29.04.1978
Efri deild: 93. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4292 í B-deild Alþingistíðinda. (3513)

306. mál, heyrnleysingjaskóli

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins þakka hæstv. menntmrh. fyrir að leggja þetta frv. fram, og ég vona, eins og hann tók fram, að það nái að fá framgang á þessu þingi.

Heyrnarleysi er talið mesta örorka sem til er, og heyrnarleysi barna er kannske fyrst og fremst vegna sjúkdóms mæðra, sem sagt rauðra hunda. Nú eru skapaðir möguleikar að framkvæma ónæmisaðgerðir gagnvart þessum sjúkdómi, þannig að við getum átt von á því, að í framtíðinni fáum við færra af heyrnarskertum börnum en hingað til hefur verið.

Mér er kunnugt um það, að Heyrnleysingjaskóli Íslands hefur unnið frábært starf á undanförnum árum og áratugum og eins og hæstv. ráðh. tók fram fyrir forgöngu eins manns. Til þess að mennta þessi börn þá er enginn vafi að það þarf ekki aðeins þekkingu, það þarf bæði samvískusemi og natni. Þetta hefur í ríkum mæli verið fyrir hendi við þennan skóla, og ég held því að hv. Alþ. sé fullsæmt af því að afgreiða þetta mál enda þótt tími sé naumur.