07.11.1977
Efri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Flm. (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Við Eggert G. Þorsteinsson flytjum frv. til laga um eignarráð yfir landinu, gögnum þess og gæðum. Er frv. á þskj. 65.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Alþfl.-þm. hér hreyfa þessu mikilvæga máli. Á undanförnum árum hefur verið gerð tilraun til þess í Sþ. og á s.l. þingi hér í Ed. að ná fram löggjöf um eignarráð á landinu. En málið hefur jafnan strandað í n. og ekki fengið afgreiðslu.

Þetta frv. er í 12. gr. og fylgir því grg. er ég mun nú lesa og nokkuð ræða hverja grein fyrir sig á eftir:

Nokkur undanfarin þing hafa þm. Alþfl. flutt þáltill. um eignarráð á landinu, gögnum þess og gæðum. Aðalinntak þeirrar till, hefur verið, að landið allt, gögn þess og gæði, sem og miðin umhverfis landið væru í raun sameign þjóðarinnar allrar og ríkisstj. ætti að láta sérfróða menn semja frv. til laga um þessa eign og þessi eignarráð til samræmis við breytta tíma, breyttan skilning þjóðarinnar á eignarráðum og ýmis ný viðhorf, m.a. vegna algerrar byltingar á sumum sviðum um gildi gagna og gæða landsins.

Þessi tillöguflutningur þm. Alþfl. hefur vakið mikla athygli og sívaxandi umr. manna á meðal, svo að alþjóð er farin að velta þessu máli fyrir sér af allt öðrum sjónarhóli en áður var.

Hér er gerð tilraun til að búa sjónarmiðum Alþfl. og annarra, er líkar skoðanir hafa og hann á þessum málum, stakk í frv: formi að lögum og þoka þannig málinu til ákveðnari umr.

Vorið 1976 var haldin á vegum Sameinuðu þjóðanna fjölmenn ráðstefna um búsetu mannsins á jörðinni. Nefndist hún HABITAT og fór fram í Vancouver í Kanada. Sóttu ráðstefnu þessa fulltrúar rúmlega 120 þjóða, en ekki sá íslenska ríkisstj. ástæðu til að senda fulltrúa og ber að harma það. Á ráðstefnu þessari voru gerðar víðtækar samþykktir sem yfir 120 þjóðir stóðu að einum rómi. M.a. er þar kafli um landið og er athyglisvert fyrir íslenska þjóð að kynnast efni hans. Er þar skemmst af að segja, að ráðstefnan var einróma sammála um stefnu varðandi landið, sem er mjög í sama anda og till. Alþfl. um eignarráð á landi, gögnum þess og gæðum, svo sem hér skal sýnt í þýðingu á hluta þessarar ályktunar.

Inngangsorð voru þessi: „Félagslegt réttlæti, endurnýjun byggðar eða borga og framþróun, sem eru skilyrði fyrir mannsæmandi húsnæði og heilsusamlegu umhverfi fólksins, nást því aðeins að landíð sé notað í þágu þjóðfélagsheildarinnar.“

Svo segir enn fremur:

1) „Landið er takmörkuð auðlind og meðferð þess á að vera háð opinberu eftirliti eða stjórn í þágu alþjóðar.“

2) „Breytingar á landnotum, sérstaklega frá landbúnaði til þéttbýlis, eiga að vera háðar opinberu eftirliti og reglum.“

3) Óverðugan hagnað, sem myndast af því að land hækkar í verði vegna breyttra landnota, vegna opinberra framkvæmda eða ákvarðana eða vegna almenns vaxtar samfélagsins, skulu opinberir aðilar (þjóðfélagið) geta endurheimt, nema aðstæður kalli á aðrar frekari aðgerðir, svo sem breytta eignaraðild eða upptöku lands.“

4)„Tímabundinni eða varanlegri þjóðareign skal beita, þegar nauðsynlegt er, til að tryggja stjórn og vernda land sem þarf fyrir vöxt þétt­ býlissvæða, einnig til framkvæmdar á almennum umbótum í borgum og sveitum til að tryggja almenna þróun hagkvæma þjóðfélaginu.“

5) „Eignarréttarformi liðins tíma ber að breyta til samræmis við síbreytilegar þarfir þjóðfélagsins, svo að það sé hagstætt þjóðfélagsheildinni.“

Af þessum tilvitnunum má ljóst vera, að þær skoðanir ryðja sér nú mjög til rúms að taka þurfi eignarráð á landi gögnum þess og gæðum, til ítarlegrar endurskoðunar og umbreytinga. Og það er aðalinntak í þessu öllu saman, að menn verða að horfast í augu við þá staðreynd, að það er óhjákvæmilegt, ef ekki á illa að fara í framtíðinni og það jafnvel innan skamms tíma.

Það er ekki viðfelldin staðreynd, að fósturjörðin sé á braskhrakningi. Svo er þó í raun í dag: Hitaveituréttindi, veiðiréttur, sumarbústaðalönd, lóðir og lendur í og við þéttbýli eru eftirsótt verðmæti, svo að engu hófi sætir í sumum tilfellum. Með frv. því, sem hér er flutt, er lagt til að þessi brask- og verðbólguhvati sé frá einstaklingum tekinn alfarið með því að þessi verðmæti séu gerð að sameign þjóðarinnar, þannig að ekki verði framar okrað á hitaveituréttindum, góðar bújarðir fari ekki úr búskaparnotum vegna gífurverðs, sumarbústaðalönd fáist á sanngjörnum kjörum fyrir þéttbýlisbúa, er þeir óska, og sveitarfélög þurfi ekki framar að kaupa sér „lífsrúm“ á okurverði né lax- og silungsveiðimenn að sæta afarkostum til slíkra veiða.

Ég mun fjalla að nokkru um hverja grein fyrir sig, þó að ætla mætti að hverjum hv. þdm. væri það nokkuð glöggt um hvað frv. fjallaði. En vegna þess að Alþb.-menn hafa einnig borið fram frv. um svipað efni hér í d. nú og eru þar með að nálgast okkur í þessu efni, þó í öðru formi sé, er rétt að þetta mál fái nú eina umr., því að það kom fram við umr. í s.l. viku, að svo virðist sem vaxandi stuðningur sé við frv. hér á Alþ. eða þá hugsun, sem liggur á bak við frv„ hjá báðum þessum flokkum. Það er hið jákvæða í þessu öllu saman, og er það mjög vel.

Í 1. gr. frv, okkar segir:

„Landið allt með gögnum þess og gæðum og miðin umhverfis það, svo sem viðtekin efnahags- og fiskveiðilögsaga hverju sinni greinir, er sameign þjóðarinnar allrar, að svo miklu leyti sem ekki er öðruvísi ákveðið í lögum þessum.“

Hér er því slegið föstu sem aðalreglu, að Landið allt, gögn þess og gæði, sem og miðin umhverfis landið séu sameign þjóðarinnar allrar Við deilum ekki um miðin. Við höfum sótt út að 200 mílum, og við deilum ekki um að það sé sameiginleg eign allrar þjóðarinnar og sameiginleg notkun eigi sér stað, þó að við höfum sett um það nokkuð stranga löggjöf hvernig við hagnýtum miðin. Það mundi margur maðurinn vilja segja: Ég hef hagnýtt þau mið, sem næst mér liggja, í áratugi, hví skulu þau af mér tekin? — Þetta hefur nú verið viðurkennt hér á Alþ. vegna nauðsynjar á því að fara vel með miðin og vernda þá fiskistofna er þar hafa verið, og mætti tilfæra mörg slík dæmi hliðstæð um landið sjálft.

2. gr. er svo hljóðandi:

„Umráðaréttur eigna þessara er í höndum Alþ., en það getur með sér stökum lögum veitt sveitarfélögum, félagssamtökum og einstaklingum tiltekinn rétt til gagna og gæða lands og miða, enda fari það ekki í bága við hag almennings.“

Hér er skilgreint að umráðaréttur þessarar sameignar sé í höndum Alþ., sem er mjög eðlilegt, nema annað sé ákveðið í sérstökum lögum og þá með sérstakri ráðstöfun. Það er vel við hæfi að Alþ. sé hæstráðandi yfir þessari sameign þjóðarinnar, landinu öllu og fiskimiðunum.

3. gr.: „Þrátt fyrir 1. gr. laga þessara skal bændum frjálst, ef og meðan þeir kjósa, að eiga jarðir til eigin búrekstrar. Bújörðum skulu fylgja þau hlunnindi, sem þeim hafa fylgt, ef einhver eru, og bændur hafa nýtt til bútekna, svo sem dúntekja, eggjataka, selver, reki, þó ekki veiðiréttur í ám eða vötnum.“

Menn hafa mjög deilt um þessa grein, og ég held að jafnvel hæstv, utanrrh, hafi ekki lagt á sig að lesa þessa gr. nægilega vel, því að hann vitnaði í þetta frv. og gerði samanburð á því við frv. Alþb.-manna og taldi að okkar frv. væri mjög miklu miður, en þeirra að því leyti betra að þeir stefndu ekki að því að taka jarðir af bændum. Nú liggur það alveg ljóst fyrir, að vilji bóndi búa og niðjar hans einnig á jörðinni, þá gerir hann það. En óski hann þess ekki, heldur að hafa not af landinu eins og hann kærir sig um, og vilji fremur að ríkið eigi landið, en hann fái að nytja það, þá er honum alveg frjálst að velja á milli. Hann sem sagt velur á milli með hvaða hætti aðili á landið. Sé hann þess fýsandi að eiga landið og afkomendur hans, þá skal svo vera, en vilji hann bregða búi og óski þess að landið verði keypt, þá skal einnig svo verða, en ekki að það fari í auðn. Ef þetta er talið slæmt fyrir bændur, þá veit ég ekki hvað forsvarsmenn bænda vilja hér á hv. Alþingi.

Mér er kunnugt um það, að jafnvel heill dalur með miklum hlunnindum er nú til sölu. Þar munu vera 11 jarðir til sölu eða nokkurn veginn verða það á næstu dögum. (Gripið fram í: Hvaða dalur er það?) Ég vil ekki upplýsa það hér. Um það verða hv. þm. að afla sér nánari gagna. En það er hægt að segja, að hann er í umsjá 1. þm. Vesturl., og hefur hann verið talinn maður sem ber hagsmuni bænda mjög fyrir brjósti. Svo hátt verð er sett á þessar jarðir að það er ofraun öllum, er landið vilja nytja með eðlilegum hætti, að kaupa. Væru hins vegar til lög eins og við erum að leggja til með frv. og það orðið að lögum, þá mundi ríkissjóður bjarga þessu landi úr braskinu og landið verða nýtt eins og verið hefur um árabil og aldir.

Menn virðast ekki enn vera búnir að átta sig á því, að hér er verulegt öryggi á ferðinni fyrir þá er þurfa að bregða búi af einhverjum orsökum og þurfa að losna við jarðir sínar með eðlilegum hætti.

Það kom fram hjá hv. 1. flm., 5. þm. Norðurl. v., er hann talaði fyrir frv. þeirra Alþb: manna, að hann vildi ekki, eins og hann orðaði það, að forsvarsmenn ríkisins ráðskuðust með eignarréttinn. Það má gefa ýmsu orð þegar þannig stendur á. En ef Alþb. er ekki fært um að meta, hvað er heppilegt fyrir þjóðarbúið og þjóðarheildina að kaupa jarðir, er kynnu að fara í eyði, og endurlána þær eða tryggja búnytjar á þeim, þá veit ég ekki hvað er rétt stefna í þessu landi. Hann gerði mikið úr því, að þeir stefndu ekki að því að landið yrði þjóðareign, heldur eign viðkomandi bænda og jafnvel sveitarfélaga, og taldi okkar frv. ganga miklu lengra, sagði að þeirra frv. væri með sáralitlum þjóðnýtingarblæ, en okkar mun meira. Ég get vel viðurkennt þetta og tel að þetta sé nokkuð merkileg yfirlýsing hjá þessum ágæta manni einmitt á 60 ára byltingarafmæli hjá þeirri þjóð er hann hefur mest metið. Er þetta eins konar ágjöf á þessum merku tímamótum, að fara um það hörðum orðum að stefna að því að ríkið sjálft skuli hafa yfirráð yfir landinu. Hann um það. Ég hef mína skoðun og við ýmsir aðrir sem stöndum að þessu frv. og þessari hugsun. En ég tel að hér eigi ekkert að vera að ráðskast með eignarrétt fram og aftur. Hér á að tryggja það að býlin og landið sé nytjað á sem heppilegastan hátt. Og það er ekkert óeðlilegt við það. Það er útúrsnúningur að pexa um að það sé verið að ráðskast með þetta fram og aftur. Við viljum að þetta stefni að ákveðnu marki, og um það er frjálst val hvort bændur kjósa svo eða ekki.

Í 4. gr. segir:

„Ríkinu skal skylt að kaupa bújarðir af bændum, ef þeir óska, og miðist kaupverð við gildandi gangverð jarða til búrekstrar milli bænda hverju sinni.

Sömuleiðis skal ríkinu skylt að kaupa af bændum hús og ræktun á jörðum, sem fara úr byggð vegna óbyggis eða afbýlis, og skal í reglugerð setja nákvæm fyrirmæli um það, hvernig slíkar eignir skuli meta til verðs.“

Við viljum efla mjög Jarðakaupasjóð, og með því mun batna hagur þeirra, er hætta vilja búskap og hafa einhverra hluta vegna ekki aðstöðu til að halda áfram á jörðum sínum. Þeirra hagur er þá tryggður með því að ríkið geti keypt jörðina. Ég get ekki séð að forráðamenn bændastéttarinnar ættu að amast við þessu.

Það eru margar jarðir sem fara í eyði árlega, því miður, vegna þess að sala er ekki tryggð á þessu landi og bóndinn flyst hingað. Eftir áratugabaráttu á búi sínu á hann e.t.v. aðeins fyrir lélegri íbúð hér í þéttbýlinu. Ef hins vegar Jarðakaupasjóður væri eðlilega sterkur og gæti keypt landið á viðeigandi verði fyrir þennan mann, sem nytjað hefur það um áratuga skeið, þá væri afkoma hans öruggari og betri, og ég trúi ekki að þetta eigi ekki vaxandi skilningi að mæta hér á hv. Alþ., að mönnum sé tryggt slíkt, er varðveiti hafa landið og aukið gildi þess um áratugi.

Sé eftirspurn ekki fyrir hendi á þessari jörð af einhverjum ástæðum hjá einstaklingi, þá hefur maðurinn ekkert val annað en að flytja af bújörð sinni án þess að geta hagnýtt það sem hann hefur starfað fyrir allt sitt líf e.t.v.

5. gr. er mikil ágreiningsgrein, það viðurkenni ég mætavel, og sýnist mjög sitt hverjum um þá grein, en hún hljóðar svo:

„Ár og vötn eru sameign þjóðarinnar, svo sem önnur gögn og gæði landsins, þar með talinn virkjunarréttur og veiðiréttur. Frjálst er þó jarðeiganda að virkja fallvatn fyrir landi sínu til eigin nota, ef það brýtur ekki í bága við almannaþarfir.

Við gildistöku laga þessara skal ríkið láta kanna, hver veiðihagur hefur verið talinn fram að hverri veiðijörð s.l. 20 ár, og greiða eiganda hennar bætur samkvæmt því fyrir veiðiréttinn. Frjálst skal þó veiðiréttareiganda, þegar lög þessi öðlast gildi, að velja á milli framangreindra bóta eða halda veiðiréttinum í allt að 20 ár eða uns sala viðkomandi veiðijarðar eða jarðhluta fer fram, ef fyrr verður, og lækkar þá bótaskylda ríkisins um 1/20 við hvert ár sem líður og fellur niður eftir 20 ár.“

Hér er kveðið afdráttarlaust á um það, að ár og vötn séu sameign. þjóðarinnar. Þetta er víðast hvar svo í heiminum, í flestum Evrópulöndum og einnig í Bandaríkjunum og Kanada. Þar hefur ríkisvaldið eignar- og umráðarétt yfir þessu og gætir hagsmuna þjóðarinnar og tryggir bændum, er þurfa á veiðirétti að halda, eðlileg afnot veiðiréttarins, og einnig er þeim, er vilja veiða, tryggður nokkur veiðiréttur. Fylgja því jafnan kaup á veiðirétti, og andvirði slíks veiðiréttar er jafnan notað til að varðveita vatnasvæðið og til fiskeldis og tryggingar því að veiðin rýrni ekki.

Ég má til að segja frá því, vegna þess að ég sá það í fyrrasumar í sjónvarpinu í Bandaríkjunum, að það var klukkutíma þáttur með frægum manni sem nú er nýlátinn, Bing Crosby söngvara, en hann kom hingað til laxveiða og var einn af aðaltalsmönnum ameríska stangveiðasambandsins, en í því eru hvorki meira né minna en 21 milljón manna. Þar var rætt við hann og sýndar margar myndir af hinum miklu vatnasvæðum í Bandaríkjunum og fjallað um þetta mál mjög ítarlega. Hann lagði á það áherslu að viðurkennt yrði áfram eins og verið hefur, að ríkisvaldið gætti þess að vatnasvæðið væri hreint, út af mjög hættulegri mengun sem var sums staðar að gera vart við sig. Sama skeði í Kanada, að þar var vatnasvæði Winnipegvatns, sem er allt að 500 km langt, orðið mjög mengað á undanförnum árum og varð að verja til þess mörgum hundruðum millj. kr. að hreinsa það. Það var ekki á færi neinna annarra aðila en ríkisvaldsins. En bændum og þeim, er nytja vildu þetta mikla vatnasvæði, var auðvitað tryggt áframhald á fullkomnum veiðirétti, sem þeir hafa haft, og öryggi gagnvart framtíðinni.

Það er nú einu sinni svo, að veiðirétturinn hefur alltaf verið viðkvæmur og viðurkenndur hér á Íslandi. Í Grágás var sagt að lax skyldi eiga frían farveg upp svo langt sem hann gæti. Þá má segja að veiðiréttur hafi verið rýrður fyrir þeim er næst sjó voru. En það var talið svo mikilvægt að fiskurinn ætti frjálsa göngu upp eftir á, að jafnvel í Grágás segir svo þegar á miðri þrettándu öld.

Við viljum að þetta sé alveg á hreinu, og við viljum að ekki sé mögulegt fyrir útlendinga, eins og nú hefur átt sér stað og á sér stað í dag á Íslandi, að þeir taki upp heilar veiðiár og endurleigi og reki raunverulega með því móti atvinnurekstur í landinu, sem í sjálfu sér er lagabrot. En þetta á sér stað á Íslandi a.m.k. varðandi eina á. Hitt er svo annað mál. að um það hefur verið deila milli veiðimanna og veiðiréttareigenda með hverjum hætti veiðileiga skuli eiga sér stað. Við skiptum okkur ekki að því við ríkjandi aðstæður en ég man þó og vil minna á það, að ég var við endurskoðun á laxveiðilöggjöfinni á sínum tíma, skipaður af þáv. landbrh. Ingólfi Jónssyni, og um þetta var mikil ráðstefna. Þá setti ég fram hugmynd um að það væri rétt af veiðiréttareigendum að hafa sameiginlega söluskrifstofu á veiðileyfum sínum. Það þótti slík fásinna þá, að tveir oddvitar veiðiréttareigenda mótmæltu svona vitleysu á ráðstefnunni með því að ganga út. En þremur árum seinna stóðu sömu menn að því að koma á sameiginlegri söluskrifstofu fyrir veiðiréttareigendur til þess að forða frá braski sem þeir urðu varir við með veiðileyfin erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Og þetta var auðvitað rétt hjá þeim, að gæta hagsmuna sinna sameiginlega þannig.

Hér er um viðkvæmt mál að ræða, það verður að viðurkenna. Það eru til lög um vissa þætti þessa máls hér á Íslandi, en það þarf að steypa þeim saman. Það er ekki frjálst að breyta farvatni ár eftir geðþótta, og eru við því ströng viðurlög, Þess vegna er, má segja, fallvatnsréttur nokkuð tryggður. En orkurétturinn, sem er metinn mjög mikils víða, er aftur deiluefni, a.m.k. sums staðar, og þarf að kveða skýrt á um það í okkar löggjöf, með hvaða hætti hann skuli vera.

6. gr.: „Alþingi getur falið viðkomandi sveitarfélögum eftir nánar settum reglum umráðarétt veiði og fiskræktar í ám og vötnum gegn sérstöku gjaldi, er gangi til aukinnar fiskræktar, sömuleiðis samtökum ábúenda aðliggjandi jarða áa og vatna, einnig sérstökum fiskræktarfélögum. Sama rétt má veita einstaklingum, sem einstæðan áhuga og árangur hafa sýnt í fiskræktarmálum.

Skylt skal ábúendum jarða að veiðiám og veiðivötnum að leyfa veiðileyfishöfum nauðsynlegan aðgang að veiðistöðum og umferð milli veiðisvæða, enda sýni veiðileyfishafar fyllstu nærfærni í umgengni sinni, svo að hvergi valdi spjöllum.“

Hér er opnuð heimild fyrir það að ráðstafa þessu til sýslufélaga eða sveitarfélaga og veiðiréttarhafa. Það er nú þegar í veiðilöggjöf skylda að stofna félög um vatnasvæði, og er það komið á víðast hvar á landinu, þó að misjafnlega hafi gengið með stofnun þessara veiðifélaga. Þó held ég að flestir hafi séð að það er í þágu flestra eða allra að veiðifélag fjalli um vatnasvæðið í heild. Um það hafa gengið ýmsar sögur, að menn hafi skyndilega byrjað að tíunda arðsemi af veiði þegar þeir sáu fram á að veiðifélag yrði stofnað. Hið sama henti í Mývatnssveit þegar menn sáu fram á að það átti allt í einu að fara að nytja vatnið með öðrum hætti en verið hafði. Þá birtust skyndilega miklar veiðitölur í skatta skýrslum, en höfðu varla sést áður að ráði hjá sumum ágætum bændum. Þannig geta viss atvik, jafnvel langsótt atvik, orsakað það, að menn telji sér hag í því að telja fram veiðirétt, þegar á að fara að gera arðskýrslu. Þetta er ekki sagt neinum manni til hnjóðs. Þetta er mannlegt viðhorf, en eðlilegt er að slík atvik endurtaki sig ekki mjög víða á landinu.

7. gr.: „Enginn getur átt né eignast óbyggðir né afréttir utan heimalanda nema ríkið sjálft.“ Sem sagt, ofan við girðingar er tvímælalaust eign þjóðarinnar. „Geti einhver við gildistöku laga þessara sannað eign sína á slíku landi, skal það eigi að síður verða ríkiseign, en gjalda ber eiganda þess verð fyrir samkvæmt gildi þeirra nota, sem hann hefur af því talið fram s.l. 20 ár.

Viðkomandi sveitarfélög og/eða upprekstrarfélög skulu halda hefðbundnum afréttarnotum sínum án endurgjalds, enda sinni þau og hefðbundnum skyldum við afréttina, en skylt skal þeim að hlíta settum reglum hverju sinni um ítölu sem og gróður- og náttúruvernd, einnig reglum um umferð og ferðafrelsi innan settra marka.“

Það kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., að ekki væri fyrir hendi fortakslaus eignarréttur býla á afrétti, og vitnaði hann í hæstaréttardóma orðum sínum til sönnunar. Ég ætla ekki að endurtaka neitt af því sem hann sagði í þessu efni. Ég er honum alveg sammála. En sem lítið dæmi vil ég aðeins segja frá vísu er varð til vegna deilu um það á Norðurlandi, hvað eitt býli ætti mikið land, er taldist stærra en Árnessýsla. Þá varð þessi vísa til:

Óralangt sig auðnin teygir,

útsýn bæði breið og víð.

En hversu langt sem augað eygir

allt er þetta Reykjahlíð.

Þeir höfðu sem sagt á takteinum gamlar sagnir um að þeir ættu land svo langt sem augað eygir, þó að pappírar væru ekki til um það, og vilja sennilega fá eitthvað vegna staðsetningar Kröflu af því að heitt er þar undir, þó að jafnvel sé um of í bili. Komi hins vegar til stórtjóns af völdum þess að hitinn leiti nú upp, þá skal ríkið blæða og blæða fljótt og vel. Þetta fer ekki saman að okkar mati. Ríkið á þetta land auðvitað eða á að eignast það fortakalaust með löggjöf og Alþ. að setja um það sérstök lög, þjóðin öll beri hag af því, sé um slíkan hag að ræða, og einnig skakkaföll, eigi einhverjar náttúruhamfarir sér stað er orsaki tjón á einkabýlum manna.

8. gr, er þannig: „Skylt er ríkinu að anna eftirspurn þéttbýlisbúa eftir leigulóðum undir sumarbústaði og láta skipuleggja slík bústaðahverfi, en falið getur það sveitarfélögum þeim, þar sem slík hverfi rísa, þessi verkefni, ef betur þykir henta.

Þurfi að taka bújörð eignarnámi vegna sumarbústaðahverfis, eða hluta bújarðar, skal bæta eiganda hennar samkv. mati með hliðsjón af þeim búnotum sem af eignarnámslandinu hafa verið.“

Hér er farið inn á þá leið að reyna að leysa þann vanda, sem víða hefur komið upp, að gefa þéttbýlisbúunum nokkurt svigrúm í sveit. Mér er kunnugt um að sumir hreppar, m. a, vegna forgöngu 6. þm. Suðurl., hafa tekið þetta skref. Er það mjög til fyrirmyndar að úthluta slíku landssvæði og skipuleggja það strax fyrir ákveðinn fjölda sumarbústaða og ganga vel um landið og gera þar snyrtilega byggð. Það er einmitt til fyrirmyndar að standa að slíku. En við teljum rétt að setja þetta í löggjöf. Ef menn vilja ekki hafa þessa grein með þá má hún falla út. Það breytir ekki heildartilgangi frv. að neinu. En þar sem þetta er vaxandi vandamál ber að fjalla um það einnig, því að á þessu verður að finnast lausn.

9. gr. fjallar um jarðhita: „Allur jarðhiti er eign ríkisins, nema á eignarjörð sé, þá er sá jarðhiti, sem er ofan 200 m dýpis, eign viðkomandi jarðeiganda. Megi ætla, að borun ríkisins eftir jarðvarma og virkjun hans valdi notatjóni á viðkomandi bújörð eða aðliggjandi bújörðum, svo sem á matjurtarækt eða upphitun húsa, ber ríkinu að bæta slíkt samkv. mati.“

Það má deila um töluna sem nefnd er þarna, hvort það eigi að vera 200 m, 50 m, 100 m eða jafnvel 500 m, en einhverja tölu verða menn að hafa sem viðmiðun. Ég get persónulega alveg fellt mig við 100 m. Hitt fer ekki fram hjá neinum, að sums staðar háttar þannig til, að svo kann að fara að ef gerð er hola dvíni hiti á býlum er haft hafa fyrir heitt vatn. Nægir t.d. að nefna eitt svæði sem er mjög viðkvæmt og ekki er búið að finna lausn á. Það er laugasvæðið í Reykjadal. Það kann að fara svo víða við aukna tækni við borun eftir heitu vatni, að vatn dvíni sem áður hefur verið, og er þá eðlilegt að ríkisvaldið bæti að fullu þeim, er verða fyrir slíku tjóni, og leiti einnig og beri kostnað af að tryggja vatn fyrir vaxandi hverfi á svæðinu. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa hér mjög skýrt ákvæði um eignarrétt á heitu vatni. Það er ekki aðeins í vissum tilfellum, sem við viljum nú fyrir fram um, að þetta er að koma upp og hefur komið upp, heldur varðandi alla framtíð. Þegar tækni er orðin svo mikil að hægt er að ná í vatn niður á allt að 3000 m dýpi, þá mun koma í ljós að mjög víða á Íslandi er hægt að ná heitu vatni. Það er því langbest að þetta liggi ljóst fyrir þegar í upphafi, með hvaða hætti skal ráðstafa hugsanlegri orku, er kemur upp við slíkar aðstæður, sé hún sótt dýpra en 200 m eigi ríkið hana, þjóðin sjálf. Ef menn vilja fara skemmra, þá skal ég mjög fúslega fallast á það, en tæplega lengra niður tel ég rétt að nokkur einstaklingur eigi. Það er engin sanngirni í því, þegar ríkið verður að sækja þennan hita, þessa orku, með fjárframlögum héðan frá Alþ., að þetta geti komið sem einhliða ávinningur til ákveðins manns er af hendingu á það landssvæði er borun fer fram á. Um þetta mætti hafa langt mál. en ég ætla ekki að ástæðulausu að gera það, en ég vitna í fyrri atvik í sambandi við hita í jörðu.

10. gr.: „Öll verðmæti í jörðu, á landi og landgrunni, sem finnast fyrir atbeina ríkisins og leyfis þess þarf til að leita eftir og vinna, eru eign ríkisins og háð valdi Alþ.“

Raunar er þetta svo sjálfsagt að um það þarf vart að fjalla. En rétt er að hafa þetta ótvírætt, svo að allir viti að hverju menn ganga ef þeir óska eftir einhverjum notum af námum eða öðru er finnast kann í jörðu og ríkið verður að leggja fram fé til að afla.

11. gr.: „Allar lóðir og lendur undir húsum og öðrum mannvirkjum skulu eign viðkomandi sveitarfélags, nema ríkisins sé áður, en þá skal Alþ. fela sveitarfélagi umráðarétt slíkra eigna. Sveitarfélög skulu bótaskyld til eigenda lóða og lendna þeirra, sem í einkaeign eru, þegar lög þessi öðlast gildi, en við ákvörðun bóta skal draga frá að 3/4 hlutum þá verðmætaaukningu, sem dómkvaddir matsmenn ætla, að viðkomandi þéttbýlissköpun eða aðrar aðgerðir samfélagsins hafi valdið.

Ekki er sveitarfélagi skylt að inna slíkar bætur af hendi til eiganda nema við missi vinnu vegna aldurs eða örorku, dauðsfalls eða burtflutning, og þá eigi fyrr en tveimur árum síðar.

Framangreind ákvæði skulu einnig gilda um lóðir og lendur undir hús og mannvirki í sveitum, önnur en lúta að búrekstri, þar með taldar lóðir undir sumarbústaði.“

Það er mikilvægt að þetta liggi á hreinu. Ég vil nefna eitt dæmi um hvað sveitarfélag geti verið betur sett, ef framsýnir menn hafa ráðið ríkjum, og vil nefna í því tilfelli Húsavík. Skólastjórinn þar á sínum tíma var svo forsjáll maður og framsýnn, að 1903 fékk hann því framgengt að Húsavikurhreppur keypti allt land og leyfði samtímis þeim mönnum, er notað höfðu landið og gert góð tún, að nýta það í 50 ár. Afkomendur viðkomandi manna fengu einnig afnot af þessu. Þetta tókst með friðsamlegum samningum og varð Húsavík til mikilla bóta. E.t.v. hefur þetta skeð annars staðar. En þetta er aðeins dæmi um það, hvað framsýnir og glöggir menn geta áorkað miklu með því að sjá að hverju stefnir. Ef svo hefði farið, eins og var víða á landinu, að örfáir einstaklingar hefðu átt landið undir þessum þéttbýliskjarna sem var að myndast, hefði það kostað hreppsfélagið þarna fyrir norðan jafnvel tugi millj., svo að ekki sé meira sagt. En þetta var leyst með frjálsum samningum og eðlilegum afnotarétt af jörðinni í lífstíð flestra manna eða allra, sem þarna áttu hlut að máli, og féll síðan undir hreppsfélagið í almannaþágu.

Herra forseti. Ég gæti haft um þetta mörg, mörg fleiri orð og langa tölu, en þess gerist varla þörf. Málið hefur oft verið rætt hér í þingsölunum, og nú liggja fyrir þessari d. tvö frv. er vilja leysa þetta mikla vandamál, þó með svolítið mismunandi hætti. En það er ekki meginatriðið. Meginatriðið er það, að þjóðin öll og við hv. alþm. gerum okkur grein fyrir því, að hér er komið að vandamáli sem verður að leysa fyrr eða síðar. Það er skoðun mín, að því fyrr sem það er gert því betur fyrir þjóðina alla. Ég vænti þess að hv. n., en ég vil vísa þessu frv. til allshn„ setjist á rökstóla og leiti umsagna um frv. og ræði málið af alvöru og frá n. komi allt um þetta mál, því að það kemst enginn hjá því, sem hér á Alþ. situr í framtíðinni að taka afstöðu til þessara mála. Það eru mjög vaxandi vandamál hér uppi. Ég nefndi eitt dæmi nú sem verður mikið úrlausnarefni fyrir ákveðið sveitarfélag, þegar innan seilingarfjarlægðar í tíma talað, er 11 jarðir eru til sölu, mjög góðar jarðir. Það verður ofviða sveitarfélögum að kaupa. Því verður Alþ. að taka á þessu mikla vandamáli og leysa þetta vandamál. Það er margslungið, og það er okkur til sóma að finna á því hæfilegan flöt, bæði varðandi okkur í heild og þá er landið þurfa að nytja og búa á jörðunum í framtíðinni.