27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4076 í B-deild Alþingistíðinda. (3323)

Almennar stjórnmálaumræður

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Góðir hlustendur. Kjörtímabilið er senn á enda. Ýmsir spáðu því, að stjórnarsamstarfið mundi ekki endast út það tímabil. Þær spár hafa reynst hrakspár. Það liggur í hlutarins eðli, að stjórnarflokkarnir hafa ekki alltaf verið sammala um úrræði og leiðir. Ákvarðanir hafa því oft byggst á málamiðlun, svo sem jafnan vill verða í samsteypustjórnum. En innan ríkisstj. hefur yfirleitt verið unnið að málum af skilningi á mismunandi viðhorfum samstarfsflokksins. Og innan ríkisstj. hefur fullur vilji verið til að fylgja eftir þeirri stefnuyfirlýsingu sem samkomulag varð um við upphaf stjórnarsamstarfsins. Sumum markmiðum hefur tekist að ná, öðrum ekki. En við lok kjörtímabilsins verður ekki vefengt, að margt hefur verið framkvæmt samkv. áætlun og margt hefur þokast til réttrar áttar. Þar tala staðreyndir sínu máli.

Landhelgismálið er komið í höfn. Okkur hefur tekist að tryggja okkur óskoruð yfirráð yfir fiskimiðum umhverfis landið og getum nýtt þau á þann hátt sem skynsamlegastur er talinn. Stækkun landhelginnar mun skipta sköpum um framtíð þessarar þjóðar.

Ríkisstj. setti sér það mark að koma í veg fyrir stöðvun atvinnuvega og tryggja landsmönnum fulla atvinnu. Því marki hefur verið náð. Það hefur ekki til þessa verið hægt að tala um atvinnuleysi hér á landi á þessu tímabili, þó að af ýmsum ástæðum sé ekki unnt að koma í veg fyrir tímabundinn atvinnuskort á stöku stað. Þetta er allt annað ástand en ríkt hefur í flestum nálægum löndum, þar sem atvinnuleysi er víðast hvar venjulegt og sums staðar geigvænlegt.

Núv. ríkisstj. hefur haldið áfram og eflt þá byggðastefnu sem hafin var og mótuð í tíð fyrrv. stjórnar. Sú stefna hefur borið ríkulega ávexti. Það geta menn séð hvar sem er á landinu, ekki síst í þéttbýlisstöðum við sjávarsíðuna. Vera má að menn hafi ekki fundið jafnáþreifanlega fyrir henni í sveitum landsins. Má til sanns vegar færa að þar þarf að verða breyting á. En hinu má þá ekki heldur gleyma, að velgengni á þéttbýlisstöðum getur haft sitt að segja fyrir nálæg landbúnaðarhéruð, m. a. hvað markað varðar.

Þau þrjú atriði, sem ég hef nefnt: landhelgismálið, atvinnuöryggið og byggðastefnan, vega þungt þegar störf núv. stjórnar eru metin. Kjósendur ættu ekki að gleyma þeim þegar þeir ganga að kjörborði, og þeir ættu líka að hugleiða hvaða flokki sé best treystandi til þess að standa vörð um það, sem áunnist hefur í þessum efnum, og halda áfram sókninni á þessum sviðum.

Á því kjörtímabili, sem senn er lokið, hafa stjórnarflokkarnir beitt sér fyrir fjölmörgum nýjungum og endurbótum í löggjöf og stjórnarframkvæmd á ýmsum sviðum, svo sem í atvinnumálum, samgöngumálum, dómsmálum, heilbrigðismálum og menningarmálum. Er eigi unnt að gera þeim málum öllum nein viðhlítandi skil í þeim fáu orðum sem ég segi hér. En ég ætla aðeins að víkja að þeim málum, sem hafa sérstaklega verið í mínum verkahring, og þá fyrst og fremst dómsmálum.

Á þeim árum, sem ég hef farið með stjórn dómsmála, hafa talsverðar umbætur átt sér stað á því sviði, bæði að því er varðar löggæslu, rannsókn og meðferð mála og dómaskipun. Um þessi efni hafa nokkur mikilvæg frv. verði lögð fram sem enn hafa ekki hlotið afgreiðslu. Nefni ég þar til frv. til lögréttulaga og frv. um breytingar á meðferð einkamála. Bæði þessi frv. geyma gagngerar breytingar á dómstólakerfinu og dómsmálameðferð. Miða þær ekki hvað síst að hraðari afgreiðslu dómsmála. Þær endurbætur, sem átt hafa sér stað, eru ýmist ákveðnar í löggjöf eða í fyrirmælum dómsmrn.

Meðal laga, sem sett hafa verið á þessu tímabili, má t. d. nefna lög um lögreglumenn, lög um eignarnám, lög um fangelsi og vinnuhæll, lög um Hæstarétt, þar sem dómurum Hæstaréttar var m. a. fjölgað úr 5 í 6, lög um fjölgun héraðsdómara við tiltekin embætti, lög um sérstakan dómara í ávana- og fíkniefnum, lög um rannsóknarlögreglu ríkisins, lög um breytingu á lögum um meðferð opinberra mála, lög um breytingu á skiptalögum, lög um skotvopn, sprengiefni og skotelda, nýafgreidd gjaldþrotalög og þinglýsingalög ásamt fylgifrv. Auk þess hafa auðvitað verið sett fjölmörg lög um minni háttar atriði. Í sumum tilvikum er um að ræða endurskoðun eldri laga, Reglugerð hefur verið sett um refsifullnustu. Verður hún framvegis í höndum dómsmrn. og annast hana sérstök deild innan rn. Ætti sú skipan að stuðla að betra samræmi á þessu sviði. Reglur hafa og verið settar um þriggja manna nefnd sem á að láta í té umsagnir um náðunarbeiðnir og reynslulausn. Reynt hefur verið að auka eftirlit með lögreglu og dómgæslu.

Af verklegum framkvæmdum í sambandi við þessi mál vil ég nefna að hafin er bygging gæsluvarðhaldsfangelsis í Reykjavík og einangrunarfangelsis að Litla-Hrauni.

Alþingi hefur verið gefin skýrsla um meðferð dómsmála, og er þess að vænta, að slík skýrslugjöf verði árviss atburður á hverju Alþ. framvegis.

Rógsherferð þeirri, sem um skeið var haldið uppi á hendur löggæslu, dómsmálakerfi og dómsmrh., hefur slotað og hún hefur gersamlega gufað upp. Ræði ég hana því ekki á þessum vettvangi.

Hitt er annað mál, að heilbrigð gagnrýni er löggæslunni og dómsmálasýslunni jafnan nauðsynleg til aðhalds og eflingar, og enn er margt ógert á því málefnasviði. Þar er eflaust margt sem betur má fara. Það má því ekki láta staðar numið í umbótum, þótt auðvitað verði að gæta hófs í útgjöldum. Á þessu sviði þurfa menn að halda vöku sinni og mega ekki láta tómlæti ríkja um þessi mál, svo sem stundum hefur viljað brenna við. Sú ógnvekjandi hryðjuverkaalda, sem nú gengur yfir mörg lönd og hér þarf ekki að fjölyrða um, er okkur alvarleg áminning um að vera vel á verði í þessum efnum.

Við Íslendingar ættum ekki að gleyma hinu fornkveðna, að með lögum skal land byggja, en með ólögum eyða. Það er orðið of mikið af því, að einstaklingar og hagsmunahópar vilji taka sér rétt sinn sjálfir án þess að hirða um hvað leikreglur þjóðfélagsins, lögin, segja. Slíkt horfir ekki til þjóðarfarsældar, Stjórnmálaflokkar, sem kynda undir slíkum ófarnaði, bera þunga ábyrgð. Þeir stuðla að því að slíta í sundur friðinn og brjóta niður þjóðfélagið.

Af löggjafarmálum, sem tilheyra viðskrn., vil ég nefna það, að ég hef lagt fyrir þetta þing frv. til l. um ríkisviðskiptabanka og frv. til l. um sparisjóði. Um örlög þeirra frv. er enn óráðið. Hins vegar eru allar líkur til að þetta þing afgreiði hlutafélagalög og nýja verðlagslöggjöf,

Lögin um hlutafélög geyma mörg nýmæli og eru áreiðanlega góð réttarbót.

Með lögum um verðlag og viðskiptahætti er stefnt að frjálsara og heilbrigðara verðlagskerfi, spornað gegn óeðlilegum viðskiptaháttum, og þar er að finna vísi að neytendavernd.

Efnahagsmálin, og þá sérstaklega verðbólguna, ber hæst í umr. um þessar mundir. Það er skiljanlegt, því að verðbólgan ásamt stöðunni út á við er stærsta vandamálið sem við verður að fást á næstunni. Í þessum efnum hefur ekki tekist að ná því markmiði sem stefnt var að. Ákvörðun ríkisstj. s. l. vetur um að stöðva frekari skuldasöfnun erlendis var þó spor í rétta átt. Á það má og minna, að verðlagsþróun hafði um skeið þokast til réttrar áttar frá því sem verst var, þ. e. að hraði verðbólgunnar hafði minnkað og var kominn niður í rúmlega 26% um mitt s. l. ár. En síðan seig á ógæfuhlið og var hraðinn orðinn um 50% um áramótin. Ástandið í efnahagsmálum nú er á ýmsan hátt óráðið, en allir hljóta að sjá, að þessi mál verður að taka fastari tökum en hingað til og beita verður að einhverju leyti nýjum úrræðum og starfsaðferðum. Ég lít svo á, að efnahagsmálin og verðbólguvandinn hljóti að verða meginviðfangsefni Alþ. og ríkisstj., hver svo sem hún verður, á næsta kjörtímabili svo og það að tryggja rekstrargrundvöll atvinnuvega. Ég tel að á næstunni verði að leggja aðaláherslu á lausn þeirra mála, bæði með tímabundnum ráðstöfunum og varanlegri úrræðum er hafi það markmið að treysta grundvöll atvinnuveganna og tryggja afkomu og atvinnuskilyrði allra landsmanna.

Á flokksþingi sínu í síðasta mánuði samþykkti Framsfl. allítarlegar till. um efnahagsmál, og má segja að kjarni þeirra sé tekinn upp í stjórnmálayfirlýsingu flokksþingsins. Þær ályktanir mun Framsfl. hafa að áttavita í þessum efnum. Ég tel rétt að rifja hér upp nokkur meginatriði þessara ályktana. Þar segir m. a. svo, með leyfi forseta:

Við lausn aðsteðjandi efnahagsvanda telur Framsfl. óhjákvæmilegt að ráðast gegn verðbólgunni með það fyrir augum að jafna eigna- og tekjuskiptingu landsmanna og stuðla að auknum félagslegum jöfnuði. Flokksþingið leggur því áherslu á eftirfarandi:

a) Stefnan í efnahagsmálum verði samræmd. Ákvarðanir á sviði efnahagsmála taki fullt tillit til afkomu þjóðarbúsins hverju sinni.

b) Aukningu peningamagns og útlána verði haldið innan hæfilegra marka. Samhliða breyttri efnahagsstefnu verði vextir lækkaðir, þó þannig að hagur sparifjáreigenda sé tryggður.

c) Jöfnunarsjóðir verði stórefldir. Lagt verði í jöfnunarsjóði þegar markaðsverð er hagstætt og aflahorfur góðar, en greitt úr þeim þegar verr gengur. Auka ber áhrif ríkisvaldsins á stjórn sjóðanna til að tryggja að svo verði jafnan gert.

d) Tryggður verði hallalaus rekstur ríkissjóðs. Vanda ber betur gerð fjárlaga og auka eftirlit með útgjöldum ríkisins. Gera þarf skattheimtuna sveigjanlegri með því að taka upp staðgreiðslukerfi skatta og virðisaukaskatt.

e) Hægt verði á fjárfestingu um sinn, jafnt á vegum hins opinbera sem einkaaðila. Mat á arðsemi framkvæmda fari fram, þótt arðsemin ein megi ekki ráða ferðinni. Stjórn fjárfestinga beinist fyrst og fremst að því að auka framleiðslu og framleiðni atvinnuvega.

f) Allir kjarasamningar verði gerðir samtímis. Gildandi vísitölukerfi verði endurskoðað þannig að verðbætur miðist við afkomu þjóðarbúsins, en fylgi þó jafnan verðhækkunum á lífsnauðsynjum.

g) Verðlagslöggjöf verði færð í frjálslegra horf, þó að fara eigi með gát við þá breytingu.

h) Samhliða því, sem tekin verði upp breytt efnahagsstefna, verði tvö núll tekin af krónunni, þ. e. að 1 kr. svari til 100 kr. nú, til að stuðla að æskilegri hugarfarsbreytingu á sviði peningamála.

i) Lagður verði á sérstakur verðbólguskattur og skattur á sölu hagnaðar til að jafna eignaskiptinguna í þjóðfélaginu. Jafnframt verði tekjuskatti breytt þannig að hann hafi meiri áhrif til tekjujöfnunar.

Þetta voru nokkur meginatriði stjórnmálaályktunar flokksþingsins um efnahagsmál. Þessi grundvallaratriði eru svo nánar útfærð í sérstakri efnahagsmálaályktun flokksþingsins. Verður eigi hér farið út í þá útlistun.

Sú stefna, sem felst í þessum ályktunum, er að mínu mati gott veganesti í efnahagsmálum. Þau sjónarmið, sem þar eru sett fram, mun Framsfl. leggja sérstaka áherslu á ef til samstarfs við aðra flokka kemur eftir kosningar. En það vil ég undirstrika, að þessi stefna verður ekki framkvæmd án þess að hún komi við einhvern, og sjálfsagt munu ýmsir telja vegið að hagsmunum sínum, ímynduðum eða raunverulegum. En stundarhagsmunir einstaklinga, stétta eða hagsmunahópa mega ekki ráða ferðinni, heldur hagsmunir alþjóðar þegar til lengri tíma er litið.

Kjarni málsins er sá, að við höfum að undanförnu lifað um efni fram. Af því verðum við að láta um sinn. Við verðum að taka upp hóflegri lifnaðarháttu, bæði hjá hinu opinbera og í einkalífi. Það verðum við að gera hvort sem okkur líkar betur eða verr og hvers konar stjórn sem verður við völd á Íslandi að kosningum loknum. Það ætti engum að reynast ofraun, enda erum við vel í stakk búin til þess að takast á við nokkra tímabundna erfiðleika á meðan við fetum okkur svolítið niður verðbólgustigann. En eitt er alveg víst, að á meðan á því stendur verður ekki hægt að gera allt fyrir alla.

Ég vil alveg sérstaklega leggja áherslu á nauðsyn þess að taka vísitölukerfið til endurskoðunar. Það er sannfæring mín, að hér verði ekki á viðhlítandi hátt hægt að ná tökum á stjórn efnahagsmála nema upp sé tekið annað og skynsamlegra vísitölukerfi. Ég tel, svo sem áður er fram komið, að rétt væri að miða við lífsnauðsynjaverðbætur, en að öðru leyti væri vísitalan miðuð við afkomu þjóðarbúsins. Ef slíkt næst ekki fram ætti mjög að hyggja að þeirri skipan sem gildir í Danmörku og e. t. v. í fleiri löndum, að hvorki óbeinir skattar né niðurgreiðslur séu inni í vísitölu.

Tekjuskipting og launapólitík eru viðkvæm mál og vandmeðfarin. Ég leyfi mér að spyrja: Væri ekki eðlilegt, að ákveða hlutfall á milli hæstu og lægstu launa, annaðhvort með samkomulagi eða jafnvel með lagasetningu?

Þessi mál öll eru ekki hvað síst viðkvæm fyrir þá sök, að í sambandi við þau ríkir mikil tortryggni. Ef unnt væri að draga úr eða eyða þeirri tortryggni væri það mikill ávinningur. Ég kann því miður ekkert töfraráð til þess. En væri ekki hugsanlegt að setja á fót launamálaráð, sem skipað væri fulltrúum frá því opinbera, launþegum og atvinnurekendum, sem hefði það hlutverk að safna upplýsingum um raunverulega tekjuskiptingu — ekki bara tilbúna tekjuskiptingu, heldur raunverulega? Það launamálaráð ætti jafnan að hafa tiltækar upplýsingar um það efni. En ég endurtek, að það eru upplýsingar um rauntekjur sem á að afla, en ekki um taxtakaup. Nefndin þyrfti að hafa víðtækt vald til að afla slíkra upplýsinga. Hún mætti ekki láta sér nægja skattskýrslur eða skýrslugjöf aðila. Ég held að það sé ekki til nein stofnun eða nefnd sem leyst hafi þetta verkefni af hendi hér á landi á viðhlítandi hátt. — Ég þakka þeim er hlýddu. Góða nótt.