27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4018 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

272. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. sem neinu nemur, en vegna þeirra orða, sem fallið hafa í sambandi við það gjald sem lagt er á landbúnaðarvörur til þess að jafna eða lækka vaxtabyrði nýrra lána í Stofnlándeildinni, þá langar mig að benda á það, að ég tel þetta einmitt mikið hagræði fyrir neytendur. Það er útilokað að nokkur atvinnuvegur geti staðist það til lengdar, að fjármagnskostnaður í verðútreikningum sé langt frá því sem fjármagnskostnaður er á hverjum tíma í sambandi við nýframkvæmdir. En einmitt með því að leggja svona gjald á, þá er komið í veg fyrir að kröfurnar um mjög háan fjármagnskostnað innan atvinnugreinarinnar komi fram. Það er dregið úr þeim kröfum sem menn hljóta að gera til þess, að það fjármagn, sem menn leggja í atvinnuveginn, skili sér. Ég tel að þetta sé ekki síður hagsmunamál neytenda, að vöxtunum sé haldið í skefjum til nýframkvæmdanna einmitt á þennan hátt. Það er á annan hátt sem ég tel að eigi að koma í veg fyrir offramkvæmdir í landbúnaði. Það er einmitt með því að hafa hemil á lánveitingunum. Eins og nú horfir, sést ekki annað en það verði gert.