28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4199 í B-deild Alþingistíðinda. (3424)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sverrir Bergmann:

Virðulegi forseti. Ég hef ekki í hyggju að flytja mjög langt mál að þessu sinni, þótt kannski geti eitthvað teygst úr því, enda verður það að teljast fremur illa gert að tefja um of tíma hv. Alþingis sem nú er önnum kafið við á síðustu stundu í lok kjörtímabils að afgreiða mjög viðamikla málaflokka sem ætla hefði mátt að þyrftu við langrar athugunar og krefðust mikilla umr. og tækju jafnvel verulegum breytingum í meðförum þingsins áður en þau væru endanlega samþykkt og afgreidd. En ég hef hins vegar skrifað undir nál. eða kannske eftir atvikum verið gert að skrifa fyrirvaralaust undir nál. hv. fjh.- og viðskn. á þskj. 763 um frv. það um tekjuskatt og eignarskatt á þskj. 600, sem hér er nú til umr. Það ber eiginlega að líta svo á, að fyrirvari minn hafi niður fallið af óviðráðanlegum tæknilegum ástæðum.

Ástæðurnar fyrir undirskrift minni undir nál. eru einkum tvær : Hin fyrri er sú, að frv. þetta um tekjuskatt og eignarskatt er að mínu mati verulega til bóta um margt frá gildandi lögum um þessi efni. Það varðar m. a. breytt ákvæði um fyrningar, tekjur af eigin atvinnurekstri, og þá með tilliti til þess, að bókhaldslegt rekstrartap hafi ekki áhrif á einkatekjur af hinum sama rekstri. Nefna má einnig sérsköttun hjóna og það, að áætlaðar eru tekjur í einkarekstri, þótt segja megi um þetta hvort tveggja, að á því séu einnig nokkrir gallar, eins og ég mun víkja að síðar. Þá er einnig um vissa einföldun að ræða, bæði um gerð framtala og álagningu, og er það vissulega til úrbóta, þótt þetta hefði mátt vera og þurft að vera enn meiri einföldun er raun ber vitni.

Þetta er höfuðástæðan til þess, að ég mun leggja þessu frv. til atkv. mitt í öllum meginatriðum. Hin ástæðan fyrir undirskrift minni er raunar sú, að það er alveg fyrirsjáanlegt, að frv. þetta skal afgreitt á þessu þingi og engum meiri háttar breytingum mun ég einn fram koma, a. m. k. ekki úr þessu og vafalaust ekki yfirleitt. En það ber vægast sagt að harma að frv. sem þetta skuli koma svo seint fram og svo knúið á um afgreiðslu þess, að jafnvel nefndarathugun getur tæplega orðið neitt annað en leit að prentvillum. Í heild hefði þurft að athuga þetta frv. miklu betur og gefa nægjanlegt tímalegt svigrúm til breytinga á því og jafnvel mikilla breytinga. En þó situr auðvitað síst á mér að gagnrýna störf hv. fjh.- og viðskn. að þessu frv., því hún hefur unnið af öllum þeim krafti og notað allan þann tíma sem hún hefur haft möguleika á eins og nú stendur.

Ég kem þá að þeim atriðum sem ég vildi þrátt fyrir undirskrift mína leyfa mér að hafa á um nokkurn fyrirvara, og ég vil vænta þess, að þessi atriði verði enn tekin upp milli umr. og áður en frv. þetta verður endanlega afgreitt frá hv. Alþingi.

Við getum þá fyrst spurt: Af hverju er verið að breyta gildandi lögum um tekjuskatt og eignarskatt? Og við kunnum öll svar við því. Gildandi lög um tekjuskatt og eignarskatt hafa a. m. k. í framkvæmdinni reynst hafa að geyma ákvæði er orðið hafa til þess að skapa umtalsvert óréttlæti hvað varðar framlag þegnanna í formi greiðslu tekjuskatts og eignarskatts. Um þetta hygg ég að allir geti verið sammála. Tilgangurinn með þessu frv. er að reyna að sníða af þá vankanta, sem reynst hafa verið í gildandi lögum, og stuðla þannig að meira réttlæti en nú er. Um þetta held ég að menn deili ekki. Það er auðvitað hægt að gera skattalög beinlínis þannig úr garði, að þau skapi einum forréttindi umfram aðra. En mér virðist ekki vera ríkjandi meðal hv. þm. almennt þessi hugsunarháttur, að skattalög eigi beinlínis að vera þannig úr garði gerð, þótt ekki viti ég hvort því veldur fremur kjarkleysi eða gott innræti, heldur munu hv. alþm. almennt líta svo á, að þannig skuli frá þessum lögum gengið, að hver þjóðfélagsþegn beri sem réttlátastar samfélagslegar byrðar í formi tekjuskatts og eignarskatts, eftir því sem efni hans og ástæður leyfa. Þetta tel ég vissulega vera mjög svo heilbrigt sjónarmið.

Nú er það ekki umdeilt mál, að einmitt fyrningarreglur gildandi laga og það atriði í gildandi lögum, að hægt sé að draga bókhaldslegt rekstrartap þannig frá tekjum, stundum verulegum og ríflegum tekjum til einkaneyslu, að enginn tekjuskattur sé af þeim greiddur, sem og framtalslegt tekjuleysi í atvinnurekstri, — þetta þrennt öðru fremur hefur skapað það óréttlæti sem er um byrðar manna hvað varðar greiðslu til ríkissjóðs í formi tekjuskatts og eignarskatts. Þetta skal reynt að lagfæra samkv. ákvæðum þess frv. sem hér er til umr.

En þá hlýtur að vakna sú stóra spurning: Hvers vegna í ósköpunum er ekki hægt að gera það strax? Við erum búin að horfa upp á það óréttlæti, sem af þessu hefur leitt, ár eftir ár, en enn skal talið fram eftir gildandi lögum bæði í ár og einnig næsta ár, jafnvel þótt þetta frv, verði afgreitt sem lög nú á þessu þingi. Þetta getur ekki verið nauðsynlegt, og það getur ekki verið, að hv. Alþ. ætli beinlínis, eftir að hafa tekið þessi mál til meðferðar með þessum hætti á annað borð, að láta þetta augljóslega óréttlæti halda enn áfram um tveggja ára skeið. Ég get ekkert séð því til fyrirstöðu, að þau ákvæði frv., sem varða þessi atriði, geti komið til framkvæmda strax nú í sumar og þannig sé strax lokað fyrir þetta óréttlæti. Mér finnst að þetta beri að gera, og ég segi það sem mína skoðun, að ég get ekki lagt það á nokkurn hv. alþm. að gera hv. Alþ. þá skömm að leiðrétts ekki strax það hrópandi óréttlæti, sem leiðir af ákvæðum gildandi laga, eftir að hafa viðurkennt það með þeirri breytingu sem ákvæði þessa frv. segja um. Þetta er að auki alger óþarfi, svo að ég noti ekki um það stærri orð.

Annað atriði, sem auðvitað er stór galli á frv„ er það, að enn eru allt of margar smugur til þess að skjóta því, sem ætti að vera skattskylt fé og skattskyldar eignir, undan slíkum greiðslum. En það þarf miklu meiri tíma en þann sem hér er gefinn til þess að fjalla um þau atriði og ganga frá þeim betur en er í þessu frv, Því segir mér svo hugur um eins og fleirum, að svo kunni að fara að ýmsar breytingar eigi eftir að gera á þessu frv. og þá raunar á því sem lögum, býst ég við, áður en það kemur endanlega til framkvæmda. Og mér finnst að vinnubrögð af því tagi orki a. m. k. tvímælis og sér tæpast til þess fallin að auka á virðingu hv. Alþingis.

Loks er svo það atriði sem við ættum að gera okkur mjög svo glögga grein fyrir. Það er nú einu sinni svo, að mikill hluti fjármuna og eigna fer svo milli manna með ýmsu móti að sleppur fram hjá skattakerfinu. Þetta vitum við öll mætavel. Það er auðvitað gott og blessað og það er auðvitað nauðsynlegt, að skattaeftirlit sé strangt og það sé virkt og það sé mikið, en jafnvel það getur ekki ráðið við þetta. Þetta er staðreynd. Það ræður ekki við þetta nema að takmörkuðu leyti, og ætti að vera eitthvað umfram það, þá getur það aðeins gerst með því móti að ganga svo inn á einkamál eða einkalíf fólks að mjög getur orkað tvímælis hvort slíkt sé æskilegt.

Þegar við höfum þessar staðreyndir í huga og jafnframt auðvitað það, að það er fyrst og fremst það fólk, sem þiggur laun og fær þau upp gefin sem greiðslu, sem greiðir hin opinberu gjöld, þá ætti það að vera alger lágmarkskrafa, þegar skattalög eru endurskoðuð, að alls ekki sé gert ráð fyrir aukinni skattbyrði, það sé ekki gert ráð fyrir hækkun á þessari tekjuöflunarleið hins opinbera. Það hefði því hiklaust átt að stefna að því, að í engu launaþrepi væri um hækkun opinberra gjalda að ræða frá því sem er í gildandi lögum, og það hefði hreinlega orðið að ráðast hverju hefði munað í heildartekjuöflun ríkissjóðs. Það er ekki hægt að heimta meiri álögur eftir kerfi sem er þess eðlis að það nær aldrei til alls þess sem gjalda skal af. Menn verða nefnilega að gæta þess, að þrátt fyrir vandlega útreikninga sem fylgt hafa þessu frv. og okkur nm. hafa verið sýndir, þá þýðir þetta frv. í raun hækkun þessara gjalda hjá flestum, m. a. vegna þeirrar breytingar sem nú verður á skattlagningu hjóna. Því er það svo, að enda þótt fagna beri sérsköttun hjóna út af fyrir sig, þá er staðreyndin sú, að eftir því sem konan aflar meiri tekna hækka að öllu jöfnu skattar á því heimili. Þó hljóta menn að gera sér það ljóst, að konur munu í vaxandi mæli sækja út á vinnumarkaðinn, enda þeirra full þörf þar, og koma væntanlega til að afla enn meiri tekna en þær hafa gert hingað til. Það er því galli í sambandi við sérsköttun hjóna, að þessa skuli ekki hafa verið betur gætt í sambandi v ið álagningarhlutföllin.

Það kemur fram í nál. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, að hækka megi álagningarprósentuna á háar tekjur. Í sjálfu sér er ég honum alveg sammála um þetta, og það er raunar algert grundvallaratriði í mínum huga og hefur alltaf verið, og auðvitað gerir hv. þm. sér góða grein fyrir því, að þetta lætur afar vel í eyrum og þykir lýsa heldur góðu og göfugu hugarfari og góðu þeli til nábúans, að leggja nógu mikið á þá sem hafa miklar tekjur. Ég hygg að þetta muni hljóma alveg sérstaklega vel á þeim mánuðum sem nú fara í hönd, og ég held að sá mundi eiga lítið upp á pallborðið með þjóðinni almennt sem færi að mæla með því, að einhver skattaleg hlífð skyldi sýnd háum tekjum. Ég legg ekki slíkt til, enda hef ég alltaf fylgt því grundvallaratriði, að því meira sem menn bera úr býtum, því betur séu þeir auðvitað í stakk búnir til þess að greiða ríflegri hlut til sameiginlegra þarfa og skuli gera það. En hitt er eins og bæði hv. þm. og margir aðrir geti ekki skilið eða vilji ekki skilja, að það er heildarsjónarmiðið sem hér skiptir mestu máli, og þar er að finna réttlætið í þessum efnum. Það er þetta, hvernig til tekst með framkvæmdina á góðum ásetningi.

Eins og háttar í dag eru háu tekjurnar á framtölum fyrst og fremst tekjur launafólks þrátt fyrir allt, rétt eins og allar aðrar tekjur sem til skatts koma. Auðvitað er þessi hái launamannahópur mjög svo fámennur, og hv. þm. og við öll hljótum að gera okkur grein fyrir því, að slíkar tekjur verða yfirleitt aðeins til með mjög óeðlilegum hætti, bæði óhóflegu, óæskilegu og óheilbrigðu álagi, a. m. k. til lengdar. Í þessum hópí kunna t. d. að vera fengsælir skipstjórnarmenn, og víst eru í þessum hópi ýmsir úr minni stétt, a. m. k, þeir sem þurfa að vera til taks allan sólarhringinn allan ársins hring. Það er þessi óhjákvæmilega vinnukvöð, sem skapar þessum aðilum og vafalaust einhverjum fleiri háar tekjur. Það er því auðvitað svo, að við, sem í þessum hópi erum, berum meira en aðrir, greiðum meira en aðrir, og við teljum ekkert óréttlátt að gera það. En ég sé ekki ástæðu til að það sé bætt á þetta meira en er samkv. gildandi lögum. En samkv. ákvæðum þess frv., sem hér er til umr., er alveg ljóst að álögur á okkur munu hækka nokkuð. Það er því, held ég, alveg ástæðulaust að vera að auka hlutfall þessa hóps umfram það sem ákvæði þessa frv. gera ráð fyrir, því hinir raunverulegu hátekjumenn sleppa að miklu leyti undan skattgreiðslunum, einnig samkv. ákvæðum gildandi laga, þegar öllu er á botninn hvolft, því að þótt þeim séu áætlaðar tekjur og þótt það ákvæði út af fyrir sig bitni kannske óréttlátt á einhverjum, þá kemur það þó létt niður á miklum meiri hluta þeirra sem hafa raunverulegar hátekjur, því að áætlun um laun þeirra nær ekki til nema hluta af því sem þeir hafa raunverulega handa á milli. Þetta kemur aftur inn á það, sem ég vek að áðan, hvað viðkemur framkvæmdinni og eftirliti með góðum ásetningi.

Ég tel að þetta verði að liggja til grundvallar og þá það, að meðan við teljum okkur ekki geta lagt alveg niður beina skatta, þá sé þess gætt, að þeir séu ekki hækkaðir umfram það sem nú er og tekjuöfluninni þá haldið innan þessara marka að heildarfjármagni. Þetta er einnig nauðsynlegt þegar það er haft í huga að framtalið verður einnig stofn að ýmsum öðrum álögum, og þannig er jafnvel um það að ræða að visst óréttlæti geti margfaldast. Auðvitað þarf ríkissjóður mikla peninga. En hann mun alltaf finna þörf fyrir það fé sem hann kemst yfir, rétt eins og hugsanlegt er að komist yrði að þeirri niðurstöðu, að þótt eitthvað minna kæmi inn, þá mætti kannske gera flest það gagnlega, en kannske sleppa hinu, því að það er vel þekkt lögmál, að menn áætla og eyða sem næst því sem þeir hyggja að þeim muni til leggjast.

Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins koma þessum aths. á framfæri. Ég legg höfuðáherslu á hið fyrst talda, að hinir augljósu vankantar gildandi skattalaga verði afnumdir nú þegar, hvað sem líður gildistöku laganna í heild. Og ég vænti þess enn, að um þetta verði fjallað í n. á milli umr. og áður en til endanlegrar afgreiðslu þessa frv. kemur.