28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4114 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

289. mál, heyrnar- og talmeinastöð Íslands

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég kvaddi mér hljóðs út af því sem hv. 2. þm. Vestf. sagði. Auðvitað tek ég undir það, bæði með honum og hv. síðasta ræðumanni, að svona mál á að athuga vandlega.

Hv. 2. þm. Vestf. minnti á það, að ég er staðháttum þarna mjög vel kunnugur, og ekki mun það síður sagt um þá sem sitja í hreppsnefnd Mosvallahrepps, sem hér er um að ræða, og þá sem eru í jarðakaupanefnd og hér koma við sögu. Sannleikurinn er sá, að málið hefur að sjálfsögðu verið vel athugað og fengið sína eðlilegu meðferð, og ég geri ráð fyrir að það hafi ekkert óeðlilegt verið við það.

Hv. 2. þm. Vestf. sagði að ég hefði ekki farið alveg rétt með þegar ég talaði um fylgi í hreppsnefnd og jarðakaupanefnd við þetta mál. Ég vil aðeins í því sambandi segja, að auðvitað deilum við hv. 2. þm. Vestf. ekki um staðreyndir. Og staðreyndirnar eru þær, að í hreppsnefnd, þar sem fimm menn sitja, greiddu fjórir atkv. með þessu, einn sat hjá. Í jarðakaupanefnd, þar sem þrír menn eru, greiddu tveir atkv. með þessu, einn sat hjá. Eins og kemur fram í fskj. með frv. þessu, er sagt að hreppsnefnd Mosvallahrepps hafi samþykkt þetta með samhljóða meiri hl. atkv. Ég kann að hafa orðið fyrir einhverjum áhrifum af þessu orði: samhljóða, og því voru ummæli mín ekki alveg nákvæmlega rétt. En ég býst við að allir menn sjái, að það hefur verið mikill samhljómur alla vega kringum þetta mál.