28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4110 í B-deild Alþingistíðinda. (3336)

233. mál, vátryggingarstarfsemi

Frsm. minni hl. (Helgi F. Seljan) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að skila minnihlutaáliti á þskj. 747. Þar tek ég fram, að ég taki ekki þátt í afgreiðslu þess nú, og legg til, að afgreiðslu þess verði frestað til næsta þings. Ég hef rætt það í nál. mínu, hverjar ástæður eru fyrir þessu, og því er kannske óþarft að lesa það upp, en ég ætla þó að gera það og með þeim skýringum, sem eru þó nauðsynlegar, án þess að fara að efna til allsherjarumræðna um tryggingamál.

Alþb. hefur það á stefnuskrá sinni, að öll vátryggingastarfsemi hérlendis verði á einni hendi og ein ríkistrygging gildi. Í svo smáu þjóðfélagi sem okkar er það einnig eina réttlætanlega fyrirkomulagið.

Hér starfa í dag fjölmörg tryggingafélög, sem hafa eins konar samtryggingu sín á milli í stað þeirrar „eðlilegu og heilbrigðu“ samkeppni sem oft er á orði höfð af fylgismönnum óhefts einkaframtaks. Undirritaður vill við þetta tækifæri undirstrika nauðsynina á gerbyltingu þessara mála í heild í stað þess fáránlega ofhlæðis sem í dag ræður ríkjum.

Undirritaður viðurkennir þó þörfina á löggjöf um þessa starfsemi og eftirlit og aðhald, svo sem að var stefnt með lögunum frá 1973, fyrst þessi skipan er á vátryggingarstarfsemi í landinu. Undirritaður telur ekki heldur að breytingarnar séu neikvæðar, einstaka sé meira að segja til bóta. Engin rök hafa hins vegar verið færð fram fyrir því, að nauðsyn sé á lögfestingu þeirra nú í þinglok þegar margt kallar að og enginn kostur er að taka málið til þeirrar meðferðar sem þyrfti.

Undirritaður studdi löggjöf um vátryggingarstarfsemi á sínum tíma ekki hvað síst á þeim forsendum, að tryggingaeftirliti var þá komið á. Það lágu ágæt markmið þar að baki og eflaust getur slíkt eftirlit verið virkt og haft hin jákvæðustu áhrif. Hins vegar leynir undirritaður hvergi vonbrigðum sínum með ýmislegt hjá tryggingaeftirlitinu, m. a. því, hversu tryggingafélögin virðast fá uppáskrift þessa eftirlits varðandi óhæfilegar hækkanir tryggingagjalda. Ríkisstj. þeirri, sem nú situr og slær hvert metið af öðru í verðhækkunum, hefur meira að segja þótt nóg um og lækkað prósentuna í gjaldhækkunum frá því sem tryggingaeftirlitið hefur lagt blessun sína yfir. Fylgi undirritaðs við tryggingaeftirlit af þessu tagi hefur því farið síhrakandi og lætur hann sig því litlu skipta hvort þessi stofnun hefur stjórn eður eigi.

Það var einmitt eitt atriði, sem kom fram hjá hv. frsm. hér áðan, að um það hefði verið nokkuð rætt, að þarna yrði um nokkurn sparnað að ræða. Þar af leiðandi má, það kannske segja að það sé jákvætt við þetta. En það jákvæðasta, sem undirritaður hefur séð í þessu máli nú, hefur komið fram í brtt. Alberts Guðmundssonar, sem undirritaður tjáði sig fylgjandi við 1. umr. þessa máls, en hún hefur svo komið fram núna í brtt. frá n., nokkuð breytt að vísu.

En með tilliti til aðalstefnu undirritaðs í tryggingamálum og þess, að engin nauðsyn knýr á um lögfestingu þessa frv., leggur hann til að afgreiðslu þess verði frestað til næsta þings og tekur því ekki þátt í afgreiðslu þess.

Lög um vátryggingarstarfsemi, sem hér er verið að breyta, voru sett á dögum vinstri stjórnarinnar. Þau voru sett af þáv. heilbr.- og trmrh. Magnúsi Kjartanssyni. Það er engin launung á því, að hann ásamt öðrum Alþb.- mönnum hafði knúið á það við þá stjórnarmyndun, að öðruvísi yrði gengið frá vátryggingarmálum en nú er í landinu, einmitt á þann veg sem er undirstrikað í 1. mgr. nál. míns. Það tókst hins vegar ekki að ná neinum áfanga í því efni nema þeim að setja löggjöf og koma á fót þessu tryggingaeftirliti. Af þeirri ástæðu er því ekki nein ástæða fyrir mig að halda sérstakri tryggð við þetta mál, að þetta var það mesta, sem fékkst gert í þáv. vinstri stjórn til þess að lagfæra þessa starfsemi og langt í frá að það væri á nokkurn hátt fullnægjandi fyrir okkur Alþb.-menn. Þessi lög eru því síður en svo heilög í mínum augum, og ég verð nú að viðurkenna að hið sama má segja um mörg lög frá dögum þessarar ágætu vinstri stjórnar. En þessi hæstv. ríkisstj. hefur reyndar verið að reyna að afnema bestu atriðin alla sína tíð.

Ég tala um samtryggingu. Ég rakti um það dæmi á dögunum, hvernig þessi samtrygging tryggingafélaganna hefði komið fram hjá okkar litla sveitarfélagi austur á landi. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það. En svo glöggt var það, að ekki fór á milli mála hvers konar samband var þarna á milli tryggingafélaganna, því aðeins liðu tveir dagar frá því að tilboð um húsatryggingar kom frá Brunabótafélagi Íslands þangað til samhljóða tilboð og þó kannske ívið betra í sambandi við lánamöguleika var komið frá Samvinnutryggingum. Og það sýndi náttúrlega og sannaði okkur að þarna voru svo sterk og rík tengsl á milli að ekkert fór á milli mála. Þó hafa þau einmitt í þessu að nokkru að keppa, að maður gæti haldið, en svo er samtryggingin rík, að ekki einu sinni þarna gengur hnífurinn á milli þeirra.

Ég sem sagt ætla ekki að greiða atkv. á móti þessu máli. Ég nenni aðeins ekki að taka þátt í afgreiðslu máls sem engin rök hafa verið færð fram fyrir að þyrfti að lögfesta. Ríkisstj. hellir nú yfir málum, bæði nauðsynlegum og ónauðsynlegum, kannske meira þeim síðar nefndu, og ætlast til þess, að þm. taki afstöðu til þeirra á stuttum tíma. Það er engin ástæða til þess fyrir okkur stjórnarandstæðinga að sýna þá fylgispekt við hana eða það tillit sem við í raun og veru gerum nú á þessum síðustu dögum æ ofan í æ, tillit til þeirra óhæfilegu vinnubragða sem ríkisstj. lætur hafa sig út í að beita. Það á ekkert frekar við um þetta frv., það skal tekið skýrt fram. En mér fannst ágætt að nota tækifærið til þess að undirstrika grundvallarágreining um tryggingamál í þessu efni, án þess þó að setja á nokkurn hátt fótinn fyrir það, að þessar breytingar nái fram að ganga.