27.04.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4089 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

Almennar stjórnmálaumræður

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Gleðilegt sumar. Upp úr nýári í vetur tóku mér sem tryggingafulltrúa á árum áður að berast varfærnislegar fsp. um það, hvort verið gæti að yfirvöld væru af ráðnum hug að torvelda öryrkjum að hljóta örorkulífeyri. Ekki kvaðst ég trúa slíku, en þegar ég fékk óræk dæmi þess, að menn, sem árum saman höfðu talist 75% öryrkjar og þar með notið fullra bóta, höfðu allt í einu verið úrskurðaðir 65–70% öryrkjar og þannig þokast niður á óvissu örorkustigs af vissu örorkulífeyris, menn sem kunnugir sáu að frekar hafði förlast heilsa en hitt, tók mér ekki að lítast á. Ég ráðlagði ítarlegri læknisskoðun og læknisvottorð. Bæri engan árangur, var svarið. Og þrautalendingin, að hitta tryggingayfirlækni, var að sjálfsögðu dýrt utan af landshornum. Loks hringdi ég í góðkunningja minn í tryggingunum. Væri í raun verið að þrengja að einum umkomuminnsta hópnum á vegum trygginganna? spurði ég. Nei, svaraði vinur minn og dró þó seim á nei-inu. Okkur er ætlað að gæta þess, að tryggingarnar séu ekki misnotaðar, eins og þú veist að alltaf vill ögn brenna við. Mér skildist að tekjur kæmu nú inn í dæmið varðandi örorkuúrskurð, þannig að maður, sem væri heilsufarslega séð 75% öryrki, væri ekki metinn svo, ef hann hefði tekjur yfir ákveðið mark vegna andlegs atgervis eða óvenjulegs harðfylgis að afla sér tekna, þótt vanburða væri.

Mér sýnist ekki vanþörf á að þarna sé varfærni gætt, 5–10% lækkun á örorkustigi úr 75% sviptir öryrkjan ekki einungis örorkulífeyri, heldur rétti til tekjutryggingar og barnalífeyris, ef hann hefur börn á framfæri, og getur þannig verið með einu vangrunduðu pennastriki kippt fótum undan lífsafkomu hans. Aðgæsla er góð, en hún þarf að vera réttlát. Og ég nota tækifærið til að minna hæstv. ríkisstj. á að fyrr hefði hún mátt ýmislegt óþarfara spara en aðstoð við þá þegna sem ekki ganga heilir til skógar.

Þegar Sjálfstfl. missti kjarkinn í svonefndri Laxárdeilu og hikaði við fulllúkningu Laxárvirkjunar III þ. e. að reisa 20 m stíflu í Laxárgljúfrum ofar Brúum og gera kleift að bæta þar við í virkjun 1–2 vélasamstæðum þannig að nóg rafmagn fengist þar fyrir Laxárvirkjunarsvæðið fram til 1985–1990, var áætlað að 950 millj, kr. þyrfti til þessarar fulllúkningar. Þegar Magnús Kjartansson fyrrv. orkumálaráðh, vann sér það til afreks nokkru síðar að afskrifa frekari framkvæmdir við Laxá og ákveða að farið skyldi í gufuvirkjun við Kröflu mun ekki hafa verið fyrir því haft að framreikna þessar 950 millj. kr. á þáverandi verðbólguverðlagi. En ætla mætti að 800–1000 millj. kr. hafi ekki verið fjarri lagi. Núv. orkumálaráðh., Gunnar Thoroddsen, hélt Magnúsarverkinu áfram af þeirri fyrirhyggju sem alþjóð er nú kunnug, með rómuðum dugnaði og fyrirleitni Kröflunefndar. Og í dag sýna verkin merkin. 10 milljarða kr. virkjunarframkvæmdir gapa við augum á Kröflusvæði þar sem 11 vélstjórar og tæknifræðingar auk eins framkvæmdastjóra vaka yfir dýrgripnum. Einn galli er þó á gjöf Njarðar. Lítið sem ekkert rafmagn er hægt að framleiða og enginn veit hvenær, hvar eða hvort það verður nokkru sinni hægt, nema þá með ómældum viðbótarkostnaði. En hverju skiptir það? Takið þið því ekki með fögnuði, ágætu hlustendur, að skjóta saman af tekjum ykkar, sem okkar virðulegu ríkisstj. finnst hvort eð er fullháar, — takið þið því ekki með fögnuði að skjóta saman úr eigin vasa fyrir þessu einstæða minnismerki fyrirhyggju og fjármálaspeki?

Fyrrv. ríkisstj., svonefnd vinstri stjórn, hlaut þungar ákúrur fyrir misvitra fjármálastjórn og óforsjálni ýmiss konar. Þessum vopnum beitti Sjálfstfl. hvað harðfengast gegn henni og uppskar líka laun fyrir í auknu kjörfylgi. Almenningi fannst vissulega að fjármálastjórnin hefði farið úrskeiðis, og Sjálfstfl, yfirtók fjármálastjórn ríkisins úr hendi Framsóknar. En hvað hefur skeð? Ekki var ráðdeild vinstri stjórnar fyrir að fara, en þó hefur tekið steininn úr hjá núv. ríkisstj. Minnismerkjaákefðin hefur ekki sést fyrir. Erlendar skuldir hafa hlaðist upp. Skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann hlaupa á milljörðum. Ríkisfyrirtæki, svo sem RARIK og Orkusjóður, vita ekki sitt rjúkandi ráð af fjárskorti. En við vandanum kann ríkisstj. það ráð eitt að skerða umsamið kaup launþega.

Sambandsleysið og skilningsskorturinn á viðhorfi og kjörum almennings er svo ofboðslegt, að menn standa agndofa yfir þessum turnbúum í ríkisstj. Í munni þeirra heitir þetta aðhaldssemi og menn verði að sýna þjóðhollustu og taka á sig byrðar. Og á byrðunum stendur ekki. Nauðþurftir manna hækka í risatölum frá degi til dags. Póstur og sími hafa hækkað um 46% frá s. l. áramótum. Bændur fá vorglaðningu í 32% hækkun á áburði, húsbyggjendur 29% hækkun á sementi auk margs konar hækkunar á öðru byggingarefni, að ógleymdum vaxtahækkunum. Og svona mætti lengi telja þótt hér verði staðar numið.

En hvað er þá helst til úrræða? spyrð þú ugglaust, hlustandi góður. Fyrsta úrræðið liggur þér í hendi innan tíðar, að kjósa þessa ráðdeildarlausu ríkisstj. frá. „Aldrei framar samstjórn Sjálfstfl. og Framsóknar“ er lykilorðið. Síðan þarf að mynda breiða ríkisstj. þar sem hagsmunir atvinnuveganna og launþega skipa öndvegi og skilningur þeirra og samvinna orka saman til átaka og úrlausnar, en togast ekki á í tortryggni eins og nú er. Þetta tvennt er alger forsenda góðrar úrlausnar. Hér er það sem Alþfl. einn getur borið hið afgerandi friðarorð á millí og því er efling hans og stóraukning í komandi kosningum þjóðarnauðsyn. Hins þarf enginn að dylja sig, að það mun kosta þjóðina mikið átak að rétta úr efnahagskút sem hún hefur verið keyrð í með óstjórnartökum, átak og sjálfsafneitun í ýmsum greinum, en það mun þjóðin ekki heldur telja eftir sér finni hún að stjórnað sé af réttsýni, skilningi og röggsemd.