27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4009 í B-deild Alþingistíðinda. (3266)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það þarf að sjálfsögðu ekki að taka það fram af minni hálfu, að ég styð þetta frv. Ég var einn af þeim nm. sem sömdu frv., þó það sé að vísu nokkuð breytt frá því er það kom frá okkar hendi. Það gerðist reyndar fyrir rúmlega ári síðan og við reiknuðum þá að sumu leyti út frá öðrum forsendum en þeim sem nú hafa komið í ljós, m. a. varðandi það fjármagn sem Stofnlánadeildin fengi til ráðstöfunar á hverjum tíma. Við reiknuðum ekki með því, að launakjör yrðu t. d. svo óhagstæð sem raun ber vitni nú um það lánsfjármagn, að 70% af því eru nú fullverðtryggð, en aðeins 30% óverðtryggð, en með 25% vöxtum.

Við vorum einnig með í þessu frv. okkar, sem samið var fyrir hæstv. landbrh., ákvæði um að jafnhátt framlag kæmi á móti þessu jöfnunargjaldi úr ríkissjóði. Ég hygg að hæstv. ráðh. hafi verið því sammála, en það hafi ekki komist í gegn í ríkisstj. að fá það framlag. Þetta var alveg hliðstætt því sem gerðist með neytenda- og framleiðendagjaldið. Það var ákveðið jafnhátt framlag frá ríkissjóði á móti. Við töldum það einnig eðlilegt með þessu gjaldi og til þess að styrkja stöðu deildarinnar sömuleiðis, og á þann hátt hugðumst við einnig, eins og fram kom í frv. okkar eða álitsgerð til hæstv. ráðh., taka jarðakaupalán öll inn í Stofnlánadeildina, sem nú eru hjá veðdeildinni, sem er í miklum vanda vegna þess að á veðdeildinni er um 60 millj. kr. halli.

Rétt er að taka það fram, að ég harma það, eins og ég hef gert áður, hvað þetta frv. kemur seint fram. Ég vil ekki ásaka hæstv. landbrh. fyrir það. Ég veit að hann hefði áreiðanlega viljað að það kæmi fyrr fram. Að þetta frv. öðlast ekki gildi fyrr en 1. jan. 1979 þýðir það t. d., að það skilar engu fjármagni 1. sept. 1978. Nú, prentvilla. Já, auðvitað. En það þýðir að þetta skilar engu til Stofnlánadeildarinnar á þessu ári og skilar í raun, eftir upplýsingum frá Stofnlánadeildinni og Framleiðsluráði, ekki nema 9 mánuðum á næsta ári. Þarna er um að ræða að sama aðferð verði viðhöfð og við framleiðenda- og neytendagjaldið í sambandi við gjalddagana 1. júlí og 1. jan., og þá lýkur þessu í raun og veru 7 mánuðum á eftir greiðslunum, eins og varðandi framleiðenda- og neytendagjaldið. En ég fagna því sem sagt, að þetta frv. skuli hafa fram komið, þó í breyttri mynd sé. Það hefur létt vanda Stofnlánadeildarinnar að nokkru, þó að það hafi auðvitað komið í ljós að þetta frv. dygði hvergi.

Til viðbótar við þetta jöfnunargjald hefur það svo gerst í Stofnlánadeildinni, að verðtrygging á þeim lánum, útihúsalánum til bænda og þeim lánum, sem voru með 25% verðtryggingu, hefur verið hækkuð upp í 33%. Ef ekki hefði verið farin sú leið að hækka vextina á eldri lánum, þá hefði lágmarkið sjálfsagt verið um 40% verðtrygging. Vextir hafa svo verið hækkaðir til viðbótar varðandi þetta jöfnunargjald um 3% af þessum lánum. Húsnæðismálin hafa eðlilega verið færð til samræmis við það sem gerst hefur hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, 60% verðtrygging og 9.75% vextir, og til þess að þurfa ekki að verðtryggja hærra og til að ná endum saman eða gera tilrann til þess að ná endum saman hefur svo verið ákveðin 3% hækkun vaxta aftur fyrir sig á öllum lánum frá 1973 — þeim sem heimild var fyrir í skuldabréfum að mætti hækka vexti á.

Hér togaðist það á í stofnlánadeildarstjórninni, hvort ætti að fara út í enn hærri verðtryggingu eða láta þá bændur, sem hafa fengið lán á þessum árum, koma nokkuð inn í þetta dæmi til jöfnunar, þó það kæmi svo aftur á móti að í stofnlánadeildarstjórninni segðu menn að þarna væri verið að koma aftan að mönnum með því að hækka vextina á þegar teknum lánum um 3%. Meiri hl. stofnlánadeildarstjórnarinnar taldi hins vegar að með þessu móti væri gengið til móts við kröfur stjórnvalda um það, hvernig þessum málum skyldi háttað, og það með, að lánahorfurnar yrðu þá bjartari ef gengið yrði að þessum skilyrðum.

Í lánsfjáráætluninni stendur þessi fallega tala: 2222 millj. til beggja deilda Stofnlánadeildar og veðdeildar. Ég benti á það þá, að þar væri um litla hækkun að ræða milli ára eða 6.7% hækkun frá fyrra ári. En þegar Stofnlánadeildin hefur verið að gera upp dæmið nú og lagt saman eigið fé og vexti af eldri lánum, sem eru 114 millj. kr. plús það lánsfjármagn sem deildinni hefur verið úthlutað, þá kemur út einnig falleg tala, en ekki sú sama, 1900 millj. Það er ráðstöfunarfé okkar eins og mál standa núna. Og nú er knúið á um það af hálfu stofnlánadeildarstjórnarinnar, að þessi tala verði ekki látin gilda, heldur hin talan, fallega talan 2222 millj., að hún verði ekki pappírstala ein, heldur raunveruleg tala.

Það er ljóst að sú útlánaskipting, sem reiknað er með, er á þá leið, að til framkvæmda, sem eru í gangi, verði úthlutað um 650 millj., til íbúðarhúsa, þ. e. a. s. nýbygginga, um 170 millj., til vinnslustöðvanna um 350 millj. Þar er um að ræða vinnslustöðvar landbúnaðarins sem taka á sig núna 100% verðtryggingu á lánum sínum. Ég veit að það verður fyrir suma aðila ábyggilega nokkuð þungbært, eins og þá á Breiðdalsvík t. d., sem eru að baksa við sitt sláturhús, að koma því upp, og lítill fjöldi innleggjenda stendur þar að baki. Dráttarvélalánin er reiknað með að fari upp í 290 millj. og mjaltakerfi o. fl. upp í 100 millj. Þegar við erum búin að leggja þetta allt saman og sjáum hvað við höfum til afgangs í nýjar framkvæmdir, þá er það samkv. útlitinu í dag, ef við verðum að reikna með þessum 1900 millj., þá sýnist mér það vera 340 millj.

Þá er að geta þess, að jarðakaupalánin eru öll eftir. Það er rétt að geta þess, að Lífeyrissjóður bænda hefur fjármagnað þau lán að miklu leyti, í fyrra yfir 60% eða um 60% líklega. Lífeyrissjóðurinn hefur lagt til í kringum 60% af fjármagninu. Nú er óvíst um getu lífeyrissjóðsins í ár vegna aukinnar bindingar hjá lífeyrissjóðunum, en ég ætla að koma síðar að því máli.

Það var ljóst að umsóknir um nýframkvæmdir bænda voru talsvert á annan milljarð kr. og Stofnlánadeildinni var því mikill vandi á höndum hvað hún ætti í þessu máli að gera. Endirinn varð sá, að samkv. sérstakri ósk frá fulltrúum bænda í stjórn Stofnlánadeildarinnar var sú regla upp tekin að taka hlöður eða heygeymslur úr alveg sérstaklega og láta þær hafa forgang. Og við settum ákveðna reglu: annars vegar væri um að ræða framhaldsframkvæmdir við áður byggð útihús og hins vegar yrði að vera knýjandi þörf vegna þess að ónógar heygeymslur væru fyrir. Ég átti satt að segja ekki von á því, þegar ég stóð að þessari reglu, að niðurstaðan yrði sú sem þarna kom út, að mati þeirra sem best til þekktu. Þar var nú annars vegar forstöðumaður Stofnlánadeildarinnar, Stefán Pálsson, sem er mjög vandvirkur maður og kynnir sér vel alla hluti, og einnig var þetta yfirlitið af Gunnari Guðbjartssyni formanni Stéttarsambands bænda. Ég efast því ekki um að þeir hafi dregið þarna þau mörk sem mögulegt væri að fara eftir. En niðurstaða þessa varð þó sú, að játandi svör voru gefin um 280 millj. til hlöðubygginganna og þá hlaut ég að vara við. Ég held að það hafi fleiri gert einnig. Við vorum orðnir á því, að við hefðum kannske gengið þarna of langt með reglu sem slíkar afleiðingar hafði miðað við að Stofnlánadeildin væri með óbreytt fjármagn frá því sem við höfum nú. En ég efast ekki um að þessi niðurstaða þeirra hafi verið rétt og efast ekki um að þetta séu allt saman knýjandi framkvæmdir.

Öðrum umsóknum varð svo að svara neitandi, þ. e. a. s. gripahúsaumsóknum varð svo að svara neitandi, öllum nýjum gripahúsum, en með heimild til endurumsóknar fyrir 15. maí ef talið væri óhjákvæmilegt að ráðast í framkvæmdina. En þá kemur auðvitað upp hinn mikli vandi Stofnlánadeildarinnar, miðað við þann sem er nú sjáanlegur, að samkv. útlitinu eru þarna ekki eftir nema 60 millj. til ráðstöfunar. Einhver skýring hlýtur að vera á því, að þarna skuli vera þessi mismunur á tölum, sem ég hef verið að tala um, 19U0 millj. annars vegar og 2222 millj. í lánsfjáráætluninni hins vegar. Ég efast ekki um að hæstv. landbrh. vill láta standa við hina hærri tölu, sem mundi þá gera hvort tveggja í senn, rýmka nokkuð um möguleika stofnlánadeildarstjórnarinnar til þess að veita gripahúsalán og sjá fyrir fjármagni til jarðakaupalánanna, því að að öðrum kosti er útilokað að sjá hvernig þau verða leyst. Það má t. d. reikna með því að jarðakaupalánin verði svipuð og í fyrra. Þau voru þá 175 millj. kr. Samkv. lauslegri áætlun Stefáns Pálssonar eru þau nú 200 millj., jafnvel allt upp að þeirri tölu, en auðvitað væri þá ekki farið í kapp við verðbólguna með hækkun á þessum lánum. Og eins og ég upplýsti áðan hefur stjórn, í þessu tilfelli veðdeildar, ekki tekið afstöðu til þess, hvort um hækkun eða mögulega hækkun yrði að ræða. Ef 200 millj. færu þarna, þá færu þó til Stofnlánadeildarinnar 122 millj. Það munar auðvitað mjög miklu fyrir stjórn Stofnlánadeildarinnar, þegar hún tekur hinar endurnýjuðu umsóknir til athugunar í maí, hvort hún hefur þá til ráðstöfunar 60 millj., sem hún verður kannske að setja í jarðakaupalán eingöngu, eða hvort hún hefur 182 millj. Jarðakaupalánin eru þá einnig úr öllum vanda.

Menn spyrja eðlilega: Hvað veldur? Hverju er þessi mismunur að kenna? Ég hef ekki tiltæka skýringu á því, en einhvern veginn finnst mér af þeim umr., sem ég hef hlýtt á um þessi mál, og þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, að þetta stafi m. a. af því, að tvær stofnanir annist gerð lánsfjáráætlunar. Fyrst er um að ræða Framkvæmdastofnun ríkisins. Sú stofnun fær allar upplýsingar hjá Stofnlánadeild landbúnaðarins og hefur við hana ágætt samband. Ég held að Stofnlánadeildin geti ekki kvartað undan því, að Framkvæmdastofnun ríkisins hafi ekki leitað nákvæmra upplýsinga hjá forstöðumanni Stofnlánadeildar um fjárþörfina og áætlað fjármagn sem Stofnlánadeildin þyrfti. Síðan tekur hinn almáttugi Seðlabanki við. Að því er forstöðumaður Stofnlánadeildar tjáir mér, þá lætur Seðlabankinn vitanlega ekki svo lítið að tala við forstöðumann Stofnlánadeildar eða neinn af stjórnarmönnum hennar og er þó t. d. nærtækt að fara í formann stofnlánadeildarstjórnarinnar, sem er um leið formaður bankaráðs Búnaðarbankans, og þarf ekki langa leið að fara. En Seðlabankinn virðist svo, hreint út sagt, búa sér til ákveðnar tölur. Ég skal nefna um það dæmi sem eru rétt — dæmi fengin beint frá forstöðumanni Stofnlánadeildar landbúnaðarins.

Seðlabankinn hækkar markaða tekjustofna um 31 millj. frá því sem Framleiðsluráðið hefur gefið upp, þ. e. a. s. varðandi neytenda- og framleiðendagjaldið. Það er óskiljanlegt og engin rök hafa verið færð fyrir því, hvers vegna þessi upphæð er hækkuð þannig, því að hún mun vera í algjöru hámarki hjá Framleiðsluráði, sem mun hafa reynt að hafa hana eins nærri réttu lagi og hægt væri, en þó í hærra lagi engu að síður. En Seðlabankinn hækkar markaða tekjustofna sem sagt um 31 millj. kr. Þá er gerð krafa um 3% hærri vexti á eldri lán, eða lán frá 1913 og til þessa árs, og stofnlánadeildarstjórnin verður við þessari kröfu. En mismunurinn er sá, að þegar henni er fylgt nákvæmlega, eins og farið er fram á af Seðlabankanum, þá koma þar út 114 millj. sem hámark á þessu ári í staðinn fyrir að Seðlabankinn gefur sér upp auðvitað allt aðra tölu eða 170 millj. Og þó er tekin, og var áreiðanlega ekki sársaukalaust fyrir menn, ákvörðun um þessa hækkun á áður teknum lánum um 3% beinlínis til þess að það væri þá staðið við áður gerða lánsfjáráætlun og upphæðina sem þar væri.

Og síðan kemur auðvitað það, sem meginmáli skiptir að áliti forstöðumanns Stofnlánadeildar, þ. e. a. s. um Lífeyrissjóð bænda. Í stað þess 150 millj. kr. fasta framlags eða upp á 25%, sem þýðir 150 millj., sem lífeyrissjóðurinn leggur Stofnlánadeildinni til, þá setur Seðlabankinn upp töluna 350. Þar munar auðvitað langmestu.

Það er upplýst af Stefáni Pálssyni, sem er málefnum lífeyrissjóðsins ekki síður kunnugur en málefnum Stofnlánadeildarinnar, að ekki hafi Lífeyrissjóður bænda eða aðilar hans verið spurðir neitt um þetta. Þessi tala var hreinlega tilbúin þarna. Og að hans mati eru þessir fjármunir, sem þarna er verið að ræða um, ekki til. Seðlabankann varðar kannske ekkert um það, ég veit það ekki, en alla vega virðist það vera þannig. Ástæður þess, að þessir fjármunir eru ekki til, eru t. d. þær, að eftirlaun til bænda, sem voru 160 millj. á s. l. ári verða nú á þessu ári um 300 millj. kr. Og þá er spurt: Hvað gerir þá Lífeyrissjóður bænda annað en þetta, fyrir utan þetta fasta framlag sem þarna er reiknað með, 25% eða 150 millj.? Hann lánar almenn viðbótarlán til íbúðarhúsa á sama hátt og aðrir lífeyrissjóðir. Það fer í gegnum Stofnlánadeildina og kemur ekki inn í þetta dæmi á nokkurn veg og getur ekki komið inn í áætlunardæmi Seðlabankans um ráðstöfunarfé Stofnlánadeildarinnar með nokkru móti. Það er útilokað. Þetta er óskylt mál. Þetta eru viðbótarlán eins og lífeyrissjóðir veita félagsmönnum sínum. Síðan koma bústofnskaupalánin sem bændasamtökin og lífeyrissjóður þeirra komu á og fara einnig um Stofnlánadeildina og geta vitanlega ekki komið inn í þetta áætlunardæmi nema þá að taka bústofnskaupalánin inn í líka hinum megin. Og það er ofvaxið mínum skilningi, nákvæmlega eins og okkar í stofnlánadeildarstjórninni yfirleitt, að þessa peninga megi nýta til jarðakaupa og útihúsabygginga annars vegar og til viðbótarlána og bústofnskaupalána hins vegar sömu peningana. Ég hefði haldið að þetta ættu m. a. s. vitringar Seðlabankans að skilja. En það væri betra fyrir ríkissjóð og aðra þá aðila, sem þar eiga mest í viðskiptum, ef Seðlabankinn gæti þannig áætlað tvöfalda notkun þeirra peninga sem hann er að reikna með.

Ég hlýt að beina þeirri áskorun til hæstv. ráðh., sem ég veit að hefur starfað mikið að þessum málum, að þarna fáist á sú nauðsynlega leiðrétting sem er óhjákvæmileg, ekki síst með tilliti til þess, að í lánsfjáráætluninni var um litla hækkun milli ára að ræða til Stofnlánadeildarinnar. Þetta sést auðvitað best á því, að ef dæmið stendur óbreytt eins og það er nú, þá eru jarðakaupalánin öll til gripahúsabygginga á landinu, nýbygginga, 60 millj. Ef það á að fara að nota þetta út af fyrir sig sem hemil á framleiðsluna, sem sögð er of mikil hér á landi, þá er auðvitað ekki um neina samræmda aðgerð að ræða í því efni. Ég held ég tali fyrir munn allra í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins er ég segi að það sé ekki ætlun þeirra að standa þannig að málunum, enda sér auðvitað hver maður að þessar 60 millj., dreifðar um allt land, eru rétt aðeins fyrir þeirri nauðsynlegu endurnýjun sem þyrfti að vera í einu kjördæmi.

Auðvitað væri hægt að tala um þetta langt mál. En ég var að lesa í morgun það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði í Nd. um þetta mál. Ég tek undir það, að rótin að þessu og aðalorsakavaldurinn að þessum vandræðum öllum er auðvitað sú vaxtaokurstefna sem hér er á ferðinni ásamt verðbólgunni og sem hliðarverkun við hana, því að hversu mjög sem reynt er að kenna okkur í bankaráði Búnaðarbankans það, að vaxtahækkunin sé bara afleiðing verðbólgunnar og ekkert annað og óhjákvæmileg afleiðing, þá viljum við halda því fram, að vaxtahækkunin sé ekki síður orsök og sé a. m. k. meðverkandi orsök alveg eins.

Ég vildi svo aðeins, vegna þess að ég sé það í nál. frá minni hl. landbrn. í Nd., leiðrétta það sem þar kemur fram. Segir þar — með leyfi hæstv. forseta — í nál. frá Benedikt Gröndal, ég er nú svolítið hissa, frá svo glöggum manni: „Jöfnunargjaldið leggur þunga hárra vaxta á neytendur.“ Og svo aftur: „Með því að leggja jöfnunargjald á heildsöluverð búvöru hækkar að krónutölu álagning smásölu á þessar vörur. Við það hækkar verðið til neytenda um meira en gjaldinu nemur.“ Þarna er óbeint verið að gefa í skyn, að þó að vextir eða verðtrygging hefði verið hækkuð á móti þessu, þá hefði það ekki komið við neytendur, en hins vegar þetta jöfnunargjald. Hér er um grundvallarmisskilning að ræða. Það var reiknað út fyrir okkur í n. — við vildum hafa allt á hreinu um það reiknað af okkur í n., eins og hæstv. ráðh. kom inn á áðan, að hér væri um nákvæmlega sömu byrðar að ræða fyrir neytendur hvort sem þetta jöfnunargjald yrði upp tekið eða ekki, Hitt er svo rétt, sem segir í nál. einnig: „Raunar mismunar gjaldið bændum sjálfum. Það styður þá, sem eru skuldugir, á kostnað hinna, sem lítið skulda.“ En þarna greinir okkur mikið á, vegna þess að mér sýnist að þarna sé verið að tala um neikvæða hlið, en ég hlýt að líta á þetta sem það jákvæða í þessu efni. Hér er verið að draga úr byrði þeirra sem nú standa í dýrum framkvæmdum, og það er verið að reyna að jafna henni á stéttina vegna þess að annars kæmi þetta fram í búvöruverðshækkun til allra bænda og væri ekkert hægt að nota í því skyni sem gert er hér ráð fyrir. Og það hélt ég að væri jafnvel stefna hv. þm. Benedikts Gröndals — þó að það sé óviðeigandi að vera að fara út í það hér í annarri deild — að þá, sem erfiðara ættu uppdráttar í landbúnaði, væri sanngjarnt að styðja meira en aðra. Ég vona þess vegna að þetta sé ekki sagt í neikvæðri merkingu í þessu nál. Ég vona það sannarlega.

En vandinn er sem sagt mikill hjá Stofnlánadeildinni og væri ábyggilega kærkomið fleiri en mér ef hæstv. ráðh. gæti á þessu stigi málsins gefið einhver svör um það, hvað gæti orðið til ráða til þess að fá töluna 2222 millj. raunverulega til ráðstöfunar fyrir Stofnlánadeildina og veðdeildina. Þetta skiptir okkur gífurlegu máli, sem stöndum í þessum vanda í stjórninni, og það skiptir auðvitað bændur gífurlega miklu máli. Þarna er um að ræða menn sem hafa byrjað hlöðubyggingar og eru búnir með þær og ætla svo að halda byggingum áfram. Þetta getur stöðvað þá. Ég veit að hæstv. ráðh. gerir sér engu síður en við grein fyrir þeim hættulegu afleiðingum sem það getur haft. Nægur verður nú niðurskurður okkar samt, þó að þetta fengist og við gætum þó mylgrað, ef svo mætti segja einhverju út í maí í staðinn fyrir að þurfa þá að synja öllum endurumsóknum. Það væri ekki bara slæmt fyrir bændur, heldur hygg ég að við í stjórn Stofnlánadeildarinnar fengjum orð í eyra og bændur misstu hreinlega alla trú á okkur ef við yrðum svo að sætta okkur við að neita öllum þessum endurumsóknum sem við erum óneitanlega að gefa viss fyrirheit um að við munum a. m. k, athuga vandlega og reyna að meta þær brýnustu þegar þar að kemur.