27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4019 í B-deild Alþingistíðinda. (3273)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af ummælum hv. síðasta ræðumanns varðandi jarðirnar í Önundarfirði, sem frv. þetta fjallar um. Ég vil láta það koma fram, að mælt er með þessari sölu af hreppsnefnd Mosvallahrepps einróma, öllum hreppsnefndarmönnum. Ég vil enn fremur láta þess getið, að mælt er með sölu þessara jarða af jarðakaupanefnd. Og ég vil láta það líka koma hér fram, að þetta mál hefur verið mjög rækilega athugað, ekki síst af heimamönnum sem öllum hnútum eru kunnugastir. Ég hygg, að það sé erfitt að halda því fram á hv. Alþ., að mál, sem hreppsnefnd Mosvallahrepps mælir einróma með á þann hátt sem hér liggur fyrir, sé lítt athugað. Og þess er vænst af þessum aðilum, að þetta mál fái framgang á þessu þingi. Vildi ég einungis láta þetta koma hér fram á þessu stigi af gefnu tilefni.