07.11.1977
Efri deild: 12. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (345)

59. mál, eignarráð yfir landinu

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Umr. um þetta frv. hafa nú farið nokkuð á dreif, og hv. 2. þm. Norðurl. e. var svo hugulsamur að muna í þessum ræðustól eftir 60 ára afmæli rússnesku byltingarinnar. Kann ég honum þakkir fyrir það, því að áhrif þeirrar byltingar ern náttúrlega umdeild til góðs hvarvetna í heiminum, þó að margt sé miður um framkvæmdina í föðurlandi hennar. Ég ætla nú ekki að fara út í samanburð við þennan kapítalisma sem ég man nú ekki einu sinni hvað hv. þm. nefndi, hinn upplýsta kapítalisma, eins og við höfðum kynnst honum t.d. í Suður-Ameríku og víðar. Ég ætla ekki að fara út í ástandið þar sem þessi upplýsti — (Gripið fram í: Frjálsi.) — frjálsi, já frjálsi kapítalismi ræður ríkjum í allri sinni dýrð í dag. En það gefst kannske tími til þess einhvern tíma síðar.

Mér þótti hins vegar vænt um það og þótti gott að hv. þm. tók mjög undir að það yrði að setja vissar skorður við óeðlilegum gróða í sambandi við það, þegar opinberar aðgerðir kæmu til og gerðu landverð hærra en það leyfði áður verið. Um þetta atriði höfum við í Alþb. einmitt verið með sérstaka till. Ég man nú eftir því, að þá var hv. þm. því miður ekki tilbúinn til þess að stíga það skref til fulls með okkur að setja þar við skorður og greiða atkv. með þessari brtt., en það hefði sennilega nægt til þess að hún hefði náð hér fram að ganga. En það er vissulega svo, að bændur eiga ekki að mínu viti að njóta óeðlilegs gróða af því, sem opinberir aðilar skapa með aðgerðum sínum á landi sem er eign hænda.

Ég hlýt hins vegar að gera aths. við það sem hefur komið hér fram varðandi eignarréttinn og hvað hann hefði mikla þýðingu í sambandi við alíð bænda og umhyggjusemi fyrir jörðum sínum. Ég geri þetta vegna þess að ég þekki ekki og veit ekki dæmi um annað en mikla alúð og umhyggjusemi þeirra manna sent búa á ríkisjörðum í dag. Ég þekki þó nokkuð marga þeirra og vegna þess get ég ekki látið þessu ómótmælt, því að þetta er staðreynd sem ég hygg að sé til miklu víðar á landinu en í mínu nágrenni.

Varðandi þetta frv. annars er það að segja, að ég fagna því, eins um ég gerði reyndar þegar við ræddum frv. okkar Alþb.- manna um breytingu á stjórnarskipunarlögunum. Ég fagna því, hve mikil framför hefur orðið hjá þeim Alþfl.-mönnum í öllum málflutningi varðandi þetta mál. Ég man eftir því, að það, sem fékk mig til þess að standa upp á sínum tíma og andmæla vissum atriðum í máli hv. frsm. þá voru ýmis gífuryrði um landeigendaauðvaldið og hve brýnt væri í raun og veru að byrja þjóðnýtinguna einmitt á þessum voðalegu mönnum sem ættu bújarðir. Það vakti einmitt, hjá mér spurninguna um það, hvar væri mest þörf þjóðnýtingar í okkar landi, og um það greinir okkur á vissan hátt enn í dag, hvar þörfin er mest á því. Alþfl.menn virðast sem sagt enn þá, þó að mjög hafi úr því dregið, álíta það eins konar forgangsverkefni í þjóðnýtingu að þjóðnýta bújarðir bænda, þó að þeir hafi þar nú miklu meiri fyrirvara á, og ber að virða það, eins og ég tók fram í umr. um okkar frv.

Rússar eru eðlilega ofarlega í hugum manna í dag, og þeir voru einnig ofarlega í huga hv. fyrri flm. Hann taldi að Rússar mundu hryggjast yfir því, hve við hefðum fjarlægst byltingarhugsjónina. En það má þá á það benda, að þeim mun meiri gleði hlýtur þá að vera hjá þeim hinum sömu mönnum yfir hinum týndu sonum sósíalismans, Alþfl.-mönnunum, sem nú eru aftur á leiðinni yfir til byltingarinnar, að því er best mátti skilja.

Við höfðum sem sagt lagt á það áherslu, Alþb.menn, að þjóðnýting í því formi sem hér er reyndar lagt til sem aðalregla — þjóðnýting á litlu landi væri ekki tímabær við ríkjandi aðstæður. Við höfum hins vegar bent á það, t.d. í umr. um jarðalögin, að vissulega eru umhugsunarverð örlög þeirra bænda sem hafa orðið að hverfa frá jörðum sínum allslausir. Þær jarðir, sem nú standa í eyði og margar hverjar með hinum ágætustu byggingum sem menn hafa lagt ævistarf í, eru vissulega ekki fallegur minnisvarði um eignarréttarnauðsynina í sambandi við bújarðir bænda. Það er önnur hlið þessa máls sem ég held að bændur þurfi sannarlega að hugleiða einnig varðandi öll þessi mál.

Og þá skal undir það tekið, sem hv. þm. Ingi Tryggvason kom inn á áðan, að það er rétt, þessi mál þurfa öll og eiga öll að vera í endurskoðun. Þau voru í endurskoðun — Það skal viðurkennt — þegar jarðalögin nýju voru sett. Þau voru óneitanlega gífurleg framför frá því sem áður var, sérstaklega ef framkvæmd þeirra fer eftir þeim ákvæðum sem þar eru stífust, þó að við hefðum um margt kosið að þar kæmu ný atriði inn í, m.a. sú grein sem við erum nú með í frv. okkar um það, að menn skuli ekki hljóta óeðlilegan gróða fyrir opinberar aðgerðir eða vegna nágrennis við þéttbýli.

Ég tek hins vegar undir það — og minni á orð hv. þm.Stefáns Jónssonar í umr. um frv. okkar Alþb.- manna og orð sem komu einnig fram hjá hv. þm. Inga Tryggvasyni — í sambandi við varðveislu og verdun landsins, t.d. fyrir ásókn þess auðvalds sem nú teygir sig æ meira hingað til lands, að varðveisla og verndun landsins er, held ég, best komin í höndum bænda, miðaða við það ríkisvald sem við höfum. Bændum er í raun og veru best treystandi í þeim efnum.

En það var einmitt eitt af þeim atriðum sem var komið mjög inn á í fyrsta flutningi þessa máls hjá þeim Alþfl.- mönnum, það var varðandi frelsi fyrir þéttbýlisbúanna til þess að fara um landið, og það er auðvitað gott og blessað. En ég benti á það og bendi enn á það, að það frjálsræði fer oft út í öfgar. Sem betur fer höfum við núna löggjöf sem stemmir allverulega stigu við einmitt þessu frelsi, þ.e.a.s. náttúruverndarlöggjöfina okkar. Sem betur fer högum við það skýr ákvæði um þetta frelsi a.m.k. á mörgum stöðum, geti ekki gengið út í hreinar öfgar eins og við höfum mörg dæmi um.

Ég held að ég tefji ekki mikið þessa umr. núna, en ég benti á það um daginn að um margt eru þessi frv. lík. Ég tel aðeins að okkar leið sé raunhæfari og eðlilegri miðað við allar aðstæður, þar sem við göngum út frá því að bújarðir bænda ásamt þeim hlunnindum, sem búskapnum hafa fylgt, séu áfram í eigu bænda. Þar með er ekki sagt, eins og á var bent í þeim umr. að þetta sé sú framtíðarstefna sem við höfum í þessum efnum. Þar með er það ekki sagt. En miðað við ríkjandi aðstæður fer ekki á milli mála, að þessi stefna er raunhæfari og eðlilegri um leið. Umr. frestað.