26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3984 í B-deild Alþingistíðinda. (3240)

Umræður utan dagskrár

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Inntakið í meginkvörtun minni var það, að þessu frv. var dreift hér í d. fyrir rúmlega klukkutíma. Stjórnarsinnar þekkja þetta frv. vafalaust vel, af því að okkur skilst af orðspori að þeir hafi verið að rífast um þetta í margar vikur — þess vegna er málið svona seint fram komið — en stjórnarandstæðingar hafa ekki séð málið og þekkja það ekki efnislega. Það hefur t. d. ekki verið hægt að taka afstöðu til þess í mínum flokki vegna þess að við vitum ekki hvað í frv. er. Það er hér um að ræða skattlagningu sem nemur rúmlega milljarði á ári, svo að þetta er ekkert smámál. Þess vegna óska ég eindregið eftir því, að þeir, sem ekki hafa séð þetta mál fyrr en núna fyrir einni klukkustund og hafa kannske verið að reyna að glugga í það meðan á öðrum og veigamiklum þingstörfum stóð, fái örlítið meiri tíma en 2–3 klukkustundir til þess að átta sig á málinu og taka afstöðu til þess.