02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4309 í B-deild Alþingistíðinda. (3552)

39. mál, flugsamgöngur við Vestfirði

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Forsendur þessarar afgreiðslu hv. allshn. eru þær, að samkv. bréfi flugmálastjóra, dags. 31. mars s. l., var upplýst, að sú athugun, sem farið er fram á í till, eigi sér stað og verði framkvæmd nú í sumar. Hins vegar urðu allmiklar deilur á fundi í Sþ. í síðustu viku um skilning á orðalagi í umsögn flugmálastjóra. Að mínu áliti er ljóst, hvernig skilja ber bréf flugmálastjóra. En vegna þessara umr., sem hér fóru fram, þá óskaði ég eftir nýju bréfi frá flugmálastjórn. Mér hefur nú borist það og ég mun leyfa mér að lesa það, með leyfi hæstv. forseta, en það hljóðar svo:

„Reykjavík, 2. maí 1978.

Ég vísa til bréfs míns til allshn. Sþ„ 30. mars s. l., varðandi till. til þál. um athugun á úrbótum í flugsamgöngum við Vestfirði, 39. mál, og ítreka að gefnu tilefni, að flugmálastjórn mun í sumar beita sér fyrir umræddri athugun á flugvalla- og flugöryggismálum Vestfjarða.“

Ég held, að þetta bréf taki af allan vafa um að það, sem farið er fram á í till., hefur nú þegar verið ákveðið að framkvæmt verði í sumar. Þess vegna segi ég já.