28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4158 í B-deild Alþingistíðinda. (3408)

170. mál, Þjóðleikhús

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Herra forseti. Þetta frv. hefur verið til meðferðar á hv. Alþ. býsna lengi. Núna síðustu þingin hefur það verið flutt í Ed. og hefur legið þar. Nú hefur Ed. afgreitt þetta frv. eins og það var lagt þar fram, með lítils háttar breytingum þó sem enginn getur haft neitt við að athuga.

Við 1. umr. málsins í hv. Ed. gerði ég nokkra grein fyrir efni frv. Sú ræða er þegar komin út í alþingistíðindum og liggur fyrir og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hana hér, en leyfi mér að vísa til hennar og svo þeirra athugasemda sem þessu frv. fylgja.

Í Ed. var nokkuð rætt um og nokkur ágreiningur um skipan þjóðleikhúsráðs. Í frv. er að mestu haldið fyrra formi um þetta atriði, nema hvað áður var kjörið í þetta ráð til óákveðins tíma, en nú er það gert um ákveðið árabil, eins og venja er um slíkar þingkjörnar stjórnir eða stjórnskipaðar nefndir og stjórnir af þessu tagi.

Ég legg nú til fyrir mína parta, að frv. verði afgreitt óbreytt að þessu leyti og raunar í heild. En ég tel hins vegar að mjög komi til greina, t. d. með ákvæði í reglugerð, að gefa starfsfólki Þjóðleikhússins formlega kost á að fylgjast með og vinna að gerð árlegrar verkefnaskrár og fleiri atriðum varðandi skipulag starfa og verkstjórn í Þjóðleikhúsinu. Að sjálfsögðu verður ekki í reglugerð farið út fyrir ákvæði laga að þessu leyti, en ég mun beita mér fyrir því, að þetta verði gert að þessum lögum samþykktum. Mér finnst það mjög eðlileg meðferð máls að þessu leyti. Mér er ljóst að um þetta má að sjálfsögðu deila enda hefur það vissulega verið gert, — það hefur verið mikið rætt um skipan þessa ráðs og auðvitað fleiri slíkra ráða og stjórna.

Ég vil svo aðeins leyfa mér að vekja athygli hv. þdm. á þeirri gífurlega miklu grósku sem verið hefur í starfi þessarar stofnunar síðustu árin. Mér er kunnugt um að gestum í Þjóðleikhúsinu, á sýningum Þjóðleikhússins yfir höfuð, hefur fjölgað mjög mikið. Gestafjöldinn var fyrir örfáum árum eitthvað um 80 þús. á ári, en hefur komist upp í samtals 134 þús. á ári — og hefur komist upp í 117 þús. á stóra sviðinu. Það, sem hefur svo hleypt tölunni enn þá meira upp, er að Þjóðleikhúsið hefur eignast sitt litla svið. Þá hefur verið sýnt í skólum meira en áður, farnar leikferðir um landið og einnig farið út fyrir pollinn eins og kunnugt er. Þetta er ánægjuleg þróun og hvetur til þess fremur en hitt, að þetta lagafrv. verði samþykkt.

En það má segja það í einni setningu, að meginatriði þessa lagafrv. er annars vegar það, að viðurkenndir eru með lögum nokkrir þættir í starfsemi leikhússins, sem tekn9ir hafa verið upp frá því að lög voru sett fyrst og ekki er þar beinlínis gert ráð fyrir, og svo annars vegar að gefa aukið svigrúm til meiri umsvifa, enda þótt það sé háð fjárveitingum svo sem er um aðra starfsemi á vegum ríkisins.

Ég held að það hljóti að vera hvatning til þess að afgreiða þetta mál nú, hversu til hefur tekist um rekstur Þjóðleikhússins mörg seinni árin. Einnig held ég að allir hljóti að sjá að það er ekki fyrr en að líkum lætur, að sett séu ný lög um Þjóðleikhúsið, þar sem lögum um það hefur lítið verið breytt frá því þau voru sett í upphafi um 1950. Ég vil einnig aðeins víkja að því, nefna það, að Þjóðleikhúsið er hugsað, hannað eða hvað við viljum kalla það fyrir 1930. Það er orðin hálf öld síðan húsið var hugsað og hannað og það má heita með ólíkindum, hversu miklu hefur verið hægt að afkasta í þessu húsi fram á þennan dag, svo gífurlegar breytingar sem orðið hafa á lífsvenjum og byggðinni hér í höfuðstaðnum og landinu yfirleitt.

Það er hins vegar svo, að fyrirsjáanlegt er að húsnæðið eins og það er takmarkar nokkuð aukningu í starfi þessarar stofnunar. Það er t. d. erfitt að koma fyrir meiri tónlistarflutningi, meiri óperuflutningi innan veggja Þjóðleikhússins sjálfs, því það getur ekki orðið með öðru móti en því að ýta þá til hliðar að nokkru öðrum verkefnum og þá jafnvel að ónýttir yrðu starfskraftar úr hópi leikara. Það gefur því auga leið, að þegar við teljum okkur þess umkomna að efla starfsemi á borð við óperu, þá verðum við að snúa okkur að því að finna henni stað utan veggja leikhússins. Það er einnig orðið afar erfitt um geymslur o. fl. í þessu húsi, enda hefur verið hugað að því, að ríkið eignaðist nálægar lóðir sem eru um þessar mundir lausar og þá með gömlum húsum. En þetta er nú önnur saga og kemur ekki þessu máli við að öðru leyti en því, að ég minni á þetta í sambandi við flutning þessa frv., að þarna eru, eins og víðar á menningarsviðinu, stór verkefni framundan, mikið verk að vinna jafnskjótt og við verðum þess umkomin fjárhagslega að færa út kvíarnar að þessu leyti. Sannleikurinn er sá, að við eigum margt ágætra listamanna, t. d. söngvara, sem hafa tiltölulega takmörkuð verkefni og sumir mjög takmörkuð verkefni. E. t. v. er ekki gott við því að gera, því þjóðin er ekki fjölmennari en hún er, en að því verður þó að hyggja.

Ég vil vænta þess, þó þetta frv. komi seint fyrir þessa hv. d., að hv. þdm. sjái möguleika á því að afgreiða það áður en þingi lýkur án þess að ég auðvitað geti gefið um það nokkur fyrirmæli. Legg ég svo til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til menntmn.