27.04.1978
Neðri deild: 86. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4031 í B-deild Alþingistíðinda. (3280)

299. mál, jöfnunargjald

Tómas Árnason:

Herra forseti. Það er ekki langt mál sem ég ætla að flytja um frv. sjálft, en víkja örfáum orðum að vissum kafla í ræðu hv. 9. þm. Reykv. sem varðaði alveg sérstaklega afstöðu Framsfl. á sínum tíma til EFTA-samningsins og aðildar Íslands að EFTA. Það vildi svo til, að ég var þá varaþm. á Alþ. um tíma og flutti m. a. ræðu um þetta mál, talsvert ítarlega og undirbúna ræðu. Ég man eftir því, að í þeirri ræðu var ég jákvæður í afstöðunni til aðildar Íslands að EFTA almennt séð, og þannig var um marga framsóknarmenn. Hins vegar var það eitt atriði sem við gagnrýndum alveg sérstaklega á sínum tíma og ég gerði það einmitt í þessari ræðu. Við óttuðumst að aðlögunarfresturinn væri of stuttur og við óttuðumst einnig að þær aðstæður, sem iðnaðinum yrðu búnar á aðlögunarfrestinum, væru ekki nógu hagstæðar. Þetta var í raun og veru kjarninn í gagnrýni Framsfl. á þessu máli á sínum tíma. Við óttuðumst að vanþróaður og veikur íslenskur iðnaður stæðist ekki samkeppni við háþróaðan iðnað Vestur-Evrópuríkjanna.

Það er í sjálfu sér nokkuð íhugunarefni í sambandi við þessi mál öll að reyna að gera sér grein fyrir því, hvernig aðrar þjóðir, sem eru meðlimir að EFTA, hafa staðið í ístaðinu við að framkvæma þá stefnu sem felst í EFTA-samkomulaginu. Það er alveg ljóst, að verulegur stuðningur á sér stað við iðnaðarfyrirtæki í EFTA-löndunum. Ég var t. d. í vetur á fundi í stjórn Norræna fjárfestingarlánasjóðsins og þar kom fram í sambandi við afgreiðslu mála að t. d. norski byggðasjóðurinn styður með stórkostlegum framlögum, óafturkræfum framlögum, sterk iðnaðarfyrirtæki í Noregi sem keppa á EFTA-markaðnum. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi, en sjálfsagt má finna fjölmörg dæmi af svipuðum toga í EFTA-löndunum. Og það er rannsóknarefni að athuga hvað hefur gerst í þessum efnum á aðlögunartímanum sem við erum hér að ræða um.

Þetta frv., sem hér er lagt fram, gengur í raun og veru í sömu stefnu og ég hef verið að ræða. Það gengur í þá átt að styrkja samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar, að lengja í framkvæmdinni aðlögunarfrestinn í raun og veru og bæta þau skilyrði sem íslenskur iðnaður þarf að búa við gagnvart erlendum iðnaði. Ég get tekið undir það, að það er galli á þessu frv., að ekki skuli kveðið nánar á um ráðstöfun þess fjár sem inn kemur vegna álagningar þessa gjalds. En það kann að vera dálítið erfitt að áætla gjaldið vegna þess, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að þessi ákvæði hafa vonandi, ef lögfest verða, þau áhrif að íslenskir neytendur auki innkaup á innlendum varningi, en það þýðir að sjálfsögðu minni tekjur vegna þessa gjalds.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess, herra forseti, að gera þetta mál að frekara umtalsefni.