29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4276 í B-deild Alþingistíðinda. (3486)

233. mál, vátryggingarstarfsemi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Lög um vátryggingarstarfsemi voru sett á árinu 1973, en í ljós hefur komið að þörf var að endurskoða þessi lög því að ýmislegt hafði komið í ljós í sambandi við framkvæmd laganna sem gerði nauðsynlegt að endurskoðun færi fram. Frv., sem lagt var upprunalega fyrir Ed. og er komið hingað, er að stofni til byggt á ýmsum tillögum og ábendingum sem borist hafa um breytingar. Víða þurfti að breyta orðalagi eða efni, og kaflinn um vátryggingarfélög, sem starfandi voru þegar lögin frá 1973 tóku gildi, var orðinn óþarfur og úreltur, eins og fyrir fram var vitað að hann yrði, þegar föst skipan væri komin á starfsemi félaganna. Af þessum sökum var sá kostur valinn að flytja frv. til nýrra laga. Veigamestu till. bárust rn. á útmánuðum 1977 frá tryggingaeftirlitinu. Eins og við mátti búast hafði tryggingaeftirlítið að fenginni reynslu af framkvæmd laganna ýmislegt til málanna að leggja. Þá hafði rn. áður borist till. frá n. sem starfaði að endurskoðun á lögum þessum á vegum Sambands ísl. tryggingafélaga. Og loks hafði rn. bæði að eigin frumkvæði og eftir annarra ábendingum hugmyndir um tímabærar lagfæringar á lögunum,

Helstu breytingar frá gildandi lögum, sem í þessu frv. felast, eru að krafa um lágmarkshlutafé félags, sem sækir um leyfi til vátryggingarstarfsemi, er hækkuð úr 20 millj. í 50 millj. kr. og ekki gerður greinarmunur á líftryggingarfélagi og öðrum. Til líftryggingarfélaga voru áður gerðar lægri kröfur eða um 10 millj. kr. lágmark. Á svipaðan hátt eru kröfur um stofnfé gagnkvæms vátryggingarfélags, sem starfsleyfis óskar, hækkaðar úr 5 og 10 millj. í 35 millj. kr.

Í gildandi lögum er m. a. það skilyrði sett fyrir starfsleyfi erlends vátryggingarfélags, að það sanni að eignir þess hér á landi nemi eigi minna fé en 10 millj. kr. en í frv. þessu er lagt til að lágmarkið verði hækkað í 25 millj. Þá eru sett ítarleg ákvæði um ávöxtun eigin tryggingarsjóðs erlends vátryggingarfélags sem starfar hér á landi á sviði skaða- og endurtryggingar. Þessar reglur eru hliðstæðar þeim, sem eru í gildandi lögum um íslenskar vátryggingar.

Í nýrri grein er gerð krafa um skýrleika í nafni tryggingarfélaga svo og að umboðs- og sölumenn beri jafnan skilríki frá félaginu.

Þá er veigamikil breyting fólgin í þeirri till. rn. að fella niður 38. gr. núv. laga um tímabundna skipun til fjögurra ára í stjórn tryggingaeftirlitsins. Kostnaður við þessa stjórn eftirlitsins nam nákvæmlega 2 milljónum kr. sem nú sparast. Afleiðing af þessu verður sú, að stofnunin starfar áfram undir daglegri stjórn framkvæmdastjóra sem ráðh. skipar, eins og gildir um flestar aðrar ríkisstofnanir, eins og nánar er rakið í aths. um 38. gr. frv.

Í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv., eða nánar sagt koma 7 brtt. frá heilbr.- og trn. Flestar þessar brtt. fela í sér hækkun á upphæðum, bæði á hlutafé í vátryggingarfélögum og ýmsum öðrum greiðslum. Þær breytingar skýra sig sjálfar. En veigamesta breytingin, sem gerð var í Ed., var sú, að aðilar hér á landi, sem tryggja erlendis verðmæti, sem eru eign viðkomandi að einhverju eða öllu leyti, án milligöngu vátryggingarfélags sem starfsleyfi hefur samkv. íslenskum lögum, skuli sækja um leyfi til trmrh. sem að fenginni umsögn tryggingaeftirlitsins getur veitt slíkt leyfi til eins árs í senn, og þeir, sem samkv. leyfi trmrh. tryggja erlendis án milligöngu íslensks tryggingafélags, skulu árlega senda tryggingaeftirlitinu skýrslu um tryggingar sínar svo sem um væri að ræða íslenskt vátryggingarfélag. Þeir eru og gjaldskyldir til tryggingaeftirlitsins á sama hátt og íslensk tryggingafélög.

Þá gerði Ed. þá breytingu á 23. gr., að í nafni vátryggingar skal koma fram að félagið reki vátryggingarstarfsemi.

Þá var einnig breytt nokkuð 48. gr. á þann veg, að í n., eins og segir þar í greininni eiga sæti þrír menn, einn samkv. tilnefningu Sambands ísl. tryggingafélaga eða viðkomandi vátryggingarfélags, hagstofustjóri, og er hann formaður n., og einn án tilnefningar. Ég tel að þessar breytingar, sem Ed. gerði á frv., séu allar til bóta og hafi verið sjálfsagt að gera þær breytingar. Þetta frv. var vandlega yfirfarið í Ed. Ég er mjög ánægður með þær breytingar sem gerðar voru þar, og legg til, hæstv. forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og heilbr.- og trn.