02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4297 í B-deild Alþingistíðinda. (3534)

Skýrsla um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Í lögum um Framkvæmdastofnun ríkisins segir, að ríkisstj. skuli árlega gefa Alþ. skýrslu um starfsemi stofnunarinnar. Þar segir einnig, að árlega skuli birta skrá yfir lánveitingar Framkvæmdastofnunar. Sú venja hefur skapast, að stofnunin hefur gefið út prentaða ársskýrslu sína og hefur henni verið dreift til þm. og annarra sem áhuga hafa á málefni stofnunarinnar. Er þeirri venju fylgt nú og liggur skýrslan fyrir og vísa ég til hennar um einstök atriði í starfi þeirra þriggja deilda sem Framkvæmdastofnunin skiptist í lögum samkvæmt.

Málefni Framkvæmdastofnunar ríkisins eru þm. ekki fjarlæg því í stjórn hennar sitja einvörðungu alþm. og forstjórar hennar eiga einnig sæti á Alþ. Eitt af stefnuatriðum ríkisstj. var að endurskoða lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins og lauk því vorið 1976, þegar ný lög um hana voru samþ. Árið 1977 er því fyrsta heila árið sem starfað er samkv. hinum nýju lögum, en eitt af nýmælum þeirra var að mæla fyrir um sérstaka byggðadeild innan stofnunarinnar. Samkv. lögum hefur deildin það hlutverk að gera áætlanir um þróun byggða og atvinnulífs í þeim tilgangi að tryggja atvinnu og búsetu í byggðum landsins. Hún fjallar um áhrif opinberra aðgerða á byggðastefnu og gerir till. til úrbóta, ef þörf þykir. Störf sín skal deildin vinna í náinni samvinnu við hinar tvær deildir stofnunarinnar, lánadeild og áætlanadeild.

Í þeim hluta skýrslunnar, sem fjallar um byggðadeild, er m. a. rætt um byggðastefnu framtíðar. Mér virðist ýmislegt af því, sem þar er sagt, ótímabært og hefði byggðadeild mátt sanna gildi sitt á lengri tíma áður en hún tekur sér fyrir hendur t. d. að fella dóm um stefnumótun borgaryfirvalda í Reykjavík við endurskoðun aðalskipulags borgarinnar. Réttilega er á það bent í þessum hugleiðingum byggðadeildar, að hún eigi að sinna athugunum er koma að gagni við mótun byggðastefnu, en það sé annarra að móta þá stefnu, og minnt er á að sérstök mþn. kjörin af Alþ. starfi að slíkri stefnumótun. Ég legg áherslu á að sú n. skili fljótt áliti sínu, því hún hefur þegar setið að störfum síðan 1973.

Hinn 20. apríl 1977 var á Alþ. gerð svo hljóðandi ályktun:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hvaða áhrif fjárhagsleg fyrirgreiðsla Framkvæmdastofnunar ríkisins, sérstaklega Byggðasjóðs, hefur haft á atvinnu- og byggðaþróun í landinu. Sérstaklega skal kannað hvaða áhrif þessi fyrirgreiðsla hefur á búsetu fólks, tekjuskiptingu eftir landshlutum og aðstöðumun fyrirtækja eftir staðsetningu og starfsgreinum. Til samanburðar skal höfð í huga þróun sömu mála í Reykjavík og nágrannabyggðum hennar þau 5 ár sem liðin eru frá því að lög nr. 93 frá 24. des. 1971. um Framkvæmdastofnun ríkisins, tóku gildi. Niðurstöður þessarar könnunar skulu birtar næsta reglulegu Alþingi.“

Ríkisstj. fól Agli Sigurgeirssyni hæstaréttarlögmanni og Ólafi Björnssyni prófessor að semja álitsgerð á grundvelli þessarar ályktunar. Hefur forsrn. nú ;gefið hana út og henni verið útbýtt og er vísað til hennar að öðru leyti en því sem ég vil — með leyfi hæstv. forsetavitna til þess sem höfundar álitsgerðarinnar nefna „Nokkrar niðurstöður“ og hljóðar svo:

„Frá því á seinni heimsstyrjaldarárunum hafa orðið mjög miklar breytingar á byggðaþróun hér á landi. Þótt aldrei hafi að vísu verið um stökkbreytingar að ræða, þannig að hægt sé að nefna sérstök ár sem dæmi um straumhvörf í þessu efni, þá hefur þróunin í stórum dráttum verið þessi:

Fyrstu tvo áratugina eru miklir fólksflutningar, bæði til Reykjavíkur og nágrannabyggða hennar. Á sjöunda áratugnum dregur úr fólksfjölgun í Reykjavík, en fólki heldur áfram að fjölga ört í Reykjaneskjördæmi. Það sem af er áttunda áratugnum staðnar fólksfjöldi í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi dregur úr fólksfjölgun, en fólki tekur að fjölga í öðrum landshlutum og fólki hætti jafnvel að fækka þar sem áður hafði verið fólksfækkun um áratugaskeið, svo sem á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra.

Hér hafa margvíslegar orsakir verið að verki og er erfitt að meta mikilvægi hverrar einstakrar. Hvað Reykjavík snertir hefur verið um langtímaþróun að ræða, sem er mjög í samræmi við þá þróun sem orðið hefur í höfuðborgum erlendis. Þegar þær hafa náð ákveðinni stærð, sem auðvitað er mismunandi eftir íbúafjölda þeirra landa, sem borgin er höfuðstaður í, hætta þær að vaxa, en fólksstraumurinn beinist til nágrennis þeirra fyrst í stað og síðar til þéttbýliskjarna utan höfuðborgarsvæða. Orsakir breytinga þeirra, sem orðið hafa á byggðaþróuninni, geta bæði átt rót sína að rekja til markvissra aðgerða stjórnvalda í þá átt að hafa áhrif á hana og annarra orsaka, sem eru — ef svo mætti segja — sjálfvirkar. Sem dæmi um hið síðarnefnda mætti hér á landi nefna bætt samgönguskilyrði sem bæta aðstöðu hinna afskekktari landshluta til þess að koma afurðum sínum á markað og njóta þeirrar þjónustu sem aðeins þéttbýliskjarnar geta veitt. Ekki er þó vafi á því, að opinberar aðgerðir í mynd fjárhagslegs stuðnings við þau byggðarlög, er æskilegt er talið að efla, hafi einnig haft sina þýðingu, þó erfitt sé að meta slíkt tölulega. Aðrar opinberar aðgerðir í þágu þessara byggðarlaga, svo sem bætt þjónusta í menntamálum, heilbrigðismálum o. fl., hafa einnig haft sín áhrif. Jafnvei aðeins stefnuyfirlýsingar um það, að keppt skuli að jafnvægi í byggð landsins, geta haft sín sálrænu áhrif þannig að fólk fresti því að yfirgefa byggðarlag sitt í von um að eitthvað verði gert í samræmi við þessar stefnuyfirlýsingar til þess að bæta lífskjör og aðstöðu íbúa byggðarlagsins.

Að því er snertir lög um Framkvæmdastofnun ríkisins frá 24. des. 1971 og starfsemi Byggðasjóðs, sem álitsgerð þessi á sérstaklega að taka til meðferðar, þá hefur sú starfsemi, sem einkum hefur verið fólgin í lánveitingum og styrkjum til fiskveiða og fiskvinnslu, átt sinn þátt í eflingu atvinnulífs á þeim stöðum sem góðs hafa notið af starfseminni, en með tilliti til þess, hve hér er um lítið brot að ræða af heildarfjárfestingu á landinu, geta áhrif þessarar starfsemi á byggðaþróunina varla verið mikil. Til þess að fá svar við þeirri spurningu, sem ætla má að raunverulega hafi vakað fyrir flm. þáltill., þyrfti að gera heildarkönnun á þeirri lánafyrirgreiðslu, sem veitt er af fjárfestingarsjóðum, bönkum, sparisjóðum og öðrum lánastofnunum, sundurliðað bæði eftir atvinnugreinum og byggðarlögum. Kæmi þá í ljós hvort um raunverulegan mismun er þar að ræða sem gæti haft veruleg áhrif, æskileg eða óæskileg, á atvinnu- og byggðaþróun. Við höfum að sjálfsögðu ekki haft tök á því að gera slíka könnun, en ef talið væri nauðsynlegt að kryfja til mergjar það málefni, sem okkar sérstaka viðfangsefni er hluti af, þá er sú allsherjarkönnun, sem á hefur verið drepið, óhjákvæmileg.“

Þegar rætt er um byggðastefnu vil ég einnig vekja athygli á annarri grg. sem dreift hefur verið til þm. nýlega og gefin er út af forsrn., þar sem fram kemur afstaða ríkisstj. til nál. um flutning ríkisstofnana ásamt umsögn alþm. Ellerts B. Schram og Ingvars Gíslasonar um það nál.

Eins og þm. muna var á árinu 1972 skipuð nefnd til að kanna staðarval ríkisstofnana og athuga hverjar breytingar koma helst til greina í því efni. Nefndin skilaði áliti í lok árs 1975 og síðan hefur málið verið til athugunar í forsrn. Leitað var umsagna fjölda aðila og að því búnu var þess farið á leit við alþm. Ellert B. Schram og Ingvar Gíslason, að þeir létu ríkisstj. í té álit á till. nefndarinnar með hliðsjón af umsögnum um það og umræðum á Alþ., en mál þetta hefur tvisvar komið til umr. í fyrirspurnarformi hér í þinginu. Að fengnu þessu áliti samþykkti ríkisstj. ályktun um þetta mál, þar sem fram kemur að hún telur eðlilegt að áður en tekin sé ákvörðun um flutning ríkisstofnana frá höfuðborginni skuli liggja fyrir afstaða viðkomandi rn., stjórnar stofnunar, forstöðumanns og starfsfólks til flutningsins og samþykki fjvn. Alþ. Leitað skuli umsagnar byggðadeildar Framkvæmdastofnunar ríkisins um flutning ríkisstofnunar og skal hún kanna viðhorf sveitarfélaga.

Í framlagðri skýrslu Framkvæmdastofnunarinnar kemur fram að Framkvæmdasjóður veitti ný lán að fjárhæð 634.2 millj. kr. Má lesa í skýrslunni skiptingu þeirra lána, en rúmur helmingur fjárhæðarinnar var veittur Fiskveiðasjóði Íslands. Lánadeildin vinnur með Seðlabanka Íslands að gerð hinnar árlegu lánsfjáráætlunar, sem lögð er fyrir ríkisstj. og síðan Alþ. Enn fremur endurskoða þessir aðilar árlega lánskjör fjárfestingarlánasjóðanna og gera till. um þau til ríkisstj. Byggist þessi endurskoðun á grundvelli laga nr. 13/1975, en aðalefni þess máls er að fjárfestingarlánasjóðir endurláni það fé, sem þeir fá til ráðstöfunar, með sambærilegum kjörum og þeir sæta sjálfir. Framkvæmd þessara laga er mikilvæg til að koma veg fyrir rýrnun eigin fjár sjóða, auk þess sem veruleg samræming hefur náðst innbyrðis á lánskjörum hinna ýmsu sjóða. Þetta er jafnframt þýðingarmikið til þess að fjárfesting atvinnugreinanna njóti jafnræðis og raunhæfur samanburður fáist milli fjárfestingar hinna ýmsu greina svo og til að aðilar sætti sig betur við þau lánskjör sem nauðsynlegt er að setja.

Í ársskýrslu Framkvæmdastofnunarinnar er að finna skrá yfir lánskjör fjárfestingarlánasjóðanna eins og þau voru á árinu 1977 eftir breytingu þá. En nú undanfarnar vikur og mánuði hefur verið unnið að endurskoðun þessara lánskjara fyrir árið 1978 og hefur ríkisstj. nýlega gert samþykkt um það, hvernig kjörunum skuli háttað hjá öllum sjóðunum.

Þá er í skýrslu Framkvæmdastofnunar sérstakur kafli þar sem þess er minnst, að 10. apríl s. l. voru 25 ár liðin frá stofnun Framkvæmdabanka Íslands. Aðdragandinn að stofnun bankans má öðru fremur rekja til þess samnings sem Íslendingar gerðu við Bandaríkin í júlímánuði 1948 um efnahagsmál með sama hætti og önnur ríki Vestur-Evrópu, en samningar þessir voru jafnan nefndir Marshall-aðstoðin og miðuðu að því að rétta efnahag þátttökuríkjanna eftir áföll síðari heimsstyrjaldarinnar. Með lögum frá 1966 var Framkvæmdabankanum breytt í Framkvæmdasjóð Íslands og þá varð einnig sú meginbreyting að því er útlán varðar, að Framkvæmdasjóður lánar í fáum tilvikum og í smáum stíl til einstakra framkvæmda, en nálega einvörðungu til annarra fjárfestingarlánasjóða og í vissum tilvikum til framkvæmda á vegum hins opinbera.

Ég tek undir lokaorð kaflans í skýrslunni er varðar afmæli Framkvæmdasjóðs, en þar segir:

„Þjóðin hefur ekki þurft að taka á sig byrðar til að byggja upp þennan sjóð. Hins vegar hefur hann verið íslensku atvinnulífi ómetanleg lyftistöng á liðnum aldarfjórðungi og greitt götu ýmissa þeirra þörfustu framkvæmda, sem þjóðin býr að í dag.“

Á árinu 1977 voru samþ. ný lán og styrkir úr Byggðasjóði samtals að fjárhæð 2 101.7 millj. kr., og er í skýrslu stofnunarinnar rakin skipting fjárins til hinna ýmsu framkvæmda og einnig birtur listi yfir hvern einstakan lántaka. Byggðasjóður tók engin löng lán á árinu til starfsemi sinnar, enda hefur starfsfé sjóðsins aukist stórlega með auknu ríkisframlagi. Vextir sjóðsins voru hækkaðir úr 12% í 14% á árinu.

Starfsemi áætlunardeildar var með líku sniði og áður, en sérstök áhersla var lögð á að ljúka ýmsum áætlunum og skýrslum sem lengi höfðu verið á döfinni, svo sem segir í ársskýrslunni, og vísast að öðru leyti til hennar. Alls voru gefnar út 10 skýrslur á vegum áætlunardeildar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum að sinni um skýrslu Framkvæmdastofnunar ríkisins og læt því máli mínu lokið.