27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4005 í B-deild Alþingistíðinda. (3260)

301. mál, orlof húsmæðra

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég hef litlu við það að bæta sem hv. frsm. hafði um málið að segja. Ég vildi þó aðeins átelja það nokkuð, að þannig skuli vera að þessu máli staðið, því að ég veit að þetta mál er búið að vera það lengi á döfinni og búið að vera það lengi á þetta sótt við hæstv. félmrh., að mig undrar mjög að það skuli ekki vera komið fram löngu fyrr. Það er vitað að sú upphæð, sem þarna er, er löngu orðin ófullnægjandi. Það var reyndar vitað þegar á síðasta ári, að upphæðin var alls ófullnægjandi og þessu þurfti að breyta. Við sáum það auðvitað í félmn., að þetta skapaði vissa erfiðleika fyrir sveitarfélögin, sem eru öll búin núna að ganga frá fjárhagsáætlunum sínum. Þetta eru að vísu ekki stórar upphæðir, en skipta þó e. t. v. máli. Aldrei er gott að koma með slíkar breytingar þegar búið er að ganga frá öllum áætlunum, þó ekki sé um neinar stórupphæðir að ræða.

Hins vegar tel ég að með þeirri breytingu, sem gerð var 1972 um orlof húsmæðra, hafi verið farið inn á rétta braut, en aftur stigið spor til baka með lögunum 1975. M. a. hefur það komið glöggt í ljós hjá okkur í fjvn. varðandi landsnefndina, sem hefur skipulagt þessa starfsemi, að eftir þessa breytingu, þegar sveitarfélögin fengu þetta verkefni alfarið að sjá um, hefur hún dottið út, lent á milli og ekki getað sinnt hlutverki sínu eins og hún gerði áður.

Ég var þegar í vetur, ég hygg rétt eftir áramót, búinn að heita atfylgi mínu við frv. sem félmrh. mundi flytja um þetta efni, og við það loforð stend ég að sjálfsögðu, þó ég sjái annmarkana á því og átelji vinnubrögð hæstv. ráðh. varðandi þetta. En það er erfitt að gera mikið af því að fara út í það, þar sem hæstv. ráðh. er ekki hér í d. og ég efast um að hann sé í landinu.