27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4053 í B-deild Alþingistíðinda. (3303)

278. mál, niðurfelling gjalda af efni til hitaveitna

Flm. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Við höfum leyft okkur nokkrir þm. í Alþfl., eða auk mín Benedikt Gröndal og Jón Árm. Héðinsson, að bera fram svofellda þáltill.:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir nauðsynlegum lagabreytingum, svo að niður falli aðflutningsgjöld, vörugjald og söluskattur af efni og búnaði til stofnframkvæmda hitaveitna (þ. e. framkvæmda að dreifikerfi) :“

Þáltill. þessi, sem nú er endurflutt, var í fyrstu flutt snemma vetrar 1976, en fékk ekki afgreiðslu. Fylgdi þá till. svofelld grg., með leyfi forseta:

„Það mun í flestum tilvikum ríkjandi hefð að feila niður gjöld til ríkisins af innfluttu efni til framkvæmda við raforkuver og hefur þótt fullkomlega réttlætanlegt. Hitt ætti ekki síður að þykja réttmætt, að fella þessi gjöld niður af hitaveituframkvæmdum, sem nú eru ýmist í gangi eða mjög í athugun, til að nota innlendan hitagjafa og láta hann leysa dýran, innfluttan hitagjafa (olíuna) sem víðast og mest af hólmi.

Venjulegast mun sá háttur hafa verið hafður á um raforkuver, að Alþ. hefur heimilað ríkisstj. eftirgjöf tiltekinna gjalda á hverri virkjun fyrir sig, enda varla nema 1–2 umtalsverðar virkjanir í gangi hverju sinni. En öðru máli gegnir um hitaveituframkvæmdir nú. Þegar eru í gangi hitaveituframkvæmdir á Suðurnesjum, Suðureyri við Súgandafjörð, á Siglufirði og í þéttbýli Reykjadals í Suður-Þingeyjarsýslu, en fram undan hitaveita til Akureyrar og væntanlega Akraness, Borgarness, Blönduóss og ýmsar fleiri vafalaust innan tíðar. Það gefur því auga leið, að afar mikilsvert er, að Alþ. marki ákveðna heildarstefnu í þessu máli, þegar það liggur í loftinu að hagkvæmni sumra þessara hitaveitna sé undir því komin, hvort framannefnd gjöld eru felld niður eða ekki.

Þegar á það er horft, að verulegur hluti þessara framkvæmda hlýtur að gerast fyrir erlend lán, sem viðkomandi sveitarfélög verða að standa straum af, hafandi bundna tekjustofna, verður það tæpast talið ósanngjarnt, að ríkið rétti þeim hjálparhönd í því formi, sem hér er greint, lítandi á, að engar yrðu ríkistekjur af framkvæmdunum, geti sveitarfélögin ekki ráðist í þær.“ — Hér lýkur þeirri grg., sem fylgdi till. í vetrarbyrjun 1976.

Síðan þessi grg. var samin á haustdögum 1976 hefur það gerst varðandi hitaveitu frá Svartsengi og hitaveitu til Akureyrar, að umrædd gjöld hafa með sérstöku ráðherrabréfi ýmist verið felld niður eða lánuð til ákveðins tíma með góðum kjörum. Munu hlutaðeigandi bæjarfélög að sjálfsögðu ekki vanþakka þá fyrirgreiðslu. en um leið og það vekur athygli, að þetta virðist ekki gert samkv. sérstökum heimildum í fjárlögum, er ljóst að undir geðþótta stjórnvalda er hér enn að sækja, en ekki lagaákvæði. Er því óvissan enn fyrir hendi um niðurfellingu þessara gjalda til þeirra hitaveitna sem nú eru á athugunarstigi eða síðar koma til álita. Kunna ýmsar þeirra að vera svo á hagkvæmnismörkum, að úrslitum réði, hvort þessi gjöld eru lögð á eða ekki. Teljum við flm. þessarar þáltill. því mikils vert, að hér verði skarið tekið af.

Ég te1 mig ekki þurfa að hafa fleiri orð um þessa þáltill., vona, að þingheimur hafi algerlega áttað sig á hvað hér er um að tefla, og vænti þess, að till. fái góðan og greiðan gang í gegnum þingið, en legg til að umr. verði frestað og málinu vísað til fjvn.