28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4174 í B-deild Alþingistíðinda. (3421)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Herra forseti. Það hefur áður komið fram í umr. um þetta mál, að það þætti nokkuð seint á ferðinni hér og að hæpið væri að það gæti fengið þá afgreiðslu sem í rauninni er þörf á um jafnveigamikið mál eins og hér er um að ræða, enda hefur það nú komið í ljós að mínum dómi, að afgreiðsla málsins í þeirri n., sem hefur haft með það að gera, hefur ekki orðið á þann hátt sem ég tel að hefði verið nauðsynlegt. Það hefur að vísu verið í það vitnað, að frv, um sama efni hafi legið fyrir hv. Alþ. fyrir rétt rúmu ári og það hafi hlotið hér allrækilega meðferð og ekki í rauninni aðeins innan þings, heldar einnig utan þings, og það er rétt. Um það mál urðu miklar umr., og eins og kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn., þá bárust í það skipti til n. umsagnir frá hvorki meira né minna en 20 aðilum og höfðu flestir býsna margt við það frv. að athuga. Nú hins vegar bregður svo við, að það liggja ekki fyrir neinar umsagnir, Enginn af þessum 20 aðilum hefur nú getað gefið sig fram, engar umsagnir liggja fyrir og þarf í rauninni engan að undra það, því að menn hafa hreinlega ekki haft tíma til þess að vinna í þessu flókna máli og gera sér grein fyrir því og koma þannig á framfæri aths.

Nú er því ekki þannig varið, að hér sé um að ræða sama frv. og menn voru búnir að gera aths. við fyrir ári. Hér er á ferðinni allt annað frv. Það er í grundvallaratriðum breytt frá fyrra frv. Hér koma inn að mínum dómi veigamestu breytingarnar á gildandi skattalögum sem er að finna í þessu frv. og eru í rauninni nýjar og voru ekki ræddar nema þá að mjög litlu leyti í sambandi við fyrra frv. Ég tel því að það hafi ekki verið unnið að afgreiðslu þessa máls á æskilegan hátt, og ég er satt að segja afar hræddur um að það eigi eftir að fara með þetta frv. eða þessi lög, þegar þetta verður að lögum, ekki ósvipað og gerst hefur stundum áður hjá okkur, að lög verða sett, þau taka ekki gildi strax, því að þessum lögum er ekki ætlað að taka gildi strax, og þykir þá þurfa að taka málið upp aftur og breyta því og jafnvel fer svo, að lög, sem hafa verið sett varðandi skattamál, komi aldrei til framkvæmda. Þetta eru auðvitað ekki æskileg vinnubrögð. Slíkt hefur gerst hjá okkur áður.

Ég verð að játa að eftir að hafa tekið þátt í umr. í n. um málið og átt þar kost á að ræða þetta mál eða einstök atriði þess við þá sérfræðinga sem sömdu frv., þá eru mjög veigamikil atriði þess enn þá óljós fyrir mér, og ég verð að leggja á það áherslu, að svör sérfræðinganna um hin þýðingarmestu atriði frv. voru þannig, að það væri ekki hægt að svara því, hvað út úr slíkum breytingum kæmi, og vík ég kannske nokkru nánar að því síðar.

Hér er um að ræða endurskoðun á okkar tekju- og eignarskattslöggjöf, og hér er um að ræða breytingar sem eru í ýmsum atriðum grundvallarbreytingar á löggjöfinni. Það er ekki aðeins að verið sé að breyta nokkuð eða fylla upp í fyrri ákvæði og gera þau skýrari og halda sig þar við þær grundvallarreglur sem þar giltu, heldur er hér verið að fara inn á nýja braut. Það er verið að taka upp alveg nýjan skattahátt í ýmsum greinum og af þeim ástæðum hefði auðvitað þurft að fjalla um þetta mál á lengri tíma, þurft hefði að gefast rýmri tími. En mér sýnist að það sé ákveðið af hæstv. ríkisstj. að koma frv. fram, gera það að lögum, þó að það sé út af fyrir sig ekki aðkallandi nauðsyn, því að það er eitt meginatriðið í frv., að ekki er gert ráð fyrir að lögin taki gildi fyrr en 1. jan. 1979 og þó þannig, að þau eigi í rauninni ekki að koma til framkvæmda sem skattlagningargrundvöllur fyrr en með árinu 1980. Því tel ég að það hafi verið með öllu óþarfi, eins og málin liggja nú fyrir, að rasa að þessari lagasetningu og það hefði að skaðlausu mátt bíða.

Það er í rauninni aðeins í einu tilviki sem það hefði getað haft praktíska þýðingu að gera þetta frv. að lögum nú á þessu þingi. Það er ef menn gerðu ráð fyrir að framkvæmd á staðgreiðslu skatta tæki gildi um næstu áramót. En nú er augljóst að ríkisstj. ætlar sér ekki að leiða í lög frv. sem lagt hefur verið fram um staðgreiðslu skatta, það á að bíða, enda sjá allir að það frv. er lítið unnið, og það þarf að ræða við marga aðila, eins og t. d. sveitarstjórnarmenn sem koma inn í þá skattheimtu. Það verður þá að takast að gera það að lögum og ná samkomulagi við alla aðila, sem þar eiga hlut að máli, á tímabilinu frá næsta hausti, væntanlega frá októbermánuði, og fram að jólum, á þeim stutta tíma sem fjárlagaafgreiðsla stendur hér yfir. Ég held að það verði að teljast sáralitlar líkur til þess, að lög um staðgreiðslu skatta verði sett á næsta hausti, það vinnist tími til þess, þannig að þau ættu að geta komið til framkvæmda strax í ársbyrjun 1979. Af þessum ástæðum sýnist mér, að það hefði verið full ástæða til þess að láta þetta frv. liggja og fá ekki afgreiðslu nú á þessu þingi, láta það fá eðlilegri skoðun og betri undirbúning og síðan hefði það þá verið gert að lögum á næsta hausti eða næsta vetri. Sá háttur, sem hæstv. ríkisstj. vill hafa á þessum málum, leiðir til þess, að hér verða að mínum dómi sett lög sem hafa ekki fengið æskilega athugun.

En ég skal svo víkja nokkru nánar að þeim breytingum sem ég tel vera mikilvægastar og segja í sjálfu sér mest og flest í þessu frv. Ég hef gert grein fyrir því í því nál. sem ég skila um frv. og er að finna á þskj. 765, að ég tel að það séu fimm atriði sem megi telja stærst og þýðingarmest í breytingum á gildandi skattalögum og felast í þessu frv. Það eru auðvitað margar aðrar minni háttar breytingar að finna í frv. frá gildandi skattalögum, en það eru fyrst og fremst fimm atriði sem að mínum dómi gnæfa hér upp úr.

Í fyrsta lagi er í þessu frv. að finna ákvæði um skattlagningu á söluhagnaði eigna. Hér er um nýtt skattlagningarform að ræða, gjörbreytingu á því sem áður hefur hér gilt. Nú vil ég strax lýsa því yfir, að ég er ekki alfarið á móti því að taka upp skattlagningu á þeim hagnaði sem fram kemur í sambandi við sölu á eignum. Ég tel að skattlagningin á slíkum hagnaði komi fyllilega til greina og geti verið réttmætur. En ég geri mér grein fyrir því, að þar er mjög misjafnlega ástatt, og ég hélt satt að segja að þegar Alþ. ákveður að leiða í lög ákvæði um þetta nýja skattsvið, þá vildu menn gjarnan vita hvað í þessum reglum felst, hvernig þetta kemur út í reyndinni og þá til breytinga frá því sem verið hefur. En við vitum, að meginreglurnar í skattalögum okkar hafa verið þær, að sala á eignum hefur ekki verið talin gefa af sér tekjur til skattlagningar hafi eignin verið í eigu viðkomandi aðila einhvern tiltekinn tíma. Þetta hefur verið meginatriði sem löggjöf okkar hefur byggst á. Nú á hins vegar að taka upp reglu sem segir fortakslaust: Allur söluhagnaður, sem fram kemur við sölu á eignum, telst til tekna á því ári sem salan fer fram. Það skal vera meginregla. Og þó eru sett í kringum þetta mjög flókin atriði. En segja má þó, eftir því sem ég sé þarna helst og hef gert mér grein fyrir í sambandi við þessi mál, að meginreglan sé sú, að eign er fyrst tekin á því stofnverði sem hún hefur verið á, kostnaðarverði hennar eða upphaflegu verði eignarinnar. Síðan skal framreikna þetta stofnverð til nýs verðlags með verðlagsvísitölu eða byggingarvísitölu frá upphaflega verðtímanum og til þess tíma að eignin er seld. Hún skal hækka eftir verðstuðli. Það sama skal einnig gera í sambandi við fyrningar sem átt hafa sér stað á eigninni, sé um fyrnanlega eign að ræða, að fyrningarnar skulu einnig færðar upp eftir verðstuðli. Sá mismunur, sem síðan kemur fram á söluverði eignarinnar og þeim mismun, sem er á milli þessa tvenns, stofnverðs og afskriftaverðs, telst söluhagnaður, nema í þeim tilfeilum þar sem viðbótarákvæði koma inn sem geta breytt þessu, eins og getur komið til í vissum tilvikum.

Þegar um það er spurt, hvort þeir, sem samið hafa þetta frv., hafi gert sér grein fyrir því eða skattayfirvöld hafi gert sér grein fyrir því, hvað telja megi líklegan skatt sem gæti fallið til samkv. þessum reglum, þá er svarið einfaldlega það, að þeir, sem samið hafa frv., og skattayfirvöld landsins segja: Við treystum okkur ekki til að segja neitt til um það. Hér er því verið að setja upp dæmi sem menn vita í rauninni alls ekki hvað kemur út úr. Mér þykir þó alveg einsýnt að í þessum dæmum kemur það út, að í ýmsum tilfellum geti hér orðið um mjög verulega skattlagningu að ræða. Að vísu er það svo, að það eru nokkrir möguleikar fyrir aðila til þess að fresta þessari skattgreiðslu. Ég nefni aðeins sem dæmi til skýringar í þessum efnum, að ef við hugsum okkur að aðili, sem á skip og selur skipið eftir nokkurra ára eigu og þá kemur fram samkvæmt þessari meginreglu, sem ég hef verið að tala um, verulegur hagnaður, gæti verið jafnvel nokkur hundruð millj. kr., eins og eru mörg dæmi til um í sambandi við sölu á skipum, þá á þessi aðili kost á því að draga þennan mismun, sem fram kemur og telst þarna vera söluhagnaður, frá nýju stofnverði ef hann kaupir annað skip, en þá lækkar um leið fyrningargrunnur hinnar nýju eignar og aðilinn fær þá ekki að fyrna þá eign af réttu stofnverði. Í rauninni má segja að í þessu tilfelli fái þessi aðili aðeins tækifæri til þess með þessum hætti að fresta skattgreiðslu af þessum söluhagnaði, því að það er augljóst mál, að auk þess sem þetta mundi draga úr fyrningarmöguleikum hans, þá kemur þarna fram enn aukinn gróði í því tilfelli þegar þessi eign yrði seld.

Ég hef nefnt þetta sem dæmi aðeins til þess að vekja athygli á því, að samkv. þessum kafla, samkv. þessu meginatriði, sem er að finna í þessu nýja skattafrv., er verið að fara inn á nýtt skattasvið sem alls ekki liggur skýrt fyrir hvernig muni koma út í framkvæmd í mörgum tilvíkum, því að undir þetta falla allar eignarsölur, ekki aðeins á skipum og mannvirkjum, heldur á hvers konar eignum sem ganga til sölu, hversu tengi sem aðili er búinn að eiga eignina, að söluhagnaður samkv. þessum reglum er skattskyldur, t. d. í því tilviki að skattaðili hefur átt vél eða tæki, er búinn að eiga þessa vél eða tæki í 5 eða 6 ár, þá ber að færa verð þessarar vélar eða tækis upp sem nemur hækkun byggingarvísitölu á þessum 5 eða 6 árum, og einnig verður reiknaður út söluhagnaður samkv. því af þessari seldu eign. Ég segi það, að ég get vel fallist á að það geti verið réttmætt í mörgum tilvikum að taka upp þessa skattlagningu. Ég þykist þekkja dæmi þess, að aðilar geti farið með myndarlegan hagnað út úr eignasölu sem ég get ekki séð annað en þeir mættu gjarnan borga skatt af eins og öðru. En það, sem ég vil vekja athygli á í þessum efnum, er það, að það liggur engan veginn ljóst fyrir hér, ekki fyrir þeim sem hafa unnið í n, ekki a. m. k. fyrir mér, og hef ég reynt að leggja mig í framkróka um það að átta mig á þessum reglum, — það liggur ekki ljóst fyrir mér, hvernig þetta kæmi út í reynd í ýmsum breytilegum tilvikum, nema mér er þó ljóst að hér hlýtur að verða um að ræða allverulega skattlagningu í ýmsum tilfellum, og eins og ég segi: skattayfirvöld og sérfræðingar þeir, sem standa að frv., treysta sér ekki til að gera neina áætlun um það, hvað þessi nýja skattlagning mundi gefa á ári. Það hefur verið það svar sem ég hef fengið. En ég mun ekki fyrir mitt leyti greiða heldur atkv. gegn þessu. En vegna þess að mér þykir málið ekki upplýst nægilega vel, þá treysti ég mér ekki heldur til þess að greiða atkv. með þessu ákvæði frv. fremur en ýmsum öðrum sem ég tel ekki nægilega upplýst.

Þá vík ég að öðru atriði sem þetta frv. fjallar um og þar sem komið er inn á grundvallarbreytingu frá því sem hefur verið í gildandi lögum, og það eru nýjar fyrningarreglur. Samkv. frv. á að gerbylta þeim reglum sem í gildi hafa verið varðandi fyrningar eigna. Við vitum að það hafa staðið alllengi og allverulegar deilur um það, hvort þær fyrningarreglur, sem í gildi hafa verið, væru sanngjarnar eða ekki. Þegar á heildina er litið, þá tel ég að þær reglur, sem í gildi hafa verið, hafi yfirleitt verið mjög rúmar og veitt aðilum drjúgan rétt til undanskots á skattgreiðslu vegna þess að fyrningarnar hafa verið tiltölulega háar. Þó er mér ljóst, að þessar fyrningarreglur hafa komið mjög misjafnlega út. Sennilega er hægt að nefna ýmis atriði þar sem leyfðar fyrningar geta ekki talist of háar, en í öðrum tilvikum er, held ég, auðvelt að sýna fram á það, að heimilaðar fyrningar hafa verið hærri en þörf hefur verið á. En við þessar meginreglur varðandi fyrningar höfum við búið í langan tíma í okkar skattalögum. Þar hefur aðeins verið um að ræða að breyta fyrningarupphæðinni eða prósentunni nokkuð frá tíma til tíma. En nú er lagt til í þessu frv. að taka upp algerlega nýja reglu og gerbreyta fyrningarprósentum. Nú er gert ráð fyrir því, að fyrning verði jafnan miðuð við uppfærsluverð á eignum þegar búið er að framreikna verð á eigninni til nútímaverðs, þ. e. a. s. að hækka gamla stofnverðið sem nemur byggingarvísitöluhækkun frá því að eignin varð til, og síðan skuli beita þeim fyrningarreglum sem rætt er um í þessu frv. Mér sýnist líka augljóst að þessar fyrningarreglur séu svo gerbreyttar frá því sem verið hefur, að afar erfitt verði að segja um það, hvort í frv. felist auknar fyrningar, þegar litið er á atvinnureksturinn sem heild, eða minnkandi fyrningar. Við þessu hafa ekki heldur fengist nein svör. Sérfræðingarnir, sem unnið hafa að þessu frv., og skattayfirvöld svara því þannig, að þau treysti sér ekki til að svara þessu, hér sé um slíka grundvallarbreytingu að ræða, að það sé ekki hægt að segja til um það, hvort hér kynni að vera um aukna fyrningarmöguleika að ræða hjá einstökum aðilum eða um minni hjá öðrum. Mér þykir þó alveg sýnt að sumir aðilar munu fá möguleika til þess að fyrna eignir sínar eitthvað meira en verið hefur, en aðrir líka mun minna. Það sýnist mér alveg augljóst.

Þær fyrningarreglur, sem settar eru upp í þessu frv., verða að teljast afar flóknar, og ég held að þeir, sem búið hafa þær til, viðurkenni sjálfir að þær séu svo flóknar að það þurfi býsna lærða og leikna menn til þess að fylgjast með því, að fyrningar fari fram með réttum hætti samkv. þessum nýju reglum. En hér er ekki aðeins um það að ræða, að fyrningin eigi að reiknast af nýju framreiknuðu verði, heldur á einnig að taka tillit til þess, hvort lán hvíli á eigninni, og hefur það þá sín áhrif á fyrninguna. Til þess að gera þetta aðeins ljósara, ef ég gæti gert það, þá vel ég það atriði sem ég þekki best og hef þó fengið hvað skástar upplýsingar um, þá vil ég tilnefna reglur um fyrningar á fiskiskipi.

Við vitum að fiskiskip hafa lengi haft rétt til þess í okkar skattalögum að njóta mikilla fyrningarafskrifta eins og öll skip. Fyrningarafskriftir hafa þar verið um og yfir 20%, þegar allir fyrningarmöguleikar eru notaðir. Það er auðvitað enginn vafi á því, að þessar háu fyrningar afskriftir af skipum hafa verið ákveðin skattafríðindi til þeirra sem þarna áttu hlut að máli, og um það mátti að sjálfsögðu deila, hvort ætti að leyfa svona háar fyrningarafskriftir til þessara aðila, hvort þær ætti að lækka eða ekki. En það hefði einnig mátt deila um það í ýmsum öðrum greinum varðandi annan rekstur eða aðrar eignir, hvort fyrningarreglur þar væru ekki óþarflega rúmar.

En við skulum virða aðeins fyrir okkur hvernig þetta mundi koma út, t. d. með fyrningar af fiskiskipi. Þar gildir þessi regla, að stofnverðið, upphaflegt kaupverð, er lagt til grundvallar. Síðan á að framreikna verð skipsins eftir aldri og hækka það í verði samkv. byggingarvísitölu, ekki neinni byggingarvísitölu skipa, heldur byggingarvísitölu okkar í sambandi við mannvirki. Þá vísitölu á að nota í sambandi við uppfærslu á verði skipsins. Og síðan verður beitt afskriftum samkv. frv. á eignina þannig uppfærða, þó með ákveðnum aths. eða frádrætti sem þarna kemur inn samkv. viðbótarákvæðum í frv. En þá er þessi afskrift t. d. af skipi ekki lengur 20% eða yfir 20%, eins og hún er nú, þá er hún færð samkv. tillögum meiri hl. n. í 10%, — er í frv. sjálfu 8%, en er nú lagt til að fara með fyrninguna af þessu uppfærða verði í 10%. En svo getur komið til ákveðin lækkun á þessari fyrningu samkv. ákvæðum í frv., samkv. 44. gr. frv. Þar er kafli sem heitir: Takmörkun á fyrningum vegna skulda. Og þar eru settar upp mjög flóknar reglur, sem leiða þó greinilega til lækkunar á fyrningum frá þessari grunnfyrningu sem hér er rætt um, þ. e. 10% af uppfærðu stofnverði. Og raunverulega er það svo, að sá mótreikningur fyrninga, sem rætt er um í 41. gr., fer í sífellu vaxandi í verðlagsþróun eins og þeirri sem við höfum búið við, og það kemur að því tiltölulega fljótlega í flestum tilfellum, að sá mótreikningur verður eins hár eða hærri en fyrningunni nemur, og þá á að taka þann mismun og færa hann upp sem tekjur hjá viðkomandi aðilum.

Ég tel að það sé enginn vafi á því, að þessar nýju reglur varðandi fyrningarrétt mundu koma þannig út hjá mjög mörgum og ég hygg öllum þeim sem hafa með skiparekstur að gera, að hér væri um minnkandi fyrningar að ræða frá því sem verið hefur og það svo að verulegu skipti, og þó sérstaklega mundi þetta verða í vissum tilvikum eftir því hvernig stendur á hjá viðkomandi aðila. Ég tel fyrir mitt leyti að það sé ekki heldur viðunandi að taka upp breytingu eins og þessa, jafnvel þó að það kunni að vera í henni viss sanngirni, að taka upp svona breytta reglu, án þess að það liggi miklu skýrar fyrir en nú liggur fyrir, hvað þessi breyting þýðir í reyndinni. Ég tel t. d. fyrir mitt leyti mjög mikilvægt, þegar er verið að ræða um skattamálin í heild, að vita um það, hvort líklegt megi telja að þær nýju fyrningarreglur, sem á að taka upp þýði að það eigi að hækka fyrningarnar almennt séð eða hvort stefnt er að lækkun þeirra. Ég tel að það hefði þurft að stefna að því að lækka fyrningarnar þegar á heildina er lítið, en kannske nokkuð breytilega á milli aðila, en mér býður í grun að þessar reglur mundu þýða frekar hækkun á fyrningum hjá fjöldamörgum aðilum, en þær mundu sennilega þýða allverulega fyrningarskerðingu t. d. hjá fiskiskipum. Ég held að það sé enginn vafi á því.

Ég vil segja svipað um þetta atriði, um hinar nýju fyrningarreglur, eins og varðandi skattlagningu á söluhagnaði á eignum. Ég treysti mér ekki til þess að standa gegn því, að þessar nýju reglur séu teknar upp. Ég hef ekki aðstöðu til þess að dæma þær, þannig að ég vilji segja að ég sé andvígur þeirri meginstefnu sem í reglunni felst. En ég treysti mér ekki heldur til að samþykkja þessar nýju reglur með þeim upplýsingum sem fyrir liggja. Ég tel að þetta þurfi að liggja fyrir í dæmum miklu skýrar en fyrir liggur. Ég er hræddur um það, að þegar þessar reglur kæmu út í lífið og yrði farið að framkvæma fyrningar samkv. þessum nýju lögum, þá rækju ýmsir aðilar sig á miklar breytingar sem þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir. Af því er afstaða mín til þessa meginatriðis í frv. sú sama og ég greindi áðan í sambandi við skattlagningu á söluhagnaði. Þessar nýju fyrningarreglur eru svo flóknar að þær verða að teljast mjög óaðgengilegar, og satt að segja verður fyrirkvíðanlegt fyrir menn að eiga í því að þurfa að halda bókhald í framtíðinni yfir slíkar fyrningarreglur. Ég hygg að þeir, sem þurfa að nota þessar reglur í framtíðinni, þurfi flestir að ráða til sín sérfræðing í þessum lögum til þess að ráða við þessar nýju fyrningarreglur, ef þeir eiga að komast út úr því með skaplegum hætti. Af þessum ástæðum tek ég sem sagt ekki afstöðu til þessara nýju ákvæða. Ég mun ekki greiða atkv. um þennan kafla, hvorki með né móti. Ég hefði talið eðlilegast að málið biði frekari athugunar.

Ég hef þá vikið að tveimur grundvallarbreytingum sem er að finna í þessu frv., og ég skal þá víkja að þriðju breytingunni sem ég tel vera nokkuð stóra, en hún snertir skattlagningu á eignum. Mér sýnist líka að skattlagning á eignum muni breytast mjög verulega frá því sem verið hefur og líklega leiða breytingarnar til nokkurrar hækkunar á eignarskatti. Ég er því út af fyrir sig samþykkur, að eignarskatturinn sé hækkaður. Ég tel að það sé rétt stefna út af fyrir sig að hækka hann nokkuð. En það má segja svipað um þetta atriði og hin, að það liggur auðvitað ekki heldur ljóst fyrir hvernig fer með þennan eignarskatt eftir allan þann framreikning og tilbakareikning sem settur er upp í þessu frv. varðandi eignir. En þó sýnist mér allt benda til þess, að eignarskattur mundi hækka frá því sem hann hefur verið almennt séð eða hjá þeim sem eiga einhverjar teljandi eignir.

Þá er fjórða meginbreytingin sem er að finna í þessu frv. Hún snertir sérsköttun hjóna. Þetta atriði hefur verið allmikið rætt og var sérstaklega mikið rætt í sambandi við fyrra frv. sem var hér á ferðinni fyrir rúmu ári. Ég tel að ákvæði um þetta atriði séu til bóta. Ég álít, að það sé stefnt í rétta átt með því sem ákveðið er í frv. varðandi þessar sérsköttunarreglur. En hitt vil ég líka að komi skýrt fram, af því að mér hefur fundist að það lægi nokkuð í láginni, að ég held að það sé enginn vafi á því, að þessar nýju reglur, sem hér eru settar upp varðandi skattlagningu hjóna, munu þýða það að allur þorrinn af konum, sem unnið hafa fyrir sjálfstæðum tekjum og eru í nokkurn veginn fullkomnum störfum, skattur á þeim konum og slíkum hjónum, þar sem svo hefur staðið á, mun hækka frá því sem verið hefur um leið og 50% reglan er afnumin.

Það hafa verið lagðar fram nokkrar upplýsingar um þetta atriði, og það er ekkert auðvelt heldur að átta sig á því í skyndi. Ég skal nefna hér aðeins nokkur dæmi af þeim sem fram hafa komið, og geta þá hv. alþm. kannske áttað sig á því sjálfir. Við höfum fengið samanburð á skattlagningu hjóna, barnlausra hjóna, þar sem gert er ráð fyrir því að tekjur eiginkonunnar séu 1 millj. kr. miðað við árið 1978, miðað við yfirstandandi ár, og tekjur eiginmannsins 2.5 millj., og þá er sagt að heildargjaldagreiðsla þessara hjóna mundi vera samkv. frv. 351 þús. kr. eða rétt rúmlega 10%, en samkv. gildandi lögum mundi skattlagning þessara hjóna samanlagt vera í kringum 350 þús. eða nokkurn veginn sú sama. Þetta sem sagt er í því tilfelli þegar eiginkonan hafði í kringum eina millj. í tekjur og naut 50% afsláttarins á slíkri upphæð og eiginmaðurinn hafði 2.5 millj, í tekjur.

Ef dæmið er aftur skoðað þannig, hvað gerist í þessu tilfelli ef eiginkonan hefði 1.5 millj. kr. í tekjur og eiginmaðurinn 2.5 millj. í tekjur á árinu 1978, miðað við það verðlag, þá kemur í ljós að heildarskattlagning hjónanna yrði nokkru hærri samkv. þessu frv. en samkv. gildandi lögum, eða 475 þús. á móti 422 þús. M. ö. o.: í slíku almennu tilfelli eins og því, ef eiginkonan hefur haft tekjur upp á 1.5 millj. á þessu árí, árinu 1978, og eiginmaðurinn 2.5 millj., þá er strax komið í skattahækkun og það gerir auðvitað afnám 50% reglunnar.

Nú hygg ég að eins og þátttaka kvenna er orðin mikil í atvinnulífinu, þá verði að telja að í mjög mörgum tilfetlum séu tekjur eiginkonu orðnar, miðað við verðlag á þessu ári, komnar yfir 1.5 millj. — þykir ekki mjög hátt. Og þó að maður áætli þá að eiginmaðurinn hafi, miðað við að konan sé í lægri launaskala, í kringum 2.5 millj., þá sýnist það ekki heldur mikið miðað við verðlag þessa árs, og þá er eins og ég segi komið í nokkra skattahækkun.

Ég vil því vekja athygli á því, að þessi sérsköttunarregla, sem hér er verið að taka upp og ég fellst á að meginstefnu, ég tel að þar sé stefnt inn á rétta braut og það eigi að taka hana upp, en eins og frv. er að gerð, þá mun þetta þýða í reynd, að þar sem eiginkonan hefur unnið nokkurn veginn heilt starf úti, þá verði hér um skattahækkun hjónanna að ræða í langflestum tilvikum. Ég hef sagt það nokkrum sinnum í umr. um þetta mál að ég tel að það hefði verið eðlilegra að leggja niður 50% regluna — frádráttarregluna í áföngum, t. d. í tveimur til þremur áföngum, en slá því hins vegar föstu í lagasetningu, að reglan eigi að falla út. En til þess að þarna myndist ekki óeðlilegt þrep til skattahækkunar, sem gæti haft áhrif á það að giftar konur tækju minni þátt í tekjuöflun en þær hafa gert, þá tel ég að það hefði verið eðlilegra að hverfa að því að fella hana niður í áföngum, og ekki í einu lagi. Ég hef ekki flutt um þetta brtt., en gert hins vegar ráð fyrir því í mínum till. að breyta nokkuð skattstiga og vissum frádráttarliðum, þannig að það kæmi þarna eitthvað á móti, En ég tel eðlilegt að vakin sé athygli á þessu, þannig að það sé ekki farið aftan að neinum með það, að um leið og þessi sérsköttun er tekin upp, sem er að finna í frv., þá er tvímælalaust verið að fara inn á þá braut að hækka sameiginlega skattgreiðslu hjóna þegar konan vinnur fyrir nokkurn veginn fullkomnum tekjum.

Fimmta meginatriðið, sem ég tel að felist í breytingum í þessu frv., eru reglur um skattlagningu launa við eigin atvinnurekstur. Það á að gera tilraun til þess að skilja á milli persónutekna þeirra einstaklinga, sem hafa með höndum atvinnurekstur og reka hann undir eigin nafni, og rekstrartekna og rekstrargjalda atvinnurekstrarins sem einstaklingurinn hefur með höndum. Við vitum að það hefur verið mikið fundið að þeim reglum sem gilda hjá okkur nú í skattalögum varðandi þetta atriði. Ýmsir einstaklingar, sem hafa með þöndum atvinnurekstur og reka hann í eigin nafni, koma út á skattskýrslum með litlar eða engar persónutekjur af því að persónutekjurnar hafa horfið í afskriftir fyrirtækisins eða hallarekstur fyrirtækisins. Ég er fyrir mitt leyti samþykkur þeirri stefnu sem fram kemur í frv. varðandi þetta atriði. Ég álit að það eigi að reyna að skilja þarna á milli, þó að um einstaklingsrekstur sé að ræða, alveg eins og gert er þegar um er að ræða félagsrekstur, t. d. hlutafélagsrekstur, þá hefur afkoma hlutafélagsins ekki bein áhrif á persónutekjur þeirra aðila sem eiga hlutafélagið. Ég álít að í frv. sé stefnt í rétta átt varðandi þetta atriði, en hef alltaf viðurkennt og viðurkenni enn, að þetta atriði er mjög erfitt í framkvæmd. Það verður erfitt að setja reglur varðandi þessar persónutekjur, þannig að ekki verði miklar deilur um. En ég held samt sem áður að það eigi að setja ákvæði í skattalög svipuð þeim sem er að finna í þessu frv. varðandi þetta atriði og skattayfirvöld verði að finna eðlilega leið til þess að skilja þarna á milli og áætla hinum ýmsu aðilum eðlilegar persónutekjur, hvað sem líður afkomu þess fyrirtækis eða þess rekstrar sem þeir hafa haft með höndum.

Ég hef talið þetta fimmtu meginbreytinguna sem ég tel vera að finna í þessu frv. Þessar breytingar, sem ég hef nú gert grein fyrir, eru að mínum dómi aðalbreytingarnar sem er að finna í þessu frv. Vissulega er hér um aðrar breytingar að ræða sem ýmsir munu reka sig á þegar til framkvæmdanna kemur, eins og breytingar varðandi framtalsskyldu á sparifé sem yfirleitt hefur ekki verið talið framtalsskylt, og svo eru felldir niður margvíslegir frádráttarliðir sem ýmsir aðilar hafa notið — þeir eru felldir niður í því formi sem þeir hafa verið. Ég tel að þessar breytingar verði að telja minni háttar, og hef ekki miklar aths. við þær að gera.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að arður af hlutafjáreign sé frádráttarbær til skatts. Þarna er um að ræða nýtt atriði í okkar skattalögum, — atriði sem hefur komið til umr. alloft áður, en ekki fengist tekið í skattalög. Ég er alveg á móti skattfríðindum í sambandi við þann hagnað sem til fellur á þennan hátt. Ég tel það ekki réttmætt. Það er mín skoðun, að þeir sem fá arð af því að þeir eiga hlutabréf í hlutafélögum, fá arð af þeim hlutabréfum, það sé jafnréttmætt að þeir greiði einhvern skatt af þessum tekjum sem svona eru til komnar, eins og það þykir sjálfsagt að greiða skatt af launatekjum sem menn hafa fengið frá þessu fyrirtæki. Ég tel mjög óeðlilegt, að arður af hlutafé sé dreginn frá skattskyldum tekjum, og legg því til að það ákvæði í frv. verði fellt niður. Ég kannast vel við það, að því hefur verið haldið fram, að vegna þess að arður af sparifé, þ. e. a. s. vextir af sparifé, er ekki skattskyldur í flestum tilvikum, þá er því haldið fram, að réttmætt sé að arður af hlutabréfum hljóti sömu meðferð. Ég geri stóran mun á þessu. Ástæðurnar fyrir því, að vextir af sparifé voru undanþegnir skattskyldu, voru þær, að það þótti skynsamlegt að reyna að örva menn til sparifjármyndunar. En það að aðili leggur inn sparifé á löggiltar peningastofnanir þýðir að stjórnvöld og þeir, sem ráða málum í þjóðfélaginu, fá vissa möguleika til þess að ráðstafa þessum fjármunum til þess sem þeir telja hagkvæmt og eðlilegt í sambandi við lánveitingar í efnahagskerfinu. En engu slíku er til að dreifa í sambandi við það fé sem menn kunna að festa í hlutafélögum. Þar eru menn aðeins að leggja fram fjármuni vegna þess að þeir ætla að hagnast á þeim. Hugsunin er auðvitað sú, að þeir ætla að hagnast á þessum peningum sem þeir leggja inn í atvinnureksturinn, og skili þessir peningar hagnaði, þá álít ég að þessi hagnaður eigi að teljast með tekjum eins og annar hagnaður sem fellur viðkomandi aðila til. Ég er því algerlega á móti þessu atriði. En þetta atriði er að mínum dómi líka minni háttar breyting í sambandi við þær breytingar sem hér er um að ræða varðandi endurskoðun skattalaga.

Einnig eru reglur settar varðandi meðferð á söluhagnaði sem getur fallið til í sambandi við sölu á íbúðarhúsnæði þegar það er yfir ákveðnu marki. Þetta eru líka minni háttar atriði sem ég tel ekki skipta neinu höfuðmáli. Og hægt er að nefna margar aðrar breytingar sem ég tel allar minni háttar og geri hér ekki frekar að umræðuefni.

Af þessum ástæðum, sem ég hef hér greint frá, er meginafstaða mín til þessa frv. sú, að ég vil ekki standa gegn því, að frv. verði samþykkt. Ég tel mig varla hafa aðstöðu til þess að greiða atkv. gegn hvorki reglunum um söluhagnað né breyttum fyrningarreglum, eins og ég hef sagt áður. En ég treysti mér ekki til þess að samþykkja þessar reglur heldur. Ég mun því sitja hjá við atkvgr. um frv. sem heild.

Ég hef fundið mjög að málsmeðferð, tel hana óeðlilega og í rauninni Alþ. ekki sæmandi, og mér þætti mjög sennilegt að afleiðingarnar yrðu þær, að það yrði að taka upp þessa löggjöf áður en hún kemur til framkvæmda. Ég vil ekki eiga neinn hlut að því, að t. d. hinum almennu fyrningarreglum verði breytt þannig að fyrningarmöguleikar atvinnurekstrar séu auknir frá því sem verið hefur. En ég er hræddur um að það mundi verða í allmörgum tilvikum.

Ég hef leyft mér að flytja hér nokkrar brtt. við frv. Þær eru tiltölulega einfaldar. Þær er að finna á þskj. 766. 1. brtt. mín er um það, að sá liður í 30. gr. frv., sem fjallar um skattfrelsi arðs af hlutabréfum, sú grein verði felld niður, eins og ég hef þegar lýst.

2. till. mín er um að breyta nokkuð skattstiganum sem er að finna í 67. gr. frv. Þar legg ég til, að skattprósentan á lægstu tekjum verði lækkuð úr 18% í 15%. Ég vil sem sagt skattleggja nokkuð vægar en gert er ráð fyrir í frv. lægstu tekjur. Ég legg einnig til að skattprósentan verði á sama hátt hækkuð lítils háttar á hæstu tekjum eða úr 34% í 36%, þannig að skattstiginn verði hækkaður á hærri tekjum.

3. brtt. mín fjallar um það að hækka persónuafslátt, sem ákveðinn er í frv. 250 þús. á einstakling, upp í 300 þús. Ég legg til að persónuafslátturinn verði nokkuð hækkaður og á þann hátt verði skattleysismörkunum lyfi: nokkuð frá því sem er að finna í frv.

1. brtt. mín er við 69. gr., og þar legg ég til að barnabætur, sem koma til frádráttar á álögðum gjöldum samkv. 69. gr., verði hækkaðar nokkuð frá því sem gert er ráð fyrir í frv., þ. e. a. s. varðandi barnabætur með fyrsta. barni, að í stað 65 þús. komi 85 þús. kr. og síðan með hverju barni eftir það verði barnabætur hækkaðar úr 100 þús. kr. í 120 þús. kr. Það þarf ekki að skýra þessar till. fyrir neinum hv. alþm.

Þá er 5. till. mín. Hún snertir skattvísitölu þá sem ákveðin er í 116. gr. frv. Ákvæðin þar um skattvísitölu eru í aðalatriðum þau sömu og eru í gildandi skattalögum, þ. e. a. s. þar er ákvæði um að skattvísitalan skuli ákveðin í fjárl. ár hvert og í fyrsta sinn í fjárl. fyrir árið 1980, eins og segir í 116. gr. Ég legg til að þetta verði orðað á nokkuð annan veg. Í minni till. segir að þetta skuli orðast þannig: „í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin skal í fjárl. ár hvert, í fyrsta sinn í fjárl. fyrir árið 1980“ í staðinn fyrir þetta komi: „í samræmi við skattvísitölu sem miðuð sé við breytingu á launatekjum milli ára samkv. mati Hagstofu Íslands.“

Um þetta atriði hefur oft verið þráttað hér á hv. Alþ. Fyrst var miðað við það, að skattvísitalan hreyfðist með framfærsluvísitölu á milli ára. En síðan var sú regla tekin upp, að yfirleitt skyldi miðað við breytingar á launatekjum á milli ára, og ég hygg að það hafi verið það sjónarmið sem flestir hafi viðurkennt, en þó er þetta svo, að þetta er opið fyrir Alþ. við afgreiðslu fjárl., að breyta þessum reglum, en það tel ég óeðlilegt. Ég tel að ef Alþ. vill hækka skattana, þá eigi Alþ. að breyta þeim skattstigum sem gengið er út frá í viðkomandi skattalögum, og ef meiningin er að lækka skatta, þá eigi einnig að hreyfa við skattstiga laganna, en ekki að rjúka í þennan almenna mæli sem á að gilda um mörg ákvæði í lögunum. Ég tel alrangt að hafa þann hátt á að svíkja þennan mæli eða lesa allt annað út úr honum en rétt er og því eigi að slá föstu, hvernig þessi skattvísitala skuli reiknuð út, og það eigi að trúa Hagstofunni fyrir því að reikna út þessa skattvísitölu og hún eigi að vera föst. Í þessu tel ég ákveðna tryggingu, en auðvitað, eins og ég sagði áðan, hefur Alþ. alltaf í sínum höndum að breyta skattalögum þannig, að skattstiganum sé breytt til hækkunar eða lækkunar, ef talin er nauðsyn á því að hækka eða lækka skatta. En ég er á móti því, að þetta sé gert í gegnum skattvísitölu. Við höfum einmitt dæmi um það, að skattvísitalan hafi verið notuð á þennan hátt, og því vil ég við þessa endurskoðun taka upp þetta ákvæði, að skattvísitalan skuli vera bundin þessari meginreglu, hún skuli fylgja breytingum á launatekjum á milli ára samkv. mati Hagstofu Íslands. Við þetta miðast 5. brtt. mín. Ég hef ekki enn flutt fleiri brtt. en þessar við 2. umr. málsins og tel mig hafa gert grein fyrir minni almennu afstöðu til málsins í því sem ég hef sagt.

En ég hef verið beðinn um að mæla hér einnig fyrir brtt. sem Svava Jakobsdóttir flytur á þskj. 760, af því að hún gat ekki verið viðstödd þessa umr. Í þessari brtt. er gert ráð fyrir því að breyta nokkuð 30. gr. frv. eða á þann hátt sem segir í till., með leyfi hæstv. forseta, að 5. liður í e-lið 30. gr. skuli hljóða svo:

„Samanlagt leigugjald fyrir íbúðarhúsnæði, þó aldrei hærri fjárhæð en 300 þús. kr. á ári fyrir einstakling.“

Hér er gert ráð fyrir því, að heimilaður verði frádráttur frá tekjum sem nemur húsaleigu. Þetta er gamalt atriði sem flestir þekkja vel. Ég hygg að það hafi mjög verið viðurkennt, að leigjendur húsnæðis hafi staðið lakar að vígi gagnvart skattalögum en þeir sem eiga húsnæði sjálfir. Þó að nú sé gert ráð fyrir í þessu frv. að felld verði niður þau ákvæði að reikna tekjur af eigin húsnæði og þá fella líka niður heimildir til þess að draga frá ýmsan kostnað sem fylgir eigin íbúð, eins og viðhald á íbúð, — þó að þessi ákvæði séu felld niður, þá stendur það þó áfram, að sá aðili, sem á íbúð, hefur leyfi til þess að draga frá tekjum sínum gjöld af öllum þeim skuldum sem kunna að hvíla á íbúðinni. Leigjandinn verður hins vegar að borga sína háu leigu, eins og allir kannast við að nú er orðið, og ég tel fyrir mitt leyti að það sé réttlætismál að taka upp ákvæði um að heimila nokkurn frádrátt vegna húsaleigu. Það getur auðvitað verið álitamál, hvar eigi að setja mörkin í sambandi við þennan frádrátt. Hér er gert ráð fyrir að hámarkið sé við 300 þús. kr. á ári fyrir einstakling. Það yrði þá að sjálfsögðu fyrir hjón 600 þús.

Ég hygg að það þurfi ekki að tala langt mál fyrir þessari till. E. t. v. tekur flm. till. til máls síðar í umr. hér um málið og getur þá skýrt till. betur. En ég vildi mæla þó fyrir henni hér við 2. umr., vegna þess að hún mun koma til atkvgr. strax við 2. umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja það frekar sem ég hef að segja hér um málið við 2. umr., en legg áherslu á það, að ég tel, að þetta mál sé ekki — ja, ég vil ekki beint segja: ekki eins vel undirbúið, því að ég hygg, að málið hafi verið vandlega unnið af þeim sérfræðingum sem hafa samið frv., en Alþ. hefur ekki gefist sá tími sem nauðsynlegur er til þess að skoða þetta margþætta og stóra mál, og af því er það að ég hef gert þær aths. sem ég hef gert við þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð.