26.04.1978
Neðri deild: 85. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 3999 í B-deild Alþingistíðinda. (3251)

268. mál, Iðntæknistofnun Íslands

Vilborg Harðardóttir:

Forseti. Vegna þess, sem sagt hefur verið um Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, held ég að ég geti ekki látið hjá líða að koma fram með það álit mitt, að mér býður í grun að þarna sé um svolítið valdatafl hinna og þessara smákónga að ræða. Í raun og veru er ég fylgjandi því, að allar þessar þrjár stofnanir, sem þarna er talað um, komist undir einn og sama hatt. Ég held að það væri affarasælast. En ég mun þó ekki standa á móti hinu, því að ég held að jafnvel þó að Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins væri ekki með, þá væri hitt svo mikilvægt, að þessi stofnun komist af stað í starfi sínu, að ég mun ekki standa á móti því þó hún yrði tekin þarna undan. En ég vildi gjarnan að þetta álit kæmi fram.

Vissulega hefur Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins unnið að mörgu leyti mjög þarft og gott starf. Fjárskortur hefur þó náttúrlega háð henni eins og ýmsum stofnunum af þessu tagi. En það er einn þáttur, sem mér finnst hún hafi kannske ekki sinnt eins og skyldi, og það er hinn félagslegi þáttur. Rannsóknastörf hennar hafa fyrst og fremst verið á hinu tæknilega sviði, sem er auðvitað alveg sjálfsagt og ágætt, en ef hún fengi nú e. t. v. meira fjármagn og ynni eins og henni var sett í upphafi, þá ætti hún auðvitað að sinna meira hinum félagslega þætti í sambandi við byggingar hér á landi.