27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4055 í B-deild Alþingistíðinda. (3306)

41. mál, sérfræðiþjónusta á heilsugæslustöðvum

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka allshn. fyrir afgreiðslu á till. Ég kann því miklu betur, að till. séu afgreiddar úr n. en þær séu þar svæfðar og ekki teknar til neinnar afgreiðslu. Ég get líka fyrir hönd okkar flm. fagnað því, að n. er efnislega sammála um þessa tillögu.

Sannleikurinn er sá, að hér er um mjög brýnt og nauðsynlegt mál að ræða og alls ekki flutt að ástæðulausu, vegna þess að þegar lögin um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt á sínum tíma stefndu þau ekki hvað síst að því að reyna að tryggja íbúum landsbyggðarinnar sem besta þjónustu í hvívetna. Við flm. bentum á það í vetur, að við hefðum áður reifað það hér á þingi, að sjúkratryggingarnar greiddu hluta af ferðakostnaði þess fólks sem þyrfti að leita ítrekað til læknis eða sérfræðinga í Reykjavík, og því hefði verið vísað til ríkisstj. á þeim forsendum að málið væri í athugun. Nú höfum við séð það í frv. til laga um almannatryggingar, sem lagt hefur verið fram nú alveg á síðustu dögum, að gert er ráð fyrir því, að vísu eftir reglum sem tryggingaráð setur, að óhjákvæmilegur ferðakostnaður vegna ítrekaðra ferða af völdum sjúkdóma á fund sérfræðings verði greiddur. Eftir þeim skilningi, sem ég hef fengið út úr því, á sá ferðakostnaður jafnvel að greiðast að fullu, sem var meira en okkur þm. Stefán Jónsson dreymdi um. En ekki er ég búinn að fá þennan skilning staðfestan í reynd, svo að þar er einnig að nokkru komið inn á það mál og að verulegu leyti inn á það mál sem við hv. þm. Stefán Jónsson reifuðum í vetur.

Ég fagna sem sagt þessu ákvæði sérstaklega, einkum ef ég má leggja þennan skilning í þetta. Hér var áðan mjög deilt um skilning eða misskilning, en ég vil leggja þann skilning í frv. um almannatryggingar, að þessi óhjákvæmilegi ferðakostnaður verði greiddur jafnvel að fullu. en það sé ekki tryggingaráðs að setja reglur, ekki bara um sjúkdómana, eins og okkur er sagt, heldur einnig um ferðakostnaðinn, að hve miklum hluta hann verði greiddur, því þá er ég hræddur um að greiðslan lækki nokkuð, ef ég þekki það góða ráð rétt.

Í þáltill. er hins vegar um það að ræða að færa þessa sérfræðiþjónustu til fólksins, sem okkur þykir auðvitað miklu nær sanni. Það er alveg rétt, að í frv., sem nú hefur verið lagt fram um heilbrigðisþjónustu, segir svo, að á heilsugæslustöð eða í tengslum við hana skuli veita þjónustu eftir því sem við á, svo sem segir í 3. lið upptalningarinnar: sérfræðilega læknisþjónustu, tannlækningar og endurhæfingu. Þetta er hins vegar engin breyting frá því sem áður var, þetta er óbreytt frá því sem var í lögum. Það, sem við vorum að vísa til hér sérstaklega, var 42. gr., sem nú er í frv. til l. um heilbrigðisþjónustu. Þar segir einmitt — og það er óbreytt einnig frá lögunum:

„Heimilt er að tengja við ákveðnar sérfræðings- og aðstoðarlæknisstöður við ríkisspítala kvöð um störf við heilsugæslustöðvar, allt að 2 mánuðum á ári fyrir sérfræðinga og allt að 4 mánuðum fyrir aðstoðarlækna.“

Ég er ekki viss um hvort þetta heimildarákvæði hefur verið notað eða ekki, en ég hygg þó að afar lítið hafi verið að því gert. En m. a. við þetta var till. okkar um skipulag sérfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum miðuð. Við höfum þarna vissa lagastoð og hún er áfram í þessu frv.

Ég sem sagt vil aðeins taka það fram, að í þessu frv., sem nú hefur verið lagt fram um heilbrigðisþjónustu, eru engin frekari ákvæði um þetta tiltekna atriði sem við erum að fara þarna fram á. En í almannatryggingafrv., sem nú liggur fyrir Nd., er um að ræða mjög veigamikið atriði, ef af þeirri framkvæmd verður, sem kemur til móts við bæði frv., sem við hv. þm. Stefán Jónsson höfum flutt, og snertir svo aftur í raun og veru sama mál og hér er um að ræða. Ég felli mig einnig við þessa afgreiðslu n. af þeim ástæðum, að þetta frv. er nú til umfjöllunar í þinginu og við hv. þm. Stefán Jónsson getum þá og höfum fullt tækifæri til þess að bera fram við það frv. þær brtt., að við getum fengið einhverja staðfestingu á vissri áætlun, t. d. tengda þessu heimildarákvæði sem er í 42. gr.

Af þessum ástæðum tveimur get ég fyllilega fellt mig við þessa afgreiðslu og met það miklu meira, að hún skuli koma fram, heldur en ef málið hefði legið eftir í n. og ekkert verið í því gert. Það er sem sagt af þessum tveimur ástæðum, sem ég sætti mig við afgreiðslu þessa, þó hins vegar gildi ekki hið sama um ýmis mál önnur sem hafa verið lögð fram og hafa ekki hlotið afgreiðslu á sama máta. Ég skal ekki fara frekar út í það, til þess að ekki verði af nein deila um skilning eða misskilning, en aðalatriðið er auðvitað að að þessu ber að stefna, að skipuleggja sérfræðiþjónustuna á heilsugæslustöðvunum, og það er skylda okkar hv. þm. Stefáns Jónssonar, úr því að frv. er komið fram frá ríkisstj. nokkuð breytt frá fyrri lögum, þó það snerti ekki þetta, að reyna að koma inn í það þeim ákvæðum, sem við leggjum til með flutningi þessarar tillögu.