27.04.1978
Neðri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4022 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

299. mál, jöfnunargjald

Lúðvík Jósepsson:

Hæstv. forseti. Það hefur alllengi verið rætt um svonefndan uppsafnaðan söluskatt iðnfyrirtækja og ráðstafanir í sambandi við það vandamál sem því er samfara. Ég hygg að nær allan tímann, sem þetta mál hefur verið rætt, hafi athyglin beinst að því, að eðlilegt væri að ríkið skilaði nokkrum hluta af þeim söluskatti, sem ríkið hefur innheimt í þessum tilvikum og ekki er í rauninni í samræmi við það sem gildir hjá þeim þjóðum þar sem annar háttur er hafður á söluskattsinnheimtu, eða þar sem virðisaukaskattur er kominn til sögunnar. Og gjarnan hefur verið um það rætt að endurgreiða þessa fjárhæð, sem þannig hefur verið innheimt af þessum tilteknu vörum, þeim starfsgreinum sem eiga hlut að máli, aðallega iðnaðarfyrirtækjum. En með þessu frv. er farið inn á alveg nýja braut. Hér er ekki gert ráð fyrir því, að ríkið endurgreiði neitt, heldur er farið fram á að ríkið geti lagt á nýjan skatt umfram það sem fyrir er, söluskattsforminu verði haldið algerlega óbreyttu, en til viðbótar komi tiltekið gjald á ákveðnar innfluttar vörur, svonefndar samkeppnisvörur.

Mér sýnist að með þessum hætti sé farið alveg í öfugan enda á þessu máli, það sé alveg staðið öfugt að þessu. Raunverulega kemur því málið þannig fyrir, að hér er um að ræða að samþykkja nýja skattlagningu sem gengur út í verðlagið. Hér er verið að gera ráð fyrir því, að á þessu ári komi til nýjar álögur á innfluttar vörur af tilteknum tegundum sem munu nema í kringum 675 milli. kr. að áætlað er á þessu ári, en síðan 1080 millj. kr. á heilu ári.

Ég er algerlega andvígur þessari aðferð. Ég viðurkenni þann vanda sem samkeppnisiðnaður okkar á við að etja, hvort heldur er um útflutningsvöruiðnað að ræða eða samkeppnisiðnað á innlendum markaði. Hér er um vandamál að ræða. Ég hefði viljað hafa hönd í bagga með að leiðrétta það misræmi sem þarna er komið upp, en á þeim grundvelli, að ef farið yrði í það að leggja á gjald, þá rynni það hreinlega til þess samkeppnisiðnaðar sem hér á hlut að máli, en við nýju gjaldi sem er raunverulega nýr tekjustofn fyrir ríkið. Þó að látið sé skína í að þetta gjald verði niður fellt þegar hér verður gerð kerfisbreyting í sambandi við þessa skatta, þá trúir maður því mátulega, miðað við alla þá reynslu sem fyrir er af nýjum sköttum sem eru hér lagðir á.

Það er beinlínis tekið fram í grg. með þessu frv., að ríkið geti varið tekjunum af þessu nýja gjaldi til þess að greiða þau útgjöld sem búið var að reikna með á fjárl. að ríkið ætti að hafa tekjur til þess að standa undir. Hér er því augljóslega um nýja tekjuöflunarleið að ræða fyrir ríkið, enda er allt frv. gert með þeim hætti, að ég tel að það sé í rauninni alveg einstakt í sinni röð. Þannig er sagt í grg., að verja skuli þessu gjaldi að hluta í þessu skyni í sambandi við fjárgreiðslur sem hefur verið áður velt af iðnaðinum, en þá á gjaldið líka að öðrum hluta að renna beint í ríkissjóð. Og í rauninni rennur allt gjaldið á þessu ári í ríkissjóð, miðað við það sem þegar hefur verið ákveðið í sambandi við fjárlög.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að þetta gjald verði lagt á svonefndar samkeppnisvörur frá EFTA-löndum og Efnahagsbandalagslöndum. En það er einnig gert ráð fyrir í 1. gr., að þetta gjald eigi að lenda á sams konar vörur sem fluttar eru inn frá öðrum löndum, þó að tollum hafi í mörgum tilfellum ekki verið breytt, t. d. í síðustu tollbreytingu á slíkum vörum, því að kunnugt er að tollaniðurfærslur í slíkum tilfellum hafa ekki allar verið með sama hætti. Vissulega er hægt að nefna dæmi um að tollar á slíkum vörum hafi verið lækkaðir eitthvað, en engan veginn eins. Þarna er ekki jafnræði á milli, eins og kunnugt er. Ég tel því mjög hæpið að fara inn á þá braut að leggja á þetta gjald í þessu formi, þó að menn hneigðust að því að taka þetta gjald, sem ég tel vera ósanngjarnt.

Í 3. gr. frv. segir, að tekjum af jöfnunargjaldi skuli ráðstafa í fjárl. ár hvert að hluta til til eflingar iðnþróunar. Þetta er auðvitað svo óákveðið að alls ekki er sæmandi að setja slíkt í lög. Ef verið er að leggja á ákveðið gjald og það er gert undir því fororði, að það sé fyrir einhvern tiltekinn aðila, þá á að binda það um leið í lögum. Allt annað er í rauninni að nota þetta sem skálkaskjól. Það er verið að réttlæta nýjan tekjustofn með því að góður aðili eigi í hlut, en allt er óákveðið og fljótandi um það, hvernig með þetta skuli farið. Auðvitað er ekki sæmandi að ganga á þennan hátt frá máli eins og þessu.

Þá tekur nú ekki betra við, sýnist mér, í sambandi við síðari mgr. 3. gr., en þar segir: „Tekjum af gjaldi þessu, er til falla árið 1978, skal ráðstafa samkv. ákvörðun ríkisstj.“ Þarna þykir mér heldur en ekki fríhendis að farið, því að vitanlega á, þegar um nýjan gjaldstofn eins og þennan er að ræða, að segja til hvers hann á að ganga, ekki síst þegar nýlega hefur verið gengið frá fjárl. fyrir árið og búið er að ráðstafa þar tekjum og ákveða gjöld. Vitanlega er eðlilegt að þegar kemur nýtt tekjufrv. sé hreinlega frá því gengið, í hvað féð á að renna, en ekki segja einfaldlega : Ríkisstj. ákveður hvað hún gerir við peningana. — En þetta er að mörgu leyti í samræmi við önnur ákvæði í þessu frv. sem eru einmitt af þessari tegund, eins og t. d. 4. gr. Þar segir: „Ráðh. ákveður með reglugerð, hvaða vörur skulu gjaldskyldar samkv. 1. gr.“ — M. ö. o.: algerlega er opið hvaða vörur hann kann að ákveða í þessum efnum. Þetta er ekki heldur sæmandi. Ég geri ráð fyrir því, að flestir hefðu látið sér til hugar koma að allar þær vörur, sem falla undir það að kallast EFTA-vörur eða samkeppnisvörur, hefðu átt að falla undir þetta, nema þá um tiltekin frávík væri að ræða, sem væru tilgreind þannig að það gæti ekki verið mikill vafi á því, hvað gæti undir það flokkast.

Mín afstaða til þessa frv. við fyrstu athugun er því sú, að ég er á móti frv. í þessari mynd. Ég viðurkenni vandamálið sem hér er verið að ræða um. Það er enginn vafi á því, að hér hefur safnast upp söluskattur sem hefur verið innheimtur af íslenskum framleiðslufyrirtækjum, bæði þeim, sem starfa einkum fyrir erlendan markað, og einnig þeim, sem vinna í samkeppni við innfluttar vörur. Það hefur verið innheimt of hátt gjald af þessum aðilum sem ber að skila, og um það þarf að setja reglur. En þessi aðferð, sem hér er á höfð, er þannig, að ég get ekki fallist á hana. Ég get ekki séð annað en hér sé um nýja gjaldtöku að ræða og gjaldtöku sem er fyrst og fremst hugsuð til þess að bæta hag ríkissjóðs. Mér hefði líka fundist eðlilegt að hæstv. fjmrh., sem talaði fyrir frv., gerði grein fyrir því, að hve miklu leyti hann hugsar sér að um nettó tekjuauka sé að ræða fyrir ríkissjóð. Þó að sagt sé að verja skuli þessu gjaldi að hluta til iðnþróunar, þá segir það ekki neitt. Að hve miklum hluta er þetta hugsað sem tekjuauki fyrir ríkissjóð og þá að hvaða hluta hugsa menn sér að þetta eigi að ganga til þess að efla iðnþróun og með hvaða hætti? Ég kalla það auðvitað ekki að renna til eflingar iðnaðar í landinu, ef það atriði er þegar komið inn á fjárlög og búið að leggja á gjöld til slíkrar starfsemi, eins og þegar hefur verið gert ráð fyrir í fjárlögum.

Ég skal ekki ræða um þetta mál nú við 1. umr. í löngu máli. Ég veit að tími er knappur. Það er heldur engin ástæða til þess að halda langa ræðu, því að málið gengur til þeirrar n. sem ég á sæti í. Þar upplýsist málið að sjálfsögðu betur. En ég vildi að þetta kæmi strax fram, að ég get ekki stutt frv, sem miðar að því að leggja á nýtt gjald sem gengur til verðhækkunar sem nemur heilum milljarði kr. umfram það sem nú er og nemur 675 millj. kr. það sem eftir er af þessu ári, sem fjárlög hafa verið afgreidd fyrir. Allra síst get ég fallist á þetta þar sem þannig er frá gengið, að í rauninni er allt óbundið um það, hvernig skuli farið með þessa fjármuni. Hitt viðurkenni ég, að vandamál í sambandi við uppsafnaðan söluskatt er til. Ég er tilbúinn fyrir mitt leyti að taka þátt í því að reyna að leysa þann vanda, en ekki á þeim grundvelli sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Að öðru leyti mun ég svo ræða frekar um þetta mál þegar það hefur fengið athugun í fjh.- og viðskn. sem frv. gengur væntanlega til.