27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4049 í B-deild Alþingistíðinda. (3297)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal vera stuttorður. Ég gerði tilraun til þess áðan að ræða málefnalega um flugmál á Vestfjörðum. Ég gerði það vegna þess, að mér var ljóst, sem ég reyndar vissi fyrr, að hv. 1. flm. veit ákaflega lítið um þau mál, enda almæli að hann fari lítið út fyrir Bolungarvík. En þetta mistókst algerlega. Vitanlega mátti ég vita það. Eina skynsemin er, eins og flestallir þm. gera, að fara niður í kaffistofu þegar hv. þm. talar. Það er ekki hægt að tala við manninn málefnalega. Mér þykir satt að segja ákaflega leitt að þurfa að taka undir það sem hv. þm. Ellert Schram sagði um þennan hv. þm. Vestf. áðan, en því miður var hvert orð af því rétt hvert orð. Þessi hv. þm. er orðinn okkur Vestfjarðaþm. til stórkostlegrar skammar í þingsölum.

Það er rétt, mér urðu á þau mistök að segja að till. væri vísað til ríkisstj. En dæmir það einskis virði það sem ég sagði um flugmál á Vestfjörðum og reyndi að upplýsa áðan af því, sem ég hef um þau mál lært — segi ég í hreinskilni — með setu minni í flugráði þar sem mjög mikið hefur verið um þau mál fjallað og af fullri hreinskilni af öllum þeim mönnum sem í því hafa tekið þátt? Ég var að reyna að upplýsa hv. þm. um sum mál sem þar hafa verið rædd í þessu sambandi, t. d. öryggismál í aðflugi. Hann minnist ekki á þau í ræðum sínum eða grg., en hins vegar fjallar hann um málið án þess að fara nokkrum orðum um það sem hefur verið gert. Nei, það er tilgangslaust að ræða málefnalega við þennan hv. þm. og ég geri ekki fleiri tilraunir til þess.