03.11.1977
Sameinað þing: 13. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana

Svava Jakobsdóttir:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Sú spurning gerist nú áleitin hjá öllum þorra manna, hvort við höfum efni á þeirri ríkisstj, sem nú situr. Eitt megineinkenni þessa kjörtímabils eru tíðar vinnustöðvanir og óvenjumargir verkfallsdagar. Á s.l. ári, árinu 1976, urðu viðtækustu verkföll sem um getur í þjóðarsögunni og verkfallsdagar það ár urðu fleiri en nokkru sinni á öllu árabilinu frá 1960 — jafnvel fleiri en á síðasta og versta ári viðreisnarstjórnarinnar, þegar verkafólk háði harðvítuga baráttu til verndar kjörum sínum og margir að auki áttu ekki annars úrkosta en flýja land vegna atvinnuleysis. Það sem ef er þessu ári, árinu 1977, hefur fjöldi vinnustöðvana verið meiri en jafnan áður. Verkföll og yfirvinnubönn Alþýðusambands Íslands í vor stóðu í 7 vikur, og nú er nýlokið tveggja vikna verkfalli opinberra starfsmanna.

Allt launafólk í landinu hlýtur að velta þeirri spurningu fyrir sér af alvöru, hvers vegna vinnustöðvanir ná hámarki á valdatíma ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl., svo við ekkert verður jafnað nema alverstu tímabil síðustu áratuga. Ríkisstj. og málgagn hennar, Morgunblaðið, eru ekki í vafa um orsakirnar. Í málflutningi hennar eiga sökina óábyrgir forustumenn launþegasamtakanna, sem setji eigin valdastreitu ofar hag þjóðarbúsins, og svo hinn almenni launamaður, sem heimti meira í sinn hlut en atvinnuvegirnir þola. Síðan fylgja hrakspár um afleiðingar launahækkana. Hótað er vaxandi dýrtíð og aukinni verðbólgu.

Þennan málflutning þekkir verkalýðshreyfingin frá fornu fari. En fyrir hinum fjölmörgu félögum BSRB var þetta ný reynsla. Þúsundir launamanna, sem höfðu ekki áður orðið að heyja kjarabaráttu sína með verkfallsaðgerðum — né máttu það — sáu nú framan í grímulaust íhaldið, málsvara auðvalds og húsbóndavalds. Þessar þúsundir skildu að kjarabarátta er stéttabarátta.

Því verður ekki á móti mælt, að sjálfur fjmrh. ber þyngstu ábyrgðina á þessu verkfalli. Mörgum dýrmætum dögum eyddi hann í viðleitni til að sundra opinberum starfsmönnum, lama baráttuþrek þeirra og ala á tortryggni milli félaga í hinum almennu verkalýðsfélögum og starfsmanna BSRB. Þetta tókst ekki í þeim mæli sem fjmrh. og ríkisstj, ætluðust til. Opinberir starfsmenn stóðust þessa fyrstu eldskírn sína. En hitt er jafnaugljóst, að íhaldsstjórn sú, sem nú situr, opinberaði sitt rétta eðli. Sumir þm. Sjálfstfl. stóðu upp á Alþ. og veittust harkalega að verkfallsmönnum, og í ræðu sinni í kvöld sakaði forsrh. opinbera starfsmenn um að virða að engu sameiginlega þjóðarhagsmuni. Þá var málgagninu Morgunblaðinu óspart beitt og muna menn vart annan eins óhróður og það blað jós yfir önnur fjölmennustu launþegasamtök landsins. Í síðasta sunnudagsblaði voru forustumenn þeirra sakaðir um þá léttúð að stefna 13 þús. manns út í verkfall til þess eins að sjá hvaða áhrif það gæti haft!

Íhaldið hefur ekki farið dult með þá skoðun sína, að það hafi verið stórfelld mistök að veita opinberum starfsmönnum verkfallsrétt. Ríkisstj. hefur einnig haft í handraðanum allt þetta kjörtímabil frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem felur í sér skerðingu á athafnafrelsi verkalýðshreyfingarinnar í vinnudeilum, bæði varðandi samningsrétt og verkfallsrétt. Þetta frv. hefur ríkisstj. ekki þorað að sýna enn á þingi vegna mikillar andstöðu, en Gunnar Thoroddsen hefur nú boðað að það verði lagt fyrir þetta þing.

Vitanlega getur ýmislegt farið úrskeiðis í framkvæmd verkfalla og rökstudd gagnrýni á fullan rétt á sér. En átökin á þessu ári hafa ekki, þegar djúpt er skyggnst, snúist um þetta fyrst og fremst, heldur um grundvallarviðhorf. Þau hafa snúist um rétt og manngildi þess fjölda sem lifir á því að selja vinnu sína. Í okkar þjóðfélagi er það frelsi dýrmætt hinum vinnandi manni, að hann geti lagt niður vinnu sína fái hann ekki lifað mannsæmandi lífi af kaupi sínu. Verkfallsvopnið kostar fórnir og er því ekki notað sem leikfang, eins og íhaldið heldur fram, heldur sem nauðvörn gegn atvinnurekendaríkisvaldi sem kaupir vinnuna og vill ráða kaupverðinu sjálft.

En hvernig voru þá kjörin þegar verkalýðsfélögin neyddust út í verkfall á s.l. vori? Hvernig hafði þjóðartekjunum verið skipt? Staðreyndin er sú, að það sem af var valdaskeiði Sjálfstfl. og Framsfl. hafði kaupmáttur tímakaups verkamanna rýrnað svo að hann var kominn niður á sama stig og hann var fyrir 30 árum, enda þótt þjóðartekjur á mann hefðu meira en tvöfaldast að raungildi á sama tímabili, og er þá byggt á opinberum tölum og fólksfjölgun tekin inn í dæmið. Vinstri stjórninni tókst að auka kaupmált dagvinnutímakaups verkamanna um nær 80% miðað við vísitölu framfærslukostnaðar. En svo rækilega tók núv. ríkisstj. þá hækkun aftur, að verkamenn stóðu í sömu sporum og fyrir þrem áratugum.

Það eru því ekki launahækkanir sem valda þeirri óhemjulegu dýrtíð sem nú geisar. Það eru ekki heldur erlendar verðhækkanir sem valda, því þær hafa ekki verið nema 5–7% að jafnaði á ári á valdatíma þessarar ríkisstj. Ytri aðstæður hafa verið svo hagstæðar að þjóðartekjur á mann ukust að raungildi um 5.4% árið 1976 og á þessu ári um meira en 7%, eins og forsrh, tók fram áðan, og eru þjóðartekjur á mann á þessu ári hærri að raungildi en nokkru sinni fyrr í allri sögu okkar. Samt þurfti nær allt launafólk í landinu í verkfall til þess að endurheimta það sem af því hafði verið tekið, og það hefur ekki enn náð kaupmættinum eins og hann var hæstur á tímum vinstri stjórnar.

Þrátt fyrir rýrari kaupmátt tímakaups verkamanna en nokkurn tíma um 30 ára skeið hefur allt verðlag í landinu hækkað um 183% eða nálega þrefaldast á þeim rúmum þrem árum sem ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. hefur setið að völdum. Til samanburðar skulu menn hafa í huga að á valdaskeiði vinstri stjórnarinnar, á jafnlöngu tímabili, rúmum þremur árum, hækkaði verðlag um 92%, og vinstri stjórninni tókst að auka kaupmátt dagvinnutímakaups verkamanna um nær 90% þrátt fyrir margfalt meiri hækkun á erlendri vöru en orðið hefur í tíð þessarar ríkisstj.

Hvað veldur þessum mismun? Því er fljótsvarað. Hér er um að ræða tvær andstæðar stjórnarstefnur: vinstri stefnu og hægri stefnu. Hægri stjórn sú, sem nú situr, hefur fært óhemju fjármuni frá launafólki til milliliða viðskiptalífsins og verðbólgubraskara. Hún hefur sóað fjármunum í rangar og ótímabærar fjárfestingar. Hún hefur eytt milljörðum í járnblendiverksmiðju. Og hún hefur tekið rangar ákvarðanir í orkumálum. Gunnar Thoroddsen tafði byggðalínuna um heilt ár, sem leiddi til þess að hraða varð Kröfluvirkjun þrátt fyrir mikla óvissu.

Það er ríkisstj. sjálf sem veldur efnahagsvanda og kjararýrnun. Því hlýtur alþýða þessa lands að spyrja: Höfum við efni á þessari ríkisstj?

Forsrh. sagði að það væri hverri menningarþjóð metnaðarmál að búa vel að öldruðum þegnum sínum að lokinni starfsævi. Hvernig hefur sá metnaður birst í verki hjá þessari ríkisstj? Sannleikurinn er sá, að allar þær breytingar til bóta á almannatryggingum og lífeyrissjóðsgreiðslum, sem forsrh. taldi upp áðan, hafa orðið að frumkvæði verkalýðshreyfingarinnar sem hefur knúið ríkisstjórnina með samningum til að fallast á þær. Verkalýðshreyfingin hefur knúið þessar félagslegu umbætur fram í tengslum við kaupgjaldsbaráttuna. Verkalýðshreyfingin knúði fram hækkun lífeyrisgreiðslna til aldraðra félaga í stéttarfélögunum, og lífeyrissjóðir standa undir þeirri hækkun að öllu leyti, ekki að stórum hluta eins og forsrh. sagði áðan. Í þá hækkun fer ekki eyrir úr ríkissjóði, Hitt er rétt, að ríkisstj. hefur staðið við það loforð að skerða ekki tekjutrygginguna þrátt fyrir þessa hækkun, og er forsrh. kannske vorkunn þó hann reyni að halda til haga einu dæmi um greiðslur sem hafa ekki verið skertar hjá þeim sem minnst mega sín.

En hvernig hefur þá ríkisstj. staðið við sitt gagnvart öldruðum og öryrkjum? Vinstri stjórnin beitti sér fyrir stórfelldum hækkunum á tryggingabótum til þessa fólks. Á þeim árum, árunum 1972–1974, varð kaupmáttur elli- og örorkulífeyris 165.4 stig að meðaltali miðað við vísitölu framfærslukostnaðar. En á fyrsta heila ári þessarar ríkisstj. hrapaði kaupmátturinn niður í 159.9 stig úr 165.9. Og þrátt fyrir auknar þjóðartekjur síðustu tveggja ára hefur kaupmáttur þessara bóta ekki enn náð kaupmættinum eins og hann var hæstur á vinstristjórnarárunum. Þótt miðað hafi aðeins fram á við á þessu ári, þá stafar það ekki af aðgerðum ríkisstj., heldur vegna hækkana á tekjutryggingunni, sem verkalýðshreyfingin knúði fram í samningum. Ríkisstj. sjálf hefur ekki átt neitt frumkvæði að umbótum í almannatryggingamálum.

Það er alveg hárrétt, sem Geir Hallgrímsson segir, að aðbúnaður aldraðs fólks og öryrkja er mælikvarði á menningu hverrar þjóðar. En Sjálfstfl. og Framsfl. hafa ekki staðist það menningarpróf. Það er ekki aðeins að sjálfur kaupmátturinn hafi rýrnað, heldur hefur dýrtíðaraldan skollið þyngra á þessu fólki en öðrum, þar sem nauðsynlegar matvörur hafa hækkað meira en aðrar vörur. Þetta fólk getur því ekki sparað við sig nema svelta, þótt þeir Framsóknarmenn, sem hér hafa talað; viti það ekki eða vilji ekki vita það. En aldraðir og öryrkjar spyrja nú: Höfum við efni á þessari ríkisstj.?

Og hver er svo boðskapur forsrh. í kvöld? Hann boðar auknar álögur á almenning og meiri dýrtíð. Hann boðar samdrátt samneyslu, en samtímis lofsyngur hann óheft frelsi í vöruinnflutningi, jafnframt því sem innlendur iðnaður berst í bökkum og launum verkafólks er haldið niðri. Inntak þessarar stefnu er það, að þann gjaldeyri, sem alþýðan aflar, eiga heildsalar og innflytjendur, stéttarbræður Geirs Hallgrímssonar, að fá að ráðskast með að vild og eiga svo ofan á allt annað að fá að ávaxta þann gjaldeyrisgróða sinn í íslenskum bönkum.

Þetta er íhaldsstefna, Þetta er stjórnarstefna Sjálfstfl. og Framsfl.

Góðir hlustendur, Við höfum ekki efni á íhaldi, við höfum ekki efni á þessari ríkisstj. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða nótt.

1. Þingmaðurinn óskar eftir birtingu á skýrslu þeirri, sem verðlagsstjóri boðaði í sjónvarpsþætti, að samin yrði um verðlag og verðlagningu í Englandi annars vegar og á Íslandi hins vegar.

Óskað var eftir svari frá verðlagsstjóra. Gaf hann svo hljóðandi svar:

„Í þeim sjónvarpsþætti, sem vitnað er til, boðaði verðlagsstjóri ekki beinlínis, að frá honum væri að vænta frekari skýrslu um þetta mál. Það breytir þó ekki því, að ég er fús til þess að svara þessari fyrirspurn og leggja fram í stuttu máli það yfirlit yfir könnunina, sem verðlagsstjóri sendi viðskiptaráðuneytinu og sem ég læt fylgja hér með:

„Eins og yður er kunnugt um, hefur eftirlit með verðlagi innfluttra vara fram til þessa m.a. verið fólgið í því að endurskoða verðútreikninga yfir innfluttar vörur. Til þess að fá verðútreikning samþykktan verða innflytjendur að leggja fram erlendan innkaupareikning, þ.e. reikning, sem á að sýna hið erlenda kostnaðarverð. Ýmsir aðilar höfðu vakið athygli mína á því, að verðlag á innfluttri vöru væri í mörgum tilvikum óeðlilega hátt í samanburði við smásöluverð erlendis. Það liggur ljóst fyrir, að vegna flutningskostnaðar, opinberra gjalda og álagningar, sem leggjast á innfluttar vörur, þurfa íslenskir neytendur að jafnaði að greiða þrefalt hærra verð fyrir hana en sem nemur kostnaðarverði vörunnar í erlendri höfn. Þessi margföldunaráhrif sýna nauðsyn þess að halda hinu erlenda innkaupsverði í lágmarki og er það meginástæðan fyrir því, að farið var út í þessa verðkönnun.

Verðkönnunin fólst í því að gera einfaldan samanburð á verðlagi nokkurra vörutegunda í London og Reykjavík. Könnunin leiddi í ljós, að íslenskir innflytjendur virðast kaupa vörur frá breskum framleiðendum á hærra verði en framleiðendurnir selja vörur á innanlandsmarkaði í Englandi. Dæmi voru einnig þess, að kaupa mátti vörur í smásölu í London á svipuðu verði og íslenskir innflytjendur keyptu sömu vörur samkvæmt innkaupareikningi.

Af könnuninni er ekki hægt að ráða í hverju þessi verðmismunur felst, en eftirtaldar skýringar tei ég, að helst komi til greina:

a) Álagning er heimiluð í hundraðstölu (%), en það hvetur ekki innflytjendur til hagkvæmra innkaupa, og getur jafnvel þvert á móti stuðlað að því, að þeir kaupi dýrara inn en nauðsynlegt er til þess að fá hærri álagningu í krónutölu.

b) Í þeim tilvíkum, sem álagning er heimiluð mjög lág, er hætta á því, að innflutningsfyrirtæki taki óeðlilega há umboðslaun erlendis eða flytji inn í gegnum óþarfa milliliði.

c) Mér hefur verið tjáð, bæði af innlendum og erlendum aðilum, að erlend útflutningsfyrirtæki fylgist náið með verðlagsþróun og verðskyni í viðskiptalöndum sínum, og ef þau sjái sér fært að selja vörur sínar dýrari til eins lands en annars, þá geri þau það. Það er viss hætta á því, að við höfum sætt verri kjörum en aðrar þjóðir af þessum sökum.

d) Magnafslættir af innkaupum geta hér vissulega haft einhverja þýðingu og spurningin er, hvort íslenskir innflytjendur hafi gengið nægilega vel eftir því að fá svipaða afslætti og stærri þjóðir.

Á það skal lögð áhersla, að þessi könnun takmarkaðist við einfaldan samanburð á tiltölulega fáum vörutegundum og ber að skoða niðurstöður hennar í því ljósi. Vegna margföldunar á vöruverði innfluttra vara, eins og áður er getið um, tel ég nauðsynlegt, að verðlagsyfirvöld og innflytjendur hafi samvinnu um að stuðla að sem lægstu innkaupsverði. Mér er ljóst, að á þessu vandamáli er engin algild lausn, en ég er sannfærður um, að ýmsir ónotaðir möguleikar eru fyrir hendi.“ “

2. Þá spyr þingmaðurinn:

„Hefur verðlagsskrifstofan nægilegt fjármagn til að geta sinnt eftirlits- og rannsóknarstörfum sínum á fullnægjandi hátt?“

Ég tel svo ekki vera. En ég bendi á, að enda þótt ekki sé í framlögðu fjárlagafrumvarpi gert ráð fyrir auknu framlagi til verðlagsskrifstofunnar, þá gaf ríkisstjórnin yfirlýsingu að loknum kjarasamningum í sumar um það, að hún mundi styðja við bakið á verðlagsskrifstofunni eins og kostur væri. Ég mun í samræmi við það beita mér fyrir því að við endanlega afgreiðslu fjárlaga verði framlag til verðlagsskrifstofunnar aukið.