02.05.1978
Sameinað þing: 73. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4310 í B-deild Alþingistíðinda. (3556)

197. mál, lifnaðarhættir æðarfugla

Frsm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Fyrir liggur till. á þskj. 387 um vísindalega rannsókn á lifnaðarháttum æðarfugls.

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að láta framkvæma vísindalega rannsókn á lifnaðarháttum æðarfugls.“ Atvmn. hefur athugað þessa till. á fundum sínum og aflaði n. sér umsagna Æðarræktarfélags Íslands, Líffræðistofnunar háskólans og Búnaðarfélags Íslands. Allar þessar umsagnir hníga í þá átt, að mikil nauðsyn sé á að rannsaka nánar lifnaðarhætti æðarfugls. Því eru allir nm. sammála um að mæla með samþykkt tillögunnar.

Ég vil leyfa mér að lesa örfáar línur úr þessum umsögnum.

Æðarræktarfélag Íslands segir: „Við fögnum því fram kominni till. til þál, enda teljum við ekki vansalaust., að Íslendingar hafi ekki yfir að ráða sem fyllstri vitneskju um jafnmikla nytjaskepnu og æðarfuglinn er.“

Líffræðistofnun háskólans segir: „Það er skoðun okkar, að aðgerðir, sem stuðla eiga að eflingu æðarræktar, verði kák eitt nema að undangengnum ítarlegum rannsóknum á æðarfugli og samskiptum hans við manninn, fæðutegundir og þau rándýr, sem á hann leggjast. Því er mjög fagnað fram kominni till. og lagt til, að hún verði samþykkt.“

Í umsögn Búnaðarfélags Íslands segir: „Undanfarin ár hefur Búnaðarfélagi Íslands borist beint erlendis frá eða verið framsend erindi frá landbrn., sem því hafa borist víðs vegar að frá vísindastofnunum og einstaklingum, og ýmsar fsp. varðandi dún og æðarrækt. Nái þáltill. fram að ganga og tilætluðum árangri munum við geta veitt fyllri svör auk þess sem þá fær almenningur þjóðarinnar að vita meira en áður um raungildi þessarar ágætu búgreinar, en um þessar mundir gefa 4 kollur af sér sama verðgildi í útflutningi og meðaldilkur af kjöti.“