29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4246 í B-deild Alþingistíðinda. (3455)

181. mál, bann við fjárhagslegum stuðningi erlendra aðila við íslenska stjórnmálaflokka

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég hef ekki tekið þátt í umr. um þetta frv. Vissulega hefði verið ástæða til þess að leggja hér orð í belg, ekki síst vegna furðulega ósvífinnar grg. sem hv. þm. Bragi Sigurjónsson sendi frá sér um þetta mál, þar sem hann varpar fram algerlega rakalausum dylgjum og ósvífnum ósannindum. En þar sem hér var um svo einfeldningslegar fullyrðingar að ræða, að ég taldi þær ekki svaraverðar, þá lét ég kyrrt liggja, enda hef ég litið á það ofar öllu öðru nú á seinustu dögum þingsins, þegar mjög tvísýnt er hvort unnt verður að ná þessu máli í gegnum báðar deildir þingsins vegna annríkis, að málið fengi sem greiðasta ferð í gegnum Ed., og hef ég því ekki viljað tefja það með einum eða neinum umr. af minni hálfu. Ég get vel tekið undir það sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Sólnes, að e. t. v. kynnu einhver minni háttar — algerlega minni háttar atriði að þurfa athugunar við. En þau eru svo smávægileg og minni háttar miðað við allt meginefni og megintilgang frv., að ég tel að ekki sé tímabært og ekki sé aðstaða til að snurfusa frv. frekar og það verði þá að bíða betri tíma, jafnvel eftir að það verði orðið að lögum, ef mönnum sýnist svo. Það er ekkert í frv. sem getur talist til meiri háttar vankanta. Með þetta í huga segi ég já.