27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4033 í B-deild Alþingistíðinda. (3286)

17. mál, efling útflutningsstarfsemi

Frsm. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Utanrmn. hefur fjallað um till. til þál. um samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi og hefur samþ. shlj. að mæla með því að vísa málinu til ríkisstj. Einn nm., Gylfi Þ. Gíslason, var fjarverandi afgreiðslu málsins.

Þessi till. fjallar um það, að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að gera úttekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslunar landsmanna og leita leiða til þess að efla og samræma útflutningsstarfsemi fyrir íslenskar framleiðsluvörur og þjónustu. Um úttekt þessa, samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi skal hafa samráð við þá aðila sem nú annast útflutning og markaðsstarfsemi.

Síðan er gerð nánari grein fyrir þessu í till., á hvað skuli lögð sérstök áhersla við þessa úttekt og athugun. Það fylgir ítarleg grg. með till. og kemur þar fram, að þessi till. var flutt á seinasta þingi, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Þá eru í grg. mjög fróðlegar og margháttaðar upplýsingar um útflutningsstarfssemina, sérstakleg á Norðurlöndunum, og raunar greinargóð úttekt á því, hvernig hún fer fram hér á landi, en eins og kunnugt er annast fjölmargir aðilar útflutningsstarfsemina hér á Íslandi.

Þetta mál er ekki nýtt mál í sölum Alþingis. Það hefur oft komið á dagskrá áður í svipaðri mynd og hér er lagt til og stundum raunar með enn þá beinni tillögugerð en hér kemur fram. Fyrir löngu fluttu t. d. ég og hæstv. viðskrh. þáltill. um athugun á því að setja á fót útflutningsráð með svipuðu sniði og gerðist í Noregi við stríðslokin.

Þetta mál var athugað, eins og ég sagði áðan, í utanrmn. Sendi n. málið til umsagnar allmargra aðila og bárust nokkrar umsagnir. Það bárust t. d. umsagnir frá utanrrn. og viðskrn. Ég sé ástæðu til þess að greina í stuttu máli frá megininntaki þess sem kemur fram í umsögnum rn.

Í umsögn utanrrn. kemur m. a. fram þetta: „Það er skoðun þessa rn., að til þess að störf umræddra rn. á sviði útflutningsstarfsemi og efling á starfi utanríkisþjónustunnar í þessum málum geti yfirleitt borið sem mestan árangur sé nauðsynlegt að sem víðtækast skipulegt samstarf sé fyrir hendi á Íslandi milli rn. annars vegar og fyrirtækja eða samtaka útflytjenda hins vegar. Í því sambandi verður að hafa í huga að þörfin er ekki hin sama hjá hinum ýmsu útflutningsgreinum fyrir aðstoð utanríkisþjónustunnar á sviði útflutningsstarfsemi og markaðsleitar. Þörfin er lítil hjá stóru sölusamtökunum í fiskiðnaði sem hafa komið sér upp sjálfstæðu og umfangsmiklu sölukerfi í mörgum löndum þar sem íslensk sendiráð eru staðsett. Aðstoð sú, sem utanríkisþjónustan veitir sölusamtökunum, kemur hins vegar fram í margvíslegum fyrirgreiðslum í þeim ríkjum sem ekki búa við algert viðskiptafrelsi og því þörf opinberra afskipta, svo sem í Austur-Evrópuríkjum og á Spáni, svo að dæmi séu nefnd. Að hinu leytinu hafa útflytjendur iðnaðarvara í ríkum mæli leitað til utanríkisþjónustunnar um fyrirgreiðslu varðandi markaðsleit og kynningu á iðnaðarvarningi erlendis og gegnir sama máli um ýmsar landbúnaðarafurðir.

Að lokum skal tekið fram að utanrrn. er fyrir sitt leyti mjög fylgjandi því, að málefni þau, sem þáltill. fjallar um, fái rækilega athugun. Mun rn. fagna því, að unnt verði að efla starfsemi utanríkisþjónustunnar á sviði utanríkisviðskipta til muna frá því sem nú er, þó að slíkt hljóti óhjákvæmilega að hafa einhvern kostnað í för með sér fram yfir það sem fjárhagsgeta utanríkisþjónustunnar leyfir í dag.“

Þetta var orðrétt úr umsögn utanrrn., með leyfi hæstv. forseta.

Viðskrn. sendir einnig alllanga og ítarlega umsögn um þetta mál. Það er nú raunar öllu heldur ráðuneytisstjórinn í viðskrn. sem ritar þessa umsögn. Hann gefur umsagnir oftast nær í sínu nafni, þó að hann skrifi undir þær fyrir hönd ráðh., og hann notar 1. pers. í þessari umsögn að langsamlega mestu leyti. Þessi umsögn er, eins og ég sagði, mjög ítarleg og í rann og veru allt of ítarleg til þess að tök séu á því að greina frá henni allri í framsöguræðu, en þar kemur fram m. a. svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Að mínum dómi kemur til greina að sameina utanrrn. og viðskrn. og þá sérstaklega ef sú skoðun verður ofan á að sameina ætti fleiri rn. Hér er þó ekki um neina aðkallandi breytingu að ræða, því að núverandi fyrirkomulag hefur reynst vel, og það er einnig í samræmi við það skipulag sem þekkist í flestum öðrum löndum. Eftir því sem alþjóðasamstarf hefur farið vaxandi hefur þróunin víða orðið sú að aðskilja viðskipta- og efnahagsmál frá hinum almennu alþjóðastjórnmálum, m. a, með verkaskiptingu viðskrh. og utanrrh.

Svo segir hér að lokum í umsögninni, með leyfi forseta:

„Ég vil ekki að þessi umsögn mín sé skilin þannig, að allt sé í fullkomnu lagi á þessu sviði og ekki megi bæta og efla útflutningsstarfsemina frá því sem nú er. Allar umr. um þessi mál eru gagnlegar og geta leitt til ýmissa endurbóta. Ber því að þakka flm. till. fyrir að hafa vakið máls á þessum málum, en um leið að vænta að framhaldsaðgerðir, hverjar svo sem þær verða, miðist fyrst og fremst við raunhæfar ráðstafanir til að efla útflutningsstarfsemina. Þá á ég fyrst og fremst við aukna fjárveitingu til Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins, og einnig kemur til greina að skipa til reynslu viðskiptafulltrúa við eitt sendiráð í Vestur-Evrópu til þess að vinna sérstaklega að markaðsöflun fyrir iðnaðarvörur.“

Ég held að ég fari rétt með það, að ég hafi lesið í einhverju blaði núna í dag eða í gær, að það stæði einmitt til að skipa verslunarfulltrúa í Vestur-Evrópu. Var þá sérstaklega getið um París í því sambandi.

Ef maður ber saman þessar umsagnir tvær, þá finnst mér umsögnin frá utanrrn, vera jákvæðari gagnvart till. heldur en umsögn ráðuneytisstjóra viðskrn.

Það voru fleiri sem sendu umsagnir, eins og t. d. Sölusamband ísl. fiskframleiðenda sem var jákvætt í afstöðu til till. Sama er að segja um Sölustofnun lagmetisiðnaðarins og Samlag skreiðarframleiðenda.

Það má kannske segja að í þessum málum séu fyrst og fremst tvær stefnur. Annars vegar er sú stefna, að einstök fyrirtæki eða einstakar greinar atvinnulífsins annist útflutninginn og sölustarfsemina sjálfar og e. t. v. fleiri aðilar en einn í hverri grein, hins vegar sú stefnan, sem Norðmenn völdu og náðu samkomulagi um í stríðslokin. Ég hef ekki trú á því, að það hefði náðst samkomulag um slíkt í Noregi við aðrar aðstæður en þær sem sköpuðust í stríðslokin. En þeir stofnuðu útflutningsráð sem er mjög sterkur aðili í útflutningsmálum Noregs, og þetta útflutningsráð er í raun og veru undir stjórn atvinnugreinanna eða atvinnuveganna, atvinnulífsins í raun og veru, þó að ríkisstj. eigi aðild að því nú. Það eru því tvær stefnur í þessum efnum: annars vegar að hafa marga aðila og hins vegar að hafa þá færri. Ég persónulega aðhyllist þá stefnu að hafa þá færri. Er slíkt sérstaklega hentugt fyrir okkur Íslendinga sem erum fámenn þjóð og ákaflega veikir á hinum sterka og stóra heimsmarkaði. Við þurfum að þjappa okkur saman til stórra átaka í þessum málum. Hins vegar kann að vera að bera megi í þessu efni sættir á milli þessara tveggja stefna.

Ég vil að lokum leggja á það nokkra áherslu, að þó að utanrmn. hafi orðið sammála um að vísu þessu máli til ríkisstj., þá er það gert í því trausti, að fram fari frekari athugun málsins. Eins og alþm. er kunnugt, er það gamalkunnug aðferð til þess að drepa eða svæfa mál að vísa þeim til ríkisstj. En það þarf ekki svo að vera og það er að sjálfsögðu á valdi ríkisstj., hver afdrif máls verða sem er vísað til hennar. Utanrmn. varð sammála um það, þó að menn hefðu nokkuð skiptar skoðanir um till. og í þessum málum, að vísa málinu til ríkisstj. í því trausti að þar færi fram frekari athugun málsins.