28.04.1978
Efri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4127 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Frsm. 2. minni hl. (Bragi Sigurjónsson) :

Herra forseti. Af því að mér finnst að orð mín hafi að nokkru verið misskilin hér í síðustu ræðu minni um þetta frv., tel ég mig ekki geta annað en farið um það nokkrum orðum aftur, þó að ég vilji ekki tefja tímann mikið fyrir hv. þd. Það stendur í 2. gr. þessa frv.:

„Lög þessi taka til stjórnmálaflokka og félagasamtaka þeirra, svo og til hvers konar stofnana, sem starfa á þeirra vegum, beint eða óbeint, þ. á m. blaða.“

Í nál. mínu varðandi þetta mál benti ég á að það hlytu að vakna margs konar spurningar hjá manni varðandi það, til hvers væri ætlast með þessu frv. Hvar á að draga mörkin, spurði ég, hver á að hafa þetta eftirlit og hvernig verður hægt að framfylgja þessu svo að einhlítt sé? Ég held að þessum spurningum hafi enn ekki verið svarað með ræðum hv. þm. hér. Ég veit það og heyrði það á mönnum, að þeim fannst ekki sambærilegt að t. d. væri lagt fé til starfsemi Varðbergs eða æskulýðsstarfsemi, verkalýðsfélaga og fleira slíks. Ég get viðurkennt að það er ekki sambærilegt að því leyti, að þar eru fleiri aðilar að baki, sem þiggja það, heldur en einn flokkur hverju sinni, en ég fullyrði að margt af þessum fjárframlögum, sem þarna koma fram, er ætlað til að hafa áhrif á skoðanir hér á landi. Spurningin er: Er það nokkuð síður hættulegt, ef menn óttast áhrif gegnum einn flokk, að áhrifin komi í gegnum fleiri flokka? Ég held ekki. Þá er hættan jafnvel meiri. Þá verða fleiri, sem geta boðað þessar skoðanir, heldur en ef það væri gegnum einn flokk.

Ég tók það ekki fram síðast, en það er í nál., gaman væri að heyra skoðanir hv, þm. á því, að hér gefur a. m. k. eitt sendiráð út blað, — sem kemur nú út vikulega eða hálfsmánaðarlega, ég fylgist ekki svo nákvæmlega með því. Finnst hv. flm. ekki þarna vera notað erlent fé til þess að reyna að hafa áhrif á skoðanamyndun hér í landinu, og vilja þeir ekki taka inn í frv. t. d. bann við þessu?

Hv. þm. Steingrímur Hermannsson var að gera aths. við ræðu mína hér í þd. fyrir einum eða tveimur dögum og vildi ekki jafna saman að flokkur fengi fé erlendis frá eða einhverjir sérstakir aðilar innanlands legðu tilteknum flokkum fjármagn til. Það vildi ég ekki segja í ræðu minni, þótt það kunni að hafa misskilist. Ég var ekki endilega að segja að það væri eitt og hið sama. En ég benti á hitt, að skoðanamyndunin gæti verið jafnáhrifarík og kannske enn þá áhrifaríkari gegnum ákveðin fjárframlög vissra aðila hér í landinu, og benti á sérstök dæmi til þess.

Það kom fram í ræðu síðasta ræðumanns, að hann taldi athugavert við það, að erlendir aðilar birtu auglýsingar í íslenskum blöðum og greiddu fyrir það með erlendu fé. Þá vaknar sú spurning: Er ekki ástæða til að taka það þá inn í þetta frv.? Og það hygg ég að leiði enn rök að því, sem ég vildi benda á með nál. mínu, að þetta frv. er harla gloppótt og ekki gott að finna því stað, hvernig á að framfylgja því.

Enn langar mig að benda á eitt, — ég veit ekki annað, en það verður þá leiðrétt ef það er skakkt hjá mér, — að þegar svokallað Blaðaprent var sett upp, þá nutu blöðin, sem þar eru prentuð, ráðgjafar erlendis frá og fengu fjármagn í því formi erlendis frá. Það er kannske ekki saknæmt, þegar það eru flokkar sem njóta þess, en saknæmt ef einn flokkur nýtur þess.

Svona spurningar hljóta að koma til umhugsunar þegar frv. eins og þetta er lagt fram og ég vil segja ekki að fullgrunduðu máli. Þess vegna held ég mig enn við það, að mér fyndist réttara að málinu væri vísað til nánari ákvörðunar, einmitt í sambandi við það mál, sem hér hefur verið drepið á, að það væri hugmyndin að semja frv. að lögum um starfsemi stjórnmálaflokkanna, — fyndist eðlilegt að þessu máli yrði vísað til hæstv. ríkisstj. ásamt drögum að því frv., sem ég nefndi áðan að mun hafa verið gert, og að þessi mál yrðu öll athuguð í því sambandi nánar og betur.

Ég sagði í ræðu minni í gær eða fyrradag, að við flýtisathugun fyndist mörgum sjálfsagt og einhlítt að banna stjórnmálaflokkum að taka við og njóta fjárstuðnings erlendis frá. Ég hygg að menn hafi lesið út úr því, að í hjarta mínu tel ég ekki eðlilegt að slíkur fjárstuðningur komi. En ég vil að það sé afmarkað miklu gleggra en hér er, hvernig og hvað megi þiggja. Mér er ekki til efs, að það er ekkert síður hægt að hafa áhrif á skoðanir almennings hér í landinu með ýmiss konar öðrum hætti en þessum, sem hér er verið að fetta fingur út í, og ég er jafnsannfærður um að það geti verið alls óvíst, hvort hitt er réttara eða hvort hitt er ekki jafnhættulegt, ef við orðum það svo, að þetta komi inn á borð margra flokka heldur en eins flokks.

Ég ítreka það svo aftur, að ég tel að þetta mál þurfi betri athugunar við en enn hefur verið raunin á, og held fast við það, að deildin sjái það rétt, að vísa þessu máli til ríkisstj.