. töluvert frá íhaldsstefnunni gömlu í átt til velferðarhugmynda jafnaðarmanna. Þetta varð undirstaða þess hve margt fólk hefur getað kosið Sjálfstfl.

Eru ekki núverandi leiðtogar Sjálfstfl. að eyðileggja verk Ólafs Thors, stýra flokknum aftur inn á stefnu auðmagns og peningahagsmuna og gleyma hinum mannlegu sjónarmiðum? Hafa þeir sjálfir hugsað um hvaða afleiðingar þessi stefna þeirra getur haft?

Ekki er hlutur Framsfl. í þessu máli betri. Fjórir framsóknarráðherrar og þingflokkurinn allur bera fulla og óskerta ábyrgð á stefnuræðu forsrh. Hann talar fyrir þeirra hönd, og í ræðu hans vottar ekki fyrir félagslegri hugsun eða samvinnustefnu, heldur er hún menguð af samkeppnis- og fríhyggju frá byrjun til enda. Hvað segja óbreyttir framsóknarmenn um slíka stjórnarstefnu? Eru þeir stoltir af frammistöðu ráðh. sinna? Greiddu þeir atkv. með slíkri íhaldsstefnu í síðustu kosningum?

Það vekur mikla athygli að enginn framsóknarráðh. talar í þessum umr. Eru þeir að mótmæla, eru þeir að svívirða forsrh., eða skammast þeir sín fyrir stefnu stjórnarinnar?

Hvað er til ráða, góðir hlustendur? Ráðið er fyrst og fremst eitt; atkv. þitt í næstu kosningum. Alþingiskosningar má hafa fyrr en í júnímánuði. Þá má stokka spilin og reyna á nýjan leik. Til að það verði er nauðsynlegt að veita þeirri sjálfstæðisforustu áminningu sem hefur gleymt viðsýni Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar frá því fyrir nokkrum árum. Til að það verði er ekki síður nauðsynlegt að veita þeirri framsóknarforustu áminningu sem situr broshýr í stólum ríkisstj. og minnist ekki á félagshyggju eða samvinnu. Til þess að nægilega verði skipt um í íslenskum stjórnmálum verður enn fremur að minnast þess, að Alþb. er nú staðnað og sundrað. Halda kjósendur þess, að evrókommúnismi geti bjargað bandalaginu eða þjóðinni?

Alþfl. stendur á tímamótum. Við höfum tekið saman höndum, fjöldamörg, ung og gömul, um allt land við að endurreisa flokkinn. Við vinnum fyrir opnum tjöldum og birtum opinberlega upplýsingar um fjárhag flokks og eignir — og geri aðrir flokkar hið sama. Við höfum sett okkur nýja stefnuskrá og ný lög, sem m.a. gera ráð fyrir prófkjöri til að styrkja lýðræðið innan flokksins. Prófkjörið hefur þegar sýnt að straumurinn liggur til Alþfl. og mörg ágæt þingmannsefni verða í framboði fyrir flokkinn.

Nú þarf að lyfta Grettistökum til að bjarga þjóðinni úr þeim erfiðleikum, sem eru fram undan. Við Íslendingar getum lifað góðu lífi í landi okkar og leyst vandamálin sem eru að mestu leyti heimatilbúin.

Við Alþfl.-menn teljum að fyrst verði að skapa pólitískan grundvöll fyrir stéttafriði, sameina launþega, atvinnurekendur og ríkisvald um heildarstefnu varðandi tekjuskiptingu. Við Alþfl.-menn teljum að Alþ. verði að leiðrétta margs konar misrétti milli landsmanna hvað snertir kosningarrétt, skattgreiðslur og aðstöðu. Þegar misréttið ríkir er friðnum stefnt í hættu. Þennan vanda verður að leysa áður en hægt er að sameina þjóðina til efnahagslegra átaka og fórna. Við Alþfl.-menn teljum að hafa verði skipulega stjórn á fjármagni þjóðarinnar og stýra framkvæmdum þannig að þær arðbærustu gangi fyrir og að hætt verði að mestu erlendum lántökum fyrst um sinn. Við Alþfl.-menn teljum að íslenska þjóðin eigi að tryggja sér raunhæft frelsi með félagshyggju og bræðralagi, dreifa byrðum réttilega og setja frið og samstöðu ofar öllu í þjóðarfjölskyldu okkar. Þá getum við lyft björgum, sem við ráðum aldrei við ef við látum samkeppnina hver við annan móta þjóðfélag okkar og daglegt líf.

Herra forseti. Núv. ríkisstj. hefur runnið skeið sitt á enda. Hún hefur verið stjórn vonbrigðanna, og hún getur ekki gert annað en að valda meiri vonbrigðum þótt hún sitji lengi enn. Þjóð, sem á sér sameiginlegt markmið, getur sameinað krafta sína til að ná því. Sjáum við ekki öll það markmið sem okkur ber að stefna að? Eigum við ekki að strengja þess heit að sameina krafta okkar í kærleik og drengskap og ná þessu markmiði? Viljum við ekki öll íslenskt frelsi, íslenskt jafnrétti og íslenskt bræðralag? — Góða nótt.