27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4060 í B-deild Alþingistíðinda. (3318)

Almennar stjórnmálaumræður

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. „Ég skal aldrei gera það aftur,“ sagði forsrh., þegar hann lækkaði gengið síðast. „Vegurinn til vítis er varðaður fögrum fyrirheitum,“ stendur einhvers staðar. Fögur fyrirheit ein nægja ekki. En á þau hefur ekki skort í stjórnartíð skipstjórans á þjóðarskútunni sem nýverið sigldi henni í strand, eins og kunnugt er, og kallaði þá til stjórnarandstöðunnar á dekkinu: Hvar eru ykkar ráð? — Það er bara of seint að biðja um rétt strik þegar skútan velkist um í fjöruborðinu.

Í ágúst 1974 voru fyrstu fyrirheit enn sitjandi stjórnar gefin út á þrykk. Þar sagði m. a., og þar var auðvitað um ráðstafanir að ræða eins og á hverju ári síðan:

Ríkisstj. mun beita sér fyrir ráðstöfun til að koma í veg fyrir rekstrarstöðvun atvinnuvega, tryggja atvinnuöryggi, bæta gjaldeyrisstöðu, treysta hag fjárfestingarsjóða og ríkissjóðs, sporna við hinni öru verðbólguþróun“ o. s. frv. Og síðan: „Við aðgerðir þessar verður lögð áhersla á að þær komi sem minnst við þá sem lægst laun hafa og lakast eru settir í þjóðfélaginu.“

Svo mörg voru þau orð. En hvernig hefur svo til tekist? Allt of langt mál væri að gera grein fyrir því í smáatriðum, en í fáum orðum sagt hefur allt farið úrskeiðis. Geir Hallgrímsson og hjálparkokkar hans, kúgaðir og kramdir, hafa engin tök á efnahagsmálum, enda mála sannast að þeir hafi ekki kært sig um að hafa stjórn á neinum þeim meginþáttum sem efnahagsstjórn byggist á, svo sem eins og fjárfestingu, innflutningi og skipulagningu framleiðslu og atvinnulífs. Loforðið um að halda atvinnuvegunum í fullum gangi stendur nú þannig og hefur gert, að framleiðsluatvinnuvegirnir eru sagðir á heljarþröminni, enda hefur verðbólgustefnan og vaxtaokrið leikið mörg fyrirtæki í þessum greinum grátt. Og skemmst er að minnast upphafs vertíðar í Eyjum og raunar víðar, þar sem byrjað var á að tilkynna uppsagnir. Öðruvísi mér áður brá, þegar þessi tími var notaður til að slást um vinnuaflið, en ekki til þess að segja því upp.

Gjaldeyrisstaðan hefur m. a. verið bætt með því, að á síðasta ári var hvorki meira né minna en 9000 millj. viðskiptahalli og erlendar skuldir ríkisins. fyrir utan skuldir einkaaðila, nema nú einum litlum 155 þús. millj. kr. Hagur fjárfestingarsjóða er nú með allra lakasta móti, sumir raunar algerlega fjárvana. Hagur ríkissjóðs hefur verið tryggður, eins og lofað var, með því að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann hefur aukist úr 600 millj. í um 25 þús. millj. Hækkunin er tæplega 4000%. Hjá þeim bregðast ekki fyrirheitin.

Höfuðatriði stefnuyfirlýsingarinnar var þó það að berjast gegn verðbólgunni. Þarf ekki að orðlengja það. Erlendur gjaldeyrir hefur nær þrefaldast í verði og annað eftir því, sem sagt hrein uppgjöf.

Allar aðgerðirnar áttu að miðast við að hlífa hinum lægst launuðu. Kannske sjá menn það á síðustu ráðstöfunum stjórnarinnar, hvernig staðið er að því, þegar verkafólki er ætlað að búa við 40% verðbólgu með varla hálfum vísitölubótum. Allt tal Geirs forsrh. um að kaupmátturinn eigi að haldast er blekking. Síðustu aðgerðir sýna einfaldlega, að fólk vinnur einn mánuð kauplaust, ef miðað er við nýgerða samninga.

Það allra alvarlegasta við nýjustu ráðstafanir ríkisstj. er þó það, að raunverulegur samningsréttur er tekinn af launafólki með því að ónýta gerða samninga með lagaboði. Við þessa staðreynd ætti launafólk að staldra og gera sér glögga grein fyrir því, að kjarabaráttan er pólitísk stéttabarátta og kosningarétt sinn verður það að nýta til þess að hafna kaupránsflokkunum algerlega í komandi kosningum. Það er eðlilegt, að gripið sé til efnahagsráðstafana þegar þjóðarbúið verður fyrir skakkaföllum vegna hratt versnandi viðskiptakjara, þegar afurðir okkar falla í verði og innflutningsvörur hækka á sama tíma eða þegar um aflaleysi er að ræða eða önnur ytri skilyrði. En einkennilegt má það vera, að þegar betur veiðist en nokkru sinni fyrr, þegar verð á afurðum er hærra en nokkur dæmi eru til um áður, þá þurfi að grípa til ráðstafana af því tagi sem nú er um að ræða. Því er nú borið við, að kaupmáttur launa sé of hár, hann hafi vaxið of mikið, launafólkið fái of mikið í sinn hlut, laun frá 120 til 150 þús. kr. á mánuði séu að setja landið á hausinn, verðbólgan sé því að kenna. Hvers vegna var þá yfir 30% verðbólga árið 1976, þegar kaupmáttur lækkaði verulega, eða þá árið 1975? Þá var verðbólgan um 50% á sama tíma og kaupmáttur launa lækkaði um tæp 15%. Er það von að fólk spyrji? Verðbólgan vex hvort sem kaupmáttur hækkar eða lækkar. Ríkisstj. lendir í efnahagsvanda, hvort sem verð hækkar eða lækkar erlendis á afurðum. Sífelldur efnahagsvandi, hvort sem viðskiptakjörin eru góð eða vond eða hvort sem vel eða illa veiðist.

Og nú er helsta bjargráðið í efnahagsmálunum að prenta öðruvísi seðla. Hvar er nú Kröflukerlingin með svarta kassann? Ætli hún kunni ekki líka ráð við þessu?

En Geir Hallgrímsson finnur alltaf orsökina þegar óstjórnin í efnahagsmálum er að setja allt í strand, nema verslunina auðvitað. Þegar hann er í gervi innflytjandans hrópar hann með kollegum sínum: Kaupið, kaupið — þ. e. a. s. meiri innflutning. Þegar hann bendir á orsakir efnahagsvanda kallar hann líka ásamt Framsóknarfélögum sínum: Kaupið, kaupið — og þá á hann við laun erfiðismanna. „Kaupið, kaupið“ eru einkunnarorð stjórnar braskaranna í landinu og ríkisstj. þeirra.

Forsrh. var ekki heldur lengi að leysa fjárhagsvanda Rafmagnsveitna ríkisins. Neytendur hjá Rafmagnsveitunum skyldu bara borga. Þó er rafmagnsverð á Rafmagnsveitnasvæðinu um 85% hærra en í Reykjavík. Skyldu landsbyggðamenn ekki vera ánægðir?

En skyldi það bara vera kaupið sem gerir framleiðsluatvinnuvegunum svo erfitt fyrir? Eru engir aðrir kostnaðarliðir sem valda erfiðleikum? Það er staðreynd, að vaxtaokurstefna ríkisstj. hefur haft þau áhrif á meðaliðnfyrirtæki, að þegar laun og launatengd gjöld eru samtals um 1 millj., þá eru vextirnir um 400 þús. að meðaltali. Dæmi eru til um að vaxtakostnaður fyrirtækja sé meiri en öll útgreidd laun samtals. En það eru aðeins launin sem ráðist er á. Auðvitað eru það fleiri kostnaðarhækkanir en þessar sem koma beint vegna verðbólgustefnu stjórnarinnar, en of langt væri upp að telja.

Landbrh. var yfir sig hrifinn af kjörum bænda í ræðu sinni í fyrradag. Kannske telur ráðh. landbúnaðinum best borgið með því að láta bændur greiða svo háa vexti sem rann ber vitni af fjármagni sem skilar sér að hluta eftir hálft til eitt ár og að hluta eftir kannske tvö ár. Það er ekki sami veltuhraðinn á peningunum í þeirri atvinnugrein og í verslunarbraski í Reykjavík. Þau vaxtakjör, sem bændum eru nú boðin, nægja alveg til að gera út af við þá bændur, sem verst eru settir, og þyngja óskaplega fyrir þeim, sem betur standa nú, ef um miklar skuldir er að ræða í fjárfestingu. Um rekstrarlánin er það að segja, að þau hafa ekki einu sinni haldið í við verðbólguna.

Framsfl. hefur löngum talið sig bændaflokk, jafnvel að því marki að þeir hafa talið sig eiga bændur. Hvenær ætli þeir beiti sér fyrir því, að bændur eins og annað launafólk fái launin sín greidd í peningum, en ekki sífellt bundnir við innskriftarverslun að fornum sið? Það er svo sannarlega ömurlegt um að litast í þessum atvinnuvegi eftir samfellda 7 ára stjórn Framsfl. í þessum málum. Víst er að Framsókn verður að færa allmarga bændur út úr reikningi símum nú þegar bændur hafa vaknað til þeirrar stéttarvitundar sem komið hefur í ljós nú undanfarin ár.

Að lokum vil ég segja það, að vissulega þarf að taka verðbólguvandann föstum tökum og ráðast án miskunnar á hinar raunverulega ástæður vandans í fullu samráði við alþýðu þessa lands. Hagur alþýðunnar verður ekki tryggður fyrr en verðbólgan hefur verið skorin niður í eðlilegt mark. Hagur sparifjáreigenda er ekki tryggður með núverandi vaxtastefnu, þó að reynt sé að skrökva því að þeim. Gengisfellingarnar sjá um að hirða vaxtamuninn og vel það. Rekstur framleiðslu atvinnuveganna er óhugsandi með þeim aðferðum sem ríkisstj. hefur beitt til þessa. Iðnaðurinn í landinu verður ekki tryggður fyrr en verðbólgunni hefur verið komið í þokkalegt horf og honum boðið sambærilegt orkuverð, vaxtakjör og önnur skilyrði sem samkeppnisaðilar búa við erlendis. Óheftur innflutningur og skilyrðislaus hlýðni við boðorðið um frjálsa verslun og EFTA og stjórnlausan innflutning, hvort sem peningar eru til fyrir honum eða ekki, gerir hvort tveggja að drepa hvert iðnfyrirtækið af öðru og steypa okkur í enn hrikalegri skuldir erlendis en nú er orðið og er löngu nóg komið.

Ég skal aldrei gera það aftur, sagði forsrh. enn einu sinni þegar hann lagði fram síðasta frv. um nýjar efnahagsráðstafanir. Nú eiga kjósendur kaupránsflokkanna að segja hver fyrir sig: Ég skal aldrei gera það aftur. Ég skal aldrei kjósa þá aftur. Og standa við það. Þökk fyrir áheyrnina. Góða nótt.