26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3988 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Frsm. meiri hl. (Ingólfur Jónsson):

Hæstv. forseti. Frv. þetta er stjfrv. Hæstv. iðnrh. gerði grein fyrir því við 1. umr. málsins og tel ég því ekki ástæðu til að rekja efni þess ítarlega.

Iðnn. þessarar hv. d. hefur haft málið til meðferðar, sent það til umsagnar ýmissa aðila og fengið umsagnirnar sem eru að meiri hluta meðmæltar frv. N. varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til að frv. verði samþ., en um. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Einn hv. nm., Benedikt Gröndal, skilar séráliti eins og sjá má á þskj. 667.

Ég held að eðlilegt sé að gera nokkra grein fyrir þeim umsögnum sem borist hafa frá þeim stofnunum sem helst eiga hagsmuna að gæta í sambandi við lagasetningu um Tæknistofnun Íslands.

Það hefur verið frestað að ræða frv. nokkuð vegna þess að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir tekjum af jöfnunargjaldi. Eins og kunnugt er eru engin lög um það, en í dag var útbýtt frv. um jöfnunargjald og tekið er fram í 3. gr. þess frv. að tekjum af jöfnunargjaldi skuli ráðstafað að hluta til eflingar iðnþróunar. Má ætla að það frv. verði að lögum. Hæstv. fjmrh. mun tala fyrir því frv. í þessari hv. d. Ég tel að það sé nú, eftir að frv. er komið fram, eðlilegt að ræða frv. um Tæknistofnun og þessa tekjuöflun, þar sem frv. gætu þá bæði orðið nokkurn veginn samferða út úr d. og það yrði séð, hvaða undirtektir frv. um jöfnunargjald fær.

Frv. þetta var sent m. a. til Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins, en sú stofnun er ekki ánægð með frv. eins og það er, þar sem frv. gerir ráð fyrir að þrjár stofnanir, Iðnþróunarstofnun Íslands, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Rannsóknastofnun iðnaðarins verði allar sameinaðar í eina stofnun. Telur Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins það ekki henta og er mótfallin því, að svo verði gert. Ég held að það sé ekki ástæða til þess að vera að lesa upp rökstuðninginn fyrir því áliti sérstaklega. Hann er m. a. sá, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins hafi starfað sjálfstætt og hún muni gera meira gagn á þann hátt heldur en ef hún sameinaðist hinum stofnununum.

Hér er umsögn frá stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins, sem er ekki eins afgerandi. Þar segir:

„Stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins hefur í dag rætt frv. til l. um Tæknistofnun Íslands. Í framhaldi af fyrri umsögn hefur stjórnin samþykkt að óska eftir því við hv. iðnn. Ed. Alþ., að stjórn Rannsóknastofnunar iðnaðarins verði gerð grein fyrir þeim breytingum sem verða kynnu á frv. áður en það fer frá nefndinni.“

N, gerði engar till. um breytingar á frv. og hefur þess vegna ekki haft frekara samráð við Rannsóknastofnun iðnaðarins.

Þá er það Félag ísl. iðnrekenda. Það mælir ákveðið með frv. óbreyttu. Umsögn Rannsóknaráðs ríkisins er ekki afgerandi. Það er slegið úr og í, en frekar er umsögnin neikvæð, ef það væri vegið nákvæmlega. Umsögn Iðnþróunarstofnunar Íslands er jákvæð. Mælir hún eindregið með því, að frv. verði samþykkt óbreytt

Félag ráðgjafarverkfræðinga hefur sent umsögn og gerir helst aths. við það, að í 9. gr. frv. er gert ráð fyrir hámarksþóknun. Þeir segja: „Ákvæði 9. gr. um hámark gjaldskrár verði breytt þannig að gjaldskrá verði aldrei lægri en svo, að tekjur af seldri þjónustu skili raunverulegum heildarkostnaði hennar vegna, að sett verði sérstök löggjöf um fjárstuðning af almannafé við einstök iðnfyrirtæki eða iðngreinar, ef slíks fjárstuðnings er almennt þörf, eða að frv. verði vísað frá að svo komnu máli.“ Þetta eru aðalaths. félags ráðgjafaverkfræðinga sem telja að ráðgjafarverkfræðingar geti annast það sem Tæknistofnuninni er ætlað að gera verði frv. að lögum.

Áður var búið að segja frá umsögn stjórnar Rannsóknastofnunar iðnaðarins. en hér er umsögn sem framkvæmdastjórinn, Pétur Sigurjónsson. skrifar undir,

„Þar sem iðntæknistofnun hefur tengsl við Rannsóknaráð ríkisins. sbr. 2. gr. l. nr. 64 21. maí 1965, er nauðsynlegt að stofnunin hafi einnig fulltrúa í stjórn Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins. Væru tengslin þá mun traustari. Sá þáttur, sem hvað mest hefur tregðað eðlilega þróun rannsókna og tækniþjónustu fyrir íslenskan iðnað, er hve fjárveitingar hafa verið naumt skammtaðar. Er því brýn nauðsyn að tryggja að ávallt sé nægilegt rekstrarfé fyrir hendi. Skal bent á að án nauðsynlegra tækja, aðstoðar og sérfræðiþjónustu er óhugsandi að auka þá þjónustu sem nauðsynleg er og áætlað er.“

Það má kannske segja að það sé leyfi til að bæta nokkuð úr þessu, ef 9. gr. frv. verður lögfest, og jöfnunargjaldið kæmi þar til góða, ef það yrði að lögum.

Landssamband iðnaðarmanna hefur einnig nokkuð að segja um málið. Mælir það eindregið með frv. og vísar í samþykkt sem gerð var á iðnþingi Íslendinga er haldið var á Akureyri 25.–27. ágúst 1977. Það er beinlínis mælt með því, að þessar þrjár stofnanir, sem minnst var á áður, verði sameinaðar og frv. eins og þetta telja þeir að geti orðið iðnaðinum eða tækniþjónustu í landinu til framdráttar.

Og svo kemur umsögn Rannsóknastofnunar byggingariðnaðarins. Framkvæmdastjórarnir skrifa undir hana. — það mun hafa verið stjórnin sem ég vísaði til áðan, — en fram koma eindregin mótmæli gegn því, að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins verði sameinuð hinum stofnununum.

Þetta eru þær umsagnir sem n. fékk, og má segja að þær hafi komið margar, því að stuttur frestur var gefinn til umsagnar vegna þess hve þetta frv. var seint fram komið.

Frv. hefur áður verið lýst og hv. þm. hafa haft það á borðinu hjá sér. Þar segir m. a. að það sé mikilvægur þáttur til uppbyggingar iðnaði í landinu að íslensk iðnfyrirtæki eigi aðgang að tækniþjónustu á borð við þá þjónustu sem látin er í té af stofnunum þeim er á Norðurlöndum bera heitið „teknologisk institut“, þ. e. a. s. fræðsluráðgjafar-, tilrauna- og þjónustustarfsemi. Að hluta til hafa tæknistofnanir iðnaðarins hér á landi, þ, e. Iðnþróunarstofnun Íslands, Rannsóknastofnun iðnaðarins og Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, látið slíka þjónustu í té. Á hitt er að líta, að starfsemi þessara stofnana hefur ekki verið nægilega samræmd gagnvart tækniþjónustuhlutverkinu og þaðan af síður hefur fjármagn þeirra og bolmagn leyft að þær gætu tekist á við fjölþættar þarfir iðnfyrirtækja varðandi tækni, rekstrarhagfræði og stjórnun. Frv. þetta miðar að endurskipulagningu og sameiningu fyrrgreindra stofnana þannig að þær myndi eina heild með sameiginlegum og markvissum tilgangi í samræmi við knýjandi þarfir þessa fjölmennasta atvinnuvegar landsmanna. Standa vonir til að með tilskildum mannafla og nægilegu fjármagni geti hin nýja stofnun á fáum árum náð því markmiði að stuðla svo að tækniþróun og framleiðni í íslenskum iðnaði að hann standi á sporði erlendum keppinautum. Það eru byggðar þær vonir á þessu frv. og þreyttu skipulagi iðnaðarins í samræmi við það, að það geti orðið til þess að efla tækniþróun í landinu. Gerist þess vissulega þörf, ef íslenskur iðnaður á að geta orðið samkeppnisfær við útlendan iðnað og ef við eigum að ná eitthvað svipuðum árangri á tæknisviðinu og nágrannaþjóðir okkar.

Í 9. gr. frv. er, eins og áður er á minnst, tekið fram hvernig afla skuli fjár til rekstrar stofnunarinnar. Það er í fyrsta lagi framlag á fjárl. Þá er hluti af jöfnunargjaldi frá og með 1979, en þá er gert ráð fyrir að frv. það, sem hér var lagt fram í dag, verði lögfest. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir tekjum fyrir selda þjónustu samkv. gjaldskrá sem iðnrh. staðfestir. Hámark gjaldskrár skal miðað við raunverulegan heildarkostnað vegna þjónustunnar, en heimilt er að taka tillit til aðstæðna viðtakenda og eðlis þjónustunnar. Fjórði liður er greiðslur frá aðilum vegna stórra verkefna samkv. samningi hverju sinni. Fimmti liður er framlög til sérstakra verkefna og aðrar tekjur. Við skulum vona að þessi tekjuöflun verði nægjanleg til þess að framfarir geti átt sér stað á þessu sviði umfram það sem verið hefur.

Ég minntist á áðan, að hv. þm. Benedikt Gröndal hefði skilað séráliti. Gerir hann væntanlega grein fyrir því.

Hv. 3. þm. Reykv., Vilborg Harðardóttir, hefur flutt brtt. á þskj. 710 og á þskj. 711. Ég ætla nú ekki að fara að mæla fyrir þeim eða segja neitt sérstakt um þær annað en það, að ég tel að nafnbreytingin eigi fullan rétt á sér. Ég tel að eðlilegt sé að stofnunin heiti Iðntæknistofnun Íslands frekar en Tæknistofnun Íslands, get vel fallist á það og mun greiða atkv. með þessari brtt. En nm. allir hafa frjálsar hendur um það, hvað þeir gera í því efni.

Þá er brtt. við 3. gr., þ. e. í sambandi við deildaskiptinguna. Í brtt. hv. þm er upp talið hvernig hún skuli vera. Þetta var rætt í n. Það er tekið fram í frv. að deildaskiptingin skuli ákveðin í reglugerð. Taldi meiri hl. n. að það væri nægjanlegt. Þess vegna var ekki talið nauðsynlegt að flytja brtt. við 3. gr. í þá átt sem er á þskj. 710.

Ég ætla svo ekki að gera brtt. frekar að umræðuefni og tel ekki nauðsynlegt á þessu stigi málsins að fara öllu fleiri orðum um málið. Það liggur alveg ljóst fyrir. En meiri hl. hv. iðnn. mælir með frv. í trausti þess, að það megi verða íslenskum iðnaði og tækniþróun til hagsbóta og megi líklegt telja að sú skipulagsbreyting, sem hér er fyrirhuguð, megi verða til bóta. Ég ætla svo ekki að svo stöddu að hafa fleiri orð um málið.