28.04.1978
Efri deild: 91. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4137 í B-deild Alþingistíðinda. (3376)

62. mál, grunnskólar

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós stuðning minn við meirihlutaálitið. Ég sé ekki annað en það liggi til þess gild rök að gera þarna á breytingu og vil nú aðeins fara um það nokkrum orðum.

Við eigum það sameiginlegt, hv. 10. landsk. þm., Axel Jónsson, og ég, að við erum báðir ánægðir með fræðsluskrifstofu okkar í Reykjaneskjördæmi og viljum hennar veg mikinn. Við erum ánægðir með fræðslustjórann og ég, sem bý nú í dreifbýlinu í Kjósarsýslu, hef fengið að heyra, hve gott starf þessi skrifstofa hafi innt af hendi og hve innilega menn séu ánægðir með að hafa fengið þessa tilbreytingu og fengið þetta starf leyst af hendi sem hreppsfélögin gjarnan sáu um áður. Hins vegar er það álit mítt, að starfhæfni fræðsluskrifstofu Reykjanesumdæmis mundi síður en svo minnka við það, þó að Hafnarfjarðarbær fengi sína eigin fræðsluskrifstofu og fræðslustjóra.

Þó að Hafnarfjarðarbær yrði sérstakt fræðsluumdæmi, þá er fræðsluskrifstofa Reykjanesumdæmis langsamlega stærsta fræðsluskrifstofan utan Reykjavíkur. Hún á að sjá um þrefaldan íbúafjölda borið saman t.d. við Austurlandskjördæmi eða Norðurland vestra eða Vestfjarðakjördæmi. Sem sagt, hún á að þjóna 13 sveitarfélögum og um 36 þús. manns. Þetta virðist vera ærið verkefni og þar sem ég er þeirrar skoðunar, að auðveldara sé að fækka þeim íbúum, sem hún á að sjá um, og halda fjármagninu, það sé auðveldara en fá aukið fjármagn og halda íbúafjöldanum óbreyttum, þá er það ein af ástæðunum og m. a. rök fyrir því að mínu mati, að þetta sé eðlilegt og gott.

Þar að auki er það nú svo, að menn vilja ógjarnan missa það sem þeir hafa haft og líkar vel við. Hafnarfjörður hafði sína sérstöku fræðsluskrifstofu. Hafnarfjörður hafði sinn sérstaka fræðslustjóra. Það er því í raun og veru ekkert óeðlilegt, þó að Hafnfirðingar vilji gjarnan halda þessu fyrirkomulagi. Þar að auki, eins og komið hefur fram hér, eru þeir ekki í landshlutasamtökunum.

Þá vil ég geta þess að lokum, að Reykjaneskjördæmi hefur nokkra sérstöðu. Það er svo margbreytilegt, stórt og fjölmennt að ekki er óeðlilegt þó að einhverjum öðrum rökum verði að beita þar en annars staðar og aðra aðferð eigi að hafa en í minni kjördæmunum. Um Reykjavík, sem er eitt kjördæmi, þó að hún sé mannfleiri, eitt sveitarfélag, gegnir allt öðru máli. En þar sem um 13 sveitarfélög er að ræða innan Reykjaneskjördæmis og 36–37 þús. íbúa, þá sýnist mér að það muni vera allstórt og gott fræðsluumdæmi fyrir þessa fræðsluskrifstofu okkar eins og hún er nú.