29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4230 í B-deild Alþingistíðinda. (3442)

282. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að halda langa ræðu um þetta mál hér við 1. umr. Nú skin sól í heiði og blíða úti fyrir og þdm. hafa áreiðanlega margt betra við tímann að gera heldur en vera hér á löngum fundi. Þar við bætist, að ég hef átt þess kost að lýsa skoðunum mínum á þessu máli margsinnis áður en það kemur nú til 1. umr. hér í deildinni, og á þessu stigi hef ég ekki miklu við það að bæta. Ég tel, að frv. þetta sé keyrt í gegnum Alþ. með óhæfilegum hraða og að hér sé um hraðsuðu að ræða sem áreiðanlega verði tekin til betri eldunar næsta haust, enda ekkert því til fyrirstöðu að frv. verði tekið til endurskoðunar þá, því að eins og fram hefur komið mun það einungis gilda hvað snertir ákveðna þætti bókhalds fyrirtækja á árinu 1979, en ekki koma til framkvæmda hvað snertir álagningu fyrr en á árinu 1980. Ástæðan til þess að verið er að keyra þetta frv. nú í gegn er einfaldlega sú, að hæstv. fjmrh. er að leita eftir syndakvittun hjá kjósendum sínum, en frá almennu sjónarmiði séð væri ekkert því til fyrirstöðu að afgreiðsla málsins biði til haustsins.

Svo mikill er hraðinn á meðferð þessa máls, að þegar hæstv. fjmrh. beitir sér fyrir því, að reiknaðar séu út afleiðingar af samþykkt frv. og landslýð gerð grein fyrir niðurstöðum þeirra útreikninga og hann kemur fram í sjónvarpi og skýrir fyrir þjóðinni töflur, þar sem sýnt er hvernig skattarnir komi út, og það var reyndar sama taflan og svo var aftur sýnd í umræðuþætti sem átti sér stað í sjónvarpinu tveimur eða þremur dögum seinna, þá eru þeir útreikningar kolvitlausir og ekkert mark á þeim takandi. Ég efast ekki um, þó að ég hafi ekki þessar töflur undir höndum, að menn minnist þess sem sáu þessa töflu sem birt var í sjónvarpinu, ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur a. m. k. þrisvar, að þar var gerð grein fyrir því, að kona, sem hefði 2.5 millj. í tekjur og ætti mann sem einnig hefði sömu tekjur, mundi snarlega og þau hjónin samtals lækka í skatti með tilkomu þessa nýja frv. Og ef menn hafa tekið glöggt eftir, þá munu þeir minnast þess, að um var að ræða skattalækkun hjá þeim hjónum úr 200 þús. kr. og niður í 160 þús. kr. Þetta var bara eitt dæmi af mörgum um snarvitlausan útreikning á sköttum.

Þetta var að sjálfsögðu alls ekki rétt. Kona, sem þannig stendur á fyrir, hækkar í sköttum, en lækkar ekki. Og ég verð að segja það við hæstv. fjmrh., að ég er óneitanlega undrandi og dálítið hneykslaður á því, að hann skuli ekki hafa beitt sér fyrir því, að þessi mistök væru leiðrétt í sjónvarpinu. Ég veit ekki til þess að þjóðinni hafi verið gerð grein fyrir því, að þarna var um skakka útreikninga að ræða, þó að það sé nú viðurkennt af sérfræðingum. Og ég verð að segja það, að þegar búið er að blekkja þjóðina, að vísu ekki vísvitandi í þessu tilviki, heldur vegna mistaka, þá eiga sjónvarpsáhorfendur heimtingu á því, að beðið sé afsökunar á þessu og nýir útreikningar birtir með sama hætti. En fólk, sem þannig stendur á fyrir, stendur að sjálfsögðu í þeirri trú, að þarna hafi verið um rétta útreikninga að ræða. Ég hef ekki haft orð á þessu fyrr vegna þess að mér datt satt að segja ekki í hug annað en þessar tölur yrðu leiðréttar. En nú þegar liðin er meira en vika, líklega einir 10 dagar síðan þessir röngu útreikningar voru birtir í sjónvarpinu, eins og ég sagði hér áðan, ekki einu sinni, heldur tvisvar eða þrisvar, þá er kominn tími til að leiðrétta.

Ég mun við 2. umr. gera grein fyrir afstöðu minni til einstakra atriða frv. Ég tel að veigamestu efnisbreytingarnar, sem fólgnar eru í þessu frv., séu annars vegar breytt skattlagning á tekjum hjóna, og þar er tvímælalaust um tillögugerð að ræða sem horfir til bóta, og svo aftur breytt skattameðferð á tekjum í atvinnurekstri. Þar er um mjög flóknar reglur að ræða sem eru satt best að segja með talsvert ólíkum hætti og var í frv. fyrir einu ári og því langt frá því, að nm, í fjh.- og viðskn. hafi gefist nokkurt tóm til að kanna það til hlítar, að ég tali nú ekki um utanaðkomandi aðila eins og þá sem þetta skattafrv. á að ná til. Í þeim hópum hafa menn ekki átt þess neinn kost að lála sérfræðinga yfirfara efni þessa frv. svo vandlega að unnt sé að átta sig á afleiðingum þess. En ég get sagt það eitt á þessu stigi, að þó að ég viðurkenni fúslega að fyrningarreglurnar, sem í þessu frv. eru, séu eðlilegri en þær fyrri frá tæknilegu sjónarmiði, þá fylgja þeim þess háttar glufur og smugur sem gera það að verkum, að sennilega koma fyrirtæki betur út úr skattlagningu samkv. þessu frv. heldur en fyrri lögum. Ég get bætt því við, að það hafa komið að máli við mig menn, sem eru þessum málum gerkunnugir og hafa tekið þátt í skattuppgjöri og skattálagningu árum saman, sem hafa gert tilraun til að sjá hvernig þetta nýja skattakerfi kæmi út með því að leggja á samkv. því á nokkur fyrirtæki. Og þeir hafa sagt mér, þó að þeir hafi að vísu haft skamman tíma til að komast að óyggjandi niðurstöðu, en þeir hafa sagt mér og áreiðanlega í fyllstu hreinskilni að útkoman hjá þeim hafi verið sú, að smugurnar og glufurnar væru síður en svo minni samkv. þessu frv. en hinu fyrra og sennilega kæmi atvinnureksturinn ekki verr — sennilega betur út úr þessari álagningu. Frómt frá sagt hef ég persónulega ekki haft neina aðstöðu til þess að meta þetta nákvæmlega. En mér segir svo hugur að ýmsar greinar þessa frv. séu á þann veg, að þær muni leiða til óeðlilegrar ívilnunar gagnvart rekstrinum í landinu sem lítinn og í flestum tilvikum engan tekjuskatt hefur greitt.

Herra forseti. Um þetta mál mætti fara mörgum orðum, en með tilvísun til fyrri orða minna læt ég þetta duga að sinni.