27.04.1978
Sameinað þing: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4058 í B-deild Alþingistíðinda. (3314)

77. mál, sami kjördagur fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar

Frsm. (Ellert B. Schram) :

Herra forseti. Lögð hefur verið fram till. til þál. um sama kjördag fyrir alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, flutt af hv. þm. Jóni Skaftasyni. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort ekki sé æskilegt, að reglulegar kosningar til Alþ. og sveitarstjórna fari fram samtímis.“

Með vísan til þess, sem ég hef sagt um tvö síðustu dagskrármál, hefur allshn. lagt til að þessi till. verði afgreidd með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Þar sem allshn. hefur lagt fram till. til þál. um skipan nefndar sem m. a. skal fjalla um það mál, sem hér um ræðir, tekur Sþ. fyrir næsta mál á dagskrá.“

Ég vil geta þess, herra forseti, að þetta mál hefur fengið þessa afgreiðslu í n. með fullu samþykki flm., enda á hann sæti í allshn. sjálfur. Það sama gildir um þau mál sem ég hef gert grein fyrir hér á undan, að þau hafa verið afgreidd með vitund og samþykki flm. þessara tillagna.

Ég vil svo að endingu kvarta undan því, að till. til þál. um skipan nýrrar nefndar til þess að endurskoða stjskr. skuli ekki vera hér á dagskrá, því að það hefði verið eðlilegra að hún hefði verið tekin fyrir fyrst, á undan þessum málum. En ég vænti þess og treysti því, að forseti bæti úr því þannig að sú till. geti komið til umr. sem allra fyrst og þetta mál og þessi mál öll geti því hlotið afgreiðslu samtímis.