29.04.1978
Efri deild: 92. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4248 í B-deild Alþingistíðinda. (3460)

303. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Hér er vissulega lagt fram frv. sem er í sjálfu sér stórmál og er gott að fá það til yfirsýnar. Það er nú svo að fá þetta í þeim önnum sem nú ríkja. Maður hefur bókstaflega ekki haft tíma til að líta á þetta mál, en ég sé strax, að nokkurt vandamál getur orðið uppi varðandi 4. gr. og varðandi 5. gr., og komum við þá að því, hvað er sameign og hvar landamerki liggja og þar fram eftir götunum. Þetta finnst mér mjög veigamikið mál og er ekki gott úrlausnar fyrr en það er orðið svo, eins og við höfum lagt til hér, Alþfl.menn, oft á undanförnum árum, að það sé sett löggjöf um hvernig með skuli fara það sem utan girðingar liggur. T. d. segir í 4. gr. — það er nú ekki eins erfitt mál og varðandi 5. gr. um landið sjálft — að ef firðir séu það þröngir að breiddin sé innan 230 metra skuli skipta til helminga.

Þetta er mjög viðkvæmt mál, vægast sagt. Tökum þá aðila t. d. á Ströndum eða einhvers staðar annars staðar sem eru að fást við svartfugl eða einhvern annan fugl sem leyfilegt er að veiða. Það gætu orðið árekstrar þarna. Ég held að í sambandi við svona mál sé mjög erfitt að hafa þá ævagömlu venju, að netlög skuli ráða í sambandi við veiði. Það er mjög erfitt —- ég vil bara undirstrika það — jafnvel þó að það geti verið sterk rök fyrir því, að maður telji sig eiga rétt á veiði 115 metra frá landi á fugli sem er á örri hreyfingu.

Það er nú svo með fuglamál að þau eru afar viðkvæm og litlar eða engar rannsóknir liggja fyrir, því miður, hvað fuglinn gerir sem skaðvaldur, jafnvel hinn ágætasti og vinsælasti fugl eins og álftin, hvað gerir hún sem skaðvaldur. Ég segi það alveg hreinskilnislega, að það er fráleitt að hafa svo ströng lög að það sé ekki heimilt, auðvitað undir vísindalegu eftirlíti, eins og það heitir, að menn verji land sitt með veiði á álft ákveðinn tíma ársins og ýmsum öðrum fugli, því að það þýðir ekkert að neita þeirri staðreynd, að álftinni hefur fjölgað svo mikið undanfarin ár að af henni er orðið stórtjón, og það ættu bændur best að vita, svo að ég tali nú ekki um það mikla átak sem fram undan er í laxveiðimálum, þá er þar enn meira tjón og svo gífurlegt tjón að ég reyni ekki að spá hvað hún spillir miklu. Við skulum ekki flana að neinu hér. Ég vil vekja athygli á þessu strax, vegna þess að við komumst ekki hjá því að taka á þessum vanda. Og þá verður í löggjöf, sem er hér í undirbúningi og ég þakka sérstaklega fyrir að skuli vera sýnd núna, að taka á þessu máli. Það eru ýmsar fleiri fuglategundir sem hefur fjölgað mjög undanfarin ár. Sumt er alfriðað, sumt ekki, og við verðum að fá nákvæmt yfirlit og miklu meira yfirlit en fyrir hendi er um hvað þetta þýðir í okkar lífríki.

Það segja mér fróðir menn, að eftir að veiðar á svartfugli lögðust að verulegu leyti niður hafi honum fjölgað óhemjulega. Allir þdm. geta lesið það sjálfir í bókinni um fiskana eftir Bjarna heitinn Sæmundsson, hversu mikið svartfuglinn tekur til sín og hvað þetta þýðir. Þess vegna langar mig til að vekja athygli á því, að þetta mál þarf nákvæma athugun.

Ég er mikill aðdáandi fuglaríkisins hér á landi og vil að við gerum allt til þess að hægt sé að efla það og hafa það sem fjölskrúðugast. En það er öfugt að þora ekki að viðurkenna þá þróun sem er til tjóns fyrir lífríkið sjálft, og löggjafinn verður að taka tillit til þess, að a. m. k. á vissum tímum, eftir undangengna rannsókn og talningu t. d. á álft eða súlu eða einhverju öðru, þá sé heimilt undir eftirliti eða umsjón menntmrn., eins og t. d. með hreindýr, að veiða á ákveðnum tíma ákveðna tölu. Það eru fræg dæmi um það úr þingsögunni, að það hafi orðið dýrt fyrir menn að nefna álftina, og skal ég ekki fara nánar út í það. Ég vil aðeins vekja athygli á því, að þetta er mikið vandamál og nauðsynlegt að löggjafinn fjalli um það hleypidómalaust. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að vissum fuglategundum hefur fjölgað hér svo mikið að það er með ólíkindum. Ég man eftir því frá Norðurlandi, að fram yfir fermingu var það undantekning að sjá grágæs. Hettumáf hafði ég alls ekki séð og einn og einn fýl. Nú er þetta talið í þúsundum og tugþúsundum einstaklinga. Sumir bændur segja, að þetta sé vágestur hinn mesti, aðrir láta það átölulaust, eftir því hvernig land liggur. En þetta er mál sem þarf mikla athugun.

Það er dálítið fróðlegt að vita til þess, að til Íslands berast miklar samþykktir frá veiðifélögum í Englandi og víðar í Suður-Evrópu um að við friðum þennan fugl svo að hann geti komið í stórum flokkum til Englands þar sem hann er skotinn, ég vil ekki segja miskunnarlaust, en verulega. Það eru birtar myndir af fyrirmönnum með jafnvel prinsinn í broddi fylkingar í veiðitímaritum. Þetta geta menn séð og þetta hef ég séð, þar sem talin eru upp afrek þessara fyrirmanna og höfðingja, hvað þeir hafi skotið af gæsum og smáfuglum, niður í fugla sem okkur dytti aldrei — ekki nokkrum manni — í hug á Íslandi að menn legðust svo lágt að blaka við, hvað þá að deyða. Sumir kunna að segja að þetta komi málinu ekki við. En þetta snertir okkur alla, vegna þess að varðandi farfugla er hér um eitt lífríki að ræða, þá fugla sem hreyfa sig á milli suðlægra og norðlægra slóða. Mjög ánægjulegt væri að sjá það, að átak væri gert í því að alfriða fugla sunnanlands, vestan, norðan og austan á vissum svæðum. Ég átti þess kost t. d. að sjá á austurströnd Bandaríkjanna gríðarlega stórt svæði tekið til friðunar fyrir fugla rétt norðan við Atlantic City, og þar er fólki gefinn kostur á því að fara um og skoða fugla og vera í útivist þar. Þar eru þess háttar mannvirki að fólkið getur gist þar, haft sjónauka og tekið myndir. Tugþúsundir fugla hafa fengið þar aðsetur og eru orðnir staðbundnir, aðrir halda norður um og til nyrstu héraða Kanada og til Íslands. Einnig eru þarna mjög víðtækar upplýsingar um hinar ýmsu tegundir og sýnt samkv. rannsóknum, hvernig fuglarnir hreyfa sig.

Það er því ekkert einkamál, hvorki Breta, Frakka, Spánverja né annarra manna, hvernig við tökum á þessum málum, og varla verður sagt að það sé einkamál okkar heldur. Og í þeirri hreyfingu, sem aukin náttúruvernd á nú við að búa hér, sem er blessunarlegt, tel ég hér eitt af meiri háttar málum á ferðinni. Ég vil eindregið mælast til þess, að þetta mál verði rækilega undirbúið og hleypidómalaust lítið á þetta. Ég tel þetta stórmál, og ég tel það líka stórmál hvað í 4. og 5. gr. segir um veiðirétt hins almenna þegns hér á landi. Eins og þær eru orðaðar í dag gæti ég ekki alls ekki fylgt þeim.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð lengri, en ég vil ítreka það að lokum, að ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að sýna okkur þetta og raunar sýna allri þjóðinni þetta. En ég vil láta fylgja jafnframt, að um þessi mál verði hleypidómalaust fjallað, því að það hefur oft verið gert með öfgum, stundum af of miklum tilfinningahita, og ég vænti þess, að þeim þætti í þessum málum sé lokið.