29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4241 í B-deild Alþingistíðinda. (3448)

242. mál, lyfjalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gat ég þess, að mér þætti það lakara að einum kafla í tillögum þeirrar n., sem hafði samið þetta frv., skyldi hafa verið sleppt og hann ekki tekinn fyrir á þessu þingi, þ. e. a. s. kaflanum um sölu og dreifingu lyfja. Rn. taldi, eins og segir í grg., að sá kafli gæti að ósekju beðið væntanlegs frv. um rekstur lyfjabúða og dreifingu lyfja. En ég er á þeirri skoðun, að við hefðum þurft í raun og veru að líta á allt málið í heild, því að sum ákvæði í þessu frv. gætu rekist á við það sem á eftir kann að koma., því að hér er komið inn á verðlagningu lyfja, lyfjaverðlagsnefnd, lyfsölusjóð og lyfjaeftirlit, en síðan er punkturinn settur og það, sem áfram kemur um frekari sölu og dreifingu á lyfjunum, er enn eftir. Við því er ekkert að segja, því að að meginformi til held ég að þetta frv. sé til bóta, þó að það sé eins með það og önnur þau frv. sem við höfum verið að fá í hendur nú síðustu daga, að við höfum hvergi nærri getað skoðað þau svo sem skyldi og áttað okkur á þeim. Þó að við séum að vísu vel settir varðandi allt sem snertir heilbrigðismál með hv. formann n. sem leiðsögumann í þeim efnum, þá er það engu að síður ýmislegt sem við hefðum þurft og þyrftum að athuga betur áður en slíkt er afgreitt, m. a. í sambandi við lyfsölusjóðinn, enda er þar um algert nýmæli að ræða.

Ég hef leyft mér að bera fram á þskj. 723 tvær litlar brtt. Ég bar þær fram einn, hefði e. t. v. átt að bera þær beint inn í n., en mér heyrðist á öllu, a. m. k. með þá fyrri, að hún ætti þar ekki fylgi, menn væru ánægðir með það orðalag sem gilti um 32. gr. En sú seinni kemur af mjög eðlilegum ástæðum sem afleiðing af tillögu sem við hv. þm. Stefán Jónsson, Ragnar Arnalds og Geir Gunnarsson fluttum fyrr í þinginu í vetur um eflingu innlendrar lyfjaframleiðslu.

Ég hef haft samband við þann aðila sem gleggst veit um þessi mál og ég tel hafa um þetta töluvert að segja, þar sem er Almar Grímsson, og bæði í n. og eins í samtali við hann var það staðfest, að hann taldi orðalag í fyrra frv., sem búið var að samþykkja á sínum tíma hér í Ed., en komst ekki í gegn, um lyfjaframleiðslu, — hann taldi það orðalag, sem þar var og ég hef tekið upp í 32. gr. í minni brtt., betra og markvissara. Í 32. gr. stendur í frv. nú: „Verð lyfja skal vera hóflegt. Það skal birta í lyfjaverðskrá er ráðh. staðfestir.“ En í fyrra frv., sem ég hef tekið óbreytt hér upp og hv. Ed. var búin að samþykkja á sínum tíma, stóð:

„Framleiðsluverð lyfja skal vera kostnaðarverð með hæfilegu tilliti til rannsókna- og þróunarkostnaðar, Söluverð innlendrar lyfjaframleiðslu fer að öðru leyti eflir reglum gildandi lyfjaverðskráa, sem staðfestar eru af heilbrrh.

Lyfjaverðlagsnefnd er til umsagnar um öll atriði er varða verðlagningu samkv. þessari grein.“

Það má kannske segja að þetta síðasta atriði komi nokkuð af sjálfu sér, en þó þykir mér rétt að hnykkja þannig á. Það þótti þeim ráðuneytismönnum á sínum tíma rétt að gera, og ég vil sem sagt gera þessa gömlu tillögu þeirra að minni. Ég hef borið þetta undir nokkra aðra menn, sem eru þessu kunnugir, og þeir telja einnig að þarna sé um meira og verulegra aðhald að ræða, þó að orðalagið sé ekki neitt ljótt í 32. gr.: „Verð lyfja skal vera hóflegt,“ en það segir ákaflega lítið í raun, og síðan bara að það skuli birta og búið. Ég hefði því eindregið viljað að alþm. hv. dm. athuguðu hvort þeim þætti ekki fært að breyta þessari grein í það form sem þeir áður voru búnir að samþykkja hér í sambandi við frv. um lyfjaframleiðslu á sínum tíma. Ég hef að vísu ekki borið þetta undir hæstv. ráðh., en mér skildist á formanni n., — ég held að ég hafi skilið það rétt, — að hann teldi rétt að halda sig við orðalag 32. gr. eins og það væri og sæi ekki beina ástæðu til þess að breyta því, þó að hann gæti tekið undir það, að þarna mætti vissulega hafa annað orðalag, eitthvað í þá áttina, og voru þær litlu umr., sem fram fóru í n., um þetta atriði.

Við 41. gr., um lyfjasölusjóðinn, er till. sem þarfnast örlítillar skýringar. Það er þá í fyrsta lagi það, að í haust snemma fluttum við á þskj. 20, allir þm. Alþb. í þessari deild, till. til þál. um eflingu innlendrar lyfjaframleiðslu, þar sem Alþ. ályktaði að skora á ríkisstj. að láta undirbúa frv. á þá lund, að innlend lyfjaframleiðsla njóti forgangs umfram innflutt lyf sé hún fyllilega samkeppnisfær og að því leyti sem innlend lyf eru talin jafngóð erlendum verði læknum lögð viss skylda á herðar um að nýta þau umfram hin erlendu lyf, jafnframt verði stuðlað að fjölbreyttari lyfjaframleiðslu en nú er. Þessi till. og grg. með henni var samin í beinu samráði við Almar Grímsson sem hafði átt í nokkrum orðaskiptum m. a. á síðasta vetri varðandi lyf og var þar auðvitað eingöngu að svara faglega í því máli, en tók undir ýmis þau atriði, þó að hann viðurkenndi að þarna gæti verið um að ræða erfið atriði til umfjöllunar, eins og reyndar var þá bent á af hv. þm. Oddi Ólafssyni, sérstaklega varðandi skyldu læknanna að nýta hin innlendu lyf umfram hin erlendu. Í grg. okkar og í framsöguræðu minni fyrir þessari till. kom fram að það er gífurlegur mismunur á erlendum lyfjum og inniendum sem talin voru jafngóð lyf eftir prófun og eftir því sem ég fékk upp gefið hjá Almari Grímssyni. Verðmunur var allt að fjórfaldur og gat hvergi nærri talist eðlilegur. Engu að síður rakti ég þar dæmi um það, hvernig læknar hefðu ítrekað gefið ávísun út á hin dýrari lyf, þrátt fyrir það að þeir hefðu einnig í sínum fórum, í sínum lyfjabúðum, þar sem þeir eru með þær einnig, verið með hin ódýrari og verið búnir að fá á því staðfestingu, að áhrif þessa tiltekna innlenda lyfs væru jafngóð. Það var eiginlega hvatinn að þessari till. minni, að ég varð var við þetta við persónulega reynslu heima í héraði.

Í þessum lyfsölusjóðsákvæðum, sem hér eru um hlutverk lyfsölusjóðsins, eru tvö atriði sem ég vil setja í aðra röð, þó að þarna sé kannske ekki um neina forgangsröðun að ræða, en ég vil að innlenda lyfjaframleiðslan komi þarna inn sem annað atriði. Ég viðurkenni að fyrsta atriðið ætti að vera, því að það er ábyggilega erfiðast af öllu, að stuðla með fjárframlögum að stofnun og rekstri lyfjabúða á þeim stöðum er heilbrigðisyfirvöld telja nauðsyn lyfjabúða ótvíræða, en vafasamt er hvort reksturinn geti borið sig með eðlilegum hætti. Þetta álít ég að eigi að vera verkefni nr. eitt í þessu, alveg tvímælalaust, og hef þess vegna lagt til að töluliðirnir breytist þannig. En efnisleg breyting er þarna engin, aðeins til frekari áhersluauka. Liður 2 verði síðan um innlendu lyfjaframleiðsluna alveg óbreyttur, þ. e. a. s. að efla með lánum eða styrkveitingum innlenda lyfjaframleiðslu og rannsóknir í lyfjagerðarfræðum. Hér er ekki um neina efnisbreytingu að ræða, heldur aðeins spurningu um röð og áherslu, og ég vil hafa áherslu á þessum tveimur atriðum.

Ég hafði einnig samband við Almar Grímsson út af þessu tiltekna atriði, og hann taldi að þó ekki væri um beina forgangsröðun í þessu að ræða, þá væri engu að síður rétt að breyta þessari orðaröð, þessari atriðaröð, til þess að leggja aukna áherslu á þessa tvo þætti sem hann út af fyrir sig var á að væru þýðingarmestu þættirnir í þessu, en kannske ekki þeir fjárfrekustu. Hann hélt að það gæti alveg eins verið að fyrsti liðurinn, sem nú er, gæti orðið hvað frekastur á fé og þar mundi verða mest gengið eftir: að lána fé til stofnunar, kaupa eða endurnýjunar lyfjabúða, enda hefði meining lyfsala með þessum lyfsölusjóði eða beiðni um hann e. t. v. einmitt verið að fá fram lið nr. 1. síðan hefðu þeir í rn. og hæstv. ráðh. komið með hina hliðina. Ég hygg að þetta sé algerlega rétt skilgreining varðandi þetta atriði.

Ég vil svo bæta þarna við til þess að tryggja að ekki fari allt í nr. 1, sem ég veit að verður sótt í, og ég veit að hv. frsm, okkar n. er áreiðanlega á sama máli. Það verður auðvitað langmest sótt í sambandi við 1. liðinn, — þá vil ég tryggja að til tölul. 1 og 2, þ. e. a. s. til stofnunar og rekstrar lyfjabúða, þar sem vafasamt er að þær geti borið sig, en þarf að dómi heilbrigðisyfirvalda að hafa lyfjabúðir, og til eflingar innlendrar lyfjaframleiðslu fari a. m. k. 50% af fjármagni sjóðsins. Það vantar inn í þetta vitanlega enn þá. Ég vildi ekki fara lengra í þeirri von að menn gætu kannske sætt sig við þessar breytingar, ekki bæta við neinu um forgang eða neitt í því efni eða neinar skyldur varðandi lyfjaávísun lækna, hvorugt fór ég nokkuð inn á varðandi okkar till. En ég gekk ekki lengra vegna þess að með þessu móti taldi ég möguleika á því að koma þessu fram, og held að það ætti að vera saklaust fyrir hv. stjórnarliða, þó að þeir treysti sínum ráðh. auðvitað betur en öllum öðrum í þessum málum, þá ætti það að vera sársaukalaust fyrir þá að samþykkja þessa litlu till. og reyndar hina, sem er um 32. gr.