28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4186 í B-deild Alþingistíðinda. (3422)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ólafur B. Óskarsson:

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 763, þá gerði ég fyrirvara á fylgi mínu við það. Eins og fram kemur í nál. fjh.- og viðskn. er þarna um að ræða fyrst og fremst ákvæði 59. gr. frv., sem mínu fyrirvari á rætur að rekja til, þar sem kveðið er á um heimild fyrir skattstjóra að áætla einstaklingum með eigin atvinnurekstur tekjur. Það er að mínu mati óeðlilegt, að skattyfirvöldum séu veittar víðtækar heimildir til áætlunar tekna og skattlagningar á slíkar tekjur, jafnvel þótt hægt væri að sanna að viðkomandi atvinnurekstur hefði ekki skilað þeim tekjum. Þetta ákvæði frv. er einkum rökstutt með því, að ná þurfi til tekna sem dregnar hafa verið undan skatti á undanförnum árum á löglegan hátt, eins og það er gjarnan orðað. Ekki skal því neitað, að eitthvað geti verið um slíkt, en í umræðum þeirra, sem best þekkja til á þessu sviði, hefur það jafnan komið fram, að aðalorsök þessa hafi verið fyrningarreglur þær sem í gildi hafa verið og gefið hafa ýmsum aðilum færi á að spila á reglur þessar til að forðast skattlagningu og jafnvel til að draga fé út úr fyrirtækjunum í formi skattfrjáls söluhagnaðar, hafi menn átt viðkomandi eignir tiltekinn tíma. Það eru því fyrst og fremst þessi atriði skattalaganna sem þurftu endurskoðunar við með tilliti til þess að hamla gegn slíkum undandrætti tekna, og mér sýnast ákvæði þess frv., sem hér er til umr., varðandi fyrningar og söluhagnað vera mjög til bóta. Í 59. gr. frv. segir að ríkisskattstjóri skuli árlega setja skattstjórum viðmiðunarreglur til ákvörðunar tekna einstaklinga í atvinnurekstri. Síðan eru talin upp ýmis atriði sem skattstjórum beri að taka tillit til við slíka ákvörðun tekna. Sú breyting er þar gerð frá fyrra skattafrv.. sem til umr. var á hv. Alþ. 1976–1977, að settar eru ákveðnari reglur um ákvörðun fyrir þá sem landbúnað stunda, og verður það að vísu að teljast heldur til bóta En á það skal þó minnt, að Stéttarsamband bænda gerði eftir sem áður aths. við þessi ákvæði sem send voru til fjh.- og viðskn.

Til viðbótar þessu telur formaður fjh.- og viðskn., hv, 5. þm. Reykn., sig vera búinn að ganga svo frá í nál. varðandi þann skilning sem meiri hl, nm. leggur í umrætt ákvæði, að embættismenn skattyfirvalda komist ekki upp með neinn ójöfnuð. Nú ætla ég ekki að gera því skóna, að umræddir embættismenn hafi til að hera meiri mannvonsku en gengur og gerist. En hitt er ég hræddur um, að skattstjórar og starfsmenn þeirra, sem kæmu til með að ákvarða um tekjur manna samkv. umræddri grein frv., hafi oft mjög takmarkaða þekkingu og aðstöðu til að meta þau tilvik, sem upp koma í þessu sambandi, og stundum jafnvel takmarkaðan áhuga á því. Og það vita þeir sem reynt hafa hvernig gengur að reka réttar síns gegn hinu opinbera kerfi lands vors. Það, sem ég óttast þarna mest, er að þeir, sem verða fyrir barðinu á þessu verði ýmsir sem reka sjálfstæða starfsemi í smáum stíl, og það er alla vega ekki á minni stefnuskrá að leggja stein í götu slíkrar starfsemi.

Því er haldið fram, að vegna þess að rekstrartap sé færanlegt milli ára sé þetta ekki hættulegt umræddum atvinnurekstri. En því er til að svara, að slíkar upphæðir, sem færðar eru milli ára, eru því miður ekki marktækar í okkar verðbólguþjóðfélagi vegna verðbreytinga milli ára og réttlæta því ekki slíka fyrir fram skattlagningu á hugsanlegum hagnaði seinni ára.

En nú er spurningin hvort þetta nær tilgangi sínum gagnvart þeim stóru eins og það er gjarnan kallað, og þá verður að athuga viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra við ákvörðun á launaskatti, sem mér skilst að sé stefnumarkandi í þessu efni. Ég hef hér í höndunum frá ríkisskattstjóra þessar reglur, sem sagt er að séu meðaltals viðmiðunarreglur til mats á vinnu við eigin atvinnurekstur eða aðra sjálfstæða starfsemi vegna takmörkunar og nýtingu persónuafsláttar og greiðslu útsvars o. fl. Hér eru tilgreindir læknar, lögfræðingar og aðrir sem vinna störf sem háskólamenntun þarf til, og stundum hefur maður heyrt þá nefnda sem þó nokkra karla í þessu efni. Þeim eru ætluð heils árs laun hér 3 millj. 405 þús. kr., og gæti ég best trúað að þeir brostu bara í kampinn að þessari áætlun og teldu sig sleppa vel með það. Þá koma kaupmenn og framkvæmdastjórar með heils árs laun 2 millj, 140 þús. kr. Og ef við lítum á næsta blað eru bændum þar ætlaðar 2 millj. 273 þús. og 900 kr., og verð ég að segja að ekki yrði það bændum til framdráttar að taka kaupmenn og framkvæmdastjóra í hóp viðmiðunarstétta landbúnaðar. Þá koma hér ófaglærðir menn, sem vinna við fiskverkun, með heils árs laun 2 milli. kr. Ég skal nú ekki ræða um þetta. en mér skilst að það eigi einkum við ýmsa aðila sem stunda fiskverkun, en þó er hér um að ræða menn sem þetta gæti snert, ef þeir vinna ýmis aukastörf og fá þessa áætlun ofan á sínar launatekjur, væntanlega í hæsta skattþrepi. Síðan koma bifreiðastjórar. Ekki skal ég nú segja um hvort þeir séu taldir einhverjir stórkarlar, en þeim eru ætluð laun 1 millj. 210 þús. kr. Við skulum sleppa heim. Það er rétt um það bil hálfur bóndi. Þetta eru illa baldnir menn. (Gripið fram i.) Já, eftir þessum viðmiðunarreglum að tekjum til.

Eftir því, sem kemur fram, þá virðist þetta ekki þjóna miklum tilgangi við að ná til einhverra stórtekna sem dregnar séu undan skatti. Hins vegar getur þetta verið býsna óþægilegt þeim sem fá einhverjar áætlunartekjur, sem mjög er á huldu hvernig eru metnar gagnvart vinnutíma fyrst og fremst ofan á aðrar þær tekjur sem fyrir hendi ern.

Á síðasta blaði þessa yfirlits eru ýmsar tölur um gjaldendur tekjuskatts álagningarárið 1977. og þar kemur fram að tekjuskattsgreiðendur séu alls 58110, en skattlausir 49765. Þarna er úrtak atvinnurekenda og bar eru tekjuskattsgreiðendur. — þetta er óglöggt, en mér skilst að þeir séu 7394, en skattlausir 5116. Og við sjáum hér að tekjuskatt greiða 12.72% af heildarfjölda tekjuskattsgreiðenda. En tekjuskattur er hins vegar 16,9% eða tæp 17% af álögðum tekjuskatti. Mér sýnist þetta benda til þess. að atvinnurekendur beri ekki minni tekjuskatt,þegar á heildina er litið. heldur en hverjir aðrir.

Það kom fram hjá einhverjum þeirra, sem ræddu og útskýrðu frv. þetta fyrir okkur í fjh.- og viðskn., að ætlunin væri að ná fram skattalögum þar sem þegnarnir væru jafnir fyrir lögunum, og það er vissulega falleg hugsun og nauðsynleg, hafi það verið öðruvísi áður, auk þess sem hv. 5. þm. Reykn. þykist vera búinn að tryggja þetta fullkomlega í sínu snjalla nál. Skyldi maður því ætla að þetta sé harla gott allt saman. En nú verður að athuga hvað stendur 1 aths. með frv., og ég veit ekki betur en það standi þar óbreytt enn. Þar segir á bls. 42, efst, um einstaklinga í atvinnurekstri, að engar heimildir séu í gildandi lögum til ákvörðunar launa af eigin atvinnurekstri manns eða sjálfstæðri starfsemi umfram þær sem almennt gerist um einstaklinga. Og það er að skilja, að þetta þyki hvergi nærri nógu gott. Í aths. við 59. gr. segir síðan í niðurlagi aths. orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Með þessum hætti er hverjum atvinnurekanda og þeim, sem stunda sjálfstæða starfsemi, ætlað að greiða til hinna sameiginlegu þarfa, jafnvel þótt rekstur hans skili ekki hagnaði.“

Hér verður ekki betur séð en það sé stefnan að leggja einhvers konar refsiskatta á þá sem sjálfstæðan rekstur stunda, ef rekstur þeirra skilar ekki tilteknum tekjum. Sýnist mér þá að menn séu ekki lengur jafnir fyrir lögunum, því að allir vita að hafi menn launatekjur miðað við gildandi lög undir tilteknu marki, þá greiða þeir enga skatta. Þess munu mörg dæmi, þegar fólk er að stofna einhverja sjálfstæða starfsemi að miklu leyti í aukavinnu fari það, sem hugsanlega mætti kalla launatekjur af rekstrinum, að miklu eða jafnvel öllu leyti í það að byggja viðkomandi starfsemi upp. Og ég get ekki séð neina sanngirni eða skynsemi í því að skattleggja slíkt eigið fé sérstaklega, eins og ætlunin virðist með umræddu ákvæði 59. gr.

Ég gat hér áðan um þá stefnu sem mér virðist koma fram í aths. við 59. gr. frv., og það er sú stefna sem ég er smeykur um að verði ráðandi við framkvæmd nefndra ákvæða ef samþykkt verða. hvað sem líður öllum saumaskap í nál. og ræðum manna, og slíkt get ég ekki fellt mig við.

Nú kann einhver að segja að þetta, sem ég nú hef sagt, sé allt á misskilningi byggt og ég hafi ekkert vit á þessu og sé nú sveitamanninum best að vera ekkert að rífa sig yfir því. En því er til að svara, að rætt hef ég málið m. a. við aðila sem starfa við framkvæmd skattalaga, og það var álit þeirra aðila, að ákvæði þetta væri tæplega hægt að framkvæma þannig að nokkurt vit yrði í. Auk þess segir í nál. hv. 2. þm. Austurl.. að framkvæmd reglunnar muni þó verða erfið, og mun það sjálfsagt ekki ofmælt fyrst sá hv. þm. lætur þess getið. Held ég að verði að taka nokkurt mark á þessu, þó að ég sé ekki að öðru leyti að taka neitt sérstakt mark á því sem hv. 2. þm. Austurl. segir. Sýnist mér samkv. álitum manna, sem ég hef aflað mér, flestum stoðum kippt undan þessu áætlunarákvæði.

Þess má geta í lokin. að önnur ákvæði þessu tengd verða að teljast eðlileg, eins og t. d. ef atvinnurekandi telur maka sínum eða börnum hærri tekjur en eðlilegt getur talist, og sömuleiðis er eðlilegt að setja skorður við því, að tap af rekstri sé frádráttarbært frá öðrum óskyldum tekjum, svo sem launatekjum. En það kemur ekki beinlínis við þessu áætlunarákvæði og mætti gjarnan vera í lögunum að því slepptu. Það er innan þessara marka og lagfæringa á reglum um fyrningar og söluhagnað sem vinna ber gegn því, að einstakir aðilar geti skotið tekjum undan skatti, en ekki með óraunhæfum og jafnvel skaðlegum lagaákvæðum um áætlun tekna, að maður segi ekki jafnvel vitlausum ákvæðum.

Að öðru leyti verð ég að segja það, að að þessu atriði frátöldu sé frv. í heild til bóta, og læt ég að sjálfsögðu við það sitja að greiða atkv. gegn þessari tilteknu grein, þ. e. 59. gr. frv., og óskast hún því borin sérstaklega undir atkv. við atkvgr.