03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Hver er sá hugsandi Íslendingur sem gerir sér ekki grein fyrir að íslenskt þjóðfélag er ekki heilbrigt, — að því hefur verið slælega stjórnað á mörgum undanförnum árum? Síðustu fimm árin hafa Íslendingar búið við 30–50% verðbólgu. Á næsta ári mun verðbólgan ekki minnka. Skuldir þjóðarinnar erlendis eru orðnar ógnvekjandi, um hálf millj. kr. á hvert mannsbarn: landinu. Milljarðar hafa verið festir í framkvæmdum sem engan arð munu bera, heldur verða baggi á komandi kynslóðum. Það er ekki aðeins efnahagslífið sem er sjúkt, og hefur verið stjórnlítið. Upplausn hefur orðið í siðferðilegum efnum. Í kjölfar verðbólgu hefur siglt sukk í fjármálum. Heiðarleiki er ekki lengur sú dyggð sem var og vera ætti. Lög virðast ekki ganga jafnt yfir alla. Traust manna á réttarfarinu hefur dvínað. Ranglæti og ójöfnuður hefur vaxið.

Það er víðs fjarri mér að telja allt, sem aflaga fer, vera sök stjórnvalda. Við eigum öll nokkurn þátt í þessari þróun vegna þess að við höfum ekki kunnað fótum okkar forráð í verðbólgudansinum. Við skulum gera okkur ljóst að vandamálin í þjóðfélagi okkar eru orðin svo risavaxin að þau verða ekki leyst með neinni töfraformúlu og ekki í einu vetfangi, heldur þarf til þess mörg ár. Einhvern tíma verður að byrja endurreisnina.

Ég ætla ekki að nota stuttan ræðutíma minn fyrst og fremst til þess að gagnrýna. Í stað þess ætla ég að freista þess að benda á þær meginráðstafanir sem ég tei nauðsynlegar ef okkur á að takast að endurreisa heilbrigt þjóðlíf í þessu landi og varðveita efnahagslegt og stjórnarfarslegt frelsi þjóðarinnar. Ég ætla að nefna tólf grundvallaratriði sem ég tel eiga að vera kjarna nýrrar endurreisnarstefnu í íslensku þjóðlífi.

Fyrst nefni ég nauðsyn á allsherjarátaki til aukinnar hagræðingar í íslensku atvinnu- og viðskiptalífi. Framfarir og auknar þjóðartekjur geta til frambúðar aðeins byggst á einu: betri nýtingu á auðlindum okkar og vinnuafli.

Í öðru lagi ber brýna nauðsyn til þess að hverfa frá því stjórnleysi, sem ríkt hefur í fjárfestingarmálum, og taka upp samræmda stjórn á heildarfjárfestingu þjóðarinnar, bæði fjárfestingu opinberra aðila og einkaaðila. Á næstu árum verður að takmarka fjárfestinguna verulega frá því sem verið hefur. Jafnhliða verður að fylgja mjög aðhaldssamri stefnu í fjármálum ríkisins og bankamálum. Vextir verða að vera nægilega háir til þess að varðveita sparifé landsmanna þannig að innlendur sparnaður geti komið í stað erlendra lána til þess að fjármagna æskilegar framkvæmdir.

Í þriðja lagi nefni ég málefni sjávarútvegsins. Þau eru komin í óefni. fiskiskipaflotinn er orðinn mun stærri en hann þyrfti að vera til þess að veiða það fiskmagn sem fiskifræðingar telja óhætt að veiða á næstu árum. Það, sem nú þarf að gera í málefnum sjávarútvegsins, er að öll fyrirtæki, sem stunda veiðar og vinnslu, bindist undir forustu ríkisvaldsins samtökum um hvernig haga eigi samræmdri sókn á miðin og hvar landa skuli aflanum til þess að öruggt verði að sóknin verði sú sem samrýmist hagsmunum heildarinnar og að veiði og vinnsla skiptist milli fyrirtækja og landshluta þannig að skynsamlegt jafnvægi sé milli arðsemissjónarmiða og atvinnusjónarmiða.

Ný stefna í málefnum sjávarútvegsins þarf fyrst og fremst að grundvallast á afnámi hvers konar forréttinda og stöðvun lánveitinga til kaupa á nýjum skipum um sinn. Til þess að tryggja hagkvæma nýtingu fiskstofna mætti láta afkastamikil veiðiskip greiða gjald fyrir heimild til þess að veiða og nota tekjur af því til þess að hjálpa eigendum hinna eldri skipa til þess að hætta rekstri þeirra. Þegar aukið samræmi hefur náðst milli afkastagetu veiðiflotans og styrkleika fiskstofnanna mætti nota tekjur af veiðileyfunum til þess að tryggja atvinnu í landi. Án slíkrar heildarskipulagningar á sjávarútveginum verður um að ræða sóun fjármagns og vinnuafls sem hlýtur að rýra lífskjör þjóðarinnar.

Í fjórða lagi nefni ég iðnaðinn. Hann er vaxtarbroddur íslenskrar efnahagsþróunar. Hér á ég ekki fyrst og fremst við stóriðnað þótt ég telji hann nauðsynlegan til þess að geta byggt hagkvæmar virkjanir, heldur margs konar annan iðnað sem býr að hugviti og leikni starfsmanna samhliða notkun orku sem framleidd yrði með tilstyrk fallvatna og jarðhita. Nútímaleg iðnþróun þarf að vera snar þáttur í nýrri efnahagsstefnu.

Í fimmta lagi vek ég athygli á máletnum landbúnaðarins. Á því sviði hafa stjórnvöldum orðið á örlagarík mistök í áratugi. Stefnan í landbúnaðarmálum hefur fyrst og fremst verið fólgin í því að framleiða meira og meira án þess að arðsemissjónarmið hafi fengið að koma til athugunar. En þegar haldið er áfram milljarða fjárfestingu í landbúnaði eftir að ljóst er orðið að hann framleiðir meira en þjóðin þarfnast, þá er ljóst að verið er að sóa fé. Um margra ára skeið hefur ný fjárfesting í landbúnaði ekki skilað þjóðarheildinni neinum arði. Hún hefur þvert á móti bundið henni bagga eins og m.a. sést á því, að á þessu ári verða skattborgararnir að greiða 21/2–3 milljarða kr. vegna landbúnaðarafurða, sem neytt er af útlendum mönnum.

Frá hinni röngu landbúnaðarstefnu verður auðvitað ekki horfið á einu ári og ekki heldur tveim, en hér gildir enn sem fyrr: Einhvern tíma verður að taka upp nýja og betri stefnu. Hún á að vera fólgin í því að framleiða fjölbreyttar afurðir fyrir innlendan markað.

Í sjötta lagi vík ég að orkumálunum. Ásamt fiskimiðunum er orka fallvatna og jarðhita helsta auðlind Íslendinga. Til skamms tíma hafa Íslendingar hagnýtt þessar auðlindir með hyggilegum hætti. En á þessum áratug hefur gætt vaxandi skorts á hagsýni og jafnvel beinnar óráðsin á þessu sviði. Um það eru framkvæmdirnar við Kröflu skýrast dæmi, en í þeim liggja um 10 milljarðar kr, án þess að skila þjóðarbúinu nokkrum arði. Einn af hornsteinum nýrrar efnahagsstefnu verður að vera sá, að láta arðsemissjónarmið ein ráða því hvar og hvernig er virkjað, en gera síðan landið allt að einu orkudreifingarsvæði. Í því sambandi geta réttmæt byggðasjónarmið komið til skjalanna.

Í sjöunda lagi nefni ég viðskiptamál. Við Íslendingar búum enn einir vestrænna þjóða við úrelt kerfi verðlagsákvarðana sem beint og óbeint stuðlar að óhagstæðum vörukaupum til landsins og óþarflega háu verðlagi í landinu. Hér skortir samkeppni í viðskiptum, — samkeppni sem leitt gæti til lækkaðs verðlags. Jafnframt yrði að hafa eftirlit með því, að ekki sé efnt til samtaka um óeðlilega hátt verð, og hafa heilbrigt verðlagseftirlit.

Í áttunda lagi nefni ég að þróun íslenskra bankamála hefur verið óheppileg á síðari árum. Stórir ríkisbankar hafa háð harða samkeppni um sparifé almennings og bankastofnunum hefur fjölgað óeðlilega. Það er ekki hagkvæmt að svo margt fólk sinni bankaviðskiptum að það sé aðeins hálfu færra en þeir sem sækja sjóinn.

Það, sem ég hef nefnt til þessa, lýtur að aukinni hagkvæmni í rekstri atvinnuveganna. Með slíkum ráðstöfunum er ætlunin að auka þjóðartekjur. En jafnframt þarf að huga að auknu réttlæti við skiptingu þjóðarteknanna. Í því sambandi er mikilvægast að endurbæta ríkjandi kerfi trygginga og heilsugæslu. Alla þjónustu hins opinbera við almenning ætti að sameina í eitt velferðarkerfi. Með því móti gæti þjónustan orðið betri og réttlátari en jafnframt ódýrari.

Í framhaldi af þessu vík ég í níunda lagi að nauðsyn þess að breyta skattalögunum. Það er ómótmælanlegt, að þeir aðilar, sem nú greiða tekjuskatt fyrst og fremst, eru launþegar. Þjóðfélagið verður ekki réttlátt fyrr en ríkið hættir að innheimta tekjuskatt af venjulegum launþegum og takmarka tekjuskattsheimtu sína við atvinnurekstur, hagnað af verðhækkunum og hátekjur einstaklinga. Hér er á ferðinni minna fjárhagsvandamál en margur hyggur. Sá tekjuskattur, sem ríkið ættar að innheimta af einstaklingum á næsta ári, er ekki 1/10 hluti af tekjum ríkissjóðs. Sérstök fjárhagsvandamál ríkissjóðs á næsta ári gera það eflaust litt framkvæmanlegt að afnema tekjuskatt launþega á næsta ári, en markið verður engu að síður að vera það. Þegar mótuð er framtíðarstefna fyrir næstu ár verður réttlátt skattkerfi að vera einn þáttur hennar.

Þá kem ég í tíunda lagi að mikilvægu grundvallaratriði. Í hartnær fjóra áratugi höfum við Íslendingar í ríkara mæli en nokkur önnur nálæg þjóð lengst af búið við sjálfkrafa breytingar á launum og verði landbúnaðarafurða í kjölfar breyttrar vísitölu framfærslukostnaðar. Þessu kerfi hefur verið ættað að vera nauðvörn launþegans og bóndans gegn versnandi lífskjörum. En það er órökrétt og getur reynst skaðlegt. Það er ekki rökrétt að allt kaupgjald á Íslandi hækki þótt verðhækkun verði á olíu erlendis. Og kerfið tryggir launþegum ekki kauphækkun þótt verðlag á freðfiski tvöfaldaðist í Bandaríkjunum. Einn af hornsteinum nýs efnahagskerfis þarf að vera að komast út úr vítahring þessa vélræna kerfis. Það, sem mestu máli skiptir fyrir launþega, er að þeim sé tryggð réttmæt hlutdeild í vexti þjóðartekna. En hlutdeild launþega í vaxandi þjóðartekjum mætti tryggja með því að tengja laun vísitölu um þróun þjóðartekna. Á síðari árum eru gerðar svo fullkomnar skýrslur um þjóðartekjurnar að vísitölu um þróun þeirra ætti að mega treysta.

Ég sagði áðan að vandi íslenskra þjóðmála væri ekki aðeins á sviði efnahagsmála. Ég hef nú nefnt tíu atriði sem öll lúta að efnahagsmálum. En því má ekki gleyma, að við viljum búa í lýðræðisríki. Þess vegna minnist ég í ellefta lagi á nauðsyn þess að jafna rétt kjósenda frá því sem nú er og auka áhrif þeirra á hverjir skipa löggjafarsamkomu og sveitarstjórnir. Nátengd þessu er nauðsynin á bættri réttargæslu, en jafnrétti fyrir lögum og traust og heilbrigð stjórnsýsla eru aðalsmerki lýðræðis.

Í tólfta og síðasta lagi vil ég undirstrika að allar ráðstafanir til aukinnar hagræðingar, öll lagasetning um nýskipan efnahagsmála, allar endurbætur á lýðræðisháttum verða þegar til lengdar lætur unnar fyrir gýg ef þær verða ekki reistar á grundvelli nýs hugarfars þjóðarinnar, bæði ráðamanna og almennings, — hugarfars sem byggist í stórauknum mæli á þeim fornu dyggðum sem fólgnar eru í ráðdeild og sparsemi, hófsemi og heiðarleika, dugnaði og samhug. Það er nauðsyn á nýju og betra þjóðfélagi á Íslandi. Það þarf tíma til þess að koma því á, en fyrst og fremst þarf til þess vilja og þann viljastyrk sem einn fær góðu áorkað. Ég bendi einnig á, að þessa nýju stefnu verður að móta í samráði við samtök vinnandi manna í landinu. Án skilnings og stuðnings samtaka almennings næst engin varanlegur árangur.

Núv. ríkisstj. nýtur mikils þingstyrks, en hún hefur ekki stuðning almennings í gerðum sínum. Ástæðan er sú, að hún hefur ekki borið gæfu til þess að móta neina heildarstefnu, neina framtíðarstefnu er vakið geti von og trú um betri tíma í brjósti almennings.

Með þessum orðum mínum hef ég viljað leggja áherslu á að það, sem nú skiptir mestu máli, er ekki að sýna fram á hvað sé hverjum að kenna, heldur benda á hvert skuli stefna, ekki aðeins á næsta ári, heldur á mörgum næstu árum. Það er fornt kínverskt spakmæli, að jafnvel þúsund mílna ferð byrji með einu skrefi. Tilgangur minn með þessum orðum er að benda á meginstefnu í átt til bættra þjóðfélagshátta. Ég tel að ekki sé seinna vænna að hefja ferðina.