02.05.1978
Efri deild: 95. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 4311 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

286. mál, eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. til l. um eftirlit með framleiðslu á fóðurvörum, áburði og sáðvörum og verslun með þær vörur höfum við fjallað um hér í þessari hv. d. Þegar það kom til Nd. og var athugað þar í n. kom í ljós, að betur fór á því að gera á því smávægilega breytingu, sem er nánast leiðrétting. Það má segja, að í 6. og 12. gr. sé komið inn á nákvæmlega sömu atriðin. 1. mgr. 12, gr., sem Nd. hefur lagt til að verði felld niður, er á þessa leið:

„Óheimilt er að versla með fóðurvörur og sáðvörur nema með leyfi landbrn.“

Þetta er alveg fortakslaust tekið fram þarna í 12. gr. og eru menn ekki alveg fyllilega sáttir við það. Hins vegar er í 6. gr. komið inn á þetta sama efni. 6. gr. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbrn. getur hvenær sem er bannað innflutning einstakra vörutegunda, sem lögin ná til, ef þær að dómi eftirlitsdeildar eru skaðlegar eða með öllu gagnslausar við íslenskar aðstæður. Einnig getur landbrn. bannað eða takmarkað innflutning á eftirlitsskyldum vörum til verndunar íslenskrar framleiðslu.“

Þetta var álitið fullnægjandi. Formaður landbn. Nd. kom að máli við mig og kynnti þessar hugmyndir þeirra um breytingar á lögunum, sem ég féllst á fyrir mitt leyti og hef borið undir ýmsa í landbn. þessarar hv. d., sem hafa einnig tjáð sig samþykka. Ég tel því eðlilegt, að þessi hv. d. samþykki frv. eins og það kemur nú frá Nd.