28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4159 í B-deild Alþingistíðinda. (3412)

27. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Frsm. minni hl. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Ég mæli með því, að frv. þetta verði samþ. Efni þessa frv. er í samræmi við Alþjóðasamþykkt um verndun fugla, sem Íslendingar gerðust aðilar að fyrir meira en 20 árum. Frv. gengur út á það að banna marghlaðnar eða sjálfhlaðnar byssur. Í rauninni er það svo, að allir eru sammála um að þetta verði gert og svo mun kveðið á um í drögum að frv. því sem hefur nýlega verið lagt inn í menntmrn., eins og hv. frsm. meiri hl. gat um. Efnislega virðist því enginn ágreiningur vera. Ágreiningurinn virðist vera um það, hvort hlífa eigi mönnunum sem eiga byssurnar, eða hvort það eigi að hlífa rjúpunni.

Í drögum þeim að frv., sem liggja nú í rn., er gert ráð fyrir 10 ára aðlögunartíma og því borið við, að þessi skotvopn séu mjög dýr. Nú er það svo einnig, að við vitum ekkert hvort þetta frv. verður samþ. eða þá hvenær. Þessi 10 ár, sem eru í þeim frv.-drögum, geta því orðið að 15 ef ekki 20.

Mér er tjáð af kunnugum, þeim sem þekkja byssur, — ég viðurkenni fúslega að ég veit ekkert um byssur, — að það sé hægt með mjög litlum tilkostnaði að breyta marghlöðnum eða sjálfhlöðnum byssum til samræmis við það sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Skoðun mín er sú, að það sé þeim mönnum, sem eiga þessar byssur, engin vorkunn að gangast undir alþjóðasamþykkt sem Íslendingar gerðust aðilar að fyrir meira en tveimur áratugum, þegar þar að auki er viðurkennt að slíkt sé nauðsynlegt til fuglaverndunar. — Ég legg því til, að frv. verði samþ.