27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4041 í B-deild Alþingistíðinda. (3293)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Ég er einn af flm. þessa máls. Ég ætla ekki að gera efnisatriði þess að umræðuefni hér, aðeins málsmeðferðina. Ég viðurkenni að mér finnst umsögn flugráðs nokkuð óljós, en mér finnst þó ekki ástæða til að sýna henni svo neikvæða afstöðu sem hv. 5. þm. Vestf. hefur gert. Ég held að afstaða allshn. byggist ótvírætt á því, eins og kemur fram í nál., að hún telji að þegar hafi verið ákveðið að sú athugun, sem farið er fram á í till., verði gerð í sumar. Sú afstaða, sem ég tek í þessu máli, byggist á því, að í samtali við flugmálastjóra lét hann svo um mælt, að till. og álitsgerð mundi skilað fyrir haustið. Í trausti þess, að svo verði, sem ég hef ekki ástæðu til að rengja, get ég fellt mig við þessa afgreiðslu málsins. Að sjálfsögðu hefði ég þó heldur viljað að till. hefði verið samþykkt.

En sem sagt, ég get sætt mig við þessa afstöðu n. með tilliti til þess skilnings sem hún leggur í umsögn flugráðs og ég tel mig hafa fengið staðfestan af sjálfum flugmálastjóra.