28.04.1978
Neðri deild: 87. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4219 í B-deild Alþingistíðinda. (3429)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 7. minni hl. (Lúðvík Jósepsson) :

Hæstv. forseti. Það eru aðeins nokkrar aths. við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi þær till. sem ég hafði flutt.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, að till. mínar væru svona góðar eins og hann lýsti, en þykir nú mjög vænt um að heyra það, að þær skuli þó draga þetta hátt. Hins vegar þykir mér rétt að taka fram, að hann skýrði nokkuð hlutdrægt frá því, hversu góðar þessar till. væru. Hann gerði grein fyrir því, að sú till. mín að lækka lægsta skattþrepið úr 18% í 15% eða um 3% næmi 3 milljörðum kr. Hann hefði gjarnan mátt geta þess, að þessi 18%, sem um er að ræða af þessum skattstiga, eiga þá að gefa 18 milljarða í tekjur eftir sömu reglu. (ÓE: Þetta er vitlaust reiknað.) Jú, þetta er rétt reiknað, af því að hér er um brúttóálagningu að ræða. Þetta er sama skekkjan hjá hv. þm. eins og þegar hann reiknar hækkunina á persónufrádrætti. Með því að hækka persónufrádráttinn úr 250 þús. kr. á persónu upp í 300 þús. á persónu eða um 50 þús. og ef það á að gefa 6 milljarða, þá gefur vitanlega persónufrádrátturinn allur sex sinnum meira, eða eins og hann er í frv. 5 sinnum meira, 30 milljarða. Hér er aðeins um það að ræða að hækka þennan persónufrádrátt að tiltölu úr 250 þús. upp í 300 þús. og að lækka lítillega þessa prósentu.

Út af fyrir sig sæi ég ekkert eftir því, þó að hér yrði um lækkun á þessari heildarskattlagningu að ræða á þann hátt sem hv. þm. gerði hér grein fyrir. Aðalatriðið er það, að ég tel að það sé ekki sanngjarnt, að þeir, sem hafa ekki hærri tekjur en þarna ræðir um, þ. e. a. s. upp í 2 millj. kr, eigi að skattleggjast hærra en sem nemur 15% af þessum tekjum. Raunverulega mundi þetta þýða það á einstakling, að sá., sem hefði 2 millj. í tekjur og félli undir 15% skattlagninguna, eins og ég legg til, mundi bera 300 þús. kr. í skatt, en frá honum yrði síðan dreginn 300 þús. kr. persónufrádráttur. M. ö. o.: 2 millj. kr. yrðu skattfrjálsar. Það er allt og sumt sem felst í minni tillögu. Mín tillaga miðast við það, að tekjur einstaklings upp í 2 milli. kr. verði skattfrjálsar. Ég hef ekki mikinn áhuga á því að leggja mikla skatta á tekjur sem eru undir því marki. Það er að því sem tillaga mín stefnir.

Mér fannst líka að aths. hv. þm. við það, sem ég hafði gert hér grein fyrir varðandi niðurfellingu á 50% reglunni. stæðust ekki á neinn hátt. Breyttur skattstigi breytir því ekki, að þeir útreikningar, sem lagðir hafa verið fyrir n. og miðaðir eru við skattstiga hins nýja frv., sýna að ef tekjur eiginkonu sem vinnur fyrir sjálfstæðum tekjum, eru í kringum 1.5 millj. þá verður þegar um skattahækkun að ræða, svo að þó að þarna hafi orðið breyting á skattþrepunum, þá vitanlega breytir það ekki þessum útreikningum sem eru miðaðir við þau skattþrep sem gert er ráð fyrir í frv. Það er því fullkomlega rétt sem ég sagði, að ef tekjur eiginkonu fara yfir 1.5 millj. og eiginmaðurinn hefur í kringum 2–2.5 millj. þá verður um skattahækkun að ræða samkv. þeim útreikningum sem fyrir liggja. Og það er þessi staðreynd sem ber að taka tillit til. En ég hef ekki flutt brtt. varðandi þennan lið. Hins vegar vildi ég láta koma skýrt fram, að svona er þessu farið, og ég álít að ekki eigi að dylja neinn þess, að þetta felst í frv. Og það er ekki hægt að skýra þetta út með því, að breytt sé um skattstiga, því að þetta er útkoman samkv. þeim skattstigum sem tilgreindir eru í frv.

Hv. þm. Ólafur G. Einarsson minntist á skattalögin frá 1971 og vildi kalla þau skattalög vinstri stjórnarinnar, sem ég gerði mikið úr að leyfðu of rúmar fyrningarreglur almennt. Auðvitað eru fyrningarreglurnar, sem eru í gildandi skattalögum, ekki reglur vinstri stjórnarinnar, vegna þess að breytingin, sem hún gerði á fyrningarreglum með skattalögunum,varaðstórdraga úr fyrningarreglum frá því sem ákveðið hafði verið af viðreisnarstjórninni áður. Ein meginbreytingin, sem gerð var í tíð vinstri stjórnarinnar, var einmitt að stórminnka fyrningarmöguleika frá þeim skattalögum sem viðreisnarstjórnin hafði sett. Hitt er rétt, að það var ekki samkomulag um það í vinstri stjórninni að draga þarna enn meira úr, eins og við Alþb.-menn vildum. Þetta varð niðurstaðan og eftir sátu hér fyrningarreglur sem voru að okkar dómi enn þá of háar. En meginstofn fyrningarreglnanna er auðvitað miklu eldri.

Ég get ekki fallist á þá skoðun hv. frsm. meiri hl., að það hafi ekki verið ástæða núna við afgreiðslu þessa máls að senda málið til umsagnar. Það hefði fyllilega verið ástæða til þess, vegna þess að þetta frv. tekur slíkum stórbreytingum frá frv, sem hér var til meðferðar fyrir rúmu ári. En um það þýðir ekki að deila. Eflaust fer það svo, eins og ég hef sagt áður, að frv. verður að lögum eins og meiri hl. fjh. leggur til, og þannig standa lögin ónotuð a. m. k. í eitt eða tvö ár, af því að þeim er ekki ætlað að taka gildi fyrr en eftir þann tíma, og mér þykir mjög sennilegt, að áður en þau koma til framkvæmda verði gerðar breytingar á þessum lögum, vegna þess að menn hafa þá áttað sig á því, að málið hafi ekki verið fyllilega skoðað sem skyldi og hér er verið að ganga frá ýmsum atriðum sem fá varla staðist. Ég óttast það og af því treysti ég mér ekki til að fylgja ýmsum þeim ákvæðum frv. þar sem farið er inn á nýjar brautir, því að þær till. hafa ekki verið skýrðar nægilega vel.

Ég skal svo ekki lengja umr. frekar um þetta mál, en tel að þær till., sem ég hef flutt um lækkun á skattstiga, séu fullkomlega eðlilegar. Satt að segja hefðu þetta ekki þótt mjög róttækar till. borið saman við þær sem fulltrúar Sjálfstfl. fluttu hér fyrir nokkrum árum. Þessar lækkunartillögur mínar eru aðeins svipur hjá sjón borið saman við þær lækkanir sem þá voru fluttar hér till. um. Þær þóttu ekki of stórar þá, svo að þeir, sem að þeim stóðu. eins og hv. þm., formaður fjh.- og viðskn., ættu ekki að láta sér blöskra þó að nú séu fluttar till. sem eru aðeins brot af því sem Sjálfstfl. flutti hér fyrir nokkrum árum um sama efni.