29.04.1978
Neðri deild: 89. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4278 í B-deild Alþingistíðinda. (3492)

300. mál, þjónustustofnanir

Kristján Ármannsson:

Virðulegi forseti. Frv. það, sem ég hef lagt hér fram á þskj. 719 ásamt hv. þm. Ólafi Óskarssyni, Stefáni Valgeirssyni, Lárusi Jónssyni, Pálma Jónssyni og Páli Péturssyni, flytjum við að beiðni Áskels Einarssonar framkvæmdastjóra Fjórðungssambands Norðlendinga, en hann hefur fyrir sína hönd og annarra framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga farið þess á leit, að frv. þetta verði flutt hér á hv. Alþ. Við flm. teljum eðlilegt að verða við þeirri beiðni, en áskiljum okkur allan rétt til afstöðu til frv. í heild og til einstakra ákvæða þess.

1. gr. frv. hljóðar svo: „Þjónustustofnun er samstarfsstofnun um húsnæðisafnot, um nýtingu tækja og búnaðar og um aðstoðarþjónustu til að efla nauðsynlega þjónustustarfsemi með samstarfi innan sömu stofnunar.

2. gr. Þjónustustofnun skal jafnan að vera að meiri hluta í eigu ríkis og sveitarfélaga eða aðila þeirra.

Heimilt er þó, að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar og félmrh., að sjálfseignarstofnun eða þjónustuaðili, sem annast þjónustu við almenning innan ramma sérstakra laga, sé eigandi að meiri hluta í þjónustustofnun.

Starfsaðstöðu fyrir stjórnsýslustarfsemi á vegum sveitarfélaga eða sveitarfélagasamtaka má telja þjónustustofnun og nýtur réttar samkv. þessum lögum.

3. gr. Telji sveitarstjórn eða samtök sveitarfélaga nauðsynlegt að komið verði á stofn þjónustustofnun, skal leitað samstarfs við þá aðila, sem vegna starfsemi sinnar koma til greina um þátttöku,

Framkvæmdastofnun ríkisins skal gera könnun á þörf fyrir þjónustustofnun, sé þess óskað af sveitarstjórn eða samtökum sveitarfélaga, sem miðist við staðarval í þéttbýlisstað eða í stærri bæjarhluta.

Við undirbúning og stofnun þjónustustofnunar skal kannað, hvort á vegum ríkisins sé fyrir hendi heppileg starfsaðstaða fyrir þjónustustofnun og hvort ekki sé hagkvæmt að samræma framtíðarhúsnæðisþörf ríkisaðila uppbyggingu þjónustustofnunar.

Framkvæmdastofnun ríkisins gerir áætlun til 10 ára um þróun opinberrar þjónustu og almennrar þjónustustarfsemi á starfssvæði þjónustustofnunar. Við áætlunargerðina skal leitað eftir framtíðaráformum þjónustuaðila á áætlunartímabilinu.

Framkvæmdastofnunin skal leggja mat á það, hvort sé þörf þjónustustofnunar. Skal hún gera till. um skiptingu eignaraðildar að þjónustustofnun.

Komi í ljós að dómi Framkvæmdastofnunar ríkisins, að þörf er fyrir þjónustustofnun á svæði, þar sem ekki er fjárhagslegur grundvöllur fyrir starfsemi hennar, skal félmrn. kanna í samráði við heimaaðila leiðir til þess að koma upp þjónustustofnun. Heimilt er að veita fjárframlög úr Byggðasjóði í þessu skyni og styrki úr ríkissjóði eftir því, sem ákveðið er í fjárlögum.

4. gr. Nú ákveða tveir eða fleiri aðilar að stofna félag um þjónustustofnun og skulu þeir gera með sér stofnsamning.

Í stofnsamningi skal kveðið á um eignaraðild, atkvæðisrétt á eigendafundum, stjórnarfyrirkomulag og reikningshald. Framlag eignaraðila að eigin fé skal a. m. k. vera 25% af stofnkostnaði.

Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum sameignarfélags um þjónustustofnun. Hann kýs stjórn félagsins, endurskoðendur reikninga og úrskurðar ársreikninga.

Stjórn félagsins fer með málefni þess milli aðalfunda.

Óheimilt er að veðsetja eignarhlut í þjónustustofnun, nema með samþykki stjórnar.

Skylt er stjórn félagsins að boða til eigendafunda, ef eigendur 1/3 eignarhluta óska þess. 5. gr. Sameignaraðili getur hætt starfsemi í þjónustustofnun. Sveitarfélagsaðilar, síðan ríkisaðilar skulu hafa forkaupsrétt að eignarhlut. Að þeim frágengnum getur aðalfundur ráðstafað eignarhlut til annarra eigenda eða nýrra aðila. Ef ekki semst um verð á eignarhluta þess er gengur úr, skal verð hans ákvarðast að mati tveggja óvilhallra dómkvaddra manna. Heimilt er sameignarfélagi um þjónustustofnun að leysa til sín eignarhlut.

6. gr. Stofnfundur sameignarfélags um þjónustustofnun setur henni samþykkt um stjórn og starfshætti, sem tekur gildi með staðfestingu félmrh. Samþykkt eigenda félags má aðeins breyta á aðalfundum með 2/3 atkv.

Sé þjónustustofnun í eigu eins aðila skal hann setja henni samþykkt, sem tekur gildi með staðfestingu ráðh.

7. gr. Í samþykkt skulu vera ákvæði um, hvers konar starfræksla sé við hæfi í þeirri þjónustustofnun, sem samþykktin nær til.

Eigandi (stjórn sameignarfélags) ákveður endurgjald fyrir húsnæðisafnot og aðra starfsaðstöðu eftir því sem nánar er kveðið á í samþykkt. Setja má það skilyrði fyrir starfsaðstöðu í þjónustustofnun, að starfsaðili greiði leigu fyrir fram a. m. k. til 5 ára í samræmi við leigusamning.

Nú kemur í ljós, að starfsaðili hlítir ekki samþykkt þjónustustofnunar og starfsreglum eða nýtir ekki starfsaðstöðu í samræmi við settar reglur, og er þá heimilt að víkja honum úr stofnuninni.

Verði ágreiningur um starfsréttindi er heimilt að skjóta ágreiningi til félmrh., sem sker úr. Óheimilt er að framselja húsnæðisafnot og starfsaðstöðu við þjónustustofnun.

8. gr. Starfræksla þjónustustofnunar er m. a. samrekstur húsnæðis, ýmiss konar búnaðar, samnot af fundaaðstöðu og skjalageymslu, ásamt rekstri þjónustudeildar.

Þjónustudeild annast sameiginlega forsvarsþjónustu fyrir stofnunina, svo sem upplýsingaþjónustu, símavörslu, umsjón með rekstri sameiginlegra tækja og búnaðar, skjalavörslu, ljósritun, fjölritun, vélritun og aðra skrifstofuþjónustu eftir nánari reglum samkv. sérstökum samningum við starfsaðila í þjónustustofnun.

Þjónustudeild er heimilt að taka að sér verkefni fyrir aðila utan stofnunarinnar, eftir því sem nánar er ákveðið í starfsreglum.

Heimilt er að veita aðila húsnæðisafnot við þjónustustofnun, sem gert hefur samning við þjónustudeild, að hún annist störf fyrir hann.

Fela má samstarfsnefnd starfsaðila daglegan rekstur stofnunarinnar eða einstakra deilda hennar með sérstökum samningi. Sama gildir um einstaka starfsaðila eða aðila utan stofnunarinnar.

9. gr. Ríkisstj. skal leita samninga við lánastofnanir um stofnlánafyrirgreiðslu vegna uppbyggingar þjónustustofnana, með sama hætti og um lánsfjármagn til framkvæmda á vegum sveitarfélaga.

Heimilt er ríkisstj. að fela Lánasjóði sveitarfélaga og Byggðasjóði að vera stofnlánasjóðir fyrir þjónustustofnanir.

10. gr. Félmrh. setur reglugerð samkv. þessum lögum, eftir því sem þörf krefur.

11. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og ég sagði í upphafi flytjum við þetta frv. og því fylgir alilöng grg. Við flytjum þetta algerlega óbreytt frá hendi höfunda, og eins og segir í upphafi grg. og ég sagði reyndar áðan er það Áskell Einarsson framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Norðlendinga sem hefur fyrir sína hönd og annarra framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga farið þess á leit, að frv. þetta verði flutt á Alþ. Við sem sagt teljum rétt og eðlilegt að verða við þeirri beiðni, en áskiljum okkur allan rétt til afstöðu til frv. í heild og einstakra ákvæða þess.

Meginmál grg.- höfundar ætla ég að leyfa mér að lesa hér á eftir. Það skiptist í eina 3–4 kafla.

I. kafli grg. nefnist: „Er þörf þjónustustofnana?“

„Fyrir fáum árum gekkst Fjórðungssamband Norðlendinga fyrir könnun á þjónustustarfsemi á Norðurlandi. Niðurstöður voru þær, að víða skorti mikið á að til staðar sé í minni þéttbýlisstöðum allra nauðsynlegasta þjónusta á sviði stjórnsýslu og algengasta þjónustustarfsemi við almenning. Kemur þar einkum tvennt til, að þjónustumarkaðurinn er svo lítill, að ekki er grundvöllur fyrir eðlilegum rekstri einstakra starfsgreina, og ekki er fyrir hendi hentugt húsnæði. Með skírskotun til þessa er leitað að úrræðum til þess að gera hinum mörgu þjónustu- og stjórnsýsluaðilum kleift að dreifa starfinu með hagkvæmum hætti. Viða hefur komið fram áhugi fyrir því að byggja upp húsnæðisaðstöðu ásamt starfsaðstöðu, svo að ólíkar þjónustugreinar geti stutt hvor aðra með samstarfi innan sömu stofnunar, svo og að skapa skilyrði fyrir skrifstofuþjónustu fyrir smærri aðila.

Þessar stofnanir eru ýmist nefndar stjórnsýslumiðstöðvar, þjónustumiðstöðvar eða þjónustustofnanir, eins og hér er gert. Þessar stofnanir eiga að láta í té húsnæðisaðstöðu og aðra starfsaðstöðu fyrir stjórnsýslu- og þjónustustarfsemi, sem ásamt félags- og atvinnuaðilum hafa veruleg viðskipti við almenning. Stofnunin annast þjónustu við einstaka aðila með sameiginlegri þjónustudeild, sem hefur skrifstofu- og upplýsingaþjónustu. Þannig er hægt með samstarfi og samræmingu á milli einstakra aðila að ná hagkvæmni í rekstri og gera mögulegt að margir aðilar geti notið sameiginlegrar þjónustu, sem þeim er um megn að reka hverjum fyrir sig. Með þessum hætti má auka þjónustuframboð heima fyrir og draga úr kostnaði við að sækja sömu þjónustu í burtu. Þjónustustofnanir gera aðilum kleift að stunda tímabundna þjónustu fyrir svæðið og að fá um stundarsakir aðstöðu í stofnuninni. Þetta getur í senn orðið vísir að nýrri þjónustu við svæðið og sparar ómældan kostnað fyrir heimaaðila.

Þjónustustofnanir hafa mjög verulega þýðingu fyrir atvinnuval víða um landið. Sama má reyndar segja um atvinnudreifingu milli bæjarhluta í stærri kaupstöðum. Þess konar stofnanir staðsettar miðsvæðis í bæjarhluta eru til mikils hagræðis út um land, er til mikils hagræðis fyrir íbúana, og ekki síst þá sem láta þjónustuna af hendi. Víða í þéttbýlisstöðum úti um land mundu þjónustustofnanir verða eins konar ráðhús staðarins, sem ætti að setja svip á staðinn og knýja á um raunhæft miðkjarnaskipulag með framtíðarsjónarmið í huga.

Áætlanagerð um þjónustustofnanir: Fyrir frumkvæði Fjórðungssamband Norðlendinga hefur áætlanadeild Framkvæmdastofnunar ríkisins unnið frumdrög að áætlun um þörf fyrir þjónustustofnanir á Norðurlandi. Ekki hefur tekist að ljúka þessu verki enn. Frv. það, sem hér liggur fyrir, gerir ráð fyrir að Framkvæmdastofnun ríkisins annist þess konar áætlunargerð.

Nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því, að sama gerð þjónustustofnunar hentar ekki alls staðar á landinu. Þær hugmyndir að skipta landinu fyrir fram í þjónustusvæði, þar sem uppbygging þjónustustofnana grundvallast á svæðisskiptingu, geta reynst varhugaverðar fyrir starfsemi þeirra. Sú kenning að byggja upp eina þjónustustofnun fyrir landshluta eða landsfjórðung munu reynast varasöm í reynd og getur valdið búseturöskun. Í áætlanagerð um þjónustustofnanir verður að gæta þess, að starfsemin sé miðuð við þörf þess fólks, sem með eðlilegum hætti mundi sækja þjónustu til hennar. Þetta útilokar ekki að þjónustustofnun geti þjónað í sumum efnum landshluta ásamt næsta þjónustusvæði, ef þetta fer saman með eðlilegum hætti. Hér verður reynslan að skera úr um hvernig best skuli hagað fyrirkomulagi.

Þjónustustofnanir eiga hliðstæður á öðrum sviðum: Með lögum um félagsheimili, og með fjármagni af skemmtanaskatti til uppbyggingar félagsheimila, var stigið eitt merkasta spor í þá átt að færa landsbyggðina inn í nútímann um aðstöður til skemmtana- og félagslífs. Félagsheimilin eru gott dæmi um félags- og menningarstofnanir, þar sem tekst með samvinnu um húsnæðisafnot og starfsaðstöðu að tryggja almenna félags- og menningarstarfsemi, auk þess að gera einstökum félögum og hópum kleift að stunda starfsemi sína sérstaklega sem ekki eru skilyrði til, nema með samstarfi innan sömu stofnunar. Ekki er vafamál, að sú aðstaða, sem félagsheimilin hafa látið í té, hefur átt veigamikinn þátt í því að bæta búsetuskilyrði úti um dreifðar byggðir.

Víðs vegar um landið hafa verið reistar heilsugæslustöðvar, sem eru í senn samstarfsvettvangur lækna og heilbrigðisstétta annars vegar og hins vegar samstarfsstofnanir ríkis og sveitarfélaga um að samhæfa ólíkar greinar og dreifa þeim um leið út um landið. Það samstarf ólíkra sérhæfðra aðila, sem á sér stað innan heilsugæslustöðvanna, ásamt samnotum af sameiginlegri aðstoðarþjónustu, er mjög hliðstætt því, sem fyrirhugað er í þjónustustofnun.

Þetta sýnir að samstarf innan þjónustustofnunar á sér hliðstæður í því starfi, sem þegar á sér stað á Íslandi. Í hinu frjálsa athafnalífi á svona samstarf sér hliðstæðu t. d. með samvinnustofnun heildverslana í Sundagörðum í Reykjavík. Segja má að verslunarmiðstöðvar, þar sem margar verslanir starfa saman með sérgreindu vöruvali undir sama þaki, séu hliðstæður á sviði smásöluverslunar. Uppi hafa verið hugmyndir um að koma upp iðngörðum, þar sem hugsuð er samvinna um húsnæðisafnot og aðra sameiginlega starfsemi. Allt er þetta af sömu rót og hugmynd um þjónustustofnanir.

Meginmarkmið er að skapa þjónustumarkað á einum stað, er fullnægi sem mestri eftirspurn á sem hagkvæmasta hátt fyrir alla aðila. Frv. þetta stefnir að því, að löggjafinn setji nánari ákvæði um þessi mál, þannig að á sviði þjónustustarfsemi verið hliðstæð þjónustuþróun og í heilbrigðisþjónustu úti um landið og í stærri bæjarhverfum. Þetta verður best gert með eðlilegum stofnfjárfyrirgreiðslum.

Uppbygging þjónustustofnana er staðreynd: Víða um landið er hafinn undirbúningur að byggingu svonefndra bæjarhúsa, þ. e. húsnæðis á vegum sveitarfélags, þar sem til húsa eru skrifstofur þess og þjónustudeildir, t. d. slökkvistöð og e.t.v. aðstaða fyrir lögreglu. Staðreyndin er sú, að sveitarfélögin hafa ekki átt aðgang að fjármagni til þessa verkefnis. Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðasjóður hafa verið ófáanlegir til að lána sveitarfélögum til að koma upp stjórnsýslu- og þjónustuhúsnæði. Með því frv., sem hér liggur fyrir, er þetta þjónustuhúsnæði viðurkennt sem þjónustustofnanir og ætlast til að Lánasjóður sveitarfélaga og Byggðasjóður láni til þessa verkefnis.

Mjög víða hagar svo til, að stjórnsýsluhúsnæði sveitarfélaga er staðsett í kjarna þéttbýlisstaðar og er staðsett við aðalsamgönguleiðir. Því er hagkvæmast að stækka það húsnæði, sem fyrir er, og koma upp við hlið á starfsemi sveitarfélags aðstöðu fyrir þjónustuaðila, þ. e. þjónustustofnun. Sveitarfélagið gæti veitt sameiginlega þjónustu eða hlutast til um að hún verði látin í té. Þannig má skapa aðstöðu fyrir farandþjónustu sérhæfðra þjónustuaðila og koma á fót almennri skrifstofuþjónustu fyrir þá aðila, sem þurfa að einhverju leyti á slíkri þjónustu að halda.

Sums staðar hafa sveitarfélögin haldið það myndarlega á hlutunum, að þau hafa byggt yfir stjórnsýsluþjónustu ríkisins í byggðarlögum, t.d. í Bolungarvík og á Höfn í Hornafirði. Á báðum þessum stöðum setja þessi stjórnþjónustuhús svip á staðina. Eðlilegt er að ríkið og sveitarfélag standi saman að þess konar byggingum sem væru jafnframt að hluta til almenn þjónustustofnun við almenning á sviði annarrar þjónustu. Á Ísafirði er unnið að undirbúningi þjónustustofnunar. sem í senn er miðuð við heimaþarfir á Ísafirði og Vestfirði í heild. Stefnt er að því að í einni og sömu byggingu verði til staðar flestar deildir opinberrar stjórnsýslu á Ísafirði, ásamt hankastarfsemi, auk sveitarfélagsins. Á Seyðisfirði er mál þetta í athugun á líkum grundvelli. Á Húsavík er í athugun að stækka núverandi skrifstofuhúsnæði bæjarins, og til athugunar er að tryggja til viðbótar sambyggt húsnæði, verði um þjónustustofnun að ræða, í samstarfi við sýslumannsembættið. Á Kópaskeri er í athugun bygging þjónustustofnunar með aðild sýslubókasafns, hreppsfélags, tryggingafélags og bankaútibús. Sums staðar hefur verið rætt um héraðsþjónustustofnun eða þjónustustofnun fyrir afmörkuð svæði. Á Dalvík er hafin bygging sérstakrar þjónustustofnunar, þar sem gert er ráð fyrir verulegu þjónustusamstarfi á milli aðila. Í stofnuninni á að vera sparisjóður, bæjarskrifstofa, bókhaldsskrifstofa og bæjarfógetaskrifstofa. Auk þess verði þar skrifstofuaðstaða fyrir félagasamtök og atvinnufyrirtæki auk fundaaðstöðu. Reiknað er með að stofnunin reki sameiginlega þjónustudeild, sem annist símavörslu, skrifstofuþjónustu og skjalavörslu, sem starfi í tengslum við einhvern rekstraraðila í stofnuninni. Þetta sýnir á augljósan hátt, að uppbygging þjónustustofnana er aðkallandi málefni, sem krefst eðlilegrar fyrirgreiðslu.

Skipulag og þjónustuhlutverk: Það er staðreynd, að þjónustustarfsemi og viðskipti,eru að verða stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar. Á tímabilinu 1963–1975 hafa þjónustugreinarnar dregið til sín 59.5% allrar mannaflaaukningar í landinu.

Það veltur því á miklu fyrir þjóðarbúið, hvar þetta vinnuafl sest að í þjóðfélaginu og gætt sé hagkvæmni í staðarvali þjónustustarfseminnar.

Með þjónustustofnunum er kerfi kjörmarkaðanna fært yfir í þjónustustarfsemi með því að færa saman ólíka starfsþætti á einn stað við hæfi markaðarins og færa þjónustuna nær búsetu fólksins. Til þess að svo verði þarf fjármagn og framtak. Ríki og sveitarfélög eru leiðandi aðilar í þjónustustarfsemi og því er ekki að vænta forgangs einkaaðila á þessu sviði. Hér þarf að koma til heimaframtak sveitarfélaganna, sem verða að gæta hagsmuna borgaranna í dreifðri byggð og gæta skynsamlegs mótvægis á milli bæjarhluta. Krafa nútímans er að fólk búi við þjónustujafnrétti í þjóðfélaginu, hvort heldur menn búa í dreifbýli eða í stærri úthverfum, sem eru jafnfjölmenn heilum landshlutum. Skipulag og hlutverk þjónustustofnana eiga að miðasit við þetta. Uppbygging þjónustustofnana er ekkert sérmál dreifbýlisins, heldur einnig hagsmunamál stóru hverfanna í Reykjavík og í stærri kaupstöðum.

Samræmi á milli framleiðslu- og þjónustusvæða: Það er staðreynd, að þrátt fyrir hraða uppbyggingu sjávarútvegsgreina víðs vegar um landið mun fólkinu ekki fjölga þegar til lengdar lætur, í sjávarþorpum, nema þar verði efldur iðnaður og þá einkum þjónustustarfsemi. Það er að verða ljóst, að sú vaxandi skipting þjóðarinnar í framleiðslusvæði annars vegar og þjónustusvæði hins vegar muni hafa vond áhrif á atvinnuþróun Reykjavíkur, þegar til lengdar lætur. Þetta sýnir að mönnum er að verða ljóst, að landið verður ekki setið með góðum hætti, nema aukið jafnvægi náist á þessu sviði milli landshluta.

Á tímabilinu 1963–1975 fóru 90.4% af viðbótarmannafla í Reykjavík í þjónustugreinar. Öllum er ljóst, að þessi þróun er ekki heppileg fyrir Reykjavík eða landið í heild. Mannafli í viðskiptum jókst á þessu tímabili um 53.2%. Um 2/3 af þessu nýja vinnuafli settust að í Reykjavík. Opinber þjónusta hefur dregið til sín 31.4% af nýju vinnuafli í landinu 1963–1975, og 44% af þeim er leituðu eftir vinnu í Reykjavík fóru í þessar greinar. Í hlut Reykjavíkur kom 67.5% af vinnuaflsaukningu í þjónustustarfsemi einkaaðila á þessu tímabili. Þessar tölur sýna, svo ekki verður um villst, að þróun þessa tímabils er ekki heppileg, hvorki fyrir áframhaldandi þróun Reykjavíkur né almenna byggðaþróun í landinu. Það er nauðsynlegt, að með opinberum aðgerðum sé stefnt að eðlilegu samræmi á milli byggðarlaga til að ná þjóðhagslegu jafnvægi á milli framleiðslu- og þjónustustarfsemi í samræmi við búsetu.

Nauðsyn lagasetningar um þjónustustofnanir: Það er orðið aðkallandi, að þjónustustarfsemi sé viðurkennd sem atvinnuvegur í þjóðfélaginu, en ekki látin þróast skipulagslaust. Þess vegna er brýn nauðsyn, að sett séu rammalög um þjónustustofnanir og tryggi verði til þeirra stofnfjármagn. Þetta er byggðamál allrar þjóðarinnar, þar sem byggð stendur með byggð til að jafna aðstöðuna í landinu.“

Þá hef ég lokið lestri þessarar grg. höfundar, en síðan eru stuttar aths. sem höfundur hefur gert um einstakar greinar, sem ég ætla svo að leyfa mér að lesa:

„Um 1. gr. Hér er skýrt kveðið á um að þjónustustofnun eigi að vera samstarfsstofnun ekki aðeins um húsnæði, heldur einnig um notkun tækja og búnaðar. Með aðstoðarþjónustu er átt við skrifstofuþjónustu og aðra aðstoð við fleiri aðila í þjónustustofnun, sem væri hluti af rekstri stofnunarinnar.

Um 2. gr. Gengið er út frá þeirri meginreglu, að sveitarfélög, samtök þeirra, ríkissjóður eða aðilar á vegum ríkisins hafi meirihlutaumráð í þjónustustofnun. Þetta er mjög í samræmi við þær hugmyndir, sem eru uppi um byggingu þjónustustofnana. Eftir atvikum þykir eðlilegt að hálfopinberir aðilar, eins og bankar og sparisjóðir, geti verið aðaleigendur að þjónustustofnun.

Víða hagar svo til, að starfsemi viðkomandi sveitarfélags er eins konar allsherjarmiðstöð í byggðarlagi og því ekki óeðlilegt að þjónustuaðstaða sveitarfélags teljist vera þjónustustofnun staðarins.

Um 3. gr. Reiknað er með því sem almennri reglu að sveitarstjórnir eða samtök þeirra, hafi frumkvæði um uppbyggingu þjónustustofnana. Því er talið nauðsynlegt, að sú skylda sé samkv. lögum að gefa öllum þeim kost á að taka þátt í undirbúningi, sem fást við þjónustustarfsemi.

Sú meginstefna er mörkuð, að Framkvæmdastofnun ríkisins geri könnun á því hvort þörf sé fyrir þjónustustofnun, og enn fremur sé gert ráð fyrir staðarvali í þéttbýlisstað eða í stærri bæjarhluta. Hér er gert ráð fyrir að þjónustustofnanir geti átt rétt á sér í stærri úthverfum Reykjavíkurborgar og hinna stærri kaupstaða. Sýnilegt er að þjónustustofnanir hafa ekki síður hlutverki að gegna á þessum vettvangi en í smærra þéttbýli. Það verður að vera í lögum, að ríkisvaldið sé ekki að pukrast sér með uppbyggingu á þjónustuhúsnæði á meðan viðkomandi heimaaðilar eru að byggja upp þjónustustofnun. Hér er að vísu ábendingarákvæði, sem ætti að tryggja eðlilegt samstarf. Mjög nauðsynlegt er, að gerð sé í sambandi við uppbyggingu þjónustustofnunar áætlun til 10 ára um þá starfsemi, sem telst í verksviði hennar. Slík áætlanagerð hlýtur að krefja opinbera aðila og einkaframtak um að gera grein fyrir framtíðaráformum, t. d. stofnanatilfærslu í landinu. Ljóst er að í sumum tilvíkum er ekki fjárhagsgrundvöllur fyrir rekstri þjónustustofnana, þótt þær séu sérstaklega nauðsynlegar, þar sem framboð á þjónustu er lítið og langt að sækja afgreiðslu hjá hinu opinbera kerfi. Frá byggðasjónarmiði er nauðsynlegt að í slíkum tilvikum verði veitt aðstoð úr Byggðasjóði eða með beinum styrkjum úr ríkissjóði, sérstaklega þegar hlut á að máli húsnæðisþörf, sem að öðrum þræði er fyrir starfsemi ríkisins.

Um 4. gr. Í þessari grein eru almenn ákvæði um stofnun sameignarfélags í þjónustustofnun. Gert er ráð fyrir að eignarhluti verði ekki lægri en 25% stofnkostnaðar. Nauðsynlegt er að setja almennar hömlur á veðsetningu eignarhluta.

Um 5. gr. Ákvæði til að tryggja að eignarhluti í þjónustustofnun gangi ekki kaupum og sölum á frjálsum markaði, svo að tryggt sé að þeir aðilar fái aðstöðu í stofnuninni, sem starfa á vettvangi hennar.

Um 6. gr. Eðlilegt er að sett sé sérstök samþykkt um stjórn og starfshætti hverrar þjónustustofnunar, þar sem rekstur þeirra og eignarfyrirkomulag geta verið frábrugðin.

Um 7. gr. Gert er ráð fyrir að bæði eigendur og aðrir notendur þjónustustofnunar séu leigjendur hennar og greiði fyrir leiguafnot í samræmi við samþykkt stofnunarinnar og nánari ákvörðun stjórnar og umráðaaðila. Nauðsynlegt er að til staðar sé skýlaus heimild um fyrirframgreiðslu á leigu, þar sem sú tekjuöflun verður happadrjúg við greiðslu á stofnkostnaði. Sjálfsagt er að fyrir hendi séu skýlaus ákvæði um, að ekki megi framselja leigurétt, og heimild til að víkja aðila úr stofnuninni, sem brýtur reglur hennar. Eðlilegt er að skjóta megi ágreiningi um þetta efni til ráðherra.

Um 8. gr. Þessi grein skýrir, hver séu verkefni samrekstrar um þjónustustofnun, og greinir hlutverk þjónustudeildar. Gert er ráð fyrir þeim möguleika, að samstarfsnefnd reki þjónustustofnun. Þetta getur verið sérstaklega heppilegt að því er varðar rekstur þjónustudeildar, sem í senn annast störf fyrir almenning og aðila innan stofnunar.

Um 9. gr. Lögð er sú kvöð á ríkisstj. að tryggja við lánsfjáráætlun hverju sinni stofnlán til þjónustustofnunar með sama hætti og nú gildir með stofnlánafyrirgreiðslu vegna framkvæmda á vegum sveitarfélaga. Stefnt er að því, að Lánasjóður sveitarfélaga, ásamt byggðasjóði, veiti stofnlán til byggingar þjónustustofnana.“

Um 10. gr. segir: „Þarfnast ekki skýringar.“ 11. gr. „skýrir sig sjálf“.

Þá hef ég, virðulegi forseti, lokið að gera grein fyrir frv. þessu, grg. og aths., sem eins og áður kom fram er hér flutt orðrétt eins og það kemur frá höfundum. Flm. áskilja sér allan rétt um afstöðu til frv. í heild og til einstakra ákvæða þess. En áður en ég lýk máli mínu vil ég fara nokkrum orðum um hugmyndina og nauðsyn á flutningi frv. sem gengur í þessa átt.

Ég vil taka það fram, að mér er það sérstök ánægja að verða við beiðni um að verða 1. flm. frv. þessa. Mér er það sérstök ánægja þar sem þessi hugmynd, sem hér liggur að baki, hefur verið mér allhugleikin og ég hef allmikið um hugmyndina hugsað og fjallað í minni heimabyggð, þar sem einmitt hagar svo til, að opinber þjónusta er — ég held ég verði að segja: vægast sagt í lágmarki. Það eina, sem við sjáum í því efni ofan jarðar a. m. k., er læknisbústaður sem á engan hátt þjónar kröfum tímans, — læknisbústaður sem raunar varð að tveim í jarðskjálfta fyrir tveim árum, en við höfum nú tjaslað saman í einn aftur, en nær ekki sínum tilgangi lengur nema að mjög takmörkuðu leyti. Þetta er það eina sem má sjá af byggingarframkvæmdum og flokka undir opinbera þjónustu í minni heimabyggð. Skammt utan kauptúnsins er barnaskóli sem er að halda upp á hálfrar aldar afmæli sitt um þessar mundir, og þær hugmyndir, sem mér finnst í raun og veru lýsa sér í þessu frv., hafa verið uppi um nokkurt skeið í minni heimabyggð. Þær hafa e. t. v. náð nokkuð út fyrir ramma þess frv. sem hér er gert ráð fyrir, en þar er verið að reyna í sama húsnæði eða skipulagsheild að tengja sem flestar þarfir lítils samfélags eins og okkar á þessu þjónustusviði. En þarfir lítils samfélags eru óneitanlega þær sömu og þeirra sem stærri eru, þó verr gangi að uppfylla þær á smærri stöðum. En á Kópaskeri hefur verið gert frumskipulag að slíkum þjónustukjarna, þar sem gert er ráð fyrir m. a. eftirfarandi, auk þess sem kom fram í grg. höfunda áðan, en það er sýslubókasafn og bankaútibú, tryggingarfélag og aðstaða fyrir skrifstofur og stjórnsýslu hreppsins. En auk þess er í þessu frumskipulagi okkar gert ráð fyrir barnaskóla, félagsheimili, íþróttaaðstöðu, íþróttahúsi, dagheimili, heilsugæslustöð, þjónustu frá sýslumanni, verslunarþjónustu og ég man nú ekki fleira upp að telja. Margt af þessu, sem ég hef hér upp talið, held ég að megi með einum eða öðrum hætti tengja saman, ekki í endilega sama húsnæði nema þar sem það á við, en þetta megi með einum eða öðrum hætti tengja saman og spara ekki aðeins í stofnkostnaði, þar sem það á við, heldur einnig í ýmsum svokölluðum föstum og breytilegum rekstrarkostnaði. Ég er ekki með þessu að segja að við séum svo stórhuga þarna fyrir norðan að ætla okkur að ráðast í þetta allt í einu, heldur teljum við nauðsynlegt að gert sé í upphafi ráð fyrir þeim hlutum sem geta með einhverjum hætti átt samleið.

Mér er ekki grunlaust um það, að víða og einkum í smærri þéttbýlisstöðum úti um land hafi nokkuð skort á um skipulagsgerð. Ég held að margir kannist við það, að það hafi verið hugsað um að hafa eitthvað til af íbúðarhúsalóðum til úthlutunar og síðan þjónustuhúsnæði, atvinnuhúsnæði og öðru þess háttar þá skellt niður þegar það hefur borið að, ef svo má segja. Hins vegar mun þetta standa mjög til bóta víða. En ég tel sem sagt að þetta frv. eða réttara sagt kannske hugmyndin að því stuðli enn frekar að skilningi manna á nauðsyn á skipulagi og nauðsyn á vönduðum vinnubrögðum í því sambandi. (Forseti: Ég verð að biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni, því að hv. þdm. aðrir eru nú tímabundnir og bíða eftir að fram geti farið atkvgr. um önnur mál, en hv. þm. getur fengið orðið að atkvgr. loknum og lokið þá ræðu sinni.) Það er aðeins örstutt eftir, en ég skal mjög gjarnan gera það. — [Frh.]