28.04.1978
Efri deild: 90. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4130 í B-deild Alþingistíðinda. (3365)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Aðeins aths. í örstuttu máli. Ég vil alls ekki lengja þessar umr. og mun ekki gera til þess neina tilraun að ganga á hv. þm. Braga Sigurjónsson um það nánar, hvaðan hann hafi þær upplýsingar að Alþb. þiggi fé erlendis frá. Út úr slíkum spurningum og svörum mundum við efalaust ekkert fá, því ég efast m. a. s. um að hv. þm. Bragi Sigurjónsson mundi fást til þess að tilgreina hjarta sitt sem heimildarmann að slíku. Hér er leikinn gamall leikur sem hefur verið leikinn býsna lengi á litlum rökum reistur.

Ástæðan fyrir því, að ég kem hér upp í ræðustólinn, er fyrst og fremst upplestur hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar á ritstjórnargrein úr Alþýðublaðinu, sem ég skildi nú sem svo, að hann læsi upp fyrir okkur áðan til dæmis um sérstaka tegund blaðamennsku, sem stunduð hefur verið nú hin síðari missirin. Ég vil vekja athygli á því, að einmitt í Dagblaðinu í dag er svar af hálfu stjórnar samvinnufélagsins Rafafls við þessari ritstjórnargrein, sem ætluð er Vilmundi Gylfasyni með réttu eða röngu. Nú hefur það áður komið fram í umr. hér á Alþ., að ýmsir menn nota þetta Ó undir ritstjórnargreinar í Alþýðublaðinu, og fer ég ekki nánar út í það, en vil aðeins geta þess, að ósárt væri mér um það þó að upp rynni sá dagur, að einn eða tveir þeirra manna skrifuðu undir slíkar ritstjórnargreinar bæði Ó og Æ, enda kynni svo að fara. Og til þess að stuðla að slíku vildi ég nú gjarnan taka undir tilmæli hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar um rannsókn á þeim sakargiftum sem þarna koma fram, ef vera mætti að höfundur ritstjórnargreinarinnar væri þess háttar „karakter“, að það væri í honum naglhald til að spýta hann upp fyrir skrif af þessu tagi.

Fyrst ég er kominn hingað upp, þá vil ég aðeins svara þeim spurningum, sem ég hef að vísu ekki heyrt hér í deildinni, en tengjast þó skrifum eins og þessum, sem nú eru komin inn í þskj. eins og þessi leiðari, sem áðan var lesinn, að vísu með fordæmingu af hv. ræðumanni, hvers vegna Þjóðviljinn og Alþb. hafi ekki tekið þátt í leik þeim sem sumir af hinum yngri forsprökkum Alþfl. nú hafa byrjað og kallast: hinn nýi heiðarleiki. Þar er skemmst til að svara, að Alþb. með málgagn sitt Þjóðviljann stendur nokkuð öðruvísi að gagnrýni sinni á opinbert misferli en þessir ungu Alþfl.- menn og þó afkomendur gamalla Alþfl.- manna. Alþb. sem slíkt eða fyrirrennarar þess áttu t. d. engan þátt í því að komast yfir fasteignir alþýðusamtakanna í Reykjavík á sínum tíma né heldur náði Þjóðviljinn sér í útgáfupeninga úr peysusjóðum Gagnfræðaskóla Austurbæjar og enn síður úr sjóðum Friðriks Jörgensens. Þessi aðferð er forn. Frá því segir í fornum ritum Rómverja, að á dögum Sesars var vasaþjófum kennt það í Rómaborg, er þeir höfðu náð til sín þeim hluta af náunganum er þeir vildu hafa á brott með sér, að hlaupa þá fram í hópnum og hrópa: Þjófur, þjófur: — Þá hljóp múgurinn af stað og hentugt var fyrir vasaþjófinn að láta sakka aftur úr, eins og kallað var, og gat þá jafnan gripið sinn hlut af borði kaupmanna um leið og hann skaust inn í hliðarstræti. Dickens segir frá því, hvernig Fagin þjálfar unga vasaþjófa í Lundúnaborg í þessari sömu íþrótt: að hrópa „þjófur, þjófur“ og skjótast síðan inn í öngstræti þegar eftirleitarmennirnir voru komnir fram fyrir hinn vísa þjóf sem hélt uppi hrópunum. Ég er ekki viss um að þetta verði nú til fremdar fyrir hina ungu skírlífu, þetta gamla bellibragð sem kunnugt er úr fornum sögum. Þegar þessir menn hlaupa nú fram í fylkingum og hrópa: „heiðarleiki, heiðarleiki“, þá hygg ég að þorrinn af mönnum geri sér grein fyir því, að þetta eru bara ungir kratar sem ætla að smeygja sér inn næsta hliðarstræti og inn á þing.