27.04.1978
Efri deild: 88. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4019 í B-deild Alþingistíðinda. (3274)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég ætti nú kannske síst að blanda mér í þess háttar mál sem jarðasölumálin eru í öðrum kjördæmum. En þó fór svo fyrir mér, að ég hét því kunningjum mínum þar vestra, sem mál þetta snertir, að hvetja til þess að farið væri varlega í að taka ákvörðun um sölu þessara tveggja jarða að svo komnu máli. Ég hef fyrir framan mig bréf, undirritað af búnaðarráðunautum sem rannsakað hafa þetta mál, og einnig ljósrit af bréfi frá Jóni Guðjónssyni á Veðrará. Bréf þessi sýna mér ljóslega, að fyrir Jóni bónda á Veðrará, sem nú hefur heyskaparnytjar á Kroppsstöðum, lægi tæpast annað en að hætta búskap ef hann yrði nú sviptur nytjum af þessu túni sem hér kemur ti1 greina að selt yrði. Ég vil — með leyfi hæstv. forseta — lesa umsögn ráðunautanna varðandi málið. Bréfið er dags. á Ísafirði 19. mars. Þar segir:

„Okkur undirrituðum hefur borist beiðni frá Jóni Guðjónssyni bónda á Ytri-Veðrará, Mosvallahreppi í Vestur-Ísafjarðarsýslu, þess efnis að gefa umsögn um búskaparhæfni jarðar hans, bæði með tilliti til hugsanlegs missis nytja af jörðinni Kroppsstöðum í sömu sveit og mikilla framkvæmda opinberra aðila á eignarjörð hans. Einnig hefur Jón sent okkur ljósrit af bréfi sínu til landbrh. og þm. Vestfjarðakjördæmis, dags. 9. 12. 1977. Viljum við staðfesta það, er kemur fram í bréfi Jóns, að jörðin Ytri-Veðrará ber ekki vísitölubú, og mun þó aðstaða Jóns enn versna vegna mikilla framkvæmda opinberra aðila í landi hans. Gróft áætlað ber jörðin um hálft vísitölubú. Kemur þar bæði til lítið beitarland og takmarkað ræktunarland. Samkvæmt skýrslum er ræktun á Ytri-Veðrará 12 ha, en af því eru 1–2 ha tæpast nýtanlegir vegna grjóts og bleytu. Ræktunarmöguleikar eru 4–6 ha, en það land er mjög grýtt og illa fallið til ræktunar. Jón hefur sótt heyskap á fjórar jarðir í Mosvallahreppi alls um það bil 16 ha, þar af eru í landi Kroppsstaða 6 ha nokkuð samfellt og sæmilegt tún. Auk þess lét Jón grafa á Kroppsstöðum s. l. sumar 5435 rúmmetra til að bæta túnin til þurrkunar ræktunarlands og til bættrar nýtingar á engjum í Kroppsstaðalandi. Þó Kroppsstaðir liggi 4–5 km frá Ytri-Veðrará er þetta stærsta og samfelldasta túnið sem Jón hefur haft á leigu. Telja verður ólíklegt, ef Jón missir ítök sín í Kroppsstöðum, að hann geti fengið annað heppilegt land í þess stað og mundu því afleiðingarnar verða mjög skertir afkomumöguleikar á Ytri-Veðrará.“

Þetta bréf er undirritað af þeim ráðunautum Sigurði Jarlssyni og Þórarni Sveinssyni.

Ég leyfi mér að taka undir tilmæli hv. þm. Steingríms Hermannssonar um það, að þetta mál verði athugað mjög vel í landbn. áður en tekin verður ákvörðun um að selja þessar jarðir, a. m. k. nú þegar, ef af því gæti leitt að Jón bóndi Guðjónsson flosnaði upp af jörð sem hann hefur setið lengi.