27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4052 í B-deild Alþingistíðinda. (3300)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, fyrst og fremst vegna rangfærslu hv. þm. Ellerts B. Schram. Hann sagði — að ég held orðrétt — að hann hefði tjáð mér þessa fyrirhuguðu afgreiðslu allshn. og að ég hefði óskað sérstaklega eftir því, að málið yrði afgreitt nú. Það er rangt. Hv. formaður allshn. tjáði mér að tvennt kæmi til greina: annaðhvort að láta málið kyrrt liggja eða þessi yrði afgreiðsla allshn. Ég tjáði honum að ég vildi fá málið afgreitt. En jafnframt óskaði ég sérstaklega eftir því, að hann athugaði frekar hina ákveðnu afstöðu allshn. Ég er nærri viss um að sumir hverjir hv. nm. í allshn. hafa bókstaflega ekki áttað sig á því, hvað hér hefur verið að gerast. Ég er viss um það og það er mín fyllsta sannfæring. Þess vegna er ástæða til þess að málið verði athugað betur, því að það segir í hinni rökstuddu dagskrá, með leyfi forseta:

„Þar sem fram kemur í umsögn frá flugmálastjóra, að þegar hefur verið ákveðið, að fram fari sú athugun.“

Þetta er rangt. Það kemur ekkert fram í bréfi flugmálastjóra um það, að þessi athugun skuli fara fram, heldur bara að umsögn skuli verða látin í té. Hér er því farið með staðlausa stafi í hinni rökstuddu dagskrá n. Það er full ástæða til, ekki síst fyrir hv. form. n., sem er lögfræðilærður, að íhuga eilítið betur hvort frambærilegt sé að bera á borð fyrir hv. alþm. ósannindi sem þessi. Farið er með staðlausa stafi í hinni rökstuddu dagskrá. Og ég vek athygli á því að lokum, herra forseti, að nú er þannig komið, að sú harka, sem var í orðum hv. frsm. og formanns allshn. í hinni fyrstu ræðu í dag, hefur breyst. Hann segir nú: Við höfum skilið þetta svo. Við höfum skilið það svo á bréfi flugmálastjóra, að þetta eða hitt kunni að verða gert. — Maðurinn er sem sagt farinn að efast.

Það er best að athuga málið betur, þannig að menn séu alveg fullvissir um hvað hér er að gerast og að hér verði ekki framin nein glöp sem flokkist undir það, að ekki sé fjallað hér um mál á þinglegan hátt.