29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4244 í B-deild Alþingistíðinda. (3450)

242. mál, lyfjalög

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Það er út af síðustu ummælum hv. þm. Odds Ólafssonar. Það er rétt, að sú breyting var tvímælalaust til bóta sem þarna var gerð, þó að ég hefði talið að orðalag till. minnar ætti rétt á sér í 32. gr.

Varðandi lyfsölusjóðinn efast ég ekkert um að það sé meining hæstv. ráðh., að þessir liðir verði jafngildir og a. m. k. liðir 4 og 5 verði ekkert út undan eða ekkert síðri. En ég hallast að því samt sem áður, af því að þarna er, held ég, ekki um ágreiningsatriði milli okkar að ræða, að ég dragi þessa seinni brtt. til baka til 3. umr. og gæti þá kannske hugleitt hvort það væri möguleiki að ná þar um samstöðu. Ég ætla aðeins að spyrja hv. þm., sem er þessu máli mjög kunnugur, hvort hann telji ekki að það sé út af fyrir sig rétt skoðun, að það verði a. m. k. núna fyrst um sinn langmest sótt á fé úr lyfsölusjóði skv. lið nr. 1, þannig að af þeim ástæðum sé viss þörf á því að raða þessu öðruvísi og ákveða einhverja prósentu. Ég fór eins vægt í þetta og hugsanlegt var, því að sannast sagna var mér bent á að það væri engin fjarstæða að fara upp í 60–65% varðandi þessa tvo liði. En ég fór í 50% til þess að vera ekki of frekur á þessa tvo seinni liði.

Ég dreg sem sagt þessa seinni till. til baka til 3. umr., ef vera kynni að við í n. gætum komist þar að einhverju samkomulagi.